Greinasafn fyrir merki: Edith Thorberg Traustadóttir

Edith Thorberg Traustadóttir – minningarorð

Edith Thorberg forsidaMeð pensil í hendi og músík í eyrum. Aldrei var Edith ánægðari en þegar hún var komin í hvíta málarasloppinn sinn með málningartólin tilbúin og málverk varð til og tónlistin ófst inn í liti og vitund hennar. Edith var listræn, hafði auga fyrir fegurð, fyrir litum og einnig fegurð heimilisins. Hún kunni að opna tilveru sína fyrir hinu fjölbreytilega. Skynjun, hugsun og hendur unnu vel saman – ekki aðeins við að skapa mynd heldur líka umhverfi. Listaverkin hennar Edith voru ekki aðeins í ramma heldur á heimilinu – í lífi hennar og fólksins hennar. Og svo umvafði hún börn sín, barnabörn og ástvini með gæsku sinni – þeim til eflingar og gleði.

Í fólki sjáum við inn í veröld og út fyrir veröld. Edith varð samferðafólki sínu hvati til að sjá umhverfi sitt, leita fegurðar, skapa, vakna til vitundar um litríki og möguleika hversdagslistar á heimilum, rækta næmni í list heimila og lífsins. Hún beindi sjónum inn á við og til hinnar dýpri fegurðar. Í því var hún sem góður túlkandi og lærisveinn Jesú Krists sem beindi alltaf sjónum að lífinu, mannfólki, djúpri fegurð smáblóma og dýrmæti lífsbarnanna. Og svo ræddi Edith um drauma og eilífðina við sín börn og opnaði þeim þar með stóra veröld möguleika og merkingar. Hún hafði Guðsneistann í sér, traust til að tengja við trú. Og leyfa síðan öllu þessu marglita og fjölþætta að faðmast í eigin lífi. Í kyrrlátum augum hennar, sem sáu og horfðu fallega, speglaðist ekki aðeins fólk í tíma heldur líka Guð í eilífðinni.

Ætt og upphaf

Edith Thorberg Traustadóttir fæddist í Reykjavík 24. mars árið 1953. Foreldrar hennar voru hjónin Dóra Sigfúsdóttir, hannyrðakona og Trausti Thorberg Óskarsson, tónlistarmaður og rakari. Systkini Edithar eru Elsa Thorberg Traustadóttir og Óskar Thorberg Traustason. Systir hennar dekraði við hana alla tíð og bróðir hennar var hennar stoð og stytta. Þökk sé þeim.

Fjölskylda Edithar bjó í Reykjavík og þar óx hún upp og sótti grunnskóla í borginni. Hún átti góða og gæfuríka bernsku. Í nokkur sumur fóru þær systur í sveit austur í Lambafell undir Eyjafjöllum. Edith talaði um fjölskrúðugt mannlíf þar og getu húsmóðurinnar til að gera gott úr öllu leikjum. Hún setti Edith upp á eldhúsbekk, gladdi hana eða þurrkaði tár af hvörmum og gaf henni mjólk í glas að drekka. Edith mat sveitaveruna svo mikils að hún vildi miðla börnum sínum náttúrupplifun og frelsi sveitarinnar – og fór með þau með sér austur til að sýna þeim samhengi bernskureynslunnar sem hún hafði notið.

Á unglingsárum kom í ljós að Edith var sjálfstæð og þorði að fara eigin leiðir í málum og lífi. Hún var hreinskiptin, sagði sína meiningu og meinti vel. Eftir að hún lauk skóla vann Edith ýmis störf. Hún starfaði t.d. sem símadama og í fiskvinnslu.

Svo fór hún til náms í Danmörk. Edith fór í húsmæðraskóla í Vordinborg. Dóra, listræn móðir hennar, hafði sótt þennan skóla áður og reynsla móðurinnar varð til að dóttirin vildi gjarnan njóta hins sama. Þar upplifði Edith ekki aðeins stranga uppeldisstefnu heldur lærði hún fjölmargt og m.a. hannyrðir. Hún kunni því gat alla tíð saumað það sem hún vildi – og gluggatjöldin á heimili Edithar voru að sjálfsögðu voru heimasaumuð.

Skólanámið efldi með ýmsu móti listiðju Edithar og þá helst helst í vatnslitum og akríl. Alla æfi iðkaði hún list sína. Hún sótti alla fullorðinsæfina námskeið og skóla, sem efldu listfimi hennar. Meira segja eftir að hún veiktist sótti hún nám hjá Fjölmennt og hélt myndlistarsýningar, tók þátt í fjölda samsýninga t.d. í tengslum við List án Landamæra. Edith var mikilvirk í listsköpun sinni og nú gleðja verk hennar marga á heimilum ástvina.

Edith var í mun að fegra heimili sitt. Fjölskyldufólk hennar vitnar um að hún átti ekki í neinum vandræðum með að breyta um lit húsgagna og gefa gömlu framhaldslíf. Edith kunni að bæsa og saumavélin var aldrei langt undan. Og hæfni og kunnátta hennar smitaðist áfram í afkomendum hennar. Svo kenndi hún þeim margt hagnýtt í heimilishaldi og þau vita hvernig á að pússa messing!

Makar og börn

Edith Thorberg - aberandiÁrið 1974 gekk Edith í hjónaband með Þorsteini Þorsteinssyni. Þeim fæddist dóttirin Dóra Thorberg í júlí og fékk hún nafn frá ömmu sinni. Dóra lést árið 1991 – á unglingsaldri, tæplega sautján ára – allri fjölskyldunni mikill harmdauði. Skuggi láts hennar er langur í lífi ættmenna hennar. Þorsteinn og Edith skildu.

Seinni eiginmaður Edithar var Sigurður Brynjólfsson. Börn þeirra eru tvö. Sesselja Thorberg Sigurðardóttir er eldri. Hún fæddist 10. júlí 1978. Sesselja er hönnuður og þekkt í þjóðlífinu sem Fröken Fix. Eflaust nýtur hún einhvers úr uppvexti, hugrekki móðurinnar til að skapa, endurvinna og raða betur. Eiginmaður Sesselju er Magnús Sævar Magnússon (f. 3.08. 1976). Þeirra barn er Matthías Thorberg Magnússon. Fyrir átti Sesselja Ísak Thorberg Aðalsteinsson og Magnús Sævar átti fyrir Láru Theodóru Magnúsdóttur.

Ísak varð ömmu sinni sérstakur gleðigjafi, enda fæddist hann áður en hún missti heilsuna. Hún gætti Ísaks í frumbernsku og þegar Sesselja fór í skóla.

Seinna barn Edithar og Sigurðar er Trausti Ómar Thorberg Sigurðsson. Hann fæddist 22. janúar árið 1980. Edith miðlaði til hans andlegri næmni og getu sinni sem varð til að hann lærði nudd og starf við grein sína. Eiginkona Trausta er Kristín Erla Þráinsdóttir. Þau eiga dótturina Thelmu Maríu Traustadóttur.

Edith var mjög umhugað um ástvini sín og bjó börnum sínum gott heimili. Hún hvatti börnin sín svo þau fengu trú á sjálfum sér til náms og starfa. Edith var vinur unga fólksins og kom fram við vini barna sinna sem jafningi. Edith elskaði tengdabörnin sín og talaði hún oft um þau sem sín eigin. Þegar barnabörnin komu síðan í heiminn eignuðust þau traustan vin í ömmu sinni. Ísak var fyrstur og svo bættist Lára Theodóra við sem ömmustelpa þegar Sesselja og Magnús tóku saman. Nokkrum árum síðar kom Thelma María í heiminn og Matthías er yngstur ömmubarnanna. Edith fyldist grannt með þroskaferli afkomenda sinna, málþroska, áhugamálum, nýjum tönnum og lestrarbókum. Hún naut samvista við vini og fólk og eftir að hún varð fyrir heilablóðfalli. Edith naut mjög fjölskylduskemmtana og matarboða.

Minningar

Hvaða minningar áttu um Edith? Manstu hve andlega þenkjandi hún var? Manstu trú hennar og traust á Guð. Á seinni árum sótti hún samkomur hjá trúarsamfélaginu Salt sem fundar í Grensáskirkju í Reykjavík. Þar átti hún góða og kæra vini þar sem hún fékk næringu fyrir trú sína og gat sinnt félagsþörf sinni í samfélagi. Og Edith miðlaði trausti sínu og trú til barna sinna og veitti þeim næringu með ýmsum hætti sem hefur skilað börnum hennar mikilvægri vídd lífsins. Hún náði að miðla börnum sínum vitund um margbreytileika lífsins. Hún bjó til stundir sem urðu börnum hennar dýrðlegar því draumar næturinnar voru ræddir og líf þessa heims og eilífðar skoðað.

Ein af myndunum á baksíðunni er myndverk Edithar. Hún varð hún fyrir sterkri reynslu þegar hún var nærri dauða. Þá upplifði hún að sendiboðar – englar – Guðs kæmu til hennar og miðluðu til hennar að hennar tími væri ekki kominn. Svo málaði hún englana og hafði trú á djúpri reynslu og lifði ríkulegu andlegu lífi.

Manstu hve skemmtileg Edith var, að hún var stuðpinni þegar hún var fullfrísk? Manstu dansinn hennar þegar hún var ung? Og börnin hennar muna glens, gaman og stuðið í móður þeirra á góðum dögum.

Manstu hve hjálpsöm hún var og hve góður vinur hún reyndist vinum sínum? Og svo var hún sínu fólki til taks þegar á þurfi að halda og dugleg að rétta fram hjálparhönd?

Manstu lífseigju hennar og lífsvilja? Manstu umhyggju fyrir ástvinum?

Þið sem eldri eruð munið kannski að Edith þorð að fara á móti straumnum, var svolítill “rebel” á unglinsárunum. Og það er við hæfi að útför hennar skuli vera á siðbótardeginum. Marteinn Lúther þorði að fara á móti straumi. Hann negldi – á þessum degi fyrir 497 árum – siðbótarkenningar sínar á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg. Sá gjörningur breytti heiminum. Og Edith breytti heimi ástvina sinna, var ykkur mikilvæg og snerti líf ykkar með svo margvíslegu móti.

Edith varð fyrir heilablóðfalli árið 1997 sem breytti lífsháttum hennar algerlega. Eftir endurhæfingu á Grensásdeild LSH átti hún heimili á Sjálfsbjargarheimilinu Hátúni 12 í Reykjavík. Hún lifiði í núinu, naut samvista við fólkið sitt, sótti listsýningar bæði með fjölskyldumeðlimum og vinkonu. Og svo hitti hún vini sína í Grensáskirkju. Síðasta árið varð Edith erfitt þegar heilsu hennar hrakaði enn frekar. En alltaf bað hún bænirnar sínar á hverju kvöldi og bað fyrir hverjum og einum. Og ykkur ástvinum skal þakkað fyrir umhyggju gagnvart henni og þið vinir hennar hafið blessað hana með ýmsu móti. Guð blessi ykkur.

Og nú er Edith farin inn í himininn. Enginn hjólastóll og engar hömlur. Engir grænir skór eða hvíti málarasloppurinn. Nú er hún komin inn í hið mikla gallerí himinsins, þar sem allir mega mála, allir mega tjá sig og vera. Og galleristinn er Guð, sem teiknar veröldina fagurlega, litar og laðar allt það fegursta fram. Guð sem kann að bæsa og bæta, endurraða og hugsa allt upp á ný – og kemur sjálfur. Edith mat engla mikils og nú er engiltilveran hennar. Edith var góður fulltrúi Guðs í veröldinni og nú er hún komin til sinna án nokkurrar fötlunar.

Guð geymi hana í eilífð sinni og Guð geymi þig.

Amen

Kveðja frá Guggu, bestu vinkonu Edithar frá því þær voru fjórtán ára gamlar. Gugga er erlendis.

Elna Ósk og börn í Noregi báðu fyrir kveðju.

Regína og Bjarni, vinafólk í Svíþjóð, þakka fyrir vináttu Edithar og biðja fyrir samúðarkveðjur til ættingja og vina.

Bálför og jarðsett síðar í Fossvogskirkjugarði.

Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Minningarorð í Fossvogskirkju, föstudaginn, 31. október 2014.