Greinasafn fyrir merki: efi

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Hönnuð saga

ummyndunTrúir þú virkilega svona sögu um “ljósashow” upp á fjalli í fornöld? Er þessi ummyndunarsaga ekki bara skröksaga, bull sem þjónaði því hlutverki að blekkja auðtrúa fólk? Er ekki eðlilegast að efast um ótrúlega Jesúsögu?

Efi og túlkun

Hvað með efann? Viltu hugsa rökrétt – líka í málum Jesú, Biblíu og trúar? Efinn og trúin eru ágætar systur og líka vinir þegar viskan ræður. Í vökulum heila pælir efinn þann akur sem ber góða ávexti heilastarfseminnar. Efinn greinir, gagnrýnir og leitar þekkingar. Heilbrigð trú hræðist ekki efann, heldur gleðst yfir getu hans og tekur þátt í að kanna túlkanir, möguleika, nýjar hugmyndir um það sem máli skiptir. En hvað um Biblíuna? Eigum við að trúa sögum hennar eins og fréttum af mbl, guardian eða bbc?

Það er skynsamlegt að skoða Biblíuna með velviljaðri gagnrýni og spyrja: Hver eru skilaboðin? Getur þessi ræða eða saga kryddað líf mitt í allt öðrum aðstæðum en til forna? Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga og trúarlærdóma þarf að skoða í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki og má ekki vera óbreytanleg. Forn heimsmynd og úreltir samfélagshættir eru ekki aðalmál trúarinnar.

Ég álít að allt sem tengist trú og trúariðkun eigi skoða með opnum huga. Ekkert undanskilið. En ég trúi og þótt ég meti skynsemina, heilann, efann og gagnrýnina mikils trúi ég á Guð. Ég upplifi að Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, í frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. Og ég álít, alveg í samræmi við hefð okkar Vesturlandamanna allt frá tíma Immanuel Kant og upplýsingarinnar, að við skoðum veröldina út frá ákveðnum forsendum og með „rósrauðum“ gleraugum.

Við erum takmörkuð og túlkun okkar á raunveruleikanum er alltaf takmörkuð og hið sama gildir um hið trúarlega. Túlkun á hinu guðlega verður ekki annað en ágiskun og tilraun til að tjá hið ósegjanlega, t.d. með hjálp líkinga, frásagna og vísana. Við trúmenn berum Guði vitni en tölum um samskiptin við Guð með hjálp dæma, sagna og hliðstæðna úr heimi manna. En skyldi Guð verða reiður yfir þeim óbeinu og ónákvæmu lýsingum? Nei, ekki frekar en við foreldrar pirrum okkur ekki á börnum okkar þegar þau eru að læra að tala. Guð gleðst vonandi yfir tilraunum okkar. Og Guð stressar sig – held ég – ekki yfir óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur fávíslegar hugmyndir um Guð.

Reynsla kallar á form frásagnar

En þessi ótrúlega saga af fjallinu? Hvað heldur þú að þessi ljósagangur þýði? Og til hvers þessir zombíar sem allt í einu birtast? Já, sagan af fjallinu er furðuleg. Hún er kölluð ummyndunarsagan enda ummyndaðist eða umbreyttist Jesús Kristur.

Eitthvað gerðist? En hvað? Hvernig á að segja frá því sem enginn annar hefur upplifað? Þegar fólk upplifir eitthvað mjög sérstakt er því vandi á höndum. Stundum segir fólk mér sögur sem það segir engum öðrum en mér, prestinum, og alls ekki kunningjum eða fjölskyldu. Fólk segir ekki sögur ef það á von á því að sá kvittur fari á kreik að það sé orðið kúkú, andlega bilað. Fólk er viðkvæmt fyrir orðspori sínu. Svo var í fornöld einnig. En í öllum menningarkimum verða til mynstur eða leyfilegar fyrirmyndir um hvernig sagt er frá hinu sérstæða eða ótrúlega. Hefðir marka ramma hins leyfilega og einnig mystur orðræðu.

Tákn og saga

Þeir voru fjórir á ferð, Jesús, Pétur, Jakob, Jóhannes og puðuðu upp á fjall. Þar gerðist eitthvað dularfullt. Áhorfendum þótti eins og aðrir kæmu til fundar og komumenn væru ekki af þessum heimi. Félagarnir brugðust við, þeir túlkuðu söguna í anda hefðarinnar og héldu að komnir væru frægir karlar úr fortíðinni, Móse og Elía. Það væri svona álíka og ef við værum að klífa Esjuna og allt í einu væru komnir þar til fundar við okkur Jón Sigurðsson og Snorri Sturluson. Í einhverju kasti – væntanlega stresskasti – býðst lærisveinn til að tjalda fyrir meistara þeirra og komumennina einnig.

Öll sagan er samsett táknum og táknmáli. Þeir voru á fjalli. Móse fékk lögfræði Ísraels á fjalli eins og Íslendingar fengu sín lög í fjallasal. Fjall er tákn um hið guðlega. Þessir nafngreindu foringjar og fyrirmyndir Ísraelssögu, Móse og Elía, eru tákn um lög, hefð og sögu. Að þeir komu til fundar þjónar hlutverki gjörningsins til að opna nýja skynjun, tilfinningu og túlkun. Jesús er hinn nýji sem tekur við og umbreytir hebreskri hefð og sögu. Svo voru postularnir samverkamenn sem tóku við og túlkuðu. Þeir brugðust við en skildu ekki, voru mannlegir, en þrátt fyrir flónskuna var þeim samt treyst til að hlusta á, meðtaka og endurflytja.

Þrennan – rosi, sýn og skilaboð

Til að skilja sérstæða sögu er mikilvægt að þekkja bókmenntalegt mynstur hennar og gerð og hlutverk í menningarheimi fornaldar. Það er þarft að greina milli þriggja tegunda af sögum sem tjá birtingu hins yfirskilvitlega. Ein hefur einkenni rosa, önnur varðar sýn og sú þriðja hefur skilaboð – rosi-sýn-boð.

Þeófaía – rosinn

Í fyrsta lagi eru guðsbirtingarsögur rosans, sem tjá komu eða návist Guðs með hjálp náttúruhamfara – t.d. jarðskjálfta, þrumuveðurs og öðru í þeim dúr þó guðinn sjáist ekki í eigin persónu. Þetta eru þeófaníurnar – dramatísku guðsbirtingarnar – sem tjá einfaldlega að Guðinn er nálægur. Þær sögur lýsa hughrifum fólks og oft miklum ótta við nánd hins ógurlega guðs. Ummyndunarsagan sem segir frá í Matteusarguðspjalli er ekki slíkrar gerðar. Þar eru engar náttúruhamfarir. Stíllinn er annar.

Sýn – hið sjónræna

Í öðru lagi eru sögur um sýnir. Sögur um sýnir greina jafnan frá útvöldum hópi fólks sem fær að sjá eitthvað sem er ekki vanalegt í mannaheimi. Fólk sér eitthvað óvenjulegt sem ber fyrir augu – en ekki er miðlað neinni sérstakri þekkingu eða skilaboðum. Vissulega er sýn í ummyndunarsögunni en í þessari sögu er talað og skilboðum er komið áleiðis til þeirra sem upplifðu. Saga dagsins er því ekki sýn af tagi birtingarsögu.

Skilaboðasögur

Þriðja gerð guðsbirtinga eru skilaboðasögur og sem segja frá skyndilegri og óvæntri guðsbirtingu sem einhver eða einhverjir útvaldir verða fyrir. Mikilvægum boðskap er komið á framfæri og skilaðboðin eru heyranleg. Þannig saga er ummyndunarsagan. Skilaboðin eru um persónu og hlutverk Jesú Krists sé og hvaða afleiðingar það hafi. Því er sagt sem svo: Hlustið á hann, takið eftir því sem hann segir. Það eru skilaboðin. Ummyndunarsagan er um skilaboð Guðs til manna. Móse og Elía þjóna aðeins hlutverki dýpkunar. Þeir eru aukapersónur og gefa samhengi en táknum en aðalpersónan er hinn nýji fulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Merkingin er að við eigum ekki að staldra við lögmál fortíðar heldur elskuboðskap guðssonarins. Rödd úr guðsvíddinni tjáir: Jesús Kristur er Guðsfulltrúinn – hlustið á hann og hlýðið honum.

Boðskapurinn mótar og knýr á

Og hverju getum við þá trúað? Er þetta skröksaga? Þegar við erum búin að greina söguna kemur í ljós að hún er færð í stílinn vegna þess að sagan er umgjörð um ákveðin skilaboð. Hún hönnuð saga, lituð með ákveðnu móti, með ákveðnum atriðum og í ákveðnni fléttu. Þú mátt hafa allar heimsins skoðanir á hvort sagan hafi tekist eða ekki, hvort hún er trúleg eða ekki, hvort hún er leiðinleg eða skemmtileg en skilaboðin eru skýr. Boðskapurin er að Jesús Kristur sé trúverðugur, áheyranlegur og ákjósanlegur. Spurningin er ekki hvort sagan sé bull og skröksaga heldur hvort Jesús Kristur sé fulltrúi Guðs eða ekki. Trúir þú því – með efasemdum og mannlegum breiskleika þínum? Þar er efinn og þar er trúin.

Neskirkja 9. febrúar, 2014.

Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda A-röð

Lexían er úr 5. Mósebók

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistillinn er úr 2. Pétursbréfi

Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast. Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall úr Matt. 17.1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“