Verið velkomin til þessar fræðslusamveru Talað um Guð. Hallgrímskirkja er dásamlegt hús til að tala við Guð og líka vettvangur til að tala um Guð. Í síðustu viku var fjallað um guðsmynd Hallgríms Péturssonar. Þar kom fram að Hallgrímur hefði uppteiknað guðsmynd sem túlkuð var með áherslu á hinn líðandi konung. Kenning Hallgríms var hin ágústínska-lutherska hefð sem er dramatísk guðfræðihefð með áherslu á baráttu góðs og ills. Sá Guð sem Passíusálmar túlka er ekki Guð hátignar, fjarri lífsbaráttu manna í þessum heimi – heldur þvert á móti Guð sem lætur sér annt um veröldina, sköpun sína, að Guð kemur sjálfur – gefur eftir hátign sína og konungvald og kjör manna verða kjör hans í heimi. Hann er kaghýddur eins og Halldór Laxnes komst að orði. Jón Vídalín tók við af Hallgrími. Hann virti Hallgrím mikils, vitnaði til hans og notaði kveðskap hans við upphaf postillunnar. Gef þú að móðurmálið mitt, minn Jesú þess ég beiði, …
En Jón Vídalín lifði á öðrum tíma en Hallgrímur. Hann var ekki skáldið og prestur í sveit heldur kirkjuleiðtoginn, fræðimaðurinn og pólitíkus. Hvernig skyldi Jón Vídalín túlka og hver er munur hans og Hallgríms? Að því verður vikið en líka síðar í þessari röð fræðslusamvera.
Vídalínspostilla og Guð
Jón Þorkelsson Vídalín var maður tveggja alda. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi að 21. mars árið 1666 og lést ofan Þingvalla á leið vestur á Snæfellsnes 30. ágúst árið 1720. Hann var og er einn af ræðusnillingum Íslands. Postilla hans er höfuðverk í ræðusöfnum Íslendinga og sýnisbók um list mælskufræði. Prédikanir hans voru lesnar í heimahúsum þjóðarinnar á helgidögum. Efni bókarinnar varð því kunnugt fólki. Eldibrandar og elskuyrði Vídalíns flugu og kveiktu bál í hugum, sókn til réttlætis og ástar til manna og Guðs. Mörgum þótti Jón Vídalín kjöftugur. Hann kunni jú vel fræðin og barokk varð að list fagurkerans, hugsuðarins, guðfræðingsins, baráttumannsins og guðsþjónsins. Í skólaskorti tíðarinnar varð þessi mikla bók ekki aðeins þekkingarbrunnur heldur var hún lestrarnámsbók þúsunda. Sum notuðu bókina til að stauta, önnur fylgdust með texta þegar lesið var og margar kynslóðir Íslendinga lærðu að hugsa með höfundinum. Jón Vídalín hafði gífurleg áhrif í tvær aldir. Nú eru meira en þrjú hundruð ár frá dauða hans við Biskupsbrekku norðan Þingvalla en erindi hans er ekki tæmt. Það er bergmál frá Vídalínspostillu í íslenskum bókmenntum og menningu.
Guðsmyndir
Trúarreynsla fólks er fjölbreytileg og svo hefur verið um allar aldir. Guðsreynsla fólks litast af persónugerð, hefðum sem fólk hefur verið alið upp í og lifir við. Svo skiptir kyn, aldur og reynsla líka máli. Sumir telja sig upplifa guðsáhrifin skýrast í náttúrunni. Aðrir verða fyrir sterkri blessunarreynslu sem breytir lífsafstöðu. Enn aðrir eru tilbúin að láta túlkunarkerfi og hóp móta sig og þar með trúarskilning. Hver er Guð og hvernig er hægt að tala um Guð? Hefur einhver skilið Guð? Við þær spurningar hafa trúmenn glímt, vitandi að skynsemi manna og skynjun eru takmörkuð. Við erum ekki alvitur og því er guðfræði okkar ekki og verður aldrei fullkomin lýsing Guðs. Við þekkjum okkur sjálf ekki fullkomlega, undirvitund okkar eða hræringar líffæranna. Við þekkjum ekki algerlega tilfinningar og hugsun maka eða barna okkar. Ef við þekkjum ekki sjálf okkur og fólkið okkar getum við ekki haldið fram að við þekkjum Guð fullkomlega.
Við notum gjarnan líkingar þegar við tölum um Guð. Við tölum um Guð sem ljós eða sem ást. Guði er lýst sem konungi, föður, dómara eða móður. Í Biblíunni er ríkulegt líkingasafn um Guð sem trúmenn í þúsundir ára hafa notað, endurunnið og bætt við. Trúmenn slípa stöðugt nýjar líkingar sem hæfa hverri samtíð til að nálgast eða tjá Guð, opna nýjar æðar skilnings og tilbeiðslu. Líkingar eru börn hvers tíma, sterkar líkingar daprast og veiklast í umróti menningar og sögu. Jafnvel líkingar um Guð hverfa ef þær ná ekki að kveikja ljós trúar, skilnings og tilbeiðslu. En þó líkingar eða lýsingar á Guði daprist eða deyji jafnvel veiklast Guði ekki þar með – heldur breytist trúar- og guðstúlkunin. Mannfólkið heldur áfram að þrá Guð þótt guðslýsingarnar breytist. Guðstrú er alls konar.
Vídalín og líkingarnar
Þá að postillunni. Jón Vídalín sagði margt um Guð. Hann var sér vel meðvitaður um orð og hugtök sem hann batt saman í samfellda mynd af guðdóminum. Vídalín var vissulega trúarrisi en líka barn síns tíma. Hann gaf sér ákveðnar forsendur um baráttu góðs og ills og hagnýtti sér hinar lúthersku guðfræðihugmyndir. Í prédikun Jóns Vídalíns á boðunardegi Maríu segir og málfarið er rótsterkt og vel kryddað. Látið ykkur ekki bregða:
„Ó, minn Guð, hvað er þó maðurinn þess, að þú minnist hans (Ps. 8). Þegar ég hugleiði þetta, þá smeltist mitt hjarta í mér út af blygðan, að soddan ein skelfileg hátign, hann gjörir sendiför ofan af sínu hásæti til vor dauðra hunda, til vor syndugra orma, þar vér skriðum í leirveltu þessari, og má hér af þessa sendiför meiri öllum velgjörðum kalla, þótt ekkert annað væri. En hvílíkur er nú þessi boðskapurinn? Það sýnir oss fyrst kveðja engilsins við Guðs móður: Heil sért þú, náðarfulla. Drottinn er með þér, blessuð sért þú á meðal kvenna.”[1]
Í þessum texta sjáum við eitt dæmi um að Jón Vídalín slengir saman hinum mestu andstæðum. Raunar kunni hann þá list til fullnustu að sauma að tilheyrendum sínum og lesendum með hjálp alls konar mælskutrixum og gera mönnum ljóst að staða þeirra væri hin háðuglegasta. Hvaða erindi á konungur himins í ormagryfju manna?
Rannsóknarsagan
Aðeins um rannsóknarsöguna og hverjir hafa rannsakað kenningu postillunnar. Margir hafa skrifað um hana og reynt að greina einkenni hugmynda Jóns og hugsana. Magnús Jónsson, prófessor og síðar alþingismaður, ritaði Vídalínsgrein í Eimreiðina árið 1920. Magnús taldi að styrkur Vídalíns hafi verið næmni á krókaleiðir hins illa í mannlífinu.[2] Páll Þorleifsson, prestur í Axarfirði og faðir fjölda þjóðkunnra systkina, hélt fram í inngangi að 1945-útgáfu postillunnar að Vídalín hefði lagt áherslu á dyggðir og sjálfsrannsókn manna.[3] Jón Helgason biskup hélt fram í kirkjusögu sinni að hin miklu skaut í kenningu Vídalíns væri skelfing syndarinnar og dýrð náðarinnar og því væri nauðsyn á afturhvarfi mannsins. Trúin hefði verið aðalatriði fyrir Vídalín en hann hann hefði ekki gert kenningu sem slíka að höfuðmáli heldur hvernig hún birtist í lífi manna.[4] Þá taldi Jón Helgason að kenning Vídalíns væri ekki Kristsmiðlæg. Sá eini, sem ritað hefur heila fræðibók um Vídalínspostillu er Arne Möller, danskur prestur og fræðimaður. Hann fullyrti að trúarhugtak Vídalíns hafi fyrst og fremst verið vitsmunalegt. Jón Vídalín hafi lagt áherslu á að menn ættu að þekkja rétta útlistun boðorðanna. Þessi vitsmunalega trúartúlkun hafi leitt til þess að Jón Vídalín hafi fallið aftur til kaþólsku og prestaáherslu með lögmálsskilningi á sakramentum, skriftum, eiðum og iðrun.[5] Áhersla Jón Vídalíns hafi verið á rétta hegðun, praxis pietatis, en ekki á trúarinnileika. Safnaðarlíf í hefðbundinni merkingu verði því útundan.[6] Þá sé kirkjutúlkun Vídalíns á villigötum klerkavæðingar. Í stað trúar safnaðar sé öll áhersla á prestinn og kirkjustofnuninni.[7] En mín skoðun er að Arne Möller hafi mislesið allt of margt. Aðferð Arne Möller var að finna út hvaða rit Jón Vídalín notaði og með því að úrskurða hvaða bækur voru Vídalín aðgengilegar hafi hann talið sig getað sýnt fram á hver væri kenning postillunnar. Sem sé að Jón Vídalín hafi ekki verið frumlegri höfundur en svo að hann hafi lotið fyrirmyndum í ósjálfstæðri hlýðni. Möller komst t.d. að þeirri niðurstöðu að bók sem Jón Vídalín hafði þýtt áður, enska ritið On the whole Duty of Man, hafi skilað til postillunnar hlýðniáherslu, siðvendni, löghyggju og vitsmunalegu trúarhugtaki.[8] Samfara þessu telur Arne Möller að Jón Vídalín sé eiginlega ekki lúterskur guðfræðingur heldur sé trúarhugtak hans og predikun fremur af ætt kalvínisma.[9] Með leit að ritgrunni sýnist mér að Arne Möller hafi rekið af leið og aðferð hans sé beinlínis röng. Túlkun hans var of einföld.
Gunnar Kristjánsson og Mörður Árnason sáu um glæsilega útgáfu Vídalínspostillu Máls og Menningar og Bókmenntastofnunar HÍ árið 1995. Það var finmtánda útgáfa postillunnar frá upphafi. Í ítarlegum formála fer Gunnar yfir rannsóknarsöguna og dregur vel saman og af þekkingu bókmenntagreinandans. Hann fer yfir guðfræðisöguna frá Lúther, áhrif barokksins, náttúruvá á íslandi, t.d. að þriðjungur þjóðarinnar féll í bólusótt í upphafi átjándu aldar og þar á meðal einkadóttir Jóns og þeirra hjóna. Ég mæli með grein Gunnars. Hún fljótlesin og skrifuð af þekkingu og yfirvegun. Mörður skrifar vel um málfar og málfræðina. Ég skrifaði á sínum tíma talsvert um Vídalínspostillu í doktorsritgerð minni. Gunnar nýtir þá vinnu m.a. í formála sínum. Sumt af þessu efni er aðgengilegt á heimasíðu minni. Aukinn áhugi virðist vera á verkum Jón Vídalín. Nýlega kom t.d. út bók Torfa Hjaltalín Stefánssonar um Jón Vídalín. Það er vel að sem flestir komi að verkum. Það er komin tími á að sem flestir leggi saman í fræðaþing um hann – kannski á næsta ári en þá eru þrjú hundruð ár liðin frá annari útgáfu postillunnar.
Til að opna og skýra prédikun Vídalínspostillu og draga fram einkenni hennar er mikilvægast að gaumgæfa inntak trúarhugmyndanna sjálfra í postillunni og sérstaklega Guðshugmyndirnar. Þegar skoðaðar eru guðslíkingarnar kemur vel í ljós af hverju Jóni Vídalín er tíðrætt um ákveðna þætti en aðra síður. Þá skýrist einfaldlega einnig hvers vegna mannhugsun hans er með ákveðnu móti og hvernig hann talar um Jesú Krist, um heilagan Anda og þann heim sem menn byggja. Mín skoðun er sú, að greining á guðslíkingum nái best að opna og skýra hugmyndir postillunnar og Jóns Vídalín.
Baráttan við hið illa
Höfðingi heimsins, satan, er sem flaðrandi en þjófgefinn hundur segir sveitamaðurinn Vídalín glottandi. Forsendur og samhengi guðsímyndar Vídalínspostillu er hið altæka eða kosmíska stríð sem Guð á í gegn valdi hins illa. Jón Vídalín fylgir Marteini Lúther um djöfulstjáningar. Hvorugur taldi sig þess umkomin að skilgreina vald hins illa og hvorugur taldi að vald satans væri jafnmikið valdi Guðs. Þeir aðhylltust ekki þá frumspekilega tvíhyggju að til væru tvö jafnstæð máttarvöld. En báðir aðhylltust hins vegar siðferðilega tvíhyggju að tvö völd tækjust á, annað væri gott en hitt vont. Satan er ekki skilgreindur sem hlutlaust, sjálfstætt afl heldur túlkaður í ljósi þeirra árása sem vonskan gerir á Guðsríkið. Vald satans er afvegaleitt vald Guðs og jafnframt afskræming þess valds. Atferli satans felst í því að reyna að brengla hina góðu skikkan skaparans og þar með veikja vald Guðs. Eins og Lúther lagði Jón Vídalín áherslu á hinn innri mann og trúnað hans. Vídalín fjallar ekki aðeins um einstaklinginn, innræti hans og tiltrú heldur beinir sjónum ekki síður að hinni félagslegu vídd. Maðurinn er ekki eyland. Áherslan í samfélagsmálum er sú að menn eigi fyrst og fremst að efla velferð náunga sinna bæði hvað varðar efnisleg gæði sem og andleg. Vídalín leggur áherslu á að efnisleg gæði séu ekki einráð heldur séu andlegum gæðum samfara. Þeir sem ekki trúa á Guð sýna vantrú sína í verki og snúa óhjákvæmilega baki við hinum hrjáðu og smáðu í heiminum.
Gegn valdi hins illa stendur Guð ávallt. Guð verður í baráttunni hinn snjalli herforingi. Vídalín undrast jafnvel, að Guð skuli ekki nú þegar vera búinn að setja krók á nasir andskotans (166)! Árás Guðs á ríki myrkursins var gerð með komu Jesú Krists. Hann vann sigur.
Stórkonungurinn
Tími Jóns Þorkelssonar Vídalín var konungatími. Einveldistíminn hófst formlega um það leyti sem hann fæddist. Jón Vídalín, fyrrum hermaður í her Danakóngs, nálgaðist veröld og vald með skilningi stríðsmannsins. Hann vissi að stríð væri ekkert gamanmál og áleit heiminn vera orrustuvöll stríðandi herra. Hann var raunsær á eigin breyskleika og sá vel mein samfélagsins. Sá Guð sem hann trúði á og talaði við vildi frið, hamingju manna og barðist við illskuöfl. Í ljósi styrjaldar milli Guðs og Satans er sú mynd, sem Vídalín dregur upp af Guði mótuð af því samhengi. Raunar má segja að stríð liti alla þætti í postillunni. Vídalín notar gjarnan líkingar um Guð sem tengjast baráttu. Þegar dregnar eru saman helstu ímyndir Vídalíns um Guð kemur eftirfarandi í ljós.
Í fyrsta lagi er Guði lýst sem konungi og raunar er það ímyndin af stórkonungi sem Vídalín notar. Þetta er ráðandi guðsmynd postillunnar.
Í öðru lagi er Guði lýst í líkingu löggjafa, sem er að mínu viti stuðningslíking í postillunni og túlkur konungsímyndarinnar. Guð hefur skýran vilja og setur lög bæði við stofnun ríkis síns en bregst einnig við sem góður stjórnandi við þeim aðstæðum sem upp koma og ávallt í samræmi við eðli og markmið ríkis síns.
Í þriðja lagi er guði lýst í mynd dómara sem hefur allt vald til að skera úr öllum málum. Guð hefur vald til að dæma mönnum og sköpun sinni kjör og örlög með hliðsjón af velferð einstaklinga en einnig með baráttu við hið illa í huga. Dómaralíkingin virðist vera í eðlilegu samhengi við konungsímyndina og jafnframt stuðningslíking.
Í fjórða lagi er Guði lýst sem hinum snjalla herstjóra sem er konungur í stríði. Guð fer fyrir sínum mönnum en þarfnast þeirra jafnframt til að ríkið liðist ekki í sundur og óvinurinn nái þeim völdum sem honum ber ekki og má ekki hafa.
Í fimmta lagi er Guði lýst í mynd húsbónda eða húsföður, sem jafnframt er í samræmi við konungslíkinguna og tengd hinum líkingunum. Guð sem alfaðir er bæði miskunnsamur og góður og vill sköpun sinni vel. Því er honum eiginlegt að skikka sköpun sinni kjör. Þessu tengt er handleiðsluáhersla postillunnar. Sem góður konungur og faðir gefur Guð allar þær gjafir sem skepna og menn þarfnast, mettar sem umhyggjusamt foreldri, gefur ráð, hlustar vel og skilur og veitir það sem menn þarfnast. Þrátt fyrir hátign sína er Guð þolinmóður og miskunnsamur en einnig agandi og tyftandi.
Þú stóri konungur allrar veraldar
Bæn Vídalíns fyrir predikun dregur fram með sláandi móti tilfinningu og trúnaðartraust hans til konungs himinsins. Bænir eru sem ljóð og skyldi ekki lemstra með oftúlkun og bókstafslestri. Orðalagið er mótað af tilbeiðslu og trúnaðartengslum. Við lestur bænar er vert að setja sig í spor trúmannsins í kirkju, fella varnir og klæði rökhyggjunnar. Í bæn Vídalíns er það hinn smái sem lýkur upp munni gagnvart þeim sem allt er:
„Þú stóri konungur allrar veraldar, sem býr í því ljósi, er enginn fær til komist. Vér syndugir ormar skríðum á þessari blessaðri stundu upp úr voru dufti fram á skör þinna fóta til að friðmælast við þína guðdómlega hátign, er vér með saurugum verkum og illgjörðum vorum svo þráfaldlega móðgað höfum allt í frá barnæsku vorri. En æ oss, drottinn. Vér erum svo vanmegna undir byrði syndanna, að þegar vér girnumst að lyfta oss upp í hæðirnar til þín, þá draga vor eigin saurindi oss niður aftur. Þú hefur að sönnu fyrigefið oss margar syndir og sparað oss mitt í þeim allt á þennan dag, en vort hjarta skelfur í oss og kvíðir við þínu stranga réttlæti, nær vér til þess hugsum, að vér þverbrotnar manneskjur höfum svo langsamlega forsmáð þína miskunnsemi og sjálfir ónýtt svo marga kvittun vorra synda, er vér þegið höfum, með þverúðarsamlegri iðkun sömu glæpa og illgjörða. Hvert skulum vér þá flýja undan þinni hendi? Þú uppfyllir bæði himin og jörð, en þín miskunnsemi er eins stór og þú sjálfur. Hún hefur öllum þeim vel gefist, sem hennar með bljúgu hjarta og sundur knosuðum anda leitað hafa… …. Lát einn glóandi anda brenna upp allt sorp annarlegra þanka úr voru hjarta, sem er þitt musteri, svo þín orð fái rúm þar inni. Lát oss ekki heyra það svo í dag, að það fordæmi oss á síðasta degi, heldur gef, að það verði eftirlæti sálna vorra. Lát þess sætleika burt drífa allt tómlæti og gáleysi frá oss, svo vér varðveitum það í góðu og siðsömu hjarta… …Amen.“ (4)
Í ljósi þessarar mjög ákveðnu stórkonungsbænar er eðlilegt að búast við prédikunarefnið og hátignarræða sé keimlík í postillunni. Lútherskir guðfræðingar hafa virt mörk hugsunar og þar með löngu á undan Immanuel Kant og upplýsingunni forðast frumspekilegar lýsingar á Guði og í þeim efnum er Jón Vídalín engin undantekning. Hann reynir ekki og treystir sér ekki til að lýsa Guði nákvæmlega. Vídalín telur enga möguleika á því að skoða Guð með augum hlutleysisins. Aðeins augu trúarinnar sjá Guð. Engin opinberun hefur orðið á heild Guðs svo takmarkaður maður geti skilið. Það eitt er skiljanlegt sem Guð hefur valið að gera opinbert og það verður ekki metið án jákvæðrar afstöðu til Guðs.
Í Vídalínspostillu sem og öðrum guðsorðabókum og guðfræðiritum fyrri alda er Guði lýst sem ásýnd eða ásjónu sem snýr að mönnum. Guð verður aðeins lifaður í tengslum við upplifanir í lífi og heimi. Guðsreynsla er tengd lífsreynslu manna. Um Guð er talað í ljósi þeirrar skynjunar sem menn hafa orðið fyrir. Vídalín talar vissulega um Guð með hefðbundnu móti. Hann aðhyllist helstu kenningar kirkjunnar, t.d. þrenningarkenninguna og hefðbundna Kristsfræði. Sá Guð sem Vídalín trúir á og túlkar er Guð himins og jarðar sem er valdur veraldar og allt vald ber. Hann stjórnar öllu og allt er sköpun hans. Því skyldi hver skepna tilbiðja Guð.
Myndmálið um Guð er ríkulegt í postillunni og þjónar því markmiði að upphefja og hylla Guð, tryggja vald Guðs og mikla hátign sem best. Sjónrænar lýsingar eru algengar. Guð býr í ljósi og er ljós (4, 273). Guði er einnig lýst sem eyðandi eldi, ógnarlegum sem og dýrlegum. Guð býr í dýrðarljóma sem enginn færi komist til af sjálfsdáðum. Guð er hreinleiki sem ekkert saurugt þolir við hástól sinn. Guð býr í hátignarsal og frá honum verður ekki flúið því hátign hans felur jafnframt í sér yfirlit og nærveru (200, 273). Tengt hátign eru síðan hinar hefðbundnu guðfræðilegu lofsyrði og elskutjáningar um alvitund Guðs, almætti, eilífð, ómælanleika og hversu Guð sé meiri elska og undur en það sem við menn skiljum og skynjum.
Guð – skapari og löggjafi
Guði er gjarnan lýst í Vídalínspostillu sem viljaveru, sem bæði ákvarðar gerð og eðli sköpunar en einnig sem löggjafa. Vilji Guðs er ofar öllu í krafti tignar og forræðis Guðs. Menn hafa að sjálfsögðu rétt til viðbragða og skapa sér eigin örlög. En þegar grannt er skoðað er kenning postillunnar sú að mönnum sé fyrir bestu að hlíta vilja og skikkan Skaparans. Vídalín kennir að Guði skapi aðeins það sem er gott og nytsamlegt. Allt sem menn þiggja af Guði er til góðs (86). Guð skapar bæði himin og jörð og veitir öllu lífi þau gæði sem þörf er á til hamingjuríks lífs, líkama, önd, ráð, skilning, elsku, fæðu, fögnuð og alla saðningu manna og skepnu. Markmið sköpunar er friður milli Guðs og manna. Vídalín telur þennan frið mikilvægari en frið milli manna (57). Öll skikkan í heiminum er Guðs gjöf, foreldrar og samfélagsskipan. Við eigum því að hlýða foreldrum og vera sönn í samfélagi (138). Guð mun ekki láta af að útdeila mönnum gæðum og mætti. Guð mun ekki þreytast þótt menn verði örmagna og ekki verða snauður þó menn verði uppiskroppa. Guð mun að lyktum bjóða mönnum til veislu með sér á himnum (134, 167, 260).
Svo er það með frelsi konungsins á öld einveldisins. Vídalín minnir á að enginn konungur er bundinn af lögum sem hann hefur sett. Konungum er heimilt að rétta lögin og endurskoða með hliðsjón af nýjum aðstæðum þó menn séu bundnir af þeim. Lög Guðs tengjast hinum hulda vilja sem maðurinn fær ekki skilið en Guð skilur (213). Þar sem Guð er vitur stjórnandi veit Guð hvað mönnum er fyrir bestu (235). Í orði sínu hefur Guð opinberað vilja sinn og speki, réttlæti og gæsku. Í spegli laga Guðs sem eru fyrirmæli um hegðun og líferni fáum við vitund um stefnu okkar en jafnframt hver staða okkar er (630). Vegna breyskleika og syndugs lífernis manna hefur Guð sent mönnum lögmál sem herjar á og dæmir menn seka. Hið ægilega í mannlífi er að við erum í bullandi órétti gagnvart Guði (51). Guð vill fyrst og fremst að við viðurkennum stöðu okkar og sekt, skömmumst okkar og iðrumst og auðmýkjum okkur og komum fram fyrir Guð með sundurknosaðan anda.
Guð dómarinn
Tengt löggjafarstarfi Guðs er dómaratign hans. Þar sem Guð er hátignin sjálf, réttlátur og strangur og hefur þar að auki lögmál eru menn stöðuglega í órétti gagnvart Guði. Guð hefur því eiginlega sjálfdæmi í málum manna. Þar sem forsenda Guðs er velferð allra manna útdeilir Guð kjörum sem bæði eru til hins besta í lífi manna sem og lúta baráttu Guðs fyrir rétti og gæsku í heiminum. Enginn maður getur áfrýjað hæstaréttardómi Guðs. Menn eiga stöðugt á hættu að dómarinn sendi þá frá réttinum eða skyrpi þeim burt eins og Jón Vídalín orðaði það. Allt hvílir á almættisákvörðun. Guð ákvarðar og útvelur. En menn hafa rétt til að standa stöðugir í köllun sinni en allir falla þó í breyskleika sínum. Dómur Guðs er mönnum ægilegur veruleiki vegna þess hve sekir og óréttlátir menn eru og hversu heilagur og hátignarfullur Guð er. Þegar Guð útdeilir kjörum meðal manna má maður ekki mögla, því gæði eru gjafir Guðs. Maðurinn á ekkert gott skilið í krafti eigin verðleika. Dómarahlutverk Guðs er því annars vegar tjáning á alveldi og fullkomnu réttlæti. Guð hefur allan rétt og allan mátt. En hins vegar er þessu hlutverki tengd miskunnsemi. Dómarinn aumkvar sig yfir þá sem ekkert eiga annað en glæpi. Dómarahlutverkið er því mótað af stórkonungsímyndinni og tengt föðurhugmyndinni og einnig herstjórnarlíkingunni. Guð á í stríði og vill að menn hans séu með í baráttunni en ekki fjarri vígvelli.
Guð herstjórinn
Þar sem satan ræðst á ríki Guðs á öllum sviðum er aðalstarfi Guðs í heiminum í kjölfar syndafallsins að berjast við þennan óvin. Baráttan er altæk. Guði er gjarnan lýst í mynd hins snjalla herstjóra. Þar sem Guð á fyrir þegnum að sjá verður hann að stjórna lífi þeirra sem best, reyna þá og treysta til þeirrar baráttu sem þeir geta ekki flúið eða skorast undan. Guð leyfir t.d. að hinir kristnu menn verði á stundum niðurþrykktir þó Guð leyfi aldrei að þeir verði algerlega undirþrykktir eins og segir í postillunni (189). Hinn kristni maður á að taka þátt í baráttu Guðs. Stærsti sigur Guðs varð þegar Guð varð maður í Jesú Kristi. Guðssonurinn tók á sig mannlegt hold, leið hungur þorsta, klæðleysi, útlegð, örbirgð, háð og spott til að opinbera vald Guðs og vinna sigur á ríki satans. Guð lætur hinn illa falla á eigin bragði, beitir brögðum og ofkeyrir óvininn í glímunni við Jesú Krist. Með því fær Guð stjórnað. (244-45). Á jarðlífsgöngu verða menn bardagamenn fyrir Guð og verða að vera sannir í lífi sínu til að veldi Guðs verði ekki ógnað og sigur hins góða vinnist (628).
Guð faðir
Föðurímynd af Guði í Vídalínspostillu er til stuðnings konungslíkingunni. Sem faðir allra manna er Guð umhyggjusamur, langlyndur, miskunnsamur og góðviljaður (53, 364, 23. En sem dómari og konungur er faðirinn einnig hinn strangi uppalandi, sem ekki líður óreglu og óhlýðni í lífi manna. Guð elur upp í ótta og festu, tyftar og stjórnar með styrkri hendi. En Guð bægir ekki frá mönnum háska og erfiðleikum, freistingum, meðlæti og mótlæti (164, 168, 223-24, 359, 364, 604, 616). Þessi agandi guðsstjórn tekur bæði til sálarlífs, líkamsþátta manna sem og samfélagsmála og sögu. Á öllum sviðum vill Guð leiða allt til hins besta vegar. Guði föður er ekki síst umhugað um þau sem eru smáð og minnimáttar. Fyrir slíkum elur Guð sérstaka önn.[10] Viðbrögð manna skyldu því vera traust á hverju sem gengur (364).
Niðurlag
Vídalínspostilla er litrík, gjöful, stórkostleg á köflum, skemmtiefni og áhrifarík. Hún dró dám af tímanum sem hún var skrifuð inn í. Viðtakendur voru ekki yfirstétt Íslendinga heldur fólk í landinu. Hún er ekki aðeins hirðisbréf kirkjuleiðtoga heldur líka innlegg í pólitík tímans, prestsleg huggunarbók, siðfræði, bók elskunnar um dásemd lífsins, klassísk fræði og faðmvíð og djúprist kristinfræði.
Guðsmyndin er skýr í þessu riti. Málfarið er klassískt, litríkt og rhetórískt. Vídalín notaði meðvitað myndmál um hið guðlega. Í þessu mikla riti er ekki lengur áhersla á hinn líðandi, kaghýdda kóng eins og í Passíusálmum, heldur er Guð stórkonungurinn í stríði. Þannig hafa orðið skil tímanna frá ljóðmælandanum Hallgrími til kirkjuhirðisins Jóns Vídalíns á miklum umbrotatíma. Einu sinni var sagt að Jón Vídalín hefði verið igenio ad magna nato – borinn til stórvirkja. Og guðsmynd hans er líka vörpun á lífi hans, stöðu, hugsun, verkefnum og lífsreynslu upp á himinn hugmyndanna og trúartúlkunar. Afstaða margra túlkenda postillunnar er að boðskapur postillunnar hafi stuðlað að áherslu meðal alemnnings á réttlæti í samfélagininu, mannúð og manngildi. Það er rétt en postillan var hin hliðin á trúarpeningnum. Þeir töluðu saman og í samhljómi Hallgrímur og Vídalín um Guð og heim. Þeir lýsa báðir að allt er markað, takmarkað, mannlíf líka. Og Guð sem elskar umvefur takmörk og opnar. Hallgrímur lýsti hinum líðandi kóngi en Vídalín hinum sigrandi kóngi. Líkinganotkunin gekk upp hjá hvorum um sig en varð ekki til að menningin brotnaði, andstæður mögnuðust heldur að fólk gat numið og lifað sig í báðar víddir.
Ég las mig algerlega inn í postillu Jóns Vídalíns á sínum tíma og þegar ég kom út var dýpst skynjunin að hann væri ekki stórkonungsdýrandi heldur guðsdýrkandi trúmaður. Það eru tengslin við elsku heimsins sem Vídalín tjáir með hinu litríka og oft stórkallalega málfari. Sensus eða dýpt ritsins varðar undrið mikla – Guð.
Í næstu viku stekk ég yfir tvær aldir – hefði viljað ræða um rómantíkina, Mynster, Pjetur Pjetursson biskup, Jón Bjarnason Vesturheimsklerk, risana Harald Níelsson og Jón Helgason, Pál Sigurðsson og Helga Hálfdánarson líka. En það bíður betri tíma og við munum ganga inn í undraheim Sigurbjörns Einarssonar.
Framsaga Sigurðar Árna Þórðrson á þriðjudagsfundi í Hallgrímskirkju – í fræðsluröðinni Talað um Guð.
[1]Páll Þorleifsson: „Meistari Jón og postillan,” Vídalínspostilla, rits. Björn Sigfússon og Páll Þorleifsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Kristjáns Friðrikssonar, 194, XX, XXII, XXIII. Vitnað er í þessa útgáfu postillunnar í þessu erindi. Þegar tölustafir birtast í meginmáli er vitnað til postillunnar og þá síðu eða síðna. Þessi tilvitnun er á blaðsíðu 273.
[2]Magnús Jónsson, Jón biskup Vídalín og postilla hans, Eimreiðin 1920, 5.-6. tölublað, 257.
[3]Páll Þorleifsson, Vídalínspostilla, XVIII-XXIX.
[4]Jón Helgason, Kristnisaga Íslands: Frá Öndverðu til Vorra Tíma, I-II. Reykjavík: Félagsprenstsmiðjan, 1925-27. 222ff.
[5]Sjá Arne Möller, Vidalin og hans postill: En biografisk og litterærkritisk undersögelse. Odense: Hempelske boghandel, 1929, 360ff.
[6]Möller, 377.
[7]Möller, 369.
[8]Möller 348ff, 373.
[9]Möller, 373, 377ff.
[10] Vídalínspostilla, 634. Um ögun Guðs og stjórn sjá 53, 164, 23, 359, 357, 616.