Greinasafn fyrir merki: Benedikta Þorsteinsdóttir

Benedikta Þorsteinsdóttir 1920-2011

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem Marteinn Lúther kallaði Litlu Biblíuna. “Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? “Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? Til að opna blessunarveg eilífs lífs. Þetta er málið um elskuna, sem gerir heiminn góðan og öruggan, bægir burtu kvíða og blessar allt. Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið með elskusemi gagnvart öllum og þannig var Benedikta Þorsteinsdóttir líka. Samband Guðs við veröld og menn er ástarsaga, saga um lífsgleði, sem umvefur allt og líka þá góðu konu, sem við kveðjum í dag. Þessi heimur er gerður fyrir líf og gleði. Þetta er blessaður heimur. 

Í upphafi

Benedikta Þorsteinsdóttir fæddist 20. maí, árið 1920 og lést á Grund þann 6. maí síðastliðinn. Hún var því á 91. aldursári er hún féll frá. Foreldar hennar voru hjónin Ragnhildur Benediktsdóttir og Þorsteinn Fr. Einarsson, hún ættuð úr Rangárvallasýslu og hann úr Árnessýslu. Benedikta var næstyngst syskinanna, sem nú eru öll farin yfir móðuna miklu. Elstur var Guðmundur, og hin systkinin voru Sigríður, Unnur, Ingólfur, sem dó ungur, og Einar.  

Benedikta fæddist í Efri-Brekku við Brekkustíg í Reykjavík. Þar bjó fjölskyldan árið 1920, en flutti þegar faðir þeirra, húsasmíðameistarinn, hafði byggt á Holtsgötu 16. Þar var æskuheimilið. Bendikta átti aukaskjól í Sigríði, ömmu sinni, sem bjó á heimilinu. Benedikta varð henni náin, og amman leyfði barninu að sofa “uppí” hjá sér og reyndist henni, sem besta móðir. 

Benedikta, eða Benna eins og hún var kölluð, fór í Miðbæjarskólann, þegar hún hafði aldur til og í framhaldinu lærði hún sauma. Sú kunnátta kom henni og börnum hennar og fjölskyldu að gagni þegar fram í sótti. Hún vann einnig ýmis störf og m.a. í verslun Guðlaugs Magnússonar, silfursmiðs, við Laugaveginn. Hafði hún af þeim starfa ánægju og talaði síðar oft um.

Hjúskapur, heimilislíf og börn

Benedikta kynntist Sæmundi Erlendi Kristjánssyni árið 1941, á Laxfossi líklegast á leið yfir Faxaflóa. Sæmundur var vélstjóri. Engum sögum fer af hvaða orð fóru á milli þeirra á fyrstu fundum. Sæmundur kunni ekki aðeins skil á vélum, heldur var margfróður og fjölhæfur. Hann var vel heima í ljóðum og hefur fyrr en seinna uppgötvað, að Benedikta var ættuð frá Tumastöðum í Fljótshlíð. Þar sem Sæmundur kunni Gunnarshólma er hægt að ímynda sér, að hann hafi notað þetta mikla ljóð Jónasar, sem pickuplínu fyrir vel tengda Fljótshlíðardömu!

Sambúð þeirra hjóna var gæfuleg og betri ástarsaga en þær gömlu úr Fljótshlíðinni. Þau Benna og Sæmundur voru samhent, styrkur hvor öðru í öllu sem þurfti. Þau höfðu skýra skipan í flestu, skiptu með sér verkum og hlutverkin voru ljós.

Sæmundur var ljúfur og elskulegur, segir fólkið hans, var konu sinni vænn eiginmaður og börnum hinn besti faðir. Það var Benediktu mikið áfall að missa hann fyrir aldur fram. Hún var ekki nema 63 ára þegar hún var orðin ekkja. Þá hófst nýtt skeið í lífi hennar. Hún vann á prjónastofunni Iðunni í nokkur ár. Svo gætti hún barna um tíma og sinnti heimsóknarþjónustu. Félagshæfni og umhyggjusemi hennar nýttust vel í því kærleiksstarfi, sem ættingjar þeirra sem nutu, mátu mikils og tjáðu þakkir sínar.

Þau Bendikta og Sæmundur nutu barnaláns. Þau gengu í hjónaband í mars árið 1942 og eignuðust fjögur börn. Kristján er elstur, fæddist 1942. Hans kona er Vigdís B. Aðalsteinsdóttir. Svo kom Sverrir. Mamma hans var svo flott á því, að hún fæddi strákinn á þjóðhátíðardeginum 1945. Kona Sverris er Erna Vilbergsdóttir. Þriðja í röðinni og eina dóttirin er Sigríður Dagbjört, fædd 1947. Hennar maður er Jón Örn Marinósson. Viktor Smári er yngstur, fæddist 1955 og kona hans er Ingibjörg Hafstað.

Barnalánið ríkir áfram í fjölskyldunni. Barnabörn Benediktu eru samtals 13 og barnabarnabörn 24. Tvær af afkomendum Benediktu eru erlendis, geta ekki kvatt ömmu sína og biðja um kveðjur til þessa safnaðar. Þær eru Hekla Rán Kristjánsdóttir og Solveig Viktorsdóttir.

Verustaðir

Fyrst átti fjölskylda Benediktu og Sæmundar heimili á Brávallagötu, en síðan í Skerjafirði þar sem Sæmundur var stöðvarstjóri Shell. Við sjóinn var margt við að vera og gott fyrir fjölskyldu að búa. Húsið þeirra var stórt og góð umgjörð mannlífs. Benedikta var Vesturbæingur og vildi helst búa vestan “lækjar.” Þegar breytingar urðu í rekstri Shell fluttust þau á Holtsgötu en síðan inn í Karfavog. En vestur skyldi haldið að nýju. Í Kristmannshúsinu á Tómasarhaga 9 bjuggu þau um tíma og þaðan man ég fyrst eftir Benediktu. Síðan fór hún í ofurlítinn hring í þessum bæjarhluta, vestur á Tjarnarstíg og síðan á Reynimel og Flyðrugranda. Á Grund var Benedikta svo síðustu árin. Þegar sál hennar og vitund byrjaði að hverfa til Guðs var Benediktu og öllu hennar fólki mikilvægt að vel væri hugsað um hana. Fjölskyldan þakkar starfsfólkinu á Grund fyrir elskusemi þeirra og alúð í ummönun. En Grundarfólkið hefur líka tjáð, að Benedikta hafi verið í miklu uppháhaldi – því hún var svo broshýr og þakklát.

Heimili og samfélag

Benedikta var umhyggjusöm húsmóðir og lagði kapp á, að heimili hennar væri staður öryggis, festu og fegurðar. Börnin bjuggu við skýran ramma og hrynjandi dagsins var í góðum skorðum. Þar sem Benna kunni vel til sauma gat hún gert börnum sínum klæði og saumað glæsikjóla á sjálfa sig. Hún var hannyrðakona og hafði gjarnan á prjónum eitthvað handa afkomendum sínum. Þau plögg eru nú vitnisburður um það, sem hún var sínu fólki. Hún vildi, að ástvinum hennar liði vel og farnaðist vel.

Benedikta var veisluglöð og sóttist eftir að fagna með fólkinu sínu. Kökurnar hennar eru í minnum hafðar. Hún var félagslynd og naut þess að vera samvistum með fjölskyldunni. Hún fylgdist vel með umhverfi sínu og kunni jafnan vel að meta öfluga stjórnmálaleiðtoga – og kannski helst sjálfstæðismanna.

Benna ræktaði vel vinskap og tengsl við vinkonur sínar. Í mörg ár átti fjölskyldan athvarf austur á Stokkseyri. Þar átti hún tengsla- og ættfólk, sem hún hafði gleði af að vera samvistum við. Þar leið henni vel, fjöllin voru falleg og nægilega fjarri, útsýn mikil og himininn stór. Ekki var verra að sást austur í fjöllin við Fljótshlíð. 

Benna ræktaði anda sinn. Hún stundaði leikhús, las mikið og gjarnan á koddanum. Hún var einnig ræktunarkona og stundaði garðrækt af nokkrum krafti um skeið.  

Því svo elskaði…

Er ekki lífið fyrir elskuna? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. Því svo elskaði Guð heiminn og mennina….blessar. Benedikta bar í nafni sínu veru sína. Nafnið merkir sú blessaða og þau, sem njóta slíkra stórgæða miðla áfram. Benedikta var blessuð og hún hefur blessað. En nú er hún farin. Hendurnar hennar prjóna ekki lengur. Hún talar ekki fallega til þín og brosir við þér. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Þar er maðurinn hennar, ættmennin, ættboginn allur, hið gleðilega samkvæmi himinsins, birta og gaman.

Benedikta minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um hana má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við vel og verðum þátttakendur í ástarsögu Guðs.

Benedikta er blessuð – Guð blessi þig.

Útför frá Neskirkju 13. maí 2011. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

 Sestu hjá mér. Nú sefur önd mín rótt.

Sól varpar kveðju. Heilsar mjúklát nótt.

Dvel, tak þér hvíld frá dagsins önn og klið.

Dvel, njót þess skamma stund að finna frið.

 

Býr margt í hug þá bærir vindur tjöld,

ber með sér nálægð góðra gesta um kvöld,

minningu’úr fjarska, minning barns um vor,

mannsævi, bros og tár við gróin spor.

 

Land mitt, ég kem, hjá lautardragi’í hlíð

lágvaxin smáblóm anga á sumartíð.

Þar vil ég vera, þar sem fegurst er,

þar á ég vin sem býðst til fylgdar mér.

 

Öll líður nótt. Í austri’er geisluð rönd

upprisu morguns; sól þér réttir hönd.

Dvel, tak samt hvíld frá dagsins önn og klið.

Dvel, njót þess stund með mér að finna frið.

Jón Örn Marínósson, tengdasonur Benediktu, samdi þetta ljóð og vísar í því til ýmissa þátta í lífi Benediktu og eiginda hennar. Því er það svo þakkarvert. Ljóðið var síðan sungið í útför hennar við lagboða sálms nr. 426 sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar.

 Æviágrip

Benedikta Þorsteinsdóttir fæddist 20. maí 1920 í Efri-Brekku við Brekkustíg í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Fr. Einarsson, húsasmiður, f. 26. mars 1887 á Skipum í Stokkseyrarhreppi, d. 30. des. 1976, og k.h. Ragnhildur Benediktsdóttir, f. 1. júní 1887 á Tumastöðum í Fljótshlíð, d. 20. nóv. 1954 í Reykjavík. Benedikta var næstyngst 5 systkina sem nú eru öll látin. Benedikta giftist 14. mars 1942 Sæmundi E. Kristjánssyni, vélstjóra, f. 2. sept. 1909 í Otradal við Arnarfjörð, d. 5. nóv. 1982 í Reykjavík. Þau bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík og eignuðust þar fjögur börn, Kristján, f. 26. okt. 1942, maki Vigdís B. Aðalsteinsdóttir, Sverri, f. 17. júní 1945, maki Erna Vilbergsdóttir, Sigríði Dagbjörtu, f. 15. nóv. 1947, maki Jón Örn Marinósson, og Viktor Smára, f. 8. febr. 1955, maki Ingibjörg Hafstað. Barnabörn Benediktu eru 13 og barnabarnabörnin 24. Síðustu æviár sín dvaldist Benedikta á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund og þar lést hún snemma að morgni 6. maí.