Greinasafn fyrir merki: Biskupskjör 2012

Sigurður Ægisson, sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

Þegar herra Karl Sigurbjörnsson biskup lýsti því yfir 12. nóvember síðastliðinn að hann myndi láta af embætti um sumarið 2012, renndi ég í huganum yfir þá kandídata sem mér fannst til greina koma sem eftirmenn hans á stóli. Og þetta endurtók sig næstu daga. Niðurstaðan varð ávallt hin sama. Eitt nafn stóð upp úr, eða öllu heldur gnæfði yfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur undanfarið verið í miklu róti, að ekki sé fastar að orði kveðið, sterkir vindar um hana nætt, og þarfnast nauðsynlega einhvers sem getur komið henni burt úr þeim ólgusjó, hratt og örugglega, rétt kúrsinn og siglt fleyinu áfram, mót komandi tímum.

Ég tel dr. Sigurð Árna Þórðarson, prest í Neskirkju í Reykjavík, vera rétta manninn í verkið. Það byggi ég á yfir 30 ára kynnum mínum af honum. Aldrei hefur neinn skugga borið þar á. Það hefur verið gott að leita til hans, jafnt í gleði sem raun. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, alltaf hreinn og beinn. Og er umhyggjusamur og hollráður.

Hann fylgist vel með umræðu líðandi stundar, er næmur, vökull og réttsýnn. Og guðfræði hans og lífsskoðun er öfgalaus, víðfeðm, björt og hlý. Eins og hann sjálfur.

Sigurður Árni hefur allt það til að bera sem prýða má þann hirði sem verið er að leita að.

Hann tók áskorun minni og fjölmargra annarra og gefur kost á sér. Það er sannarlega fagnaðarefni.

Hvert er álit þitt á sérþjónustu kirkjunnar?

Ég uppgötvaði sérþjónustu kirkjunnar þegar kynntist sr. Jóni Bjarman. Ég var fangavörður tvö sumur í Síðumúlafangelsi. Þangað kom fangapresturinn og vitjaði fanga, færði þeim stundum bækur, hlustaði grannt á sögur þeirra og rak erindi þeirra og gætti hagsmuna með margvíslegum hætti. Hann var sem umboðsmaður fanga. Svo staldraði hann líka við hjá okkur fangavörðum.

Mér þótti þessi prestur áhugaverður og leitaði eftir að ræða við hann þegar báðir áttum tómstund. Jón opnaði mér ýmsar gáttir þegar hann ræddi um hlutverk prests í sérstæðum aðstæðum. Hann kenndi mér að skilja milli eigin persónu og vinnuþátta og þar með mikilvægi þess að setja mörk. Það hefur síðan orðið mér æviverkefni. Og hann opinberaði fyrir mér mikilvægi þes,s að leita þroska hið innra og vera jafnframt öflugur fagaðili í starfi. Því varð fangapresturinn ráðhollur meistari – öflugur fulltrúi Jesú Krists – í flóknum vinnuaðstæðum. En síðar varð hann vinur minn og velgerðarmaður.

Sr. Jón Bjarman opnaði mér gáttir að fagmennsku. Síðar komst ég að því að margir sérþjónustuprestar og síðar sérþjónustudjáknar eru flestum kollegum fyrirmynd um fagmennsku í starfi. Þau er þjóna í sérþjónustu hafa aflað sér sérmenntunar, sem hefur ekki aðeins nýst á fagstofnunum og í sértækum aðstæðum, heldur hafa miðlað þekkingu og starfsreynslu bæði gagnvart djákna- og guðfræðinemum en líka frætt okkur prestana. Fagstyrkur sérþjónustunnar hefur eflt fagmennsku prestanna og þar með kirkjustarfs með margvíslegum hætti. Sálgæsla í samtíð okkar er líklega mun öflugri en var fyrir tíð sérþjónustunnar.

Hvað finnst þér um fyrirkomulag sérþjónustu kirkjunnar?

Sérþjónustan hefur orðið skýr framlenging kirkjustarfs safnaðanna og hin kirkjulega þjónusta hefur náð mun lengra vegna sérþjónustunnar. Í sérhæfingarþróun samfélags okkar og uppbroti þjóðfélags í æ fleiri hópa og kima er sérþjónusta kirkjunnar nauðsyn.

Með árunum hafa ýmis embætti verið stofnuð og þau hafa ekki verið stofnuð út í loftið heldur í ljósi þarfa. Fleiri er þörf og er vísast flestum ljóst. Fjárskortur er raunar eina hindrunin. Ég hef nokkrar áhyggjur af launamálum sérþjónustunnar og tel mikilvægt, að launaþróun í þessu geira sé með sama hætti og meðal annarra vígðra þjóna.

Telur þú þörf á því að breyta núverandi fyrirkomulagi sérþjónustunnar?

Engra stórra breytinga er þörf að mínu viti nema auka fjárstreymi til þjónustunnar. En ég hef oft velt vöngum yfir hvort sérþjónustan þarfnist aukinnar prófasts- og tilsjónarþjónustu. Sérþjónustan nýtur prófastsþjónustu í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sem er stórt, fjölmennt og fjölbreytilegt prófastsdæmi og nær út fryer landamæri Íslands. Prófasturinn er í fullu starfi sem prestur í stórri sókn, hefur því ærin verkefni og getur ekki haft daglega tilsjón með tugum fólks í sérþjónustunni. Búast má við tilfærslu verkefna til prófastsdæma á næstu árum. Því er mér spurn hvort sérþjónustan þarfnist prófasts? Sá gæti verið aðstoðarprófstur í R. vestra til að varðveita tengslin við prófastsdæmi á Reykjavíkursvæðinu og þar með safnaðatenginguna. Tilsjón er mikilvæg. Sérþjónustan þarf sinn stuðning og athygli.

Telur þú þörf á því að efla sérþjónustu kirkjunnar og ef svo er með hvaða hætti?

Ég styð heilshugar frekari þróun og styrkingu sérþjónustunnar. Í samfélagi sundurgerðar er sérhæfingar þörf til, að þjóðkirkjan sinni þeirri þjónustu, sem á kirkjuna eru lagðar af ríkinu og felst einnig í hlutverki hennar sem þjóðkirkju. Kirkjan á að þjóna allri þjóðinni – og þjóna vel.

Mikilvægt er, að mínu viti, að tengja sérþjónustuna við kirkjur og söfnuði, ef hægt er. Í Neskirkju höfum við notið, að sérþjónustupresturinn, Toshiki Toma, hefur starfsstöð í safnaðarheimili kirkjunnar. Hann hefur með störfum, fagmennsku, þátttöku í helgihaldi og samtölum eflt starfshópinn, sem er að störfum í Neskirkju. Starfshættir og starfskunnátta hans hefur dýpkað skilning okkar hinna. En jafnframt á hann í okkur hinum kollega, sem geta stutt hann með ýmsum hætti. Þetta fyrirkomulag, að sérþjónustuprestur eða sérþjónustudjákni, eigi sér starfsstöð í söfnuði er til góðs. Ég mæli með því þegar því verður við komið.

Þessar spurningar voru sendar af fimm sérþjónustuprestum. Ég vil nota tækifærið til að þakka sérþjónustunni fyrir faggjafir hennar og þjónustu í þágu fólks og kirkju.

Sigurður Árni

Börn, græðarastarf og Fréttablaðið

Fréttablaðið spyr um afstöðu biskupsefna. Spurningar og mín svör eru þessi:

Hverju er mikilvægast að breyta innan kirkjunnar?

Kirkjan er að nútímavæðast. Góðar breytingar hafa orðið á skipulagi þjóðkirkjunnar. Ég vil kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna því börnin eru mestu dýrmætin. Ég vil líka hefja græðarastarf innan kirkjunnar með því að efla samstarf við presta, djákna og sóknarnefndarfólk um land allt. Glatt fólk þjónar vel.

Hver er þín afstaða til fulls aðskilnaðar ríkis og kirkju?

Aðskilnaðurinn er að mestu orðinn, en þjóðarsamtalið um framtíðarsamskipti þjóðar, ríkis og kirkju er varla byrjað. Kirkjan hefur ekki og sækist ekki eftir forréttindum, heldur að þjóna fólki. Þjóðkirkjan vill frið til þess að þjóna fólki vel og um allt land.

Mundir þú taka þátt í Gleðigöngunni (e. Gay Pride)?

Já. ég tek mér stöðu þar sem ég held, að Jesús Kristur hefði viljað vera. Hann stóð alltaf með fólki. Gleðigangan er í þágu réttlætis í samfélagi okkar. Mínar göngur eru göngur til gleði og Gay Pride er ganga til góðs.

 

Friðrik J. Hjartar, prestur í Garðaprestakalli

Sigurður Árni Þórðarson útskrifaðist úr Guðfræðideild Háskóla Íslands um leið og ég. Hann kynnti sig strax sem skarpur námsmaður, mikill trúmaður og góður félagi.

Hann hefur aflað sér góðrar menntunar sem nýtast mun vel í þeirri þjóðfélagsrýni sem biskup, andlegur leiðtogi þjóðarinnar, hlýtur að ástunda. Margþætt lífsreynsla hans sem prestur, sem skólamaður og sem manneskja eykur innsýn hans í lífið og gefur honum einnig aukinn styrk og þroska.

Sigurður Árni er viðræðugóður og hlýr persónuleiki sem á gott með hlustun. Hann er mikill unnandi íslenskrar náttúru, er vel máli farinn og hefur glöggt auga fyrir menningarstraumum, íslenskum sem erlendum.

Hann hefur tekist á við fjölbreytileg verkefni í störfum sínum og komið óbrotinn út úr þeim erfiðleikum sem hann hefur mætt í einkalífi sínu. Að þessu samanteknu og fleiru sem minna máli skiptir sé ég í Sigurði Árna góðan leiðtoga sem ég treysti vel til þess vandasama hlutverks að leiða mína kæru kirkju fram á veginn.

Haraldur Ólafsson, prófessor emeritus og fyrrv. alþingismaður

: 233 × 274Ég kynntist fyrst séra Sigurði Árna Þórðarsyni á ráðstefnu í Skálholti fyrir allmörgum árum. Hann stýrði þar umræðum og vakti athygli mína fyrir sköruglega fundarstjórn, vandað málfar og hæfileika til að ræða málin af yfirvegun og sanngirni. Svo liðu árin og allt í einu var hann orðinn sóknarprestur minn. Þá kynntist ég honum á ný, ef svo má segja. Prestarnir við Neskirkju hafa verið samtaka um að gera safnaðarstarfið fjölbreytt og aðlaðandi. Það eru ekki aðeins guðsþjónustur og hin venjulegu embættisverk sem einkenna starfið í kirkjunni. Alla daga virðist sem eitthvað sé þar á seyði til gagns, gamans og uppbyggingar fyrir unga sem aldraða. Þar eð ég ólst upp á kirkjustað er ekki að undra þótt ég kunni vel að meta veitingarnar í safnaðarheimilinu eftir hverja messu.

Kristin kirkja hefur um þúsund ára skeið verið samofin þjóðlífi landsmanna, hvort heldur hún var undir páfa eða evangeliskum biskupum, hvort sem hún var háð konungsvaldi eða afskiptum stjórnmálamanna.  Hvað sem líður trúarkenningum, mismunandi afstöðu til helgisiða og hvort menn tala um þjóðkirkju, kirkjuna sem stofnun, íslenska kirkju, hina evangelisk-lútersku kirkju, þá er hún ein áhrifamesta stofnun landsins og biskupar hennar áhrifamiklir fulltrúar íslenskrar menningar og þjóðlífs. Ég treysti séra Sigurði Árna sérstaklega vel til að sinna því vandasama embætti. Hann kann þá list að ræða erfið mál af yfirvegun, ræður hans bera vitni djúpri virðingu fyrir starfi sínu og hann nálgast dægurmálin af óttaleysi og segir meiningu sína af hreinskilni og án vafninga. Kirkjan mun þurfa að taka á með öðrum lýðræðislegum öflum landinu við að byggja upp gott og sanngjarnt samfélag hér á landi. Það er alls ekki svo að allt sé hér í kaldakoli. Síður en svo, en gott samfélag er alltaf í mótun. Ég veit að séra Sigurður Árni yrði sem biskup öflugur liðsmaður þeirra afla sem munu halda áfram að móta gott samfélag á Íslandi.