Greinasafn fyrir merki: Dóra Ketilsdóttir

Dóra Ketilsdóttir – minningarorð

Doja var gjafmild. Dóra Ketilsdóttir gaf af sér og gaf öðrum. Og svo er gjöf í nafninu hennar líka. Á grískunni þýðir dora einfaldlega gjöf, svo hún bar nafn með rentu. Gjafmildi og gjafageta einkenndi Doju – hún var Dóra – kona gjafanna í lífinu.

Og hvernig er nú boðskapur kristninnar, boðskapur Jesú, skilaboð Guðs? Litla Biblían í Jóhannesarguðspjalli hljóðar svo: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Elskaði og gaf til að færa líf – elskaði og gaf. Jesús var Dóra heimsins, Doja var gjöf ykkar fjölskyldu, börnum, systkinum og vinum. Í hinu stóra samhengi megum við gjarnan læra að sjá allt sem gjöf, temja okkur þakklæti fyrir þau og það, sem við njótum – og við megum gjarnan miðla áfram þeirri afstöðu að við njótum lífs, okkur er gefið til að fara vel með, ekki aðeins í eigin þágu heldur í samfélagi. Þeirri lífsafstöðu var miðlað til Doju í uppeldi – og það var það sem hún iðkaði í lífi sínu. Í hinu stóra samhengi er það líka arfur og andi hins kristna boðskapar. Lífið er gjöf, þið eruð gjöf, okkar er að fara vel með, deila með öðrum og vera gjafmild.

Ættbogi og fjölskylda

Dóra Ketilsdóttir fæddist á Ísfirði 12. maí árið 1937 og lést 8. júní síðastliðinn. Hún var næstyngst hjónanna Maríu Jónsdóttur (1911-74) og Ketils Guðmundssonar (1894-1983), sem var eiginlegur kaupfélagsstjóri Ísafjarðar. Systkini Doju eru Unnur, Guðmundur, Dóra og yngst var Ása. Dóra eldri lést rúmlega árs gömul og fékk Dóra yngri því nafn hennar þegar hún fæddist – og nafnið kom frá Halldóru ömmu. Ása er sú eina úr systkinahópnum, sem lifir systkini sín.

Dóra ólst upp á Isafirði og drakk í sig fróðleiks- og menntasókn fjölskyldunnar. Hún var alin upp í samfélagssýn samvinnu- og félagshyggjufólks. Hennar fólk hefur löngum stutt Alþýðuflokk til dáða þótt dóttir hennar hafi orðið sjálfstæðari en sumt ættmenna hennar. Í fjölskyldunni var stunduð málverndun, talað gott og kjarnyrt mál, sem hefur síðan skilað málvitund í ungviði samtíðar.

Doja sótti skóla á Ísafirði og komst til manns í faðmi vestfirskra fjalla og menningar. Þegar í bernsku kom í ljós að Doja var heyrnarskert og var það ævimein hennar. Hún galt fyrir í skóla, skerðingin neyddi hana til að sitja á ákveðnum stöðum bæði í bekk og lífi. Svo var hún send suður til lækninga og það var barninu Doju álagsefni að vera slitin úr öruggu fjölskyldufangi þrátt fyrir gott atlæti ættmenna sinna syðra.

Og svo komu unglingsárin. Um tíma var Doja í Englandi. Hún lærði að meta hinn enskumælandi heim og var góð í ensku þaðan í frá. Hún var á þröskuldi fullorðinsáranna þegar átök kalda stríðsins tóku hana svo í fangið. Ástalíf hennar blandaðist inn í heimsmálin eða heimsmálin fleyttu ástinni til hennar. Lárus Gunnarsson fór vestur til að starfa við uppbyggingu radarstöðvarinnar á Straumnesfjalli, sem var gerð á árunum 1954 – 56. Það var ekkert kalt á milli þeirra Doju og Lárusar á þessum árum, heldur var hann geisli í lífi hennar og blossaði á milli, ekki aðeins í Alþýðuhúskjallaranum heldur í samskiptum þeirra. Og Þórir nýtur þess varma. Hann fæddist í nóvembermánuði árið 1956 og í hjónarúmi foreldra Doju í Aðalstræti 10.

En svo fór Lárus suður og síðan til náms vestur í Ameríku og varð flugvirki og síðar flugvélstjóri. Það var líka komið að flutningi fjölskyldunnar. Ketill og María fóru suður og Doja með þeim og drengurinn líka, bjuggu um tíma í Smáíbúðahverfi,  fengu einnig húsaskjól í húsi Haraldar Guðmundssonar á Hávallgötunni, en þá var hann og fjölskylda hans farin til opinberra starfa í Svíþjóð. Tómasarhagi 41 var síðan heimili Ketils og Maríu, en þá var Lárus kominn heim úr námi og litla fjölskyldan flutti í Sörlaskjól.

Þau Doja fóru fyrir altarið í nýrri Neskirkju við Hagatorg og hlutu þar kirkjulega blessun yfir hjúskap sinn. Birna kom svo í heiminn og fjölskyldan átti lengstum heima inn í Háaleitisbraut. Lárus starfaði við flug bæði á Íslandi og einnig erlendis. Doja var heima og sá um börn og bú. Flest gekk fjölskyldunni í haginn og allir undu við sitt og börnin uxu úr grasi og gekk vel. Þórir fór svo að heiman, fylgdi í fótspor föður síns og lærði flugvirkjun og síðan verkfræði, en Birna er fjölmiðlafræðingur.

Börnin og afkomendur

Kona Þóris Lárussonar er Magnea Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Hrefna og Davíð. Maður Hrefnu er Kristinn Fannar Einarsson og eiga þau Emblu Katrínu og Iðunni Signýju. Kona Davíðs er Ellen Bergsveinsdóttir.

Birna Lárusdóttir fæddist í mars 1966. Hennar maður er Hallgrímur Kjartansson. Börn þeirra eru Hekla, Hilmir, Hugi og Heiður.

Afkomendur Doju eru því 10 á fæti og einn að auki í kvið. Og Doja hafði mikla gleði af fólkinu sínu. Það var henni til mestrar gleði og hún var þeim hin gjafmilda móðir og amma. En hún átti í ættmennum sínum stuðning og elskusemi. Þegar hallaði undan fæti í heilsuefnum Doju stóðu margir þétt að baki hennar. Fjölskyldan þakkar Ragnheiði Sveinsdóttur nærfærni og alúð í garð Doju. Og Ása vakti yfir heilsu systur sinnar til hinstu stundar.

Auður Bjarnadóttir, systurdóttir Doju, getur ekki verið við þessa athöfn en hefur beðið fyrir kveðju sína til þessa safnaðar.

Eigindir og vinna

Hugsaðu um Doju. Hvernig var hún, hvað var hún þér? Hvað gaf hún þér og hvernig viltu minnast hennar? Hún reyndi ekki aðeins að hlusta á hvað þú sagðir heldur reyndi svo sannarlega að lesa af vörum þér orð, merkingu og meiningu. Hún vakti yfir velferð fólks. Hún var natin móðir og vildi tryggja að börnin hennar fengju gott veganesti til ævigöngunnar. Þau hafa enda sýnt í lífinu að þau fengu góða heimanfylgju. Lárus skaffaði vel, Doja spilaði úr eins og hún kunni best. Flugið skilaði líka munaðarvöru í heimilislífið. Doja var smekkvís og hannyrðakona, saumaði og kunni vel til verka og fólkið hennar var vel til fara. Hún var að eðlisfari félagslynd og þrátt fyrir heyrnarskerðingu sótti hún í að vera innan um glatt fólk, en á síðari árum veigraði hún sér við að vera í fjölmenni.

Þegar Birna var komin á legg tók Doja ákvörðun upp á sitt eindæmi – hún ætlaði út á vinnumarkaðinn að nýju. Hún hafði eftir komuna suður fengið vinnu í Landsbankanum en tók sér svo vinnuhlé til að sinna uppeldinu. En svo þegar tíminn var komin á vinnu að nýju fann hún góðan vinnustað í Dagvist barna. Þar eignaðist hún góða félaga í samstarfsfólki, sem vann í þágu framtíðar borgar og þjóðar. Doja gegndi trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt og samstarfsfólk eða þar til hún fór á eftirlaun 65 ára að aldri.

Skil

Svo urðu skil í einkalífi Doju. Hjúskapur þeirra Lárusar endaði. Þau bjuggu saman í rúmlega aldarfjórðung, en svo trosnaði sambandið og leiðir skildu. Lárus flutti ekki aðeins út heldur utan. Skyndilega voru Birna og Doja einar i kotinu og fluttu upp í Breiðholt. Svo fór Birna fór svo til náms í Seattle og Doja flutti á ný og nú í Furugerði. Birna kom svo heim og fór vestur þar sem hún kynntist manni sínum og eignaðist börn sín. Börn hennar og börn Þóris urðu ömmunni gleðigjafar og hún gaf þeim af sér og sínu. Og hún var til í að pakka búslóð sinni niður þegar tvíburar Birnu komu í heiminn og fór vestur í nokkur ár til að styðja dóttur sína í önnum hennar. Og sú gjöf hennar er þakkarverð. Doja náði að tengjast öllum barnabörnum sínum traustum böndum, bæði þeim sem hér eru og einnig hinum fyrir vestan. Afkomendum sínum var hún natin amma, las fyrir þau, sá til að allt væri snyrtilegt í kringum þau og þau nytu þess sem hún gat gefið þeim. Hún úthellti gjöfum yfir þau, laumaði að þeim pening og þótti gaman að gauka að þeim einhverju í munn einnig. Og ekki gleymdi hún fullorðna fólkinu heldur.

Svo fór hún suður aftur í Furgerðið. Þegar heilsa hennar brast fór hún í Árskóga í mars á síðasta ári og síðustu mánuðina var hún á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð – sem hefur um tíma verið til húsa á Vífilsstöðum og þar lést Doja. Dóttir hennar og sonur, og elsta barnabarnið voru hjá henni, héldu í hönd hennar þegar hún skildi við.

Sólarkaffi himins

Og nú eru skil. Nú eru skil hjá Doju og nýtt skeið er hafið. Í lífi afkomenda hennar eru stöðugt að verða skil og ný skeið að hefjast. Dóttirdóttir Doju lauk leikskólaveru sinni í fyrradag og hún og hin börnin voru send til að leita að lyklum grunnskólans. Og Heiður fann sinn lykil og á honum var letruð rún sem visar á gæfu og táknar gjöf. Og við megum alveg sjá í því ofurlítið tákn um að lífið lifir, lífið heldur áfram. Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Fólkið hennar Doju nýtur gæfu, en sjálf er hún farin inn í blámóðu himinsins.

Hver er merking nafnsins Dóra – það er gjöf. Hver er afstaða Guðs gagnvart  heimi, henni og þér? Það er elska og gjöf. Og þú mátt því sleppa Doju, leyfa henni að fara inn í stórfang himinsins. Þar eru engar þrengingar, þar er enginn yfirgefinn, þar skyggja engin sorgarfjöll á lífið. Þar er samfellt sólarkaffi um alla eilífð. Þar heyrir hún allt skýrt, þar er samfélag elskusemi og gjafmildi.

Lærðu af Doju að gefa. Trúðu að líf hennar er varðveitt í gjafmildi Guðs, sem elskar hana, elskar þig, elskar þitt fólk og elskar veröldina. Guð geymi Doju og Guð geymi þig um alla eilífð.

14. júní 2012.