Greinasafn fyrir merki: Baskavíg

Himintungl yfir heimsins ystu brún – Jón Kalman Stefánsson

Við héldum suðræn bókajól, flugum til Sevilla skömmu fyrir hátíðina. Við tókum með okkur bunka af bókum en lítið af fötum. Við fórum svo suður til Cadiz og fengum í húsaskiptum lánað dásamlegt hús. Þar skiptumst við svo á að lesa bækurnar en létum föt hvers annars vera. Ég var sá þriðji á heimilinu að lesa hinmintunglbókina hans Jóns Kalmans. Tilhlökkunin óx því ég heyrði reglulega áhugaverðar upphrópanir: Þvílíkur texti; það ilmar af þessum blaðsíðum; snilld; skemmtileg efnistök. Ég byrjaði svo að lesa hina mögnuðu sögu um Pétur prest, Dórótheu, mannlíf og manndráp, menntun, lífsafstöðu, siðferði og siðklemmur fólks á Íslandi á 17. öld. Ég var sammála mínu fólki um bókargæðin. Í himingtunglbókinni eru engar klisjur eða þunnildi. Það eru engar menningarlegar grynningar heldur er sagan frábærlega skrifuð, um tengsl og manngildi, um rosamál fortíðar sem hafa augljósar skírskotanir til samtíma okkar, átaka og áfalla í samskiptum hópa og þjóða.

Persónusköpun bókarinnar er sterk. Prestar hafa gjarnan verið tuddar og hrottar í íslenskum bókum og kvikmyndum en Pétur prestur er góðmenni. Hann er glöggur og vel að sér, menntaður vinur orða, fræða og mannvinur. Hann skráir sögu eigin lífs, þjónustu, viðburða í héraði, landi og heimi, baráttu í starfi og líka í djúpum sálar. Jón Kalman uppteiknar gæskuríkan hæfileikamann sem reynir eftir megni að þjóna sem best mönnum og Guði, kirkju, yfirvöldum og lífinu. En þó klerkur sé klókur og vel meinandi er hann hrifnæmur og í texta Jóns Kalmans er enginn hörgull á hrífandi konum sem koma fyrir augu klerksins. Augu hans hvarfla til og hjartað fylgir. Jón Kalmann lýsir líka fleiri prestum og þeir spegla aðrar víddir og m.a. þjónkun við vald. Guðstrú bókarinnar er alls konar og trúarlífið þar með rétt eins og í nútímanum. Gott hjá Jóni Kalman.

Konurnar í bókinni eru sérlega áhugaverðar og ekki síðri en karlmyndirnar. Sterkust, litríkust og ásæknust er persóna Dórótheu bústýru á Meyjarhóli, prestssetrinu. Hún er eins og fjallkonan sjálf, lífströll elskunnar. Stórkostleg kona, réttnefnd guðsgjöf, og ein áhugaverðasta kvenímynd íslenskra bókmennta. Allar elskukonur og ástkonur Péturs eru ólíkar og litríkar, engar dúkkulísur heldur máttugar konur sem verða að hafa fyrir lífinu, lífsfyllingu og hamingju. Þær bregðast við verkefnum lífsins með ólíku móti. Annars ágæt kona Ara í Ögri beitir hótunum þegar veldi karls hennar er ógnað. Vald spillir og bókin er almennt valdgagnrýnin. Biskupsembætti er líka beitt í þágu samfélagsfriðar frekar en í þágu sannleika og manngildis. Karlmyndirnar eru fjölbreytilegar líka, valdsmennirnir eru ekki einsleitir heldur margreytilegir. Bændur eru líka mismunandi í afstöðu, þroska, siðferði og hegðun. Tuddarnir eru auðvitað þarna á ferð en líka góðmenni og lífgjafar. Mannlífið á Íslandi 17. aldar var engu litdaufara en samfélag okkar tíma. Húmor og mannúð stýrir penna Jóns Kalmans.

Sögusviðið er útnárasamfélag nærri hafísnum. En samfélag undir ystu brún fór ekki á mis við menningu, tískubylgjur eða fræðastrauma heimsins. Í lágum húsum voru stórmál rædd, fréttir af Galileó og sólmiðjukenningu voru til skoðunar í vetrarmyrkrinu. Bækur bárust ekki aðeins frá Kaupmannahöfn, heldur líka sunnan úr löndum. Grísk og rómversk klassík var endursögð og túlkuð á bæjunum. Alls konar tungumál hljómuðu og stærðfræðiþrautir af meginlandi Evrópu voru leystar af klókri konu í kokkhúsi á Ströndum. Útjálkabyggð var í góðum og skapandi tengslum við framvindu tímans. Það er því ekki einangrað samfélag heimskunnar sem Jón Kalmann lýsir heldur sprelllifandi, þyrstandi mannfélag eftir þekkingu, fræðslu, fegurð, siðviti og menntun. Vissulega voru til sjálfskipaðir eftirlitsmenn valds og rétthugsunar í samfélaginu sem reyndu að slaufa vaxtarbroddum lífs. En máttur orðs og framtíðar verður ekki haminn af dragbítum. Ritskoðun heimskunnar lýtur sannleika. En lærdómur kostar fórnir – ekkert er ókeypis. Mér þótti heillandi að njóta samfélagslýsingar Jóns Kalmanns, auðvitað stílfærðri en hrífandi og nærandi.

Mér þótti líka áhugavert hvernig Pétur prestur, viðmælendur hans sem og lærdómsmennirnir sem hann hafði samband við íhuguðu eðli hins ritaða máls, hvernig niðurritun breytir gangi lífs og sögu. Skráð saga gengur erinda sannleika. Baskarnir voru drepnir af kappi en ekki forsjá. En drápin voru skrásett og þar með varð von til að mennirnir nytu meiri réttar og sanngirni en annars hefði orðið ef allt hefði verið þaggað niður og valdsmennirnir hefðu fengið að ráða túlkun og skilgreiningu atburða. Sannleikur er ekki eign valdsins.

Hlutverk máls og ritunar er sérstakt og áberandi í þessari bók Jóns Kalmans og kitlar alla sem hafa áhuga á skilgreiningum menningar, hlutverki guðstrúar og áhrifum á siðvit og merkingarmótun  kerfa menningar. Ég var hugsi en mun ekki frekar skrifa um það mál að sinni en freistandi er að greina skrif Jóns Kalmans um orð og trú, gildi og Guð í þessari bók. Ein spurningin eða íhugunin er þessi: Er hægt að snúa merkingu þess að „orðið varð hold“ yfir í að skráning skapi líf? Sleppa öllu hinu yfirjarðneska og túlka svo að efnisgerningur skapi lífið? Er ritlist inntak guðstrúar og réttlætis? 

Við ræddum einstaka útfærslur og snúninga í flækju Jóns Kalmans í jólagóðviðrinu suður við Gíbraltarsund. Málfar bókarinnar er eðlilegt, vísar til eldri málheima en er ekki óþægilega fyrnskuskotið. Við ræddum um hinn meditatíva flæðistíl bókarinnar. Gekk hann upp þessi valhoppandi hugrenningastíll sem Pétur prestur notar, hvattur áfram af Dórótheu, bústýru sannleika og lífs? Flæðistíllinn hefur sína kosti og sjarma en fælir líka frá þau sem þarfnast skýrrar söguframvindu. Stíllinn gengur almennt upp en það eru hnökrar á honum. Og ýmsum smáatriðum hefði mátt sleppa í lokatexta. Mér sýnist að gagnrýninn yfirlesari hefði grisjað út t.d. óþarfa tímaskekkjur. En ég kvarta ekki yfir smælkinu og nefni ekki anakrónismana sem breyta ekki heildaráhrifum. 

Himintungl yfir heimsins ystu brún er magnað rit um lífsbaráttu og siðklemmur, áleitin bók um siðferði, pólitík, átök, ást, grimmd og samsekt. Ekki bara bók um 17. aldar viðburði heldur verkefni okkar sem nú lifum. Hvernig tökum við á móti útlendingum og flóttafólki sem vegna áfalla lenda á okkar strönd? Erum við einfeldningar valdsaðila og lélegs réttrúnaðar? Erum við jafnvel handbendi úrelts hugsunarháttar? 

Himintungl yfir heinmsins ystu brún er bókmenntaafrek ársins og ætti að veita bókmenntaverðlaunin ársins. Fimm stjörnu bók. 

Jón Kalman Stefánsson, Benedikt útgáfa, Reykjavík 2024, 358 blaðsíður.