Greinasafn fyrir merki: Auðun Hlíðar Einarsson

Auðun Hlíðar Einarsson

Hvar heima – hvar er ég sannur? Auðun sat á þúfu við Sænautasel og var að íhuga spennandi endurreisnarverkið framundan. Hann var albúinn til verks, viskubrunnur um húsagerðina, þekkti vinnulag og verkfæri. Svo sat hann í góðviðrinu, með þennan stórkostlega, skrautlega húfukofra á höfði. Og hvernig verður að byrja verkið, hvernig verður endurreisnin, hvernig verður lífið?

Auðun sagði brosandi við Ævar Kjartansson viðmælanda sinn í sjónvarpsþætti: “Nú er hinn eini sanni, bjarti dagur að renna upp.” Þetta er sem setning úr Sjálfstæðu fólki: „Hinn eini, sanni, bjarti dagur.” Og Auðun naut allra sinna gáfna og hæfni í þessu verki. Hann vann með skemmtilegu fólki, hann naut þess að fræða unglingana af Jökuldal, sem fengu vinnu við uppbygginguna, fræddi þau með brosi á vör. Bjálkana hjó hann til og felldi saman. Svo varð til bær á nokkrum vikum – undur í heiðinni, sem ber handverki, natni, alúð og sögu gott vitni.

Hvernig lifði fólk í þessum bæ? Hvernig var mannlífið? Hvernig var að eiga heima þarna? Hvernig lífi lifðu menn þar sem hver maður hafði aðeins tvo fermetra til ráðstöfunar eins og í þessu heiðarkoti? Getum við rúmbýlt þéttbýlisfólk skilið þröngbýlt dreifbýlisfólk sem þar bjó? Hvernig leið börnum í fárviðri undir þunnri þekjunni? Allt þetta spannaði Auðun og miðlaði með höndum sínum og afstöðu. Hann naut hins eina, sanna, bjarta dags. Í þessu verki var sagan teygð, sögð að nýju, endurvakin og endurtjáð. Kannski var Auðun þarna í sínu föðurlandi, í fangi náttúrunnar, Austurlands, undir stórum himni, í tengslum við söguna, verkmenninguna, lífið. Kannski var hann þarna algerlega heima?

Já, hvar á maður heima og hvað merkir að koma heim? Mörgum öldum áður var annar merkur maður, Jónas spámaður sem frá er sagt í Gamla testamenntinu, spurður spurningar sem er höfð eftir í Jónasarbók: “Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú? Hvert er föðurland þitt og hverrar þjóðar ertu?“ (Jónas 1.8.) Þessi spurning varðar alla menn með einum eða öðrum hætti. Hver eru heimkynni okkar? Hægt er að búa megnið af ævinni einhvers staðar en þrá þó alla tíð einhvern stað, eitthvert heimasamhengi annars staðar. Alla ævi erum við á heimleið. Spekingar mannkyns hafa lagt út af þeirri för, goðsögurnar, margar þjóðsögur og rismiklar bókmenntir eru um þá leit og leið. Auðun var heima í fangi Karenar og barnanna en svo var hann líka á heimleið, á leið heim til systkina, til fjölskyldu sinnar og inn í samhengi sitt. Saga Auðunar er merkileg, heillandi heimferðarsaga. Nú er hinn eini, sanni, bjarti dagur upprunninn honum.

Ætt og upprni

Auðun fæddist inn í sumarið á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí, árið 1941. Fjölskyldurnar hans voru ekki bara ein heldur tvær. Auðun Hlíðar var ekki bara sonur Hrafnkels og Láru á Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð. Hann var Einarsson líka. Hvernig máttu þau tilbrigði verða? Jú, Auðun varð ættleiddur þegar hann var á öðru ári af læknishjónum á Eskifirði, Guðrúnu Guðmundsdóttur og Einari Ástráðssyni. Fyrir áttu þau hjón tvær dætur sem voru á annan áratug eldri en Auðun. Eftir voru Hallgeirsstaðasystkini hans heima og smátt og smátt bættist í þann hóp. Tvö önnur voru ættleidd líka. Hvaða ferð hefja menn við ættleiðingu? Það er flókin ganga um tilfinningalönd og kannski var Auðun á heimleið æ síðan hann fór sína fyrstu ferð niður firði – barn á öðru ári, með fullu viti, í leit að föðurlandi og móðurfaðmi.

Á Eskifirði var hann fram á unglingsár, flutti síðan suður í Keflavík, var þar stutt og fór síðan til Reykjavíkur með foreldrum sínum. Við tóku ár vinnu og skólagöngu. Auðun var allra manna hagastur fór í Iðnskólann í trémíði, sem hann starfaði síðan við. Svo fór hann í Kennaraskólann og fór á tvöfaldri hraðferð í gegnum skólann og lauk handavinnukennaraprófi árið 1968. Trésmíðar, kennsla og blanda af hvoru tveggja varð síðan meginstarfi Auðunar síðan. Hann kenndi mörg ár í Æfinga- og tilraunaskóla KÍ, í Landakotsskóla, Iðnskólanum í Reykjavík, í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og víðar. Af myndskeiði í fyrrnefndum sjónvapsþætti er ljóst að Auðun hefur verið frábær kennari.

Á unglingsárum og áfram sótti Auðun austur í stórfaðminn. Hann kenndi einn vetur á Eiðum, eignaðist vini þar og vináttu sem entist. Stundum fór hann m.a.s. austur í jólafrí. Austrið laðaði.

Sænautasel var ekki eina stórverkefnið, sem Auðun stýrði og vann að. Hann hafði mikinn áhuga á endurbyggingu torfbæja og gamalla húsa. Auðun vann við endurbyggingu á Gömlu-Búð á heimaslóðum á Eskifirði, einnig við Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu, við Galtastaði fram sömuleiðis í Hróarstungu, Hrafnseyri við Arnarfjörð og Stekkjarkot í Njarðvík.

Ekki þarf annað en fletta á vefnum til að gera sér grein fyrir hversu hæfur Auðun hefur líka verið á þessu sviði. “Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú?” Hann sýndi hver hann var með handaverkum sínum og lífi.

Karen og fjölskyldan

Karen sagði fjölskyldunni og prestinum frá fyrstu fundum þeirra Auðunar. Þegar Karen var á fyrsta ári í Kennaraskólanum hringdi Broddi Jóhannesson, skólastjóri, í hana upp úr áramótum og sagði henni að austfirskur piltur væri að byrja í skólanum og þarfnaðist upplýsinga um námsbækurnar. Jú, jú, það var í lagi en hann yrði að koma fyrir kvöldmat, sem hann og gerði.

Karen var á leið í leikhús þannig að hún tók á móti mannsefninu sínu í fyrsta sinn með rúllurnar í hárinu og út um allt. Engin veit hvað Broddi hafði í huga, kannski sinnti hann einhverri dularfullri einkamálaþjónustu í viðlögum, alla vega tilkynnti hann Auðuni að í þetta fyrsta skipti mætti hann bara koma til Karenar fyrir kvöldmat.

Nýneminn fór svo með upplýsingarnar og minninguna um þessa kjarnmiklu konu á Víðimelnum, sneri henni við í stiganum í Kennaraskólanum síðar, svo alveg í fangið enn síðar. Þau Karen Tómasdóttir og Auðun Hlíðar ústkrifuðust úr KÍ 1968, trúlofuðu sig um áramótin 1968-69 og gengu í hjónaband 19. júlí 1969.

Þeim varð þriggja barna auðið. Halla er elst og hennar börn eru Auður Hlín, Hjalti og Björg. Hannes er næstur í röðinni og á synina Gunnar Pálma og Auðunn Benedikt. Kona Hannesar er Heiða Björg Marinósdóttir. Fyrir á Heiða Anítu og Marinó. Yngst barna Karenar og Auðunar er Katrín. Hennar maður Björn Oddsson og þau eiga Charlottu Karen.

Auðun var barngóður maður, var reiðubúinn að veita sínu fólki tíma, fræðslu, athygli, hjálp, stuðning, orð og hlátra. Og hann átti sögur, sem nú eru hljóðnaðar en lifa í ástríkinu og minningunni. Hann var hamingjumaður með sínu fólki og þakklátur fyrir að eiga Karen og börnin sín.

Hvað er heima? Já, Auðun vildi ekki til útlanda með sitt fólk heldur bauð þeim austur, fór austur þegar færi gafst, og þau hjón reistu sér hús á Héraði og svo fengu þau Karen land á Hallgeirsstöðum og hann teiknaði útlit hússins og svo beið Karenar að skilgreina innra rými og svo unnu þau saman að endanlegri úrvinnslu og húsið var byggt. Það heitir Krakastaðir og eftir beitarhúsum í nágrenninu.

Úr fjarlægð virðist að Aðun hafi náð að ljúka stóru hringferðinni sem hófst síðla árs 1942, þegar drengurinn var fluttur að heiman. Þessi sumarbústaðatilvera var Auðuni mikilvæg, Karen studdi hann og börnin nutu. Þau fengu að njóta með honum.

Eigindir og líf

Í Auðun bjuggu fjölþættar gáfur og listfengi. Þau, sem hafa skoðað handaverk hans, s.s. fugla eða fiska, vita að Auðun var oddhagur og tjáði elskuna til lífsins með höndunum. Hann var vandvirkur þjóðhagi og smíðaði þjóðlegar völdunarsmíðar eins og þegar hefur verið talið. Auðun hafði auga fyrir formum og litum og það skilaði sér líka gagnvart sjónlistum. Hann var afar lausnamiðaður við úrlausn flókinna verkefna og fundvís á einfaldar og snjallar lausnir.

Vegna smíðanna og blindrammagerðar varð hann vinur margra listamanna. Þeir nutu sagna hans og fágætlega góðra blindramma. Auðun hafði gaman af sérkennum þeirra, umbar og mat sérleik og naut skemmtilegheitanna eins og sést vel í kúnstugum sjónvarpsþætti sem gerður var um Stefán Jónsson frá Möðrudal, Stórval. Og margar eru myndirnar á heimili þeirra Karenar sem komnnar eru frá vinunum, listmönnunum.

Auðun hafði nautn af tónlist, fór á tónleika, leitaði í tónlist til að hvíla andann. Hann hafði mætur á orgeltónlist, sem skýrir návist Páls Ísólfssonar, Jakobs Hallgrímssonar og Bach í þessari útför. Svo var píanótónlist og góður söngur honum hugleikinn og eins og í flestu varð Auðun afar fróður og kunnáttusamur á víðlendum músíkurinnar. Hann setti plötu á fóninn eftir skapstemmingu. Svo lagðist hann útaf, alveg skv. ábendingu Páls Ísólfssonar, að maður nyti tónlistar best liggjandi. En börnin hans höfðu hann grunaðan um að þetta væri líka ákveðin praktík af hans hálfu – hann væri ekki til neins gagns meðan hann lægi svona með músikina dynjandi!

Allt frá upphafi var Auðun umhyggjusamur. Þegar í bernsku sótti hann til sér eldra fólks. Hann sótti til þeirra fræðslu, þekkingu, innsýn og lífsvisku og endurgalt með þjónustu, áhuga og návist. Hann var einstaklega greiðvikinn maður. Fyrr og síðar var Auðun umhugað um að allir nytu góðs og hann var málsvari allra sem á var hallað.

Á himnum

Hvað er heima? “En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists, segir postulinn í Filippíbréfinu (3.20). För manna er heimferð. Ágústínus, kirkjufaðir, sagði að við menn færum að heiman til að snúa heim, í stórum hring.

Auðun fæddist inn í birtuna. Í fjölskyldu og verkum urðu dagarnir ljósir. Nú er hinn eini sanni, bjarti dagur runninn upp í hans lífi. Hann mun ekki reisa fleiri bæi eða gera fleiri hús upp. Enga mun hann leiða til þroska með glettinni fræðslu, kímni og krafti. Engar fleiri sögur mun Auðun segja af fjöllum, tröllum, furðum, fólki eða sónötum. Hann mun ekki tálga þér fallegan fisk. Hann var farinn af stað heim og nú hefur dagað á hann með birtu og sannleika, þar sem allt er gott, allt vel viðað, allt vel hlaðið, í öllu góður hljómur og enginn verður gerður brottrækur. Eilífð Guðs er takmark mannsins, takmark alls lífs þessarar veraldar. Í okkur býr stefnuviti til þeirrar farar og í eilífðarfangi er okkar mið. Auðun náði sinni hringferð og nú lifir hann dagrenningu nýs lífs. Guð geymi hann og blessi þig.

Minningarorð, Neskirkja, 26. mars, 2009.

Eiginnafnið Auðun var ritað svo frá upphafi og beyging er því önnur en þegar nafnið endar á tveimur n-um.