Greinasafn fyrir merki: bæn

Takk fyrir …

Guð ég þakka þér fyrir lífið og þessa undursamlegu litríku veröld. Takk fyrir síkvika verðandi spriklandi af möguleikum, fyrir dansandi sól, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað. Guð ég þakka þér hljóma heimsins, hvísl stráanna, ýlið í gluggum húsanna, blæstrokur í hári, alla tónlist heimsins. Guð ég þakka þér fyrir foreldra og tilraunir þeirra til uppeldis hvort sem þær tókust eða ekki, afa og ömmur, vini, börn og félaga. Takk fyrir elskuna sem við höfum notið í lífinu, gáfurnar sem þú hefur gefið okkur rausnarlega, hæfileikana, hjartsláttinn, hugsanirnar, lífsplúsa og púlsa. Takk fyrir vetur og árstíðir, breytilegan ljósgang, djúpmyrkur og jólaljós, matarlykt í nefi og bragðundur í munni. Takk fyrir getuna til máls og hugsunar og líka fyrir hendur til að gæla við ástvini, þvo þvotta, elda mat, prjóna, smíða, þrífa, skapa listaverk og músík. Takk fyrir krydd lífsins og munnsins, ljóð og sögur, ævintýri, gleðiefni og hlátra. Takk fyrir leik barnanna, spilandi kátínu daganna, styrka hönd í áföllum og faðm þinn í dýpstu sorgum. Takk fyrir dagana sem við njótum, tilfinningar, tengsl og gjafir sem þú og vinir lífsins gefið. Takk fyrir að við megum vera í þessari miklu fylkingu lífsins sem veitir af sér, miðlar og þakkar …

Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.

Músík sálarinnar

Á kirkjuhurð Hallgrímskirkju standa orðin: „Komið til mín.“ Þar stendur ekki farið – heldur komið. Og koma til hvers? Ávarpið er persónulegt. Það er Jesús sem segir. „Komið til mín.“ Hann er uppspretta lífs, heimsljós, vinur og verndari sem talar. „Komið til mín“ eru hvatningarorð hans til allra manna og fyrirheit um tengsl. Yfir dyrunum er vers Hallgríms Péturssonar úr 24. Passíusálmi og með fagurri stafagerð Leifs Breiðfjörðs. Þetta merkilega dyraávarp er svona:

„Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.“

Þessi magnaða kveðja er til íhugunar og mótunar. Í dag er bænadagur og líka mæðradagur. Það er mesta happ allra manna að eiga góðan föður og góða móður. Og á mæðradegi er gott að rifja upp og íhuga hvað mæður gerðu og gera. Svo er kirkjan kristnum móðir eins og segir svo fallega í sálminum sem við syngjum í dag.

Á bænadegi koma mömmuminningar í minn huga. Mamma kenndi mér að tala við Guð sem vin og sem móður. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers fyrir kvöld- og morgunbænir. Hún kenndi mér að leggja fram lífsefnin fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

En heyrir Guð? Ég velti vöngum yfir Guðshlustuninni. Þegar ég var barn ræddum við mamma stundum um hvort eyrað á Guði væri svona stórt að það heyrði allt. Hafði Guð kannski mörg eyru og hvernig væri svarað? Væri eitthvað kerfi í svörunum? Væri þjónusta stórguðsins við smáfólkið svo alger að hún væri persónuleg og aðlöguð þörfum hvers og eins? Mamma var viss um að hvert orð væri heyrt sérstaklega og brugðist væri við öllum smáatriðum í bænum. En við ættum að muna að biðja alltaf í þeim anda að Guðs vilji verði áður en við lykjum með ameninu.

Svo kenndi mamma mér að bænirnar eru eitt, en líf okkar væri best og fegurst ef það væri ein samfelld bænaiðja. Líf okkar mætti helst vera þannig, að það væri eins og bænaferli. Milli morgun- og kvöldbæna væri tími, hugsanir, samskipti, vinna og verk sem trúmenn ættu að helga Guði, ekki síður en frátekinn bænatíma. Ég trúði þessu því mamma lifði í samræmi við trú sína. Bæn og ábyrgð fóru saman. Hennar kristindómur var sömu ættar og Hallgríms Péturssonar, að trú væri ekki tæki í þágu manns sjálfs heldur ástartengsl við uppsprettu lífsins sem við mættum rækta í þágu allra. Trú og verk, orð og æði færu saman. Tengsl við Guð hefðu afleiðingar til góðs fyrir aðra. Heit bæn er ástarkveðja og beinist að heimi ekkert síður en himninum.

Þegar ég eltist fylgdist ég stundum með helgistundum móður minnar. Þegar pabbi var dáinn, amma einnig og börnin flogin úr hreiðrinu, átti hún daginn og stundirnar og gat nýtt tímann í samræmi við eigin þarfir og langanir. Þá las hún skáldsögur, ljóð, frásögur og alls konar bókmenntir. Hún var kona orðanna. Svo las hún líka í Biblíunni góða stund og síðan í einhverri hugvekjubók. Þessar bækur bera merki um notkun. Síðan bað hún. Þegar heyrnin var farin til Guðs á undan henni, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði það, var hún farin að tala við Guð með nokkuð hærri rödd en áður og skeytti engu um hvort einhverjir væru nærri. Hún umvafði alla ástvini og fyrirbænarefni elsku sinni og sendi óhikað og með fullu trausti langt inn í himininn. Þetta var guðsþjónusta mömmu og allir dagar voru bænadagar.

Það var heillandi að hlusta á gamla konuna biðja fyrir ástvinum sínum. Að eiga sér fyrirbiðjanda er ríkidæmi. Þegar við, fólkið hennar, rötuðum í vanda í lífinu bar hún hann fram fyrir Guð. Þegar allt gekk vel og við nutum gæða og hamingju vissum við að það allt var einnig orðfært við Guð. Hún bað fyrir garðinum sínum og gróðri, nágrönnum og málum þeirra. Meira segja spretta og heyskaparhættir norður í Svarfaðardal voru mál sem hún taldi rétt að nefna við Guð. Ef einhvern hefur undrað árgæska nyrðra er kannski ein skýringin að kona við Tómasarhaga í Reykjavík var með á nótum og lyfti upp í himinhæðir.

Þegar mammna var á tíræðisaldri fékk hún tappa í heila og minnið hvarf að mestu. En trúin hvarf þó ekki eða samræðan við Guð. Í kjarna mömmu var músík sálarinnar, söngurinn um Guð og samtalið við Guð. Hvað ungur nemur gamall temur og fer í kjarnann. Það sem þjálfað hefur verið alla ævi nýtist á neyðarstund. Síðustu dagana í þessu lífi gat mamma ekkert talað. Þegar komið var að lífslokum hennar sat Elín Sigrún, kona mín, hjá henni og þá allt í einu og skyndilega opnaði mamma augun og sagði hátt og skýrt: “Amen!” Meira sagði hún ekki. En þetta amen var örugglega endir á bænagerð í huganum, því amen var ekki til eitt og sér heldur sem lokaorð í beinu samtali við Guð. Meira sagði móðir mín ekki í þessu lífi. Amen var hennar hinsta orð, lokorðið í allri orðræðu lífsins. Hún var bænakona og þegar lífi var lokið kemur amen og þá dó hún. Þegar amen er sagt heyrir eyra Guðs, opnar faðminn og svarar með ástarkveðju og iðju. Líf sem er bænalíf og endar með amen er gott líf.

Þetta þykir mér gott að rifja upp á bænadegi og til íhugunar fyrir okkur við byrjun nýs tíma í starfi Hallgrímskirkju. Ung kona hringdi í mig á föstudag til að panta kirkjuna fyrir hjónavígslu í haust. Hún vildi fá að ganga í hjónaband í kirkjunni því “Hallgrímskirkja er frábær“ sagði hún. Og við vorum sammála. Skömmu fyrir guðsþjónustuna áðan voru ferðamenn frá New York sem töluðu fjálglega um hve falleg kirkjan væri. Já, hún er hrífandi, björt og stílhrein. Kirkjan er líka gott ómhús fyrir söng og margar gerðir tónlistar. Listaverkin heilla einnig í þessum ljósmusteri. Stórkostleg verk Leifs Breiðfjörðs hrífa og margir staldra við Kristsstyttu Einars Jónssonar. Kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Hallgrímskirkja er fallegt hús því hún er hlið himins. Og slíku húsi tilheyrir list fyrir augu, eyru, munn, nef og sál. Hallgrímskirkja er stórstaður í borgarlandslaginu, jafnvel einkenni borgarinnar og lógó ferðamennskunnar. Hallgrímskirkja teiknar sjónarrönd Reykjavíkur. Þegar farið er yfir ferðasíður heimsins kemur í ljós að kirkjan er heimsótt sem kirkja. Stórmiðillinn the Guardian felldi þann úrskurð að kirkjan væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. Hingað hefur fólk komið til að fá gott samband, inná við, út og upp. Tugir milljóna ferðalanga lífsins hafa fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra. Þeir hafa náð sambandi við himininn. Og þannig hús á þessi kirkja að vera, staður til að tengja.

Kirkjan er oss kristnum móðir. „Komið til mín“ segir Jesús og Hallgrímur bætir við:

Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma …

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.

Íhugun á bænadegi og alþjóðlegum mæðradegi. 

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Myndskeið er að baki þessari smellu

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn okkur að vera synir og dætur, sem tala við þig, að hræðast ekki í návist þinni. Kenn okkur heilindi í samskiptum við þig, í orðum, verkum og vinnu, heima og að heiman. Alls staðar ert þú – þar sem við erum vilt þú vera nærri. Gef okkur vilja til að horfa í spegil lífssögu okkar, opna fyrir reynslu nýjunga, margbreytileika, nýrra möguleika, dýptar – opna fyrir þér.

Guð sem talar í náttúrunni

Gef okkur vitund um fegurð daggardropa, blómknúppa, grasnála, opnandi brums, syngjandi fugla. Kenn okkur að skynja návist þína í litum, lykt, verðandi og hræringum náttúrunnar. Lof sé þér fyrir sköpunarverkið allt, sögur, orð, sólstafi og djúpsvart myrkur, fyrir fjölbreytileika veraldar, marglita menningu, ólíkt fólk, nánd og fjarlægðir, smákorn og sólir.

Guð – líf kirkjunnar

Úthell blessunaranda þínum yfir alla þjóna hennar. Við biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi, fyrir kirkjuvörðum, listafólki, biskupum, söngvurum, prestum, organistum, djáknum sóknarnefndarfólki, sjálboðaliðum, messuþjónum – já öllum þeim sem gegna þjónustu í kirkju þinni.

Guð sem ert uppspretta lífs

Við biðjum um siðvit, jöfnuð og réttæti í samfélagi okkar. Gef að mannvirðing einkenni samskipti okkar og tengsl. Hjálpa okkur að rækta frið og virða vit, þekkingu og sannleika. Við biðjum þig að gefa öllum þjónum almennings vernd og þjónustuanda. Gef dómurum speki til réttlátra dóma, löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits og forseta blessun þína. Við þökkum þér fyrir samfélag okkar og menningu, fyrir öll sem hér búa og starfa. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð fólks, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum, sem þú elskar og frelsar.

Guð sem sem vitjar allra

Við biðjum þig að blessa hin sjúku og nefnum nöfn þeirra í hljóði …

Við biðjum fyrir hinum sorgmæddu og deyjandi. Við biðjum fyrir þeim sem eru í fangelsi, í fjötrum skulda, í greipum fíknar eða feni samfélagsins. Ver með þeim og leys bönd þeirra. Ver með fjölskyldum þeirra.

Þú mikli Guð
Hjálpa okkur að sjá í reynslu daganna að þú ert með í för, þú gengur okkur við hlið, þú fylgir okkur í sorginni, þú brosir við okkur í augum ásvina og elskunnar. Þú ert okkur við hlið. Hjálpa okkur að lesa sögu okkar sem samfylgdarför, að líf okkar hefur ávallt verið fólgið í sögu þinni, okkar smásaga er brot hinnar stóru sögu, sem þú hefur sagt og heldur áfram að segja okkur, meðan þú yrkir veröldina. Þökk fyrir að við megum lifa í þeirri sögu sannleikans um okkur og þig.

Guð vors lands

Þú hefur skapað okkur til frelsis og ábyrgðar. Í þínar hendur felum við alla viðleitni til að byggja og móta réttlátt þjóðfélag. Kenn okkur að bera virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum annarra. Lát okkur aldrei gleyma því að heimurinn er stærri en okkar eigin byggð og og land. Þú ert öllu valdi, öllum heimi æðri. Allt skapar þú, allt leysir þú og allt blessar þú og helgar. Þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

2020 Bæn á bænadegi þjóðkirkjunnar. Hallgrímskirkja 5. sdepáska.

 

Streita, kyrrð og þögn

Ég var í búðarferð og fór út úr bílnum mínum. Kona kom úr öðrum bíl, lokaði hurðinni, stóð svo kyrr og andaði djúpt nokkrum sinnum. Leið henni illa? Átti ég að skipta mér af? Og ég spurði: „Er eitthvað að?“ Svarið var: „Nei, nei. Ég er bara stressuð og er að reyna að róa mig. Held ég fái mér ís!“

Streita, læti, hraði, asi og hávaði gera okkur takmarkað gott. En það er róandi að draga djúpt andann. Hvað nærir okkur og styrkir? Kyrrð, merking, streitulaus gleði. Ég virði kyrrðarsókn mína. Hún er sterk. Alla tíð hef ég haft þörf fyrir að fara reglulega í hvarf, vera einn með sjálfum mér og alnánd Guðs. En skil urðu árið 1974. Það var sumar í svissnesku Ölpunum austan við Lausanne. Síðhærður hippaprestur með tagl laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Fjöldinn var slíkur, að byggt hafði verið stórt menntasetur til að koma til móts við leitandi fólk. Þegar klerkur kom til að ræða við hópinn kom í ljós að dagurinn væri bænadagur. Allir voru sendir út í skóg eða upp í hlíð, sem var alveg eins og í Heiðubókinni. Við vorum ein með sjálfum okkur allan daginn og áttum kyrrðardag. Vissulega heyrðum við skröltið í kúabjöllum, fagnaðarsöngva fuglanna og syngjandi vind í stráum. En eingangan, einveran var rík að upplifunum og ég var ekki einn. Frá þessum ágústdegi í Sviss hefur sannfæringin lifað í mér um mikilvægi kyrrðar í lífinu. Jesús fór í óbyggðir til bænahalds, dró sig í hlé til að eiga næði og kyrrð með Guði. Við eigum þar fyrirmynd. Jesúatferli er hagnýtt.

Þagnarflótti

Afþreyingarmenning nútímans gengur á búsvæði kyrrunnar. Umhverfi okkar er mettað ómum, sem deyfa, og léttvægum orðum. Bakgrunnstónlist fyllir almannarýmið og opinberar byggingar. Áthraða fólks á veitingastöðum er jafnvel stýrt með tempóbreytingu tónlistar. Á heimilum eru sjónvörpin í gangi þótt enginn horfi. Streymisveiturnar eru síbyljur. Hávaðinn er alls staðar, á heimilum, vinnustöðum og verustöðum fólks. En hávaði einangrar fólk. Í ómsúpu ruglast samskipti. Orð, sem snerta inntak og dýptir, linast og slappast. Samfundir fólks líkjast kokteilboðum. Hinir dugmestu synda frá einum til annars, tala linnulaust og fara svo. Þetta er orðahríð án eyrna, tiltal en ekki samtal. Hávaði og sýndariðni er leið fólks til að vera. Þegar dagar á fólk, að það lifir í ofgnótt merkingarskerts hávaða læðist að grunur um kyrrð sé heimili merkingar og dýptar. Ofurstressað fólk andar djúpt út á gangstétt. Er best að setja tilfinningar og líðan á ís? Nei í streitu leitar sálin kyrrðar. 

Dýrmæti þagnar

Margir óttast hljóðleysi. Þögn virðist óræð og jafnvel ógnvænleg í takmarkaleysi sínu. Í þögninni virðist ekkert til að styðjast við eða grípa í. Þögn er sem hyldýpi, tóm sem þarf að fylla. En þögnin getur verið góð og hlý. Þögn er ekki aðeins það að láta orðin vera. Þögn getur verið þrungin merkingu, gæsku og gleði. Þögn getur verið full nándar. Þagnar- eða kyrrðarsekúndan eftir að síðasti hljómur góðra tónleika deyr út og áður en klappið hefst er oft þrungnasta augnablik tónleika. Þegar náttúran stendur á öndinni vitjar Guð skepnunnar.

Þögn í trúarlegu samhengi er ekki bragð til að kæfa fólk, heldur vettvangur samtals Guðs og sálar. Þögnin er sá heyrnarstóll, sem við setjumst í þegar við getum talað um það sem máli skiptir. Við Guð tölum við þegar við erum með sjálfum okkur eða í sambandi við dýptir okkar. Þegar við lifum sorg, erum hrifin, efumst eða lifum sálarmyrkur, þegjum við gjarnan. Við þögnum þegar orku þrýtur í lífsglímunum, við verðum fyrir óréttlæti eða heyrum sjúkra- eða andlátsfregn. Sú þögn er frjóakur Guðs. Þá erum við reiðubúin að heyra máttarorð, iðrunarkall, huggunarræðu eða lausnarboð. Þögn getur verið fæðingarvegur til lífs ef við þorum. Það er svo auðvelt að flýja sársauka samvisku eða vitund um hversu vanmáttugur og úrræðalaus maður er á krossgötunum. Til að heyra hvað Guð segir er stundum nauðsynlegt að þola þögnina og hina djúpu samræðu. Þá dagar á mann speki lífsins og möguleikar opnast – nýr tími verður.