Greinasafn fyrir merki: El-Al

Ísraelskur flugfiskur að hætti El AL

Ísrael er orðinn kandídat í keppninni hvert sé besta matarland í heimi. Það er ekki einkennilegt því Ísraelar komu úr öllum heimshornum og tóku matarmenninguna með sér til nýja landsins. Þar hefur svo orðið sambræðsla og besta kokkhúsfólkið lærir hvert af öðru. Svo er Ísrael undraland ræktunar ávaxta og grænmetis og allt er ferskt. Kryddið á mörkuðunum – maður minn – betra verður það ekki. Þessi uppskrift var í flugblaði EL AL þegar ég fór heim. Yfirkokkurinn hjá ísralelska flugfélaginu vinnur stöðugt að nýjum uppskriftum fyrir matinn í háloftunum. Þegar ég vaknaði eftir næturheimkomu skaust ég í Krónuna og keypti í réttinn og eldaði svo fyrir mitt fólk í kvöldmatinn. Þetta er uppskrift frá Ísrael en fyrirmyndin kom upprunalega frá Marokkó. Ljómandi flugfiskur fyrir heimamat.

Fyrir fjóra

700-800 gr. þorskflök – eða annar uppáhaldsfiskur

Tómatdós – vökvinn síaður af

5 hvítlaukrif – skorin

1 chilli – fræhreinsað og niðursaxað

Kóríanderbúnt – niðursaxað

Kjúklingabaunir – dós af niðursoðnum baunum og vökvinn síaður frá

Ein lítil krukka af grilluðum paprikum – saxaðar

Sítrónusafi af einni sítrónu

1/2 tsk cummin

1 tsk reykt þ.e. sætt paprikuduft

1/2 tsk möluð kóríanderfræ

15 gr harissa

10 söxuð hvítlauksrif eða sletta úr krukku með hvítlauksmauki

Salt og pipar 

Mareiðsla

Steikingarolía sett í pönnu. Átti reyndar að vera harissaolía en ég átti hana ekki svo ég notaði góða olíu. Söxuðu hvítlauksrifin setti ég út í olíuna og chilli líka. Steikti lítillega og setti svo allt hitt gumsið á pönnuna og hrærði saman og sauð þar til megnið af vökvanum var gufaður upp. Skildi eftir ofurlítið af sítrónusafa og kóríander til að setja á í lokin áður en rétturinn var borinn fram. Smakkaði til og saltaði og piprði. Þorskinn skar ég í falleg stykki og setti síðan yfir blönduna á pönnunni, saltaði lítillega og pipraði og jós síðan pönnublöndunni yfir fiskstykkin. Sauð síðan fiskinn á pönnunni í 5-8 mín eða þar til fullsoðið var (ekki of lengi). Setti síðan sítrónusafann og skorna kóríander yfir og bar fram.

Ljómandi að bera fram með ristuðu nanbrauði eða súrdeigsbrauði og jógurtsósu. Nú svo vilja aðrir hafa með bygg, hrísgrjón eða bara karftöflur. Vatnsmelónurnar voru víða í Ísrael síðustu vikurnar svo ég saxaði niður helming með. Vatnsmelóna er ekki aðeins bragðgóð heldur poppar upp rétti. Best er að borða svona mat í Ísrael en næstbest að elda heima og borða með fólkinu sínu.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.