Nýr þorskhnakki er dásamlegur matur. Kremað bygg og beurre blanc-sósa passa vel við. Uppskriftin er miðuð við fjóra. Kolefnissporið er líka lágt með því að nota sem mest innlent hráefni.
Þorskur
800 g þorskhnakki
10 ml steikingarolía
30 g smjör
Krydd og salt eftir smekk
Skerið þorskhnakkann í hæfilega bita. Steikarolía er sett á pönnu. Þegar pannan er orðinn funheit eru þorskstykkin sett á pönnuna og steikt. Þegar önnur hliðin er orðin vel brúnuð er fiskinum snúið við. Þá er smjörinu bætt á pönnuna og lokið við að elda fiskinn. Steikingin ætti að taka um fimm mínútur.
Kremað bygg
200 gr perlubygg (gerið svo vel að nota bygg frá Vallanesi. Það er dásamlegt. Meðfylgjandi mynd tók ég á akrinum í Vallanesi)
400 ml vatn
150 ml rjómi
50 gr parmesan
50 gr graslaukur
50 gr skalotlaukur
Krydd og salt skv. smekk.
Byggið er soðið í 20 mínútur. Meðan byggið er soðið er graslaukur og skalottlaukur fínt saxaður. Rjómanum er síðan hellt í byggið og eldað þar til það byrjar að kremast. Þá er parmesanosti, graslauk og skalotlauk blandað saman við og smakkað til með salti og pipar.
Beurre blanc-sósan
200 ml hvítvín
200 ml rjómi
200 gr smjör (skorið í kubba)
30 gr capers
Hvítvínið er soðið niður þar til lítið er eftir í pottinum. Rjóminn er þá settur í pottinn og saman við hvítvínsleifarnar. Þegar rjóminn byrjar að sjóða er smjörinu hrært saman. Einn og einn smjörkubburút í einu og hræra sem næst stanslaust. Bætið capers við í lokin og smakkið síðan sósuna til með salti.
Blómkálstoppar
1 stk blómkálshaus
20 ml olía
niðurrifinn parmesan
10 g salt
Skera blómkálið í toppa og gufusjóða þá í tíu mínútur. Hita ofninn í 180°C. Eftir gufusuðuna eru blómkálstopparnir settir í eldfast mót. Olía, salt, parmesan og uppáhaldsgrænmetiskrydd sett á blómkálið og bakað inni í ofni í um það bil 10 mínútur á 180°C hita.
Þessi réttur er afar bragðgóður en ekki litríkur. Ég mæli með að poppa með litum. Á sumrin þegar við ræktum bergfléttur og fjólur skreytum við salöt og mat með þeim. Á veturna er litríkt paprikusalat tækt, fallegt salatblað eða blöð eða eitthvað annað sem gleður auga og rímar við matinn. Svo eru litríkir diskar alltaf ævintýralegir.
Uppskriftin upprunalega í mbl og frá Úlfari Erni Úlfarssyni en ég lagaði hana skv. eigin smekk. Myndina af bygginu tók ég í Vallanesi á byggakri Vallanesbænda.
Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.