Greinasafn fyrir merki: bæn

Verði ljós

 

 

Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?

Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Í gjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“

Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.

Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandmulningsbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.

 

 

 

 

 

Allir fingur upp til Guðs

Hvernig eru hendur þínar? Snúðu þeim og horfðu á þær. Þú þekkir handarbökin, sem blasa við þér og þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo eru lófarnir. Kannski hefur þú spáð í líflínu og myndagátu lófa þíns. Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handabandið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Hendur eru starfstæki okkar. En þegar við leggjum hendur saman er það gjarnan til að kyrra huga. En hendurnar þurfa ekki að vera alveg kyrrar eða ónytsamlegar þegar við tölum við Guð. Við getum notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Í dag er bænadagur og við íhugum bæn og bænahætti. Og mig langar til að kenna ykkur að nota hendur til bænaiðju.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðir þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Fingurinn gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Ef börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal getum við notað hann til að skófla upp trúarlegri merkingu líka.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á þau sem liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur baugur, hringur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er á flestum kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum. Vitja þeirra Guð, sem hafa verið umkringd af hinu rangláta. Og svo biðjum við fyrir syrjandi, deyjandi og þeim sem líður illa.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið. Er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú borðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í erli daganna, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona. Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Jákvæð lífsiðja

Jesús minnti fólk á mikilvægi bænarinnar. Hann sagði gjarnan: “Biðjið ...”Já við ættum að biðja, biðja mikið. Bænir eru eðlilegur þáttur í kirkjulífi og á afmörkuðum stundum dags og æfinnar. En bæn má verða eins eðlilegur þáttur lífsins og andardráttur. Það er ekki einkennilegt, að bænin er nefnd andardráttur trúarinnar. Og þar sem bænin má vefjast inn í allt lífið, verða meginþáttur í lífi okkar megum við gjarnan leyfa okkur skapandi bænastöðu. Við megum bæði draga lærdóm af bænafólki í eigin trúarhefð en líka öðrum trúarhefðum. Margt í bænta- eða íhugunarstellingum hinna miklu trúarhefða má nota til eflingar eigin bænaiðju. Við megum gjarnan nota það sem höfðar til fegurðarskyns okkar og vefja inn í bænagerðina. Ljós skiptir trú og trúartúlkunmáli, notið kerti – en gætið að eldinum!

Bænaiðja er atferli sem er eins og allt annað í lífinu. Stundum er auðvelt að biðja, stundum erfitt. Stundum er eins og himininn sé tómur og stundum verðum við hrifin í sjöunda himinn og öllu er svarað greiðlega sem við ræðum við Guð. Oflæti í bænaiðju er kannski ekki það sem reynist best. Hið smáa er bæði fallegt og farsælt. Góðir hlutir gerast hægt. En engin bæn er sóun, engin bæn fellur óheyrð, ekkert orð týnist í hávaða veraldar. Guð heyrir ofurvel. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“ Spáðu í handverk bænarinnar og mundu líka að bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

 

Allir fingur upp til Guðs

fingur til GuðsÉg var með fjölskyldu minni í Kaupmannahöfn fyrir liðlega viku og við flugum heim í vikulok. Flugliðarnir í flugvélinni undruðust og höfðu orð á að vélin fylltist af Dönum á leið til Íslands. En skýringin er að fjórði föstudagur eftir páska er den store bededag og almennur frídagur í Danmörk. Margir Danir notuðu bænadaginn til Íslandsferðar. Bænadagur fyrir liðlega viku í Danmörk en svo er bænadagur á Íslandi í dag.

Og bænadagurinn á sér samiginlega sögu í Danmörk og á Íslandi því Kristján 5. fyrirskipaði á seinni hluta 17. aldar að almennur bænadagur skyldi vera á fjórða föstudegi eftir páska. Dagurinn var kallaður kóngsbænadagur af því það var kóngur en ekki kirkja sem ákvað bænaiðjuna. En margir héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum en svo var ekki. Beðið var fyrir kóngi ekki bara einu sinni á ári heldur á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir stjórnvöldum á lýðveldistímanum.

Og þótt Íslendingar segðu skilið við Dani héldu menn áfram að biðja og frá og með 1951 var haldinn bænadagur í kirkjum landsins – ekki á föstudegi heldur – á fimmta sunnudegi eftir páska. Og þessi sunnudagur er því bænadagur eins og verið hefur í sextíu og fimm ár í okkar kirkju. „Biðjið“ sagði Jesús. Já við ættum að biðja, biðja mikið.

Fingurnir

Bæn er ekki bara verk andans, n.k. andverk heldur jafnvel handverk líka. Í dag langar mig að spá í handverk bænarinnar og að bæn er handtak manns og Guðs. Fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill ræða við þig og heyra hvað þú hefur að segja en líka finna til veru þinnar. Og margt er hægt að nota til að styrkja bæn, jafnvel alla puttana. Það langar mig til að ræða um í dag.

Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Give me five!

Þegar við biðjum spennum við gjarnan greipar eða leggjum saman hendur. Hendur skipta miklu máli í lífinu – bænalífinu líka. Horfðu á hönd þína. Þú þekkir handarbakið sem blasir við þér, þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo er lófinn. Kannski hefur einhver spáð í líflínu og myndagátu lófans? Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handsalið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Þegar við leggjum saman hendur verður það gjarnan til að kyrra huga. Og við getum líka notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun  – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðirnar þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Hann gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal, en við megum gjarnan skófla upp trúarlegri merkingu frekar en sætu í munninn.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á að það er að liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum og fyrirtækjum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur hringur, baugur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er gjarnan kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem eru sjúk, hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið og er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú bragðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í mannlífsgleðina, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Bæn hefur hendur til að starfa með og þjóna lífinu. „Biðjið“ segir Jesús. Bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

Amen.

Þessi texti var til grundvöllunar hugleiðingu á bænadegi þjóðkirkjunnar, 1. maí.