Greinasafn fyrir merki: Bessastaðir

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid

Daginn eftir forsetakjörið árið 2016 fórum við hjónin að heimili Elizu Reid og Guðna Th. Jóhannessonar til að fagna kjöri hans. Þann dag komu sænskir vinir okkar í heimsókn frá Svíþjóð. Þau spurðu okkur hvað við ætluðum að gera síðar um daginn. Við sögðum þeim að við færum að hylla hinn nýkjörna og spurðum hvort þau vildu koma með. Þau spurðu að hætti sænskra regluvarða: „Eruð þið bókuð og á boðslista? Þarf ekki að tilkynna okkur til öryggislögreglunnar?“ Við hlógum og upplýstum þau um slaka og almannafrið á Íslandi. Svo voru þau með okkur í garðinum á Nesinu og birtust síðan á forsíðum sænskra fréttamiðla. Ástvinir og vinir þeirra sænsku hringdu til þeirra andstuttir og upplýstu þau um frægð þeirra í krafti Guðna og Elizu. Og vinum okkar þótti ekki verra að segja að þau væru búin að taka í hendina á nýkjörna forsetanum sem löndum þeirra þóttu ótrúleg tíðindi. En í þessu kjarnast munur á tengslum sænsks kóngs við þjóð sína og forseta á Íslandi við almenning. Sænsku vinir okkar voru hugsi yfir nánd almennings og þjóðhöfðingja. Þau höfðu þörf fyrir að tala um forsetakjörið á Íslandi. Svo sagði vinur okkar: „Gerið ykkur grein fyrir hvað það er merkilegt að fá að kjósa þjóðhöfðingja? Við sitjum bara uppi með kóng og getum ekkert gert og engu breytt. Ég vildi að ég gæti valið mér þjóðhöfðingja. Þið eigið gott – þið Íslendingar.“ Og við urðum hugsi og viðurkenndum að okkur þætti sjálfsagt að kjósa þjóðhöfðingja. Það er þakkarvert en ekki sjálfsagt að við getum valið fulltrúa okkar og ráðið málum okkar sjálf. Það er eitt af þessu stórkostlega og mikilvæga í okkar samfélagi að kjósa, að velja sér stefnu og velferð. Við veljum fólk til forystu og við völdum Guðna Th. Jóhannesson til forseta og fengum Elizu Reid að auki. Guðni hefur verið góður forseti, dugmikill túlkandi, rödd viskunnar og sendifulltrúi menningardýpta. Nálægur og öflugur, húmoristi og spakur, hlýr og eflandi. Og Eliza hefur uppfært hlutverk forsetamaka með áhugaverðum hætti. Lof sé þeim báðum og takk fyrir þjónustu þeirra. Svo hef ég samúð með fræðimanninum Guðna sem þarf næði og hlé frá asa og erli til að halda inn í leyndarskjalasöfn menningarinnar og skrifa síðan. Forseti farinn en fræðimaðurinn kominn.

Meðfylgjandi mynd er úr Hallgrímskirkju 30. október 2016. 

Bréfið frá Bessastöðum

Guðni Th. Jóhannesson er skrifandi forseti og að auki vel skrifandi. Hann kann ágætlega á lyklaborð á tölvu og notar það þegar hann skrifar bækur. En hann notar penna til að skrifa persónuleg bréf. Eitt slíkt barst mér í dag inn um bréfalúguna á heimili mínu.

Þegar útgáfan auglýsti bók mína Ástin, trú og tilgangur lífsins var Guðni Th. sá fyrsti – af miklum fjölda – til að panta bókina. Mér fannst það skemmtilegt. En svo kom forsetabréf í dag og það var elskulegt bréf til að þakka fyrir bókina góðu sem hann sagði glæsilega að innihaldi og útliti. Og taldi að gott væri að grípa í hana – fyrir sálarheill og líka þegar semja þyrfti ræður og ávörp! Fallegt rit og notadrjúgt. 

Þvílíkur þjóðhöfðingi sem sest niður með penna, hugsar með hlýju til viðtakanda og skrifar svona vermandi texta! Fallega sagt og vænt þætti mér um ef bókin eflir þjóðhöfðingja í ræðugerðinni. Ég bað um hljóð við kvöldverðarborðið, tilkynnti að ég ætlaði að lesa upp bréf sem hefði komið fyrr um daginn og það væri ljómandi gott. Fagnaðarlæti brutust út við lestrarlok og meira að segja hundurinn gelti líka. Guðni Th. er einstakur. Bréfið verður geymt. Ljósmynd af texta forsetans er hér að neðan en forsíðan hér að ofan. 

forsetabréfið