Greinasafn fyrir merki: Björn Árnason

Björn Árnason – minningarorð

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Sólin skein á kistu Björns þegar útför hans var gerð frá Neskirkju 11. maí 2007, minnti á lífshátt hans og líka himinljósið mikla. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Hvaða mynd hefur þú af Birni Árnasyni? Hvaða minning um hann yljar þér og gleður? Er hann þér minnisstæður þegar hann sat í hópi fólks, sagði sögu, rétti upp hendi, hló og sló sér á læri?

Eða er það bæjarverkfræðingurinn, sem stóð við öskuhauga Hafnfirðinga, sá til þess að ruslið fyki ekki um allt og yrði öllum til ama og Hafnfirðingum til skammar?  

Eða er það þegar hann stóð stoltur og brosandi við hlið konu sinnar?

Eða er það myndin af skógarbóndanum, sem vakti yfir vonarsprotum sínum, sá til að engin planta lægi rótarber og óniðursett á víðavangi, og átti skyrdollu til að geyma hana í þar til hún færi í mold?

 Eða er það af afanum, sem réð til sín barnabörnin, tengdi þau saman, kenndi þeim að verða hlekkur í keðju frændgarðs, tíma og lífs – afa sem vissulega elskaði góðan mat, en hafði líka húmor fyrir eigin gúrmetísku áföllum við einfalda pastasuðu?

Eða heillar þig myndin af berjamanninum, sem fremur vildi flengjast um fjöll á köldum haustdögum en fara til sólarlanda, vildi falla inn í litasprengjur haustsins, hamast í brekkunum við að draga björg í bú, fylla alla koppa og kirnur og hús sitt af ávexti jarðar og naut síðan lengi og hafði líka unun af að deila gæðunum með fólkinu sínu og vinum.

Myndirnar af Birni eru margar, flestar skemmtilegar og elskulegar. Hvaða mynd ætlar þú að lyfta í huga og til hvers? Hvernig viltu heiðra minningu Björns? Önnur vídd þeirrar spurningar er: Hvernig viltu lifa svo vel sé lifað og til góðs? 

Grænar grundir, dimma og líf

  1. sálmur Davíðs er ljóð um mennsku og líf:

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast….

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því þú ert hjá mér…

Þú býrð mér borð…

bikar minn er barmafullur…

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Þegar við rjúkum af stað inn í lífið og út í verkefni og ævintýri með óþreyju og fyrirgangi er áhyggjan oft fjarri. En svo verða skaflarnir fyrir og líka áföll og sum djúp. Ævin er kaflaskipt og skiptir miklu að vinna úr, hreinsa gullið í lífinu og taka út þroska. Björn naut gjöfullar ævi, var mikið gefið, naut lengstum gæfu í einkalífi, en slapp ekki heldur við sorgirnar. Hann átti sínar grænu grundir, borð og barmafullan bikar, já langa ævi. En hvað er svo gildi þessa brambolts? Hvað skiptir máli? Að því lýtur þráin hið innra, lífsreynsluspurningarnar, sem eru eins og vængjaslög eilífðar í tíma.

Ætt og uppruni

Björn Árnason fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1928. Foreldrar hans voru Árni Björn Björnsson, gullsmiður, og Svanbjörg Hróðný Einarsdóttir, prests í Reykholti. Gull og Guð voru því samhengi uppvaxtar Björns. Hann var yngsta barn foreldra sinna. Bræður Björns voru Haraldur og Einar. Þeir eru báðir látnir.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín.

Eftir stúdentspróf frá M.R. árið 1948 hélt Björn utan til náms í vélaverkfræði í Svíþjóð og lauk prófi frá Chalmers Tekniska högskolan í Gautaborg árið 1954. Björn réð sig til Kockums Mekaniska Verkstad í Málmey. Wikipedia uppfræðir, að þetta mikla þungaiðnaðar-fyrirtæki hafi verið þessi árin eitt hið stærsta í heimi í sinni grein. Nýútskrifaður verkfræðingur fékk því verkefni við hæfi. Með reynslu og menntun í veganesti varð Björn svo yfirmaður Áhaldahúss Reykjavíkur árið 1957 og síðan forstjóri Vélamiðstöðvar 1964. Þegar framkvæmdir hófust við Búrfellsvirkjun tók hann glaður þátt í því ævintýri og var deildarverkfræðingur hjá Fosskraft. En lengst þjónaði Björn Hafnfirðingum. Hann var bæjarverkfræðingur í Firðinum í 27 ár eða frá 1968-95.

Hjúskapur

Í ársbyrjun 1953 gengu Ingunn Sigríður Ágústsdóttir og Björn í hjónaband. Gógó átti sér uppvaxtarreit á vatnsbakka Elliðaánna og verkfræðingnum þótti ekki verra að hún var alinn upp í nágrenni vélanna og í stuðinu í Elliðaárvirkjun – pabbi hennar var þar stöðvarstjóri. Og straumurinn hljóp í Björn þegar hann hitti hana fyrst. Það var alltaf stæll á þeim Birni og Gógó. Ef þau hefðu verið sjálfráð að, hefðu þau ekki geta valið öllu flottari stað en Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn fyrir sinn fyrsta fund og tillit. Þar voru þeir skólabræður Manfreð Vilhjálmsson á leið heim og sáu þá tvær íslenskar draumadísir á torginu með stúdentshúfurnar á kollum – núútskrifaðar úr Versló. Siglingin heim varð þeim happadrjúg og þær urðu þeirra eiginkonur. Allir vissu og fundu, að Björn elskaði og átti alla hamingju lífsins miðjaða í Gógó.

Hún var honum jafnoki, ríkisstjórnin, sem var spurð, vinur, lífsakkeri og félagi. Saman stóðu þau í öllu verkum og áætlunum. Hún stóð við hlið hans í uppbyggingu heimilis, á Laugalæknum, á Markarflöt í Garðabæ og síðan í Hafnarfirði í Klettahrauninu. Ingunn var hin trausta húsmóðir og hélt flóknum þráðum heimilis og uppeldis saman og heimilislífið blómstraði, börnin komust til manns. Gógó fór svo að vinna, sem skólaritari í Flataskóla í Garðabæ. Og svo reið lagið yfir. Gógó féll fyrir krabbameini í júníbyrjun árið 1985 og veröldin umpólaðist. Björn bar sig vel, beit á jaxlinn, setti upp svip æðruleysis og hélt áfram lífinu. Sorgarvinna var ekki viðurkennd reikningskúnst karlmanna á þessum árum. 

Börnin

Þau Gógó og Björn eignuðust fjögur börn, sem öll lifa foreldra sína. Elst er Kristín og hennar maður er Friðrik Már Baldursson. Þeirra börn eru tvö. Næstelstur er Árni Björn og hans kona er Halldóra Kristín Bragadóttir. Þau eiga tvö börn einnig. Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Valur Ragnarsson. Börnin eru tvö og barnabarn að auki. Björn Ágúst er yngstur. Kona hans er Kristín Lúðvíksdóttir og þau eiga samtals þrjú börn.

Allur þessi hópur er glæsilegt manndómsfólk hvernig sem þau eru skoðuð og skilin. En mestu skiptir þó, að þetta er gæfufólk. Björnsbörnin eru foreldrum sínum öflugt vitni um elsku, natni, húmor og árvekni. Og tengdabörnin fengu hlýtt já og stuðning. Sterk fjölskyldubönd eru ekki sjálfsprottin, heldur ávöxtur tengslaæfinga og uppeldis.

Vaka Valsdóttir er erlendis og biður fyrir kveðjur til ykkar, sem hér eruð og kveðjið.

Eftir að Ingunn féll frá hóf Björn sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur. Þau slitu samvistir eftir nokkurra ára sambúð. 

Hugðarefni og störf

Björn var manna kátastur á mannamótum, orðheppinn, minnugur á nöfn, staði og staðreyndir, glaðsinna, jafnlyndur, hlýr og sögumaður. Hann var glæsimenni, fínn í tauinu, bar sig vel og hreif fólk. Björn var praktískur fagurkeri. Margir vildu njóta félagsskapar hans og liðsinnis. Birni voru falin mörg embætti á lífsleiðinni. Hann starfaði lengi í Rotary-klúbbi Hafnarfjarðar. Hann var áhugamaður um stjórnmál og staðfastur sjálfstæðismaður. Hann hafði gaman að ræða pólitík og sem margsjóaður embættismaður gat hann greint kjarna frá hismi, fúskið frá hagnýtri og skilvirkri pólitík.

Í bernsku blésu foreldrar Birni í brjóst gróður- og skógræktaráhuga. Hann tók þátt í starfi skógræktarfélagsins í Hafnarfirði og Skógræktarfélagi Íslands. Hann tengdi verkfræðina og umhverfismál. Björn beitti sér mjög fyrir ábyrgri sorpförgun, tók þátt í undirbúningi Sorpu og var frumkvöðull í sorphirðumálum sveitarfélaganna á suðvesturhorninu. Svo hafði hann áhuga á gróðurvernd í landnámi Ingólfs og vann að stofnun fólkvangs og var um tíma í stjórn Landgræðslusjóðs.  

Björn var áhugamaður um tónlist, unni henni, var klassískur í smekk, lék á hljóðfæri í æsku og sótti tónleika hvenær sem færi gafst.

Mykjunes

Nýr áfangi hófst í lífi Björns þegar þeir Haraldur, bróðir hans, keyptu jörðina Mykjunes í Holtum árið 1990. Í því, sem Björn skildi eftir sig á prenti er ljóst, að í honum bjó ræktunar-, gróður- og ekki síst skógræktar-áhugi. Allt líf á sér aðveituæðar, tré eiga sér rætur og ræktunaráhugi líka. Reykholtsfjölskyldan hafði, með miklum krafti, efnt til og komið upp hinum stóra skógarreit í Reykholti til minningar um prestshjónin þar. Björn tók vel við skógarviti síns fólks og í minningariti um Reykholtshjónin segir Björn, að hann hyggi á langlífi og ætli sér að lokum að deyja standandi í eigin skógi! Það, eins og flest sem Björn stefndi að, gekk fullkomlega eftir. Hann dó í miðju verki, í vorinu, í vaknandi skóginum fyrir austan 30. apríl síðastliðinn.

Skógræktin í Mykjunesi er rismikill bautasteinn, sem Björn reisti sjálfum sér, eða eigum við að segja vistkerfi sem hann þjónaði með natni lífgjafans. Það er afrek að planta um þrjú hundruð þúsund plöntum á annað hundrað hektara lands á þessum fáu árum, sem liðin eru, eiginlega kraftaverk. Þegar Björn var laus undan verkum, skyldum og kvöðum annarra gat hann snúið sér að skógræktinni með fullum krafti. Það gerði hann, en hann var ekki einn. Haraldur, bróðir, var þarna fyrstu árin og svo líka stór hópur barnabarna, sem Björn var svo snjall að ráða í vinnu. Krakkarnir puðuðu saman og tengdust því. Björn kenndi þeim verklægni, verkferla og afköst, skemmti þeim og þjónaði, blés þeim brjóst virðingu fyrir gróðri, natni í störfum, tilfinningu fyrir lífkeðjunni, sem jafnframt er æfing í visku um eigin stöðu í stærra samhengi, mörk og tíðir.

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Þau vissu öll hversu mikilvægt Mykjunes var honum og hversu djúpar rætur hans voru orðnar meðal þessara vina, sem voru að vakna inn í vorið, teygja anga sína mót lofti og sól sumarsins. “Það er allt vel lukkað, gott og blessað, fagurt og indælt.” Strípuð Holtin eru að breytast í skóglendi og framtíðin spírar í unga fólkinu. 

Björn og lífið

Hvað mynd af Birni hefur þú í huga, hvaða lærdóm dregur þú heim, frá honum? Hvernig ætlar þú að heiðra minningu hans með hamingjurækt í eigin lífi? Hann færir þér ekki lengur “svartini” á góðri stund. Hann kemur ekki framar með þunga berjafötu í hendi og kátínu í augum. Hann slær sér ekki framar á lær og segir þér kostulegar sögur. Hann stoppar ekki lengur elda í sorpinu. Og hann ræður afkvæmi barna sinna aldrei aftur í vinnu. Björn er farinn og stingandi fjarvera hans spyr þig um eigið líf.

Drottinn er minn hirðir… Á grænum grundum lætur hann mig hvílast…. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér… Þú býrð mér borð… bikar minn er barmafullur… og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Faðmur himinsins umlykur Gógó, Björn, já, öll þessi sem þú manst og elskar. Þakkaðu fyrir hann Björn, þakkaðu fyrir kynnin og farðu vel með eigið líf.  

Austur í Mykjunesi leika hrossagaukarnir sér og stunda sínar músíkdýfur. Mófuglar vinna að hreiðurgerð og mikill skógur vaknar til lífs. Milljarðar laufblaða lifa af því Björn elskaði lífið og vildi skila sínu. Allur þessi lauf- og barrheimur mun syngja í sumar og jafnvel aldir kliðmjúka lífssálma, um lífgjafa sinn, um fegurð heimsins, um ást, um að lífið er sterkari en dauðinn. Í því mikla samhengi lifði Björn og mun lifa. Guð blessi og varðveiti Björn Árnason.

 Minningarorð við útför Björns í Neskirkju 11. maí 2007.

Æviágrip

Björn Árnason fæddist í Reykjavík, 12. ágúst árið 1928.  Hann lést á heimili sínu í Mykjunesi í Holtum 30. apríl síðastliðinn.  Björn var sonur hjónanna Árna Björns Björnssonar gullsmíðameistara og kaupmanns í Reykjavík, f. 11. mars 1896, d. 2. júlí 1947 og Svanbjargar Hróðnýjar Einarsdóttur, f. 20. júlí 1899, d. 27. nóvember 1986. Föðurforeldrar: Björn Símonarson, gullsmiður á Sauðárkróki og í Reykjavík, f. 26. apríl 1853, d. 27. desember 1914 og Kristín Björnsdóttir forstöðukona veitingasölu og Björnsbakarís, f. 11. desember 1866, d. 5. maí 1927.Móðurforeldrar: Einar Pálsson, prestur í Reykholti, f. 24. júlí 1868, d. 27. janúar 1951 og Jóhanna Katrín Kristjana Eggertsdóttir Briem, f. 2. febrúar 1872, d. 4. desember 1962. Bræður Björns voru Haraldur, f. 7. febrúar 1923, d. 10. mars 2003 og Einar, f. 22. desember 1926, d. 15. september 1992.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín, f. 12. júní 1925.  Björn giftist 10. janúar 1953, Ingunni Sigríði Ágústsdóttur, f. 2. október 1930, d. 8. júní 1985. Hún var dóttir hjónanna Björns Ágústar Guðmundssonar yfirvélstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Sogsvirkjana, f. 10. desember 1889, d. 27. desember 1952 og  Sigríðar Pálsdóttur f. 21. júní 1895, d. 12. febrúar 1989. Björn Ágúst og Sigríður voru kennd við Rafstöðina við Elliðaár þar sem þau bjuggu í áratugi. Ingunn starfaði síðustu æviár sín sem skólaritari í Garðabæ. Börn Björns og Ingunnar eru: 1) Kristín, prófessor við Háskóla Íslands, f. 22. desember 1956.  Eiginmaður hennar er Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskóla Íslands, f. 11. apríl 1957.  Börn þeirra eru: a) Jóhanna Katrín, f. 1. apríl 1980 og b) Björn Már, f. 11. júní 1990.  2)  Árni Björn, verkfræðingur, f. 20. september 1958.  Eiginkona hans er Halldóra Kristín Bragadóttir, arkitekt, f. 21. maí 1960. Börn þeirra eru: a) Bragi, f. 2. október 1986 og b) Ingunn Sigríður, f. 16. nóvember 1990.  3)  Sigríður, lyfjafræðingur, f. 2. apríl 1962. Eiginmaður hennar er Valur Ragnarsson, lyfjafræðingur, f. 13. janúar 1964.  Börn þeirra eru: a) Ingunn Ýr, f. 17. maí 1983, hennar maki er Hannes Þorsteinn Sigurðsson og eiga þau eina dóttur, Freyju, f. 16. nóvember 2006.  b) Vaka, f. 3. maí 1989.  4) Björn Ágúst, verkfræðingur, f. 9. júlí 1967.  Eiginkona hans er Kristín Lúðvíksdóttir, viðskiptafræðingur, f. 5. nóvember 1969.  Börn þeirra eru: a) Þorsteinn Friðrik, f. 19. nóvember 1992, b) Sólveig, f. 5. ágúst 1999 og c) Haraldur f. 24. september 2006.  Björn var um tíma í sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur, f. 14. ágúst 1936, en þau slitu samvistum. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og prófi í vélaverkfræði frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg í Svíþjóð árið 1954.  Árin 1954-56 starfaði Björn hjá Kockums Mekaniska Verkstad AB í Málmey í Svíþjóð.  Hann starfaði hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurbæjar 1956-66 og var forstöðumaður þess frá 1957-66.  Hann undirbjó sameiningu bifreiða- og farvélareksturs flestra fyrirtækja Reykjavíkurborgar 1960-64.  Björn var forstjóri Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar 1964-66 og síðan deildarverkfræðingur hjá Fosskraft sf. við Búrfellsvirkjun 1966-67.  Á árunum 1968-95 starfaði hann sem bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði.  Frá árinu 1995 og til dauðadags var Björn skógarbóndi í Mykjunesi í Holtum.  Björn var Rótaryfélagi frá árinu 1970 og var forseti Rótaryklúbbs Hafnarfjarðar 1976-77 og formaður skógræktarnefndar klúbbsins. Hann var varaformaður Skógræktarfélags Hafnafjarðar og heiðursfélagi frá árinu 2006. Stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands og stjórnarmaður og stjórnaformaður í Landgræðslusjóði. Björn tók fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar þátt í undirbúningi sameiginlegrar sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins frá upphafi; var varaformaður stjórnar undirbúningsfélags 1984-88; og Sorpu bs. frá stofnun árið 1988 til ársins 1994. Formaður stjórnar  Sorpu 1992-94.  Björn sat í nefndum um útgáfu fræðslurita um sorphirðu og fráveitur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisráðuneytisins.  Var meðdómari og dómkvaddur matsmaður í allmörgum málum við héraðsdómstóla í Hafnarfirði og víðar.