Greinasafn fyrir merki: ást

Ástin í sóttinni

Hvernig líður þér á þessum COVID-tíma? Hefur þessi tími reynt á þig, dregið þig niður eða hvílt? Líður þér verr eða betur? Og hvaða hugsar þú? Hvernig er hægt að bregaðst við í þessum aðstæðum?

Ég gekk meðfram bókahyllunum mínum og dró fram bækur um farsóttir fortíðar. Þá rakst ég bók, sem ég stalst í á unglingsárunum. Það var bókin Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni  – pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórence í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, flestar merkilegar og sumar ansi safaríkar. Svo rakst ég á aðra eftirminnilega sögu um hræðilega sótt. Og dró hana fram úr hyllunni. Það er La Peste – Plágan, bók Albert Camus, sem var í bókaskáp foreldra minna rétt hjá Tídægru. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju bernskunnar. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann. En læknirinn Bernhard Reiux var meðvitaður um hlutverk sitt og annars hjúkrunarfólks í farsóttinni. Hann vissi ekki frekar en annað samstarfsfólk hvað biði hans. Myndi hann veikjast og deyja? En hann axlaði ábyrgð, mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Og mér fannst erindi bókarinnar vera að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar. Kunnuglegt! „All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Viðbrögð í farsóttinni

Hvernig getum við brugðist við kreppum? Saga Íslands er áfallasaga. Hafís, eldgos, uppblástur, snjóflóð, sóttir, barnadauði, mannskaðar á sjó og landi. Áföllin eru í menningunni, hafa litað ljóð, mótað sögur, uppeldi, hlutverk, menningarefnið og jafnvel læðst inn í í genamengi okkar Íslendinga. Við fæðumst nakin og menningin færir okkur í föt, sem halda frá okkur sálarkulda. Hvernig gat fólk túlkað sögu sína svo myrkrið, kuldinn og sorgin linaðist? Við greinum hinar andlegu almannavarnir í bókmenntum þjóðarinnar og sérstaklega í trúarritunum. Þar er spekin, lífsleikni þjóðarinnar í aðkrepptum aðstæðum. Engar plágur og dauðsföll gætu eyðilagt galdur lífsins. Það er boðskapur trúarritanna. Ástin er alvöru.

Ástarasagan

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar um aldir. Hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Lífið í passíunni

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma, sem ég dró líka fram úr bókaskápnum. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Erkisagan um okkur

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa undarlega tíma? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. Og kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Ég kippti Biblíunni úr hyllunni með hinum bókunum. Þar eru allar farsóttir og kreppur heimsins saman komnar. En þar er líka meira en bara sögur fyrir innilokað fólk. Jú, margar safaríkar sögur. Þar er efni um óábyrga en líka ábyrgt fólk sem axlar ábyrgð. Þar er boðskapur um að flýja ekki heldur mæta. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum er mætt. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig.

Íhugun í heimahelgistund. Visir 26. apríl, 2020. Upptaka, Studíó Sýrland, Gestur Sveinsson og Sveinn Kjartansson. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju og Hörður Áskelsson. 

Bæn: 

Lífsins Guð

Lof sé þér fyrir skínandi sól; fugla í ástaleik, golu á kinn, alla sprotana sem gæjast upp úr moldinni, glaðar öldur og daggardropa sem vökva. Við þökkum fyrir hina dásamlegu sköpun, sem þú gefur líf. 

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Þú lausnari heimsins

Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífs og gleði. Lof sé þér fyrir að þú lætur ekki dauðann sigra heldur ruddir lífinu braut. Leið okkur út úr kvíum einsemdar og sjúkleika. Leyf okkur að lifa í vori og sumri upprisu þinnar. Styrk þau og lækna sem eru sjúk og vonlítil. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði…….  Ver með fjölskyldum þeirra.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

 Þú andi lífs

Við biðjum þig að blessa öll þau er ganga erinda lífsins, hjúkrunarfólk, kirkjufólk, uppalendur, þjóna almennings. Veit sköpunargleði í atvinnulíf okkar. Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf. Farsæl líf og atvinnulíf samfélags okkar. Ver með þeim sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt, þjóna að altari þínu, hlúa að æsku og mennta fólk og efla til lífsleikni. Gef vitur ráð í þjónustu við þig. Allt skapar þú Guð, allt leysir þú, allt lífgar þú.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Allar bænir felum við í bæn Jesú og segjum saman:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

 

Ástarsögur

 

Ég sat í vikunni fyrir framan sjónvarpið með sonum mínum sem eru á unglingsaldri. Við horfðum á leiki í Meistaradeild Evrópu. Við sáum Juventus sigra vini okkar í Manchester. Svo sáum við líka brot úr öðrum leikjum. Strákarnir mínir eru í boltanum og fylgjast með heimsknattspyrnunni. Og íþróttahetjurnar eru dýrlingar nútímans, fyrirmyndir, sem hafa mikil áhrif á og móta milljónir uppvaxandi ungmenna um allan heim. Og þegar við hrifumst og hryggðumst yfir leikjum vikunnar flaug í gegnum hug mér: Hvað hefur áhrif á drengina mína? Hvað mun móta þá? Hvernig verða þeir? Hvað gerir þeim gott og hvað verður þeim til góðs? Og ég horfði á þá ástaraugum.

En við, karlarnir mínir, sáum ekki bara meistaradeildarleiki heldur líka leiki í allt annarri deild, – og mun myrkari. Það var steraþátturinn, sem Kveikur sýndi nú í vikunni. Við hlustuðum á sögur þeirra, sem hafa freistast til að nota stera. Markmiðið er einfalt, að fá hjálp við að móta líkamann, gera hann stæltan og flottan. Og vöðvarnir verða útblásnir við steranotkunina. En í flottum skrokki er fleira en vöðvar – sterar rugla fínstillt jafnvægi efnabúskapar líkamans.Og það er fjöldi ungmenna sem deyr á Íslandi á hverju ári vegna stera. Það, sem átti að skapa stórkostlegt lúkk, var í raun ásjóna dauðans. Sterkasti maður heims dó, líklega vegna steranotkunar. Og æðið heldur áfram, það eru ungu drengirnir sem eru ginkeyptastir fyrir sterunum. Þessar sögur hræddu.

Og svo heyrði ég í vikunni margar aðrar sögur um unglinga, sem hafa lent í algerum ógöngum vegna útlitsáherslu. Til að ná útitsmarkmiðum sínum, hvort sem þau eru raunsæ eða ekki, hætta margir unglingar að borða eðlilega – og mörg lenda í hringrás blekkinga og alls kyns veikinda. Til hvers? Ásýnd er ekki inntak hamingju. Og við ættum að horfa ástaraugum á börnin okkar, hugsa um hvort þeim lánast að rata veg hamingjunnar og hvað við getum gert til að styrkja þau og efla. Það er sótt að þeim, raunar okkur öllum. Vertu þetta, notaðu þetta, gerðu þetta, kauptu þetta. En hvað dugar og hvað þráum við innst inni?

Í okkur býr ástarþrá. Við höfum öll þörf fyrir umhyggju, athygli, strokur, aðdáun og samfélag. Við erum börn ástarinnar, á leið eftir ástarveginum og viljum fá að vera með öðrum á þeim vegi. En hvernig lánast okkur?

Hallgrímur og Passíusálmar

Í dag er Hallgrímsmessa. Við minnumst þess, að 344 ár eru liðin frá dauða Hallgríms Péturssonar, sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, að mínu viti mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er góður gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki hinum reiða guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hamingjuleitin

Unga fólk nútímans, eins og á öllum öldum, leitar hamingjunnar. Hvað verður þeim til lífs og gleði? Eru sterarnir góðir fyrir stráka, sem eru að stækka og vilja vera stæltir? Eru köglarnir, grasreykingar í Hólavallagarði eða matarflóttinn það besta fyrir stráka og stelpur?

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Og hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin, fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Og mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Ég, þú, við öll, erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Og þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Pílagrímaferðirnar

Við, sem störfum í þessum mikla helgidómi, Hallgrímskirkju, verðum daglega vitni að leit fólks að inntaki lífsins. Hingað koma margir og tjá, að þetta sé áhrifaríkur staður. Og mörg ykkar vitið, að einn af fjölmiðlarisum veraldar hefur úrskurðað, að Hallgrímskirkja sé eitt af mikilvægstu íhugunarhúsum heimsins. Það kemur þeim ekki á óvart, sem sækja þessa kirkju. Og ekki lýgur the Guardian– vörður sannleikans – og flytur ekki falsfréttir gegn betri vitund.

Hvað merkir að vera íhugunarhús? Það er staður þar sem er gott samband, góð skynjun og líðan, skapandi hugsun. Staður til að tengja við innri mann, umhverfi en líka við eilífðina. Og af því fólk hefur heyrt, að Hallgrímskirkja sé staðurinn, kemur það hingað til að vera. Það fer ekki aðeins hálfa leið upp í himininn og baka – þ.e. í kirkjuturninn, heldur inn í kirkjuna og sest niður. Þar er hægt að fara yfir líðan, vonir og áhyggjur og kveikja svo á kertum til stuðnings sálarvinnunni, hugsa um til hvers við lifum og af hverju. Í kyrru kirkjunnar taka margir ákvarðanir um stærstu málin og breyta um stefnu, ákveða með fjölskyldumál sín, atvinnu, menntun, tengsl og líka tengslarof. Allt þetta, sem fólk hugsar um varðar merkingu, hamingju og tilgang. Þetta sem allir leita að og hugsa um. Og svo er vaxandi fjöldi, sem kemur frá útlöndum, í þetta mikla sambandshús, til að giftast, fer á heimsenda til að fá bæn og blessun yfir ást sína. Ástarsögurnar eru alls konar.

Þín ástarsaga

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Og fólk á ferð lífsins kemur í þessa kirkju til að leita að hinu djúpa. Við segjum ástarsögu um Hallgrím og Guðríði og ástarsögu Guðs sem alltaf elskar. Og þó Hallgrímskirkja sé gott íhugunarhús fyrir borg, þjóð og heim er þó annað hús sem skiptir þig þó enn meira máli. Það ert þú sjálfur – þú sjálf. Þú ert raunar miðjan í ástarsögu Guðs og heimsins. Þú mátt elska og njóta ástar. Sterar, grasreykingar, matarflótti eru ásýndarmál, yfirborð – en hið innra þarftu það sem raunverulega gefur þér hamingju.

Viltu hamingju – staldraðu við.

Leitar þú ástar – hún stendur þér til boða.

Þarftu fang? Það er tilbúið.

Viðurkennir þú þörf þína – þá er vinur við hlið þér.

Guð sér þig. Þú og þitt fólk er elskað.

Guð elskar.

Amen

Hallgrímsmessa – 28. október, 2018

 

Íslenskur ættarhringur og ástin sem lifir

Kona sem ég þekki var á leið í leigubíl frá Friðriksbergi í Kaupmannahöfn út á Kastrupflugvöll. Bílstjórinn spurði hvert hún væri að fara. „Ég er að fara til Íslands“ svarði hún. Þá sagði leigubílstjórinn og lagði tilfinningu í: „Ég á Íslendingum allt að þakka, hamingju mína.“ Svo sagði hann konunni á leið til Íslands sögu sína. Hann hafði komið til Danmerkur sem erlendur innflytjandi og kynnst innlendri stúlku sem var af “góðum” dönskum ættum. Þau urðu ástfangin en foreldrar hinnar dönsku konu höfðu ekki trú á sambandinu og gerðu unga fólkinu erfitt fyrir. Að lokum flýðu þau og tóku með sér tjald því þau höfðu ekki í nein hús að venda. Þau ákváðu að fara í rólegheitum yfir mál og möguleika. Þau reistu tjald sitt á tjaldstæðinu í Kolding. Þar voru þau þegar íslensk hjón gáfu sig að þeim og töluðu við þau. Unga parið treysti þeim og sagði þeim frá vanda sínum. Íslendingarnir hlustuðu og skildu kreppuna og að þau voru á flótta. Allt sem þau áttu var ást og von um að fá að lifa sem par. Á þriðja degi kom íslenska konan til að kveðja. Hún sagði þeim að hún hefði trú á þeim og ást þeirra og hún ætlaði að gefa þeim ættargrip sem væri heillagripur fjölskyldu hennar. Það væri hringur sem amma hennar á Íslandi hefði hefði átt. Svo dró hún þennan vonarbaug á hönd hinnar dönsku konu sem var djúpt snortin af þessari blessun og trú. Leigubílstjórinn sagði að þessi gjörningur og stuðningur hefði styrkt þau í trú á að ást þeirra gæti lifað þrátt fyrir mótlætið. Og þau væru nú búin að búa saman í tuttugu ár og eignast þrjú börn.

Þetta er ein af sögum heimsins, saga um ást, von og trú. Þetta er góð saga og minnir á samband Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur, saga um erfiðleika en líka lífsundur. Kristnin er átrúnaður hins jákvæða og að lokaðar dyr má opna. Sá Guð sem Jesús Kristur opinberaði er Guð hins góða og lausnar. Ástin tengir og trúin eflir. Koldingsagan minnir okkur á að loka ekki á “hina” og þau sem eru “óæskileg” heldur opna. Öll erum við jafngild og öll elskar Guð. Ömmuhringurinn frá Íslandi er enn á fingri hinnar dönsku konu.

Veistu hver þau voru, þetta gjafmilda íslenska par? Ef eitthvert ykkar veit um hvaða Íslendingar voru í Kolding og gáfu ungu ástföngnu fólki trú og von væri gaman að fá upplýsingar eða ábendingu.

Myndin (sem ég tók á safni í Þýskalandi) er af hring Katharinu von Bora, konu Marteins Lúthers. Þau eru eitt af mörgum pörum sem bundust ástarböndum þvert á vilja ráðandi aðila og kerfa.

Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.

Þessir flóttamenn

ÁvextirGult lauf liggur á götunum. Rauð reyniberin mynda fagurt litaívaf í haustlitasinfóníuna. Tré og runnar hafa náð fullum þroska og fuglar himins uppskera. Menn hafa bjargað forða til hausts og vetrar.

Þótt fæst okkar séum með beinum hætti háð gróðri jarðar lifum við samt í hrynjandi náttúru og megum gleðjast yfir jurtum sem þroskast, í samræmi við köllun sína og skila ávexti sínum til lífkeðju veraldar og fræjum til framtíðar. Rauð ber, fullþroska grænmeti og líka hálfslompaðir, syngjandi þrestir eru fulltrúar lífsins í verðandi veraldar.

Í Biblíunni eru ávaxtaríkar sögur sem ríma við tímann. Það eru ekki úreltar sögur – eins og grunnhyggnir skríbentar halda fram – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta og eru erkisögur. Sögur um að við menn megum bera ávöxt í samræmni við eðli okkar og viðmið. Ein þeirra er Rutarsaga í Gamla testamentinu. Texti úr þeirri bók er lexía næsta sunnudags sem er 20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, um lífið, gildi lífsins, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef nokkuð úrelt, er eitthvað sem minnir þig á vanda og val okkar í nútíma?

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að ísraelsk fjölskylda, kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér vel og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu, konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim og ungu konurnar – sem voru barnlausar – urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir og hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu.

Sú unga gekk í verk til að bjarga sér og tengdamóður sinni, hreif fólk í nágrenni Jerúsalem og svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. En Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar. Það var þessi kona sem síðan varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins – formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega vefs.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks af alls konar kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru sem hefðarminni sem ratar til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar og til að menn beri ávexti og fræ til framtíðar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist. Og það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða.

Og þá lexíutexti sunnudagsins. Rutarbók, annar kafli. Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust, vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Og yfir vakir Guð elskunnar, sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum Guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra.

Biðjum:

Fyrir hvert skref sem ég tek í lífi mínu – ver mín leiðarstjarna – þú lífsins Guð

Fyrir allar byrðar lífsins – ver mér styrkur – lífsins Guð

Fyrir allar fjallaferðir ævinnar – gef mér kraft – lífsins Guð

Fyrir allar árnar sem ég þarf að vaða – ver mér styrk hönd, lífsins Guð

Fyrir alla áningarstaði mína ver mér friður – lífsins Guð
Fyrir aftureldingu og sólarlag allra daga ver mér gleðigjafi – þú lífsins Guð

(ensk pílagrímabæn)

Biðjum bæn Drottins: Faðir vor….

Drottinn blessi oss og varðveiti oss, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss frið.

Um Rutarbók sjá ágæta og áhrifaríka prédikun sr. Sigurvins Lárusar Jónssonar.

Íhugun – kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 15. október, 2015.