Greinasafn fyrir merki: Biskupskjör 2012

Inga Rún Ólafsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjuþingsfulltrúi.

Við erum stödd á lokaspretti kosningabaráttu um kjör til biskups Íslands. Það voru margir kallaðir, en nú standa eftir tveir útvaldir, sem kjósa þarf á milli.

Sigurður Árni Þórðarson hefur sett fram skýra framtýðarsýn í 7 liðum um málefni þjóðkirkjunnar. Framtíðarsýn sem lýsir einlægum vilja til þjónustu og sátta við fólkið í landinu, og einnig hugrekki til breytinga og framfara í skipulagi og starfi þjóðkirkjunnar. Ég tilheyri þeim stóra hópi leikmanna sem er tilbúin að styðja framgang hennar undir forystu Sigurðar Árna, sem biskups Íslands.
Þann tíma sem kosningabaráttan hefur staðið yfir, hefur verið aðdáunarvert  að fylgjast með því hvernig Sigurður Árni hefur hagað kosningabaráttu sinni, með dyggum stuðningi eiginkonu sinnar, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur.

Það fer ekki framhjá neinum sem þau hitta, hversu frábært teymi er þar á ferð. Eldhugar sem keppa að settu marki með kristna trú, jákvæðni, fagmennsku og virðingu  að leiðarljósi.
Þeir myndu segja í Múmíndal, Tove Jansen,  að Sigurður Árni og Elín séu fólk sem „byggjandi er nýlendu með“.  Ef hugleitt er hvað felst í því að byggja upp nýlendu, þá er varla hægt að hugsa sér meira traust eða hrós á nokkurn mann en það sem í þessum orðum felst. Já, þeir vita sínu viti í Múmíndal og þar vinna menn saman í kærleika.

Kristin trú er ný á hverjum degi. Í dag er tími og tækifæri til að byggja nýlendu framtíðarkirkjunnar. Treystum Sigurði Árna þórðarsyni til að leiða það verkefni í Guðs nafni og kjósum hann biskup Íslands.

Þjóðkirkja til góðra verka

Ég sat við eldhúsborð úti í sveit og talaði við kjörmann í biskupskjöri. „Traust til kirkjunnar verður að byggja upp að nýju“ sagði viðmælandi minn og horfði í augu mér og sagði kirkjuna alla hafa mikið en gott verk að vinna. Við borð í kirkju á Skagaströnd var ég spurður: „Stendur þú í lappirnar?“ Það er hvetjandi að verða að svara svona brýnandi spurningu. Kirkjufólkið í landinu vill að kirkjukreppu linni og hafist verði handa við uppbyggingu. Traustið þarf að endurvekja. Páskar og vor eru á næsta leiti.

Þjóðkirkjan er ekki pýramídi með preláta og biskup á toppnum, heldur hreyfing fólks um allt land, inn til dala og út til nesja. Kirkjan er farvegur fagnaðarboðskapar. Kirkjan verður til þegar fólk kemur saman á hátíðum og við krossgötur lífsins og fagnar því að lífið lifir og sigrar. Guð elskar og kallar fram líf úr dauða og sá boðskapur varðar einstaklinga, kirkju og heim.

Ég hef hitt kirkjufólk um allt land síðustu vikur. Ég hef hlustað á merkilegar sögur, notið gestrisni og hlustað á óskir um að kirkjan lifi fallega og vel. Ég hef orðið vitni að þjónustulund framar skyldu við safnaðarlífið og kirkjuhúsin. Og alls staðar er tjáð sama löngun, að kirkjan fái frið til að starfa og eflingar.

Vorverk kirkjunnar felast ekki síst í því að virkja fólk út um allt land, sem vill láta gott af sér leiða í samfélaginu og vera málsvarar gæsku og réttlætis. En þetta fólk á líka að fá að hafa áhrif á stefnu og stjórn kirkjunnar. Valdefling er mikilvæg í kirkjunni. Kirkjan dafnar þegar eining og samhugur fær að móta orð og verk. Nýr biskup hefur vorverkum að sinna.

Kirkjan er kölluð til þjónustu við heiminn og spennandi tímar eru framundan. Prestar, djáknar, söfnuðir og þjóðkirkjan eru tilbúin undir breytingar og grósku í fjölbreytilegum samtíma. Hlúa þarf að barna- og æskulýðsstarfinu í kirkjunni eins og öðru kirkjustarfi, meta mannauð og efla starfsfólk og tryggja fjármagn til góðra verka um allt land.

Verkefnin eru mörg. Þau krefjast samstöðu og einingar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Ég býð fram til þjónustu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 2012

Við eldhúsborð og á traktor

Ég sat við eldhúsborð út á Mýrunum talaði við kjörmann í biskupskjöri. „Traust til kirkjunnar verður að byggja upp að nýju“ sagði viðmælandi minn og horfði í augu mér. Traustið þarf að endurvekja. Traust, friður, uppbygging, leiði yfir vandræðum, vilji til samtaka og átak. Þetta tjá kjörmenn, sem ég hef talað við.

Ég er snortinn af þeim hóp, sem bæst hefur við í biskupsvalinu nú. Ég hef lagt til að sóknarnefndarformenn hittist reglulega á þingum til að miðla upplýsingum og þétta raðir. Og ég er enn staðráðnari í að leggja til landsfund sóknarnefndarformanna eftir að ég hef talað við marga þeirra. Þetta er öflugt fólk, sem getur lagt kirkjunni enn betra lið en verið hefur.

Nú þegar dregur að lokum undirbúnings seinni umferðar biskupskjörs er ég fullur þakklætis. Ég er þakklátur að hafa notið svo margra ánægjustunda með glöðu og velviljuðu fólki, þakklátur fyrir að þjóðkirkjan er ekki í keng, heldur fremur eins og íslensk björk sem kemur úr skaflinum og réttir sig upp mót vorsólinni. Ég er þakklátur fyrir stuðningsfólk, sem hefur lagt mikið á sig og þakklátur Guði.

Biskupskjör á sér margar víddir. Ég hef ekki aðeins lært margt, fengið margar nýjar hugmyndir, skilið enn betur starf og líf kirkjunnar í landinu, heldur líka upplifað skemmtiefni. Á Snæfellsnesi kom ég að mjög skemmtilegum manni, sem var að gera upp gamlan Deutz-traktor. Ave María hljómaði úr spilaranum hans meðan hann var að vinna. Við skiptumst á skoðunum og fyrr en varði var ég kominn upp á þennan gamla en fallega traktor, ræsti og ók af stað. Og eigandinn skellihló og skemmti sér yfir gleði biskupsefnisins. Sveitamennirnir í okkur tengdust. Ekki hafði mig órað fyrir að á þessari vegferð myndi ég kynnast Deuz. En svona er nú lífið skemmtilegt. Guð sé lof fyrir lífið, gleðina og fólkið í kirkjunni.

Fimm spurningar Fréttablaðsins

Fréttablaðið sendi fimm spurningar til okkar biskupsefna. Þær eru:

  1. Hvert verður þitt fyrsta verk til breytinga verðir þú kjörinn biskup?
  2. Hvernig hefði kirkjan átt að bregðast við í máli kvennanna sem ásökuðu Ólaf Skúlason biskup um kynferðisbrot árið 1996?
  3. Hefur þú og/eða myndir þú gefa saman samkynhneigð pör? Vinsamlegast rökstyddu svar þitt.
  4. Telur þú að allir félagar í þjóðkirkjunni eigi að hafa kosningarétt í biskupskosningum?
  5. Finnst þér afstaða kirkjunnar til mála hafa byggst um of á bókstafstrú?

Svörin er hægt lesa í Fréttablaðinu. Þau eru líka birt á vefnum Við kjósum okkur biskup – spurningar og svör þar sem er að finna svör okkar við fjölda annarra spurninga.

Ég bið ykkur að veita athygli þessum svörum því í þeim birtist mikilvægur munur á afstöðu okkar sr. Agnesar og því, sem við viljum leggja áherslu á í kirkjustarfinu.

Djúp og breið

Alger munur er á fyrri umferð í biskupsvali og hinni seinni. Almenn kynning á biskupsefnum fór fram áður en kosið var í fyrri umferð. Fyrra valið var eins konar forval. Fjöldi biskupsefna og eðli forvals varð til, að kynningar náðu þó ekki ákjósanlegri dýpt. Nú er seinni umferð að hefjast, en þó er enginn almennur fundur til kynningar.

Í fyrri umferð var nálgun kjörmanna almenn og ljóst að ekki yrði kosið til úrslita í þeirri umferð. Í seinni umferð velja kjörmenn milli tveggja. Kjörmenn hefðu því þurft gott samtal með ítarlegum svörum og á dýptina. Í ljósi þess hef ég lagt mig eftir að svara spurningum kjörmanna og fréttamanna. Kjörmenn vanda val sitt og biskupsefni virðir þær þarfir.

Fyrri umferðin var á breiddina en seinni umferðin ætti að vera á dýptina. “Djúp og breið” syngjum við í kirkjunni. Í kirkjukosningum þarf líka að vera dýpt og breidd.