Greinasafn fyrir merki: Biblían

Ástin í sóttinni

Hvernig líður þér á þessum COVID-tíma? Hefur þessi tími reynt á þig, dregið þig niður eða hvílt? Líður þér verr eða betur? Og hvaða hugsar þú? Hvernig er hægt að bregaðst við í þessum aðstæðum?

Ég gekk meðfram bókahyllunum mínum og dró fram bækur um farsóttir fortíðar. Þá rakst ég bók, sem ég stalst í á unglingsárunum. Það var bókin Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni  – pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórence í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, flestar merkilegar og sumar ansi safaríkar. Svo rakst ég á aðra eftirminnilega sögu um hræðilega sótt. Og dró hana fram úr hyllunni. Það er La Peste – Plágan, bók Albert Camus, sem var í bókaskáp foreldra minna rétt hjá Tídægru. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju bernskunnar. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann. En læknirinn Bernhard Reiux var meðvitaður um hlutverk sitt og annars hjúkrunarfólks í farsóttinni. Hann vissi ekki frekar en annað samstarfsfólk hvað biði hans. Myndi hann veikjast og deyja? En hann axlaði ábyrgð, mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Og mér fannst erindi bókarinnar vera að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar. Kunnuglegt! „All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Viðbrögð í farsóttinni

Hvernig getum við brugðist við kreppum? Saga Íslands er áfallasaga. Hafís, eldgos, uppblástur, snjóflóð, sóttir, barnadauði, mannskaðar á sjó og landi. Áföllin eru í menningunni, hafa litað ljóð, mótað sögur, uppeldi, hlutverk, menningarefnið og jafnvel læðst inn í í genamengi okkar Íslendinga. Við fæðumst nakin og menningin færir okkur í föt, sem halda frá okkur sálarkulda. Hvernig gat fólk túlkað sögu sína svo myrkrið, kuldinn og sorgin linaðist? Við greinum hinar andlegu almannavarnir í bókmenntum þjóðarinnar og sérstaklega í trúarritunum. Þar er spekin, lífsleikni þjóðarinnar í aðkrepptum aðstæðum. Engar plágur og dauðsföll gætu eyðilagt galdur lífsins. Það er boðskapur trúarritanna. Ástin er alvöru.

Ástarasagan

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar um aldir. Hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Lífið í passíunni

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma, sem ég dró líka fram úr bókaskápnum. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Erkisagan um okkur

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa undarlega tíma? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. Og kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Ég kippti Biblíunni úr hyllunni með hinum bókunum. Þar eru allar farsóttir og kreppur heimsins saman komnar. En þar er líka meira en bara sögur fyrir innilokað fólk. Jú, margar safaríkar sögur. Þar er efni um óábyrga en líka ábyrgt fólk sem axlar ábyrgð. Þar er boðskapur um að flýja ekki heldur mæta. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum er mætt. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig.

Íhugun í heimahelgistund. Visir 26. apríl, 2020. Upptaka, Studíó Sýrland, Gestur Sveinsson og Sveinn Kjartansson. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju og Hörður Áskelsson. 

Bæn: 

Lífsins Guð

Lof sé þér fyrir skínandi sól; fugla í ástaleik, golu á kinn, alla sprotana sem gæjast upp úr moldinni, glaðar öldur og daggardropa sem vökva. Við þökkum fyrir hina dásamlegu sköpun, sem þú gefur líf. 

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Þú lausnari heimsins

Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífs og gleði. Lof sé þér fyrir að þú lætur ekki dauðann sigra heldur ruddir lífinu braut. Leið okkur út úr kvíum einsemdar og sjúkleika. Leyf okkur að lifa í vori og sumri upprisu þinnar. Styrk þau og lækna sem eru sjúk og vonlítil. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði…….  Ver með fjölskyldum þeirra.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

 Þú andi lífs

Við biðjum þig að blessa öll þau er ganga erinda lífsins, hjúkrunarfólk, kirkjufólk, uppalendur, þjóna almennings. Veit sköpunargleði í atvinnulíf okkar. Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf. Farsæl líf og atvinnulíf samfélags okkar. Ver með þeim sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt, þjóna að altari þínu, hlúa að æsku og mennta fólk og efla til lífsleikni. Gef vitur ráð í þjónustu við þig. Allt skapar þú Guð, allt leysir þú, allt lífgar þú.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Allar bænir felum við í bæn Jesú og segjum saman:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

 

Paradísarmissir – Paradísarheimt

Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.

Missir og heimt

Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.

Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.

Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.

Um tímann og vatnið

Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.

Erindi kristni og mengun

Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.

Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.

Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.