Greinasafn fyrir merki: dómur

Hvernig er Guð?

IMG_3082Í vikunni komu tveir ungir menn í Hallgrímskirkju og báðu um viðtal við prest. Þeir komu frá austurhluta Belgíu, settust niður í sófann hjá mér og var mikið niðri fyrir. Þeir upplýstu að þeir væru ekki komnir til Íslands til að skoða íslenska náttúru eða íslenskt mannlíf. Nei, þeir voru komnir til að hitta forseta Íslands og presta á Íslandi. Ég gat alveg skilið að þeir heimsæktu kirkjur og ef þeir rækjust á prestana ræddu þeir við þá líka. Nei, þeir voru ekki kirkjutúristar. Þegar þeir komu í Hallgrímskirkju fóru þeir ekki inn í kirkjuna og höfðu takmarkaðan áhuga á húsinu, listinni og söfnuðinum.

Undir dómi?

Þessir ungu Belgar voru í afar sértækum erindagerðum við forsetann og prestana: „Við erum komnir til að vara fólk við dómi Guðs, vara fólk við til að það iðrist.“ Og þeir upplýstu að siðferðilegt ástand íslensku þjóðarinnar væri slæmt. „Ef þið takið ekki til hjá ykkur verðið þið fyrir alvarlegri refsingu.“ Þetta voru skilaboðin.

Það sló mig að þessir unglingspiltar töluðu og hegðu sér eins og þeir væru þrjú þúsund ára spámenn sem komu með hræðilegan boðskap út úr eyðimerkurryki Miðausturlanda. Fyrst hélt ég að þeir væru að ýkja eða væru með falda myndavél. Svo fór ég að ímynda mér að þeir væru að leika nútímaútgáfu að Jónasi spámanni sem endaði í hvalnum áður en hann fór til Ninive. En svo dagaði á mig að þessi strákar voru komnir alla leið til Íslands til að hitta Guðna Th. Jóhannesson og fjölda af prestum til að tilkynna okkur að við yrðum að snúa baki við öllum nútímaviðmiðum t.d. um samskipti kynja, bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu. Ef ekki, ja þá myndum við farast í eldgosi. Annar þeirra hafði orðið fyrir vitrun. Hann fullyrti að Guð hefði sagt honum þetta beint eins Guð talaði forðum við spámanninn Jónas.

Siðferðileg sýn?

Mér fannst heimsókn dómsspámannanna vondur gjörningur. Það var reyndar furðulegt að þeir sæktu svo langt í burtu frá aðstæðum og þörfum heimahaganna. Eru ekki næg verkefni í Belgíu? Mikil spenna hefur ríkt m.a. vegna múslima sem stýrðu árásum á París fyrir tæplega ári síðan. Hafa þessir ungspámenn hlutverk heima fremur en að fara í trúarvíking til Íslands? Siðferðilega fjarsýnir frekar en nærsýnir?

Þroskaskeiðin

Augljóst var af samtölunum að þessir drengir væru að fara í gegnum þroskaskeið. Mér var ljóst að þeir væru í leit að hlutverki og tilgangi með eigið líf. Flest ungt fólk reynir að spegla eigin hlutverk og drauma í speglum annarra. Flest ungt fólk finnur sér fyrirmyndir, hvort sem það er í fótbolta, pop-menningu, celebum eða snillingum og reynir að líkja eftir fyrirmyndum til að móta eigin stefnu. Mínir strákar horfa á bestu fótboltamenn í heimi og máta sig í íþróttalíf. Mig grunaði að þessir strákar hefðu nördast í einhverjum menningarkima og notað þrjú þúsund ára spámannstexta til að varpa vonum um eigin afrek yfir á Ísland.

Og ég þakkaði Guði í hljóði fyrir að þeir voru ekki í sjálfsvígshugleiðingum – ætluðu ekki að framfylgja einhverjum reiðiórum með því að sprengja eða skjóta Íslendinga. Nei, dómurinn sem þeir boðuðu var eldgos sem þeir ætluðu ekki að framkalla sjálfir heldur myndi Guð taka tappann úr eldfjallinu. Og ég benti á að eldgos væru algeng á Íslandi, stór og smá – það væri þekking í landinu að bregðast við og vissulega væru Katla og Hekla komnar á tíma. Og eldgosin hefðu aukið túrismann í seinni tíð. Meira segja væru ræktunaraðstæðurnar á Þorvaldseyri undir eldfjallinu Eyjafjallajökli betri nú en fyrir gos.

Vondi eða góði Guð?

„Hvað finnst þér um þennan dómsboðskap?“ spurðu Belgarnir, hissa á að ég var til í að ræða við þá. Ég svaraði þeim að allir menn þyftu reglulega að skoða sinn gang, hugsun, stefnu og verk. Allir gerðu mistök sem mikilvægt væri að viðurkenna, biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Það væri verkefni okkar allra rækta samband við Guð, menn og náttúru.

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Veröldin væri í lit – Guð elskar alls konar

Þeir glenntu upp augun og ég sagði þeim sögu af því að þegar ég var unglingur skipti ég veröldinni upp svart hvítt, í góða og vonda. En ég hefði á langri æfi lært að Guð er stærri en ég og mínar þarfir. Guð er stærri en þarfir lítilla reiðra karla í vandræðum og mun meiri en þarfir einstakra þjóða. Sá Guð sem ég þekki elskar múslima jafn mikið og kristna, heiðna menn jafn mikið og trúaða, listir jafn mikið og fótbolta, eldgos jafn mikið og tárvot smáblóm í sólarglennu sumarmorguns.

Þetta þótti þeim skrítin og of víðfeðm trú og siðferðið sem presturinn hefði túlkað allt of rúmt. Ég fullyrti að veröldin væri ekki svart-hvít heldur í lit. Guð elskaði alls konar. Það væri okkar lútherski arfur, þannig Guð þekktum við og í ljósi þess boðskapar túlkuðum við Biblíuna og hefðina. Og með það vegarnesti fóru þeir.

Guð ekki neikvæður hedur jákvæður

Og af hverju segi ég þessa sögu? Hún er ekki trúnaðarmál því þeir vildu að ég segði frá og flestir heyrðu um erindi þeirra. Ég segi ég þessa sögu svona ítarlega af því að í dag hefst fermingarfræðslan í Hallgrímskirkju og við getum notað þennan dómsgjörning til að gera okkur grein fyrir valkostum. Fólk kemur í þessa kirkju og aðrar kirkjur þjóðarinnar til að tala um trú, þroska, hlutverk, stefnu, líf í samfélagi og til hvers má vænta af okkur sem manneskjum og sem kristnum einstaklingum.

Boðskapur okkar er að Guð er ekki lítill, refsiglaður siðferðistappi, heldur stórkostleg nánd, sem umvefur okkur. Guð er ekki neikvæður heldur jákvæður. Guð blæs í okkur von, styrk, umhyggju, umburðarlyndi, hrifningu og öllu því besta sem til er í lífinu. Það eru alls konar stefnur til, aðilar og hlutir sem við getum sett í stjórnsæti lífs okkar. Í guðspjallstexta dagsins minnir Jesús á að við getum sett peningana í efsta sætið. Ef svo fer gerum við þau mistök að setja peninga í allt aðra stöðu en best hentar. Peningar eru ekki góður stjórnandi. Peningar eru bara tæki til að nota en ekki til að hlýða. Þegar við ruglumst og setjum peninga sem markmið þá verða afleiðingarnar rugl. Þá erum við komin með peningaguð en ekki handhægt verslunartæki.

Ekkert má ná tökum á okkur og móta, nema ofurgæðin sem gera okkur gott og bæta líf okkar. Okkur mönnum hættir til að setja það sem er á þarfasviðinu í bílstjórasæti lífsins. Ef við erum reið eða bitur vörpum við slíkum tilfinningum á líf okkar og látum stjórnast af þeim myrku þáttum. Ef við erum hvatalega bæld verða hvatir, t.d. kynhvöt, að stjórnvaldi lífs okkar. Ef við erum beygluð tilfinningalega vörpum við líklega vandanum yfir á öll tengsl við fólkið okkar. Hvað stjórnar þér, hvað viltu að sé leiðarljós þitt? Kirkjan getur verið þér frábær vettvangur til að hugsa um þroska þinn, hlutverk þín og þig sjálfan og sjáfa.

Á hvaða ferð ert þú?

Belgaunglingarnir eru farnir og ég hugsaði með mér: Þegar þessir strákar líta til baka eftir fjörutíu ár og hugsa um Íslandsdóminn mikla – þá munu þeir vonandi segja: „Já, þetta var merkileg ferð. Við héldum að við værum að kasta dómi yfir forseta, presta og íslensku þjóðina – en við vorum bara á okkar eigin þroskaferð. Það sem við héldum að væri fyrir aðra var okkar eigin þroskaglíma. Málið var ekki að Ísland tæki út þroska heldur við sjálfir.“

Nú ert þú á þinni ferð, þið sem eruð í kirkjunni í dag, ung eða eldri, fermingarungmenni, fjölskyldur, kórfólk frá Oslo, við starfsfólk kirkjunnar, þið sóknarfólk sem sækið messu. Þú ert á ferð – á þroskavegferð. Þú mátt gjarnan svara spurningunni sem varðar þig: Hver stjórnar þínu lífi? Eru það einhverjar sálarþarfir sem þú varpar yfir í vitund þína og réttlætir svo?

Eða hefur þú opnað fyrir þeim Guði sem gaf þér lífið, heldur þér á lífi alla daga, nærir þig fremur með von en dómi, kallar þig fremur til ástar en haturs, lýsir þér út úr myrkrinu og elskar hlátur og gaman? Það er svoleiðis Guð sem á heima í þessu guðshúsi, sem við tölum við og þráum að búi hjá okkur. Um þann Guð syngjum við, spilum fyrir í músík kirkjunnar og sjáum í leiftri listarinnar og sólarinnar í kirkjuskipinu. Við trúum á þann Guð sem Jesús opinberaði okkur. Sá Guð er ekki neikvæður heldur bara jákvæður.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 4. september, 2016. A-textaröð. 15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.