Greinasafn fyrir merki: Brún Bæjarsveit

Krem úr bývaxi og úr Borgarfirði

Elín Sigrún, kona mín, var beðin að halda fyrirlestur um erfðarétt, erfðaskrár og kaupmála fyrir eldri borgara í uppsveitum Borgarfjarðar. Hún tók beiðninni ljúflega, dagurinn var ákveðinn og ég bauðst til að aka fyrirlesaranum í félagsheimilið Brún í Bæjarsveit. Veðrið á fundardegi var hið besta og héraðið var heillandi fagurt. Eftir að formlegri dagskrá lauk var sest niður og kaffið var gott og veitingarnar stórkostlegar. Sögur flugu og hlátrar ómuðu. Ég hitti Magnús B. Jónsson, fyrrum skólastjóra bændaskólans, og rifjaði upp með honum skemmtilega heimsókn guðfræðinema í Hvanneyri og Borgarfjörð fyrir nær hálfri öld! Það var gaman að sjá blikið í augum Magnúsar. Jói í Litla Hvammi, borðfélagi minn, sá þurrkblett í lófa mínum og spurði hvað ég notaði til mýkingar. Ég viðurkenndi að tilraunir hefðu ekki skilað handmýkt. Hann taldi að bývaxið frá Litla Hvammi gæti dugað og sagði mér frá býflugum þeirra hjóna og kremgerð. Með gleði í hjarta, hlátra í eyrum og kvöldsól í augum ókum við svo suður. Nokkrum dögum síðar kom ég heim og þá var bíll að leggja við húsið okkar. Þar var kominn Jói í Litla Hvammi og án þess að gera boð á undan sér. Með bros í augum rétti hann mér krukku með bývaxkremi og bað mig að prufa hvort það hefði jákvæð áhrif á exemblettinn þurra. Síðan hef ég notað áburðinn frá Litla Hvammi og viti menn – þetta er besta kremið – undrasmyrsl. Svo er það drýgra heldur annað krem. Þurru blettirnir skána og ég lofsyng hjónin og býflugurnar í Litla Hvammi. Og lyktin – maður minn – hún er dásamleg og minnir mig á faðm Borgarfjarðar og skemmtilegt og umhyggjusamt fólk. Takk fyrir.