Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
Sálm. 139
Hvert get ég farið? Upp í himininn, í undirheima, í dýptir viskunnar, – alls staðar ert þú Guð. Hefur lagt hönd á bak og brjóst – heldur í mig. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er mörg þúsunda ára gömul lýsing manns á veruleika Guðs – eða kanski návist Guðs. Mannvera á ferð, en með fylgd, á leið en með föruneyti, stundum á hlaupum en þó með skugga, ekki þennan venjulega, heldur einhvern sem fylgir, áreynslulaust og hljótt. Er ekki mannlífið allt ein samfelld sókn í gæði, sókn í gildi, hamingjuleit? Og hvað er okkar í þeirri leit, af hverju óþreyjan og grunur um dýpt; hvað er Guð á þeirri för? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Það var haldið í hendina á Dagbjörtu. Hún var á ferð í lífinu. Stundum virtist hún fara utan alfaraleiða, en þó var hún aldrei ein.
Dagbjört Svana Hafliðadóttir fæddist á Lokastíg í Reykjavík 16. apríl árið 1929. Foreldrar hennar voru Bjarnheiður Jórunn Þórðardóttir og Hafliði Magnús Sæmundsson. Systkini hennar eru Sjöfn Hafliðadóttir og Þórður Bjarnar Hafliðason. Sjöfn, sem er búsett í Florida í Bandaríkjunum, fæddist tæpu ári á eftir Dagbjörtu, en Þóður tæpum þremur árum síðar. Dagbjört var því elst þeirra þriggja og yngri systkinin lifa systur sína. Á fyrsta ári Dagbjartar reistu foreldrar hennar ásamt móður-afa og ömmu húsið á Sjafnargötu 6. Reyndar var húsið minna þá en það er í dag, því byggt hefur verið við það. Sjafnargatan varð því heimareitur Dagbjartar upp frá því, húsið heimahús og þaðan fór hún i ferðir sínar, hvort sem það var í vinnu, utanlandsferðir í lengri og skemmri dvöl, eða ferðir í heimi sálar og anda.
Húsið varð sem tákn um Reykjavík þessara áratuga. Hafliði hafði stundað nám í Englandi og var ráðinn til hins nýbyggða Austurbæjarskóla. Hann var fulltrúi hinnar nýju menntuðu kennarakynslóðar, sem hafði metnað til að menntast vel til kennslustarfa, til að ala síðan upp nýjar kynslóðir sístækkandi bæjar, til að fleyta inn í framtíð uppbyggingar. Í húsnæðiseklunni kom hver kennarinn á fætur öðrum og leigði herbergi. Þeir urðu vinir fjölskyldunnar og snertu strengi í sálum fólksins í húsinu, tengdust með ýmsum hætti, tóku með sér andblæ, minningar og skildu eftir myndir, hlátur, skop og fróðleik af ýmsu tagi. Húsið var hús skólalífs, hús menningarlífs og hús fjölbreytninnar. En það varð eins og stórfjölskylduhús í sveit með öllum kynslóðum, með öllum kostum stórlífsins en sjálfsagt einnig ókostum og nábýli. Og auðvitað réðu konurnar miklu – mamman var stórveldi og stefnuföst og amman kunni ýmislegt einnig, – og svo voru systurnar. Húið var eiginlega kvennahús en nú er það að breytast í karlahús.
Dagbjört sótti skólann sem pabbi hennar hafði unnið að því að móta, Austurbæjarskóla, einnig Ingimarsskóla og Lindargötuskóla. Síðan hleypti hún heimdraganum og fór nokkrum sinnum til útlanda til náms. Hún var einn vetur ung í Danmörk á húsmæðraskóla i Söborg eftir stríð. Í annan tíma var hún í Frakklandi, var í París og Canne. Þar varð hún meira að segja blómadrottning og af henni voru birtar myndir í blöðum. En fegurðarbrautina hafði hún ekki í hyggju að þræða. Um tíma var Dagbjört í Ameríku, einkum í Toronto, við nám og lagði sig eftir skólun í greinum verslunar. Systir hennar giftist Ameríkana og Dagbjört hafði gaman af að vera hjá tengdafólki systur sinnar, enda lifði það nokkru ævintýralífi.
Á Íslandi stundaði Dagbjört einkum skrifstofu- og verslunarstörf. Hún starfaði m.a. á Ferðaskrifstofunni Sunnu um tíma, á Ríkisútvarpinu einnig, hjá Frama, bókaverslun Ísafoldar og víðar – var eftirsótt í vinnu því hún var lipur, ljúf. Dagbjört hafði útgeislun. Svo kom Guðmundur Ingvi Helgason inn í líf hennar. Þau felldu hugi saman og gengu í hjúskap árið 1950. Guðmundur flutti inn í húsið góða og kom með nýjan gust, með pólitíska orðræðu samtíðar og íþróttaorku úr hverfisfélaginu Val. Þar hafði hann og vinir hans stundað knattspyrnu. Guðmundur var nær tíu árum eldri en Dagjbört. Þau eignuðust eitt barn, soninn Hafliða Magnús, sem fæddist þeim sömuleiðis happaárið 1950. Guðmundur vann lengstum hjá embætti Tollstjóra og síðar á Alþingi. Þau Dagbjört áttu saman mörg góð ár áður en hún veiktist og þau ákváðu að slíta samvistum. Samgangur var áfram góður og einnig milli Guðmundar og fjölskyldu Dagbjartar þó þau væru skilin að skiptum.
Hafliði á Guðbjörn Ingva, Dagbjörtu Ingu, Helgu, Guðmund Sindra, Egil Heiðar og Daníel Magnús. Kona Hafliða er Anna Dóra Sigurðardóttir. Langömmubörnin eru tvö Magnus og Freyja, börn Dagbjartar Ingu.
Hafliði, faðir Dagbjartar, lést skyndilega árið 1940 frá konu og ungum börnum. Alla tíð sat sorgin í viðkvæmu sinni Dagbjartar. Hún var ekki nema um tíu ára gömul. Hún hélt inn í sig, varð dul með tíð og tíma, sveipaði sig blæju hlédrænginnar og fór um eigin lönd. Niður og upp, og tók út þroska einnig til hliðar við skólun í menntastofnunum og mannfélaginu. Hún átti það til að hopa aftur fyrir Sjöfnu, og skýla sér að baki henni, – leitaði líka til hennar þegar að kreppti. Svo þegar hún var á fertugsaldri sprakk eitthvað í sálinni og yfir hana flæddu tilfinningar sem hún réð ekki við og skóku líf hennar og ástvina. Hvert gat hún flúið, hvar var skjól að finna? Líklega varð það mamman sem hún leitaði helst til þegar flóðið var sem verst í sálinni.
En Dagbjört reyndi hvað hún gat að leita sér styrks og aðstoðar. Hún lagði sig eftir “náttúrulegum” meðölum, lagði sig eftir að nýta lækningamátt náttúrunnar, leitaði vísdóms hjá því fólki, sem vildi nota hollráð sem kynslóðirnar höfðu sannreynt að gátu oft hjálpað. Hún var náttúrulækningakona í hófsömum skilningi þess orðs. Hún lagði sig jafnvel eftir að kynna sér nudd. Á síðasta tímabili ævinnar rofaði vel til og þegar hún flutti í Sóltún reyndist það henni góður staður sem stóð undir nafni.
Dagbjört var á ferðinni í lífinu. Hún fór milli staða, hún hafði gaman af ferðalögum í æsku, gekk á fjöll og fór oft til útlanda á fullorðinsárum. Hún fór með Guðmundi sínum til Spánar einu sinni með Heklunni, í annan tíma með Hafliða til Edinborgar, auk ferðanna sem áður eru nefndar. Hún var í tengslum við allan heiminn, og kanski á undan sinni samtíð í því. Hún var í samskiptum við allan heiminn, allavega vöktu bréfin frá Japan aðdáun á heimilinu, og sonur Dagbjartar horði á þau undrunaraugum. Mamma var í miklum málum.
Dagbjört hafði gaman af hreyfingu og dansaði jafnvel ballet í Þjóðleikhúsinu um tíma á æskuárum. Svo steig hún á svið og lék með Sjöfn systur sinni einu sinni. Hún hafði líka áhuga á ferðum um heima ljóða og skáldverka. Bækurnar urðu athvarf hennar þegar hún þarfnaðist hvíldar og hressingar andans.
Hún hafði áhuga á fegurðinni og var meðvituð um nýjar stefnur og strauma í innanhúsarkitektúr. Hún hannaði umhverfi sitt og lagði jafnvel í nýjungar sem voru á undan samtíð hennar við frágang íbuðarinnar.
Samnefnarinn í lífi Dagbjartar var ljúfmennskan. Hún var góður fulltrúi bernskuhússins sem var hús samheldninnnar. Hún var alla tíð umhyggjusöm móðir og amma. Sonurinn var augasteinninn hennar og hún var vakin og sofin varðandi velferð hans og fjölskyldu hans. Barnabörnin voru vanin við að sinna ömmu sinni, sambandið milli ættliða rofnaði ekki í stórhúsinu á Sjafnargötu. Með minninguna um góða ömmu halda ungir drengir og fullvaxin ömmubörn út í lífið.
Dagbjört leitaði – leitaði heilbrigði og hamingju. Hvert get ég farið…? Svo var spurt til forna. Svarið gaf ljóðskáld sálmanna sem kenndir eru við Davíð: Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
Lífið hennar var ferð um allar lendur myrkurs og ljóss, undirheima og himinsælu. Líf hennar myrkvaðist um tíma, en hún kom upp úr djúpinu, reynd kona, með útsýn og innsýn sem gefur þá vitund að það er fólk sem er dýrmætt, börnin, afkvæmin, ásvinir.
Hvert get ég farið? Mannvera á ferð, en með fylgd, með gott föruneyti, stundum með vanlíðan en ávallt með styðjandi hendi, sem ekki brást. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Getur ekki Dagbjört orðið okkur hvati og vegvísir að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Dagbjört hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er ekki myrkt heldur má líf hennar vera samfelld birta, samfelldur dagur, í stórhúsinu þar sem samheldnin er alger, Sóltúni himins. Þar er Lokastígur og þar er upphafsbrautin, því Guð geymir hana um alla eilífð.
- maí 2004