Greinasafn fyrir merki: eilífð

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.

Dagur látinna og dagur lífs

Hver hafði mest áhrif á þig í uppvexti þínum? Hver mótaði þig? Hvernig vannstu úr reynslu bernskunnar? Og hvernig vinnur þú með minningar? Á allra heilagra messu vakna minningar um ástvini okkar sem eru horfin sjónum okkar.

Nokkrum dögum fyrir allra heilagra messu kom vinur minn og rétti mér bók sem hann hafði skrifað. Hann hafði gefið hana út í takmörkuðu upplagi og hú var ætluð vinum og stórfjölskyldunni. Ég hreiðraði um mig í lestrarstólnum og sökkti mér í efnið. Í formála skýrði höfundurinn, að hann hefði notað tímamótaviðburð í lífi sínu til að staldra við og hugsa um fólkið sem hefði skipt hann miklu máli í lífinu. Það var fjölskyldufólkið, fólk bernsku hans, vinir, velgerðarmenn, ættingjar, sem höfðu látið sér annt um hann, sem og önnur sem voru svo eftirminnileg að þau mörkuðu spor í sálina. Bókin var því safn minninga um karla og konur sem höfundi þótti vænt um, fólk sem var látið. Bókin var þrungin virðingu en líka húmor gagnvart fólki, sem var margbrotið og sum voru erfið í samskiptum. Í henni er lotning, sem kallaði fram eigið þakklæti gagnvart fólkinu, sem ég hef tengst og er farið inn í ljós eilífðar. Líf okkar hefur orðið vegna þess að annað fólk hefur tengst okkur, sinnt okkur eða snortið okkur. Við stöndum í þökk við þetta fólk og líf okkar verður betra þegar við getum þakkað það sem við höfum notið. Á allra heilagra messu megum við hugsa um þau sem eru dáin, þakka gjafir þeirra og messa í lotningu til Guðs og í þökk og bæn.

Líf á himni – líf í heimi

Á þessum eilífðardegi er guðspjallstextinn – undarlegt nokk – ekki um eilífa lífið heldur um lífið hér og nú. Við lifum í tíma og hverju nýju núi en við megum lifa og vera líka í ljósi eilífðar.l

Jesús sagði: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? … Þér eruð ljós heimsins. Salt og ljós – boðskapur á allra heilagra messu. Textinn er úr frægustu ræðu heimsins, Fjallræ.lðunni í Matteusarguðspjalli, strax á eftir hinum frægu sæluboðum. Hvað gerir maður þegar saltið dofnar? Það er nú reynsla okkar að salt dofnar ekki svo spurningin vaknar: Við hvað er átt? Ein skýringin er að á Dauðahafssvæðinu var og er mikið af salti. Í ofurhitanum gufar vatn upp og eftir sitja alls konar efni í bland við saltið, m.a. natrón, sem við notum til bökunar. Natrón blandaðist saltinu og saltið bragðbreyttist og dofnaði. Jesús vissi, að saltdeyfa var vond fyrir matargerðina. Þér eruð salt – er því ræða, sem varðar hvort fólk er dofið eða kraftmikið.

Hvað er málið?

Jesús bætir við: Þér eruð ljós – og minnir á að ljós á að nota til lýsingar. Borg eða bær uppi á fjalli sést vel, minnir hann líka á og vísar þar með í heimsmál þeirrar tíðar, sem eru áþekk samtíðinni. Hvar miðja heimsins er skapar aðalviðfangsefni heimsmála hverrar tíðar. Svo var einnig á tímum Jesú. Þjóðernissinnarnir í Palestínu voru vissir um, að fjallið Zíon og þar með Jerúsalem væri miðjan. Þaðan ætti ljósið að berast. Rómverjarnir vissu um mátt Rómar og Cicero talaði um þá stórborg og heimsmiðju sem ljós þjóðanna. Svo ljósræðurnar voru um hvar miðjan væri eða ætti að vera. Orðfæri Jesú er því í samræmi við talsmáta tímans og hann talar því inní pólítík samtíðarinnar. En Jesús var snillingur hins óvænta. Hann stækkaði og umbreytti venjum og vitund fólks. Hann notaði hið venjulega til að skýra hið óvenjulega. Jesús benti fólki á, að það eru ekki borgir, stjórnmál eða valdahópar sem væru mál málanna – heldur annað, meira og mikilvægara. Það væri Guð, sem væri miðjan, en ekki menn og mannaverk. Hlutverk okkar manna er að lýsa svo menn sjái. Við eigum að lifa svo ljós eilífðar skíni.

Þar með er tilgangur ræðunnar ljós – stefnan, sem Jesús markar Guðsríkinu. Fyrirtæki, félög og stofnanir semja og samþykkja stefnu fyrir starf sitt á hverri tíð. Jesús markar hér stefnu fyrir lærisveina sína, kirkju sína. Tilgangur lífs manna er að lifa vel, hafa alls staðar áhrif til góðs og að mannlíf tengist Guði. Kristnir menn eru borgarar tíma en líka eilífðar, krydd og ljós.

Hrekkjavaka

Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Undir bandarískum áhrifum bregða krakkarnir yfir sig skikkjum, ganga um eins og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er.

Jesús sagði ekki, að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd veraldar og selta fyrir heiminn. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker eða rófur, heldur leyfa því að lýsa öðrum. Hlutverk okkar er að vera ljósasól og í sambandi við orkubú veraldar.

Dagur látinna og dagur lífs

Allra heilagra messa er dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið.

Hvernig þakkar þú og minnist þú? Vinur minn skrifaði minningar sínar um fólk og gaf út. Að skrifa er ein aðferð við að vinna með sorg og missi. Og alltaf er mikilvægt að leyfa sögum að lifa um látna ástvini. Í sorgarvinnu er mikilvægt að segja sögur um þann sem er syrgður. Leyfa minningum að flæða til að skoða tengslin og tilfinningarnar. Þegar við segjum sögum um fólkið sem hefur tengst okkur skilum við líka áfram gildum, viðmiðum og fyrirmyndum. Hver viljum við að verði ávöxtur lífs okkar?

Í þessu hliði himinsins, spyr ég þig: Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri mannsekju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Reyndu að svara spurningunni hið innra? Hvert þeirra, sem býr í himninum, varð þér til hjálpar og eflingar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í erfiðum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og ljúktu ekki þessum degi fyrr en þú ert búinn að vega áhrifavalda lífs þíns.

En líf er ekki bara fortíð, heldur nú – og framtíð. Minningardagur um þau sem við elskuðum er ekki bara fortíðarmál, dagur til að gráta. Allra heilagra messa er dagur lífsins. Hvað tekur þú með þér frá ástvinum sem eru farin og hverju miðlar þú? Ertu salt – ertu ljós? Hver er lífsstefna þín og hvernig viltu lifa áfram? Erindi kristninnar er, að Guð vakir yfir tíma og eilífð með elskusemi. Guð er í ljósinu og kallar fólkið okkar inn í birtu sína. Trúir þú því? Á allra heilagra messu máttu þakka, en líka stæla trú í núinu.

Allra heilagra messa.

Meðfylgjandi mynd tók ég í fyrstu  kvöldkirkjunni 24. okbtóber, 2019.

Lexía: 5Mós 33.1-3

Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17

Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Núvitund trúarinnar

Biblían er mögnuð og mikilvægt að virða sérleik hennar. Við ættum ekki að lesa Biblíuna eins og lögbók eða náttúrufræði, heldur sem stórbók um lífið, allar víddir þess og bylgjur. Við ættum að reyna að forðast að láta eigin fordóma eða forsendur stýra hvernig við lesum eða nálgust frásögur og viðfangsefni Biblíunnar, heldur leyfa þessu mikla lífslistasafni að tala við okkur og inn í okkar aðstæður. Og sögur Biblíunnar eru um allt sem fólk er að hugsa og reyna, um áhyggjur, vonir, þrá, hatur og ást, dauða og líf. Ekkert í heimi okkar manna fellur utan Biblíuviskunnar því í henni eru allar tilfinningar manna. En Biblían er ekki bara um sigra og sorgir mannlífs eða liti og form náttúrunnar. Biblían er líka um Guð, sem elskar fólk og veröldina sem við lifum í. Í Biblíunni hvíslar Guð til okkar sem viljum heyra. Og sögurnar sem sagðar eru í þessu mikla ritasafni eru um lífið, hvað við megum gera og hvernig við megum vera. Saga dagsins er ein af þessum kjarnmiklu sögum um leit fólks. Þetta er saga um mikinn lífskraft en líka mikil vonbrigði. Í henni eru margir plúsar, alls konar bónusar, sem við megum nýta okkur til velfarnaðar því saga er um okkur. Og endursögn dagsins er svona:

Guðspjallið

Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum, sem fylgdi honum jafnan. En hann hafði heyrt um, að Jesús væri snjall og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Það var spurningin. Einlæg og heiðarleg spurning. Svo beið hann eftir svari og stefnu. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri kennari með nemendur í tíma. Hver er góður? Já, alveg rétt: Það er Guð. Svo fór Jesús yfir efnið sem allir Gyðingar þurftu að þekkja og skilja: Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki og að svindla ekki á öðrum. Við eigum líka að virða ástvinina. Maðurinn kunni þetta auðvitað allt vel og sagði sannfærður: “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann og var sannfærður um að maðurinn væri aðgætinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Og svo bætti Jesús við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á hjá þér. Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – og komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.

Var þetta bara smáatriði, eitthvað sem auðvelt væri að gera? Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Þetta er sagan um að snúa sér að því sem skiptir öllu máli.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég fengið inngang í eilífðina, fengið að lifa áfram alltaf, vinna öll lottó tíma og eilífðar? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á þennan heiðarlega, elskulega auðmann og benti á eina veikleika hans, sem hindraði að hann hakaði í öll box. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig. Þær eru eina hindrun þess að þú náir því sem þú þráir.

Af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki, bisnissnillingum? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins, að við iðkuðum hamingjuna og létum ekkert hindra. Verkefni manna er stöðugt að greina hvað þvælist fyrir, hindrar fólk á veginum, þvælist fyrir svo fólk kemst ekki á leiðarenda?

Og hvernig eigum við að skilja þennan texta. Er þetta bara spurning um ríkidæmi og peninga. Nei, Jesús var að tala um gildi og það sem er innan í okkur og klúðrar málum okkar og veldur vanlíðan. Er eitthvað sem þú þarft að losa þig við, sem mengar lífsgleði þína. Það er í lagi að breytast. Við megum þora að breytast. Allt tekur breytingum, líka tilfinningar okkar og jafnvel trúarefnni. Ef eitthvað heldur þér niðri eða stoppar þig þarftu að skoða málin. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þráast við að sleppa? Þetta veit AA-fólkið og öll þau sem hafa lifað af þrátt fyrir að skalla botninn.

Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins. Vera og gera svo.

Biðja – iðja 

Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum okkur til talsverðar furðu, að börnin okkar vilja mun frekar eiga gæðastund með pabba eða mömmu en glás af peningum eða stórkostlegar aðstæður. Við puðum en gleymum kannski hinu mikilvæga – að vera.

Hvað viljum við? Viljum við kannski hafa veröldina eins og búð og stingum í körfu okkar því, sem okkur líkar best við. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það?

Ora et labora var sagt á miðöldum – biðja og iðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar. Gera eða að vera? Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði fólk og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan. En ekki öfugt.

Að vera er að vera í essinu sínu, vera með sjálfum sér, tengja við lífið, opna fyrir undrum augnabliksins. Og þessi djúpa núvitund varðar helst og best að vera í góðu sambandi við Guð. Að vera Guðs er að vera sítengdur eilífðaranetinu. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband við sýndarveruleika heldur við raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og við berum ávöxt í lífi okkar. Afstaða elur siðferði. Vera fyrst og gera svo.

Amen.

Hallgrímskirkja 20. október, 2019.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill:  1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall:  Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“