„Það er gott að elska.“ syngur þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar. Í dag er Valentínusardagur og auglýsendur heimsins magna upp ástarbrímann og hvetja alla að dekra ástina. Tilboðunum rignir yfir, gistitilboð á hótel Sigló eða góðgæti á Forréttabarnum og dekur á Hópkaup til að koma elskunni á óvart. Já, Valentínusardagurinn er alls konar. En þetta er góður dagur og fyrir ástina. Hvaða ást? Alla ást; til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs, náttúrunnar og líka Guðs. Og kannski eru einhver hér í hópnum sem bara hugsa um konudaginn og mæðradaginn sem ástardaga – og sjá engan tilgang í að bæta amerískum Valentínusardegi í ástardagasafnið. En raunar eru allir dagar fyrir ástina.
Þær góðu fréttir bárust nú í vikubyrjun að nú mætti opna kirkjur. Við sungum dásamlegan sálm í byrjun þessarar guðsþjónustu. „Opnið kirkjur allar …“ Nærri hálft ár er liðið frá því að Hallgrímssöfnuður kom til sunnudags-guðsþjónustu. Það er því hátíð í dag. Hallgrímskirkja hefur vissulega verið opin. Helgistundir hafa verið í kirkjunni í hádeginu, síðustu mánuðina, lengstum sex sinnum í viku hverri. Við höfum gætt vel að sóttvarnarreglum og tryggt að þrátt fyrir stærð kirkjunnar hafi fjöldinn ekki verið meiri en reglur hafa sagt til um. Við höfum gætt fjarlægðarmarka og hætt að faðmast og kyssast. Við signum hins vegar og krossum hvert annað úr hæfilegri fjarlægð. Og við höfum beðið saman. Guð er óbundinn af sóttvarnarreglum og hefur blessað samfélag safnaðarins. En nú megum við koma saman í stærri hópum en áður. 150 manns mega vera við helgiathafnir í kirkjunni þessar vikurnar og vonandi fleiri þegar á líður. Haffi Haff, tónlistarmaður og messuþjónn kom í vikunni og hvatti til að á þessum degi minntum við okkur á kærleikann, ástina, tengslin í öllum myndum. Það er ekki bara forsetafrú vestur í Ameríku sem undirbýr Valentínusarhjörtu heldur undirbjó Haffi Valentínusarhjörtun fyrir Hallgrímskirkju og lagði Kristnýju og Kristínu lið í undirbúningi barnastarfsins. Nýr opinn tími. „Fyllum kirkjuna af ást“ sagði Haffi. Já, það er svo sannarlega opinn tími. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi.
Biblíutextar dagsins eru margræðir og fjölþættir. Yfirskrift þessa sunnudags og textanna á vef kirkjunnar er: Krossferill – vegur kærleikans. Og vissulega er það ein útgáfan af Valentínusardegi. Lifið betur og með ábyrgð er merking lexíunnar. Bætið vegi lífsins. Það er ekki verið að tala um Sundabraut eða Borgarlínu – heldur leiðir hjartans og hamingjuleiðir samfélagsins. Og pistillinn: Gætum að samfélagsmótun, uppeldi og sjálfsvirðingu. Það er ekki aðeins verið að tala í anda hinnar splunkunýju heimildarmyndar Hækkum rána sem var sýnd á sjónvarpsstöð Símans nú í vikunni heldur um hið stóra uppeldissamhengi allra manna, helgi lífsins og helgi alls sem Guð hefur gert. Uppeldi stelpna og stráka fellur undir það og hlutverk okkar allra er að vera meðskapendur Guðs, samverkafólk. Svo er texti Jóhannesar í þeim anda. Ég staldraði við eitt stef: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Það er ljóst að Jesús hafði áhyggjur. Hann óttaðist. Það eru djúpir skuggar sem hann uppteiknar í ræðu sinni um veginn, ljósið og leiðina. Og það er ástæða til að hugsa um lífið á Valentínusardegi, í ástarbríma á föstu.
Ástalífið á sér skugga og birtustundir rétt eins og lífið í öllum myndum. Þó heimsbyggðin hafi ákveðið að mannréttindi skuli virða, samþykkt barnasáttmála og sett í lög alls konar hvata, stefnur og bætur brengla fjársókn, hluthyggja, valdasókn, fíknir og aðrar útgáfur illskunnar líf einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga, mannkyns og lífheims. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Þessa síðustu daga hafa réttarhöld staðið yfir í þinghúsinu í Washington yfir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ég hef verið hugsi yfir stöðu lýðræðis í heiminum eins og milljónir um allan heim. Lýðræði er æfintýraleg tilraun til félagslegs samkomulags um að allir megi koma að stjórn ríkis. En slíkt samkomulag er ekki gefið og getur auðveldlega þokað fyrir ofbeldisfullu valdi sem hrifsar taumana til sín, vill meira og helst allt. Lífið sækir fram en það mætir alltaf fyrirstöðu og lífverur þurfa að hafa fyrir lífinu. Lýðræði þarf að rækta til að það lifi. Réttarhöldin í Washington eru aðeins dæmi um lýðræðisskaða í þessu mikla lýðræðisríki og að nú er vetur lýðræðis þar vestra. Tekst að hreinsa og bæta? Kemur vor? Vonska mannanna er ekki bara í röðum Trumpistanna heldur í öllum mönnum, kennir kristnin. Okkur öllum.
„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Ég minnist úr eigin lífi hvernig líf mitt lenti haustfrostum, fræ féllu, veturinn varð skeliflegur en svo voraði að nýju. Ekkert er sjálfgefið og hamingjan er engin fasteign sem er bundin af eignarhaldi og einkarétti. Lífið þarfnast alúðar, umhyggju, ræktunar. Við verðum að gangast við þroskaverkefnum okkar, áföllum og vaxtartímum.
Hvernig er með þitt líf? Hefur einhvern tíma gefið á? Hefur þú misst, tapað, týnt? Hefur vetrað í líf þínu. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Lífssögurnar eru alls konar og ástarsögurnar þar með líka. Á föstunni erum við minnt á að lífið er ekki sjálfgefið heldur barátta. Og við megum líka minna okkur á anda og boðskap Passíusálma og höfundar þeirra. Passíusálmarnir draga upp þá mynd að himinkonungur kom til að þjóna og að lokum með svo róttæku móti að hann lét líf fyrir aðra. Það er íhugandi hlið ástalífsins. Fastan og píslarsagan dregur upp skuggahliðar lífsins. Við erum minnt á baráttu, brenglun, illskuna sem beyglar jafnvel deyðir. Píslarsaga er ekki bara saga Jesú heldur alls lífs. Jesúsagan dregur saman alla þætti mannllífs og veraldar.
Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.
Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.Við getum ímyndað okkur margt um Guð með því að skoða vel ástarsögur. Við getum skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.
Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa liðna árs, COVID-tímans? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Nú er dagur ástar, dagur á föstu. Við megum næra ástina okkar. En það merkir ekki bara að dekra við fólkið okkar heldur líka okkur sjálf. Þora að horfa inn á við og huga að dýptunum.
Í Biblíunni er sagt frá lífinu í öllum myndum. Þar eru sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig. „Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“ Kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Líf okkar er köflótt en saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Viltu ástarsögu eða sorgarsögu? Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um þig.
Amen.
Lexía: Jes 57.14-15
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.
Pistill: Heb 12.9-13
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.
Guðspjall: Jóh 12.23-36
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist.
Prédikun SÁÞ 14. febrúar 2021.