Greinasafn fyrir merki: ást

Hvað meinti hann?

Hvað er inntakið eða merkingin í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar? Á fræðslusamverum í Hallgrímskirkju í mars var rætt um erindi sálma Hallgríms, uppbyggingu þeirra, tilgang, listfengi, barokk, málfar og ást. Guðríður Símonardóttir, kona Hallgríms, kom líka við sögu. Þrjár hljóðskrár urðu til í þessum samverum og hafa verið birtar á kirkjuvarpi þjóðkirkjunnar. Rætt er við Steinunni B. Jóhannesdóttur, dr. Margréti Eggertsdóttur og að auki flytur Sigurður Árni Þórðarson yfirlitserindi um um ástina í Passíusálmunum. Hægt er að nálgast og hlusta á samtölin og erindi að baki þessari smellu.

Ástin í Passíusálmunum

Ástarþörf er frumþrá allra manna og hjá mörgum blossar ástarþörfin upp þegar að kreppir og allar hvunndagsvenjur brotna og augn- og sálarskýlur eru dregnar burt. Í fyrra þegar farsóttarfárið byrjaði gekk ég meðfram bókahyllunum mínum og dró út nokkur rit sem tengdust farsóttum. Sú fyrsta sem ég dró út var Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni. Það er pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórens í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, sumar ansi safaríkar og margar um ástina. Já ástin sprettur fram á tímum kólerunnar – og það er nafnið á annarri bók, eftir meistara Gabriel Garcia Marques. Svo var La Peste – Plágan, bók Albert Camus. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju unglingsáranna. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif á mig. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann, svipað og við höfum orðið vitni að í ýmsum ríkjum erlendis. En söguhetja bókarinnar, læknirinn Bernhard Reiux mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Erindi bókar Camus er að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli hvort sem það ríkir plága eða ekki? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar.

Mig langar til að minna á tvær nýjar íslenskar ástarsögur sem urðu til á tíma hörmunganna. Báðar tjá að ástin blómstrar þvert á erfiðar aðstæður. Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði og gaf út bókina Snerting á liðnu ári. Söguhetjan Kristófer lokaði veitingastað sínum í Reykjavík þegar farsóttin byrjaði. Hann fékk í miðjum faraldri vinarbeiðni á facebook og þá var eins og allt ævipuðið gufi upp. Faraldurinn opnaði sálargáttirnar og þessi gamli maður lagði af stað í langferð, – í miðju veirufárinu – um tómar flughafnir og austur til Japan til að vitja sjálfs sín og ástarinnar sem hvarf frá honum en tilfinningin hvarf aldrei. Kreppur kalla fram djúpást lífsins. Þetta er einhver dásamlegasta ástarsaga sem ég hef lesið. Pestin hindrar ekki ástina heldur magnar.

Og af því allt skelfur og hristist þessa dagana er full ástæða minna á hina mögnuðu sögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir. Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar þjóðarinnar og helsti eldfjallasérfræðingurinn. (Hún er hliðræn, skálduð, útgáfa Kristínar jónsdóttur sem er í öllum fréttum þessa dagana). Versta útgáfa af nátturuhamförum dynja yfir. En það verða flekahreyfingar, sálarskjálftar í Önnu líka og hún verður ástfangin. Sagan er rosaleg. Þar er það ekki kyrrlát ást í pestinni heldur hamfaraást í sálardjúpum og náttúru. Og kannski er það svo að ástin hittir fólk með meiri þunga en jarðskjálftar hversu stórir og öflugir sem þeir eru. Allir þarfnast ástarinnar. En stundum leiðir hún til dauða af því samhengið er ekki virt og hamfarirnar eru of rosalegar. Ég vona að ég spilli ekki um of fyrir ykkur sem eiga eftir að lesa bókina.

„All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Ástarsagan

Og þá að ástinni í Passíusálmunum. Fyrsta spurning er: Af hverju urðu Passíusálmarnir vinsælir á Íslandi? Af hverju varð safn af sálmum metsölubók og metlestrarbók Íslands í mörg hundruð ár? Er eitthvað í Passíusálmum sem er mikilvægt og sígilt? Hvernig var saga höfundarins? Við vitum að Hallgrímur var mikils metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar. Af hverju? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega, en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. 

En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. 

Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á börn sín og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu og fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Í þeim er sögð tilfinningasaga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð sem líknar og er vinur en ekki óvinur og Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur reynslu sem nærir og svarar kærleiksþörf fólks. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Passíusálmar – merking og gildi

Guðsorðabækur voru aðalútgáfuefni íslenskra forleggjara fram yfir aldamótin 1900. Útgáfa þessara rita var svo mikil að spaugararnir töldu að ef bókunum væri raðað saman væri hægt að byggja brú frá jörðinni og alla leið til tungslins og svo til baka. Bækurnar sem voru gefnar út voru hugvekjubækur og kristileg ræðusöfn til styrktar trúariðkun á heimilum og til nota í kirkjum og heimahúsum. En af öllum bókum sem gefnar voru út eftir siðbótartímann eru tvær bækur eru í sérflokki þeirra sem lesnar voru. Það voru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og Vídalínspostilla. Þær voru elskaðar og dáðar. Passíusálmarnir voru fyrst útgefnir 1666 og Vídalínspostilla var gefin út 1718-20. Síðan voru þær báðar gefnar út í mörgum upplögum.

Hver var höfundurinn?

Aðeins um skáldið. Hallgrímur Pétursson fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði. Ekkert er vitað um fæðingardaginn en hins vegar er vitað að hann lést 27. október 1674. Líf hans var ævintýralegra en flestra Íslendinga. Hann missti ungur móður sína og fluttist til Hóla með föður sínum og fjölskyldu. Í skjóli biskups naut hann menntunar og fékk innsýn og útsýn í menningu og menntir. Hann þótti bráðger og hæfileikaríkur. Ýmsar litríkar sögur af honum og að hann var ljóðrænn orðhákur sem lét orðahrísið yfir þorpsbúana á Hólum. Í Hallgrími bjó útþrá og vilji til stórvirkja. Hvort sem hann hefur strokið eða farið með leyfi var hann þegar á unglingsárum kominn til norður Þýskalands og vann þar við járnsmíðar. Síðan fór hann, að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar til latínuskólanáms í Kaupmannahöfn. Þegar komið var að námslokum var Hallgrímur Pétursson settur í kennsluverkefni sem mótaði líf hans upp frá því. Hópur Íslendinga hafði verið leystur úr ánauð, sem höfðu verið fluttir frá Íslandi í Tyrkjaráninu og alla leið til Norður Afríku. Hópurinn var sendur til Kaupmannahafnar. Þótti við hæfi að uppfræða fólkið eftir veruna ytra. Hallgrímur var fenginn til að kenna þeim. Hann varð ástfanginn af konu í hópnum, Guðríði Símonardóttur. Áður en henni var rænt hafði hún verið gift kona og búið í Vestmannaeyjum. Ástarsaga Hallgríms og Guðríðar hófst. Guðríður varð þunguð af ást, kristinfræði og barni þeirra Hallgríms. Eiginmaður Guðríðar lést skömmu fyrr og þau Hallgrímur fluttu til Íslands og settust að á Suðurnesjum þar sem Hallgrímur hafði ofan af fyrir fjölskyldu sinni með verkamannavinnu. Hann fékk svo prestsembætti á Hvalsnesi árið 1644 og þjónaði söfnuðinum til 1651. Prestshjónin voru ekki borin á höndum eða nutu aðeins náðugra daga. Ástarsagan var ekki bara brími því þau Guðríður misstu börn og m.a. Steinunni, þriggja og hálfs árs árið 1649. Í rismiklu ljóði Hannesar Péturssonar Á Hvalsnesi fjallar hann um sorg skáldsins sem er meiri en hafið. Legsteinn Steinunnar sem Hallgrímur klappaði er til í Hvalsnesi.

Hallgrímur, Guðríður og þeirra fólk fluttu árið 1651 í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en sumarbúðaparadísinn Vatnaskógur er í landi Saurbæjar. Þau bjuggu við Hvalfjörðin allt til dauðadags og þar urðu Passíusálmarnir líklega til og alla vega voru þeir fullmótaðir þar.

Hvað eru Passíusálmar?

Passíusálmarnir eru safn fimmtíu sálma sem lýsa píslarferli Jesú Krists. Aðalpersónunni er lýst með tvennu og mjög ólíku móti. Annars vegar er dregin upp mynd af Jesú Kristi sem himinkonungi í heimi þegna sinna. Hins vegar er hann í hlutverki mensks fulltrúa mannkyns, sem lætur yfir sig ganga illsku þessa heims í átakanlegum útgáfum.

Þessar andhverfur hátignar og þjáningar fléttar Hallgrímur Pétursson saman í eitt. Jesús Kristur Passíusálmanna er líðandi konungur. Þar með er sprengd annars vegar konungsímyndin og hins vegar sú mannhugsun, að menn séu ofurseldir vonleysi, þjáningu og dauða. Mál himins og heims eru eitt, fléttuð saman. Lausn alls vanda heimsins á rætur í þeirri ást Guðs, sem lætur sér ekki standa á sama um kjör og velferð manna og heims. Konungur himins kemur af því að hann lætur sér annt um heiminn og gengur síðan krossferilinn allt til enda. Þar sem hann er fulltrúi manna leiðir hann mannkyn til Guðs. Jesús gengur inn í allan vanda manna en stenst. Í því verður hann fyrirmynd, sem menn geta séð sig í. Öllum, sem eru niðurþrykktir og brotnir, verður Jesús sem ímynd vonar og hvatningar til að gefast ekki upp í baráttu lífsins. Hann verður daglegur styrkur á vegi trúarinnar.

Íhugunarkveðskapur

Sálmarnir voru hugsaðir sem föstusálmar, til lesturs og íhugunar á föstunni fyrir páska. Í norður-evrópskri trúarhefð frá dögum Marteins Lúthers var lögð áhersla á sístæða endurnýjun innri manns. Og sú iðja var kallað daglegt afturhvarf. Í því felst að menn geri reikningsskil við Guð, náungann og sjálfa sig á hverjum degi. Lífið er ferli og sífellt þarf að skoða hvað má bæta eða batna og hvernig megi lifa í sátt við Guð og menn. Sálmunum var ætlað að efla íhugun og verða fólki til endurnýjun trúar og hvetja til betra lífs.

Hinn skipulagði höfundur

Hallgrímur Pétursson, höfundur Passíusálmanna, vildi að þau sem læsu sálmanna næðu að fylgja söguþræði og draga lærdóm af píslarsögu Jesú. Sálmarnir hvetja lesendur til að fylgja Jesú eftir. Í upphafi hvers sálms er staða mála kynnt með því að tilfæra vers eða kenningu Bilíunnar sem tengjast baráttu Jesú. Passíusálmar hefjast við lok síðustu máltíðar Jesú og lýkur við grafarsetningu hans. Það sem guðspjöllin segja um píslarsöguna er tekið til skoðunar. Ekkert á þeim ferli fer fram hjá vökulum augum íhugunar, hvorki stærstu atburðir eða smáatriði. Allt skyldi skoðað. Í eftirfylgdinni er sálinni bent á hvað fyrir ber, rætt er við hana um ýmsar víddir og merkingu guðspjallstextanna. Biblíutextarnir stýra flæði hvers sálms, en eintsök stef eru endurtekin og margskoðuð frá mörgum sjónarhornum.

Tilgangur

Passíusálmum er að efla og styrkja íhugun og leiða til skilnings og tileinkunar. Hvernig sálmarnir eru skipulagðir þjónar íhugun og innri eflingu. Aðferð Hallgríms er aðferð liðsstjóra þeirra sem vilja eflast í þroska trúarinnar. Hver sálmur er sem eining íhugunar. Dreginn er heim lærdómur og speki, sem píslargangan vekur. Skoðunin á ferli Jesú er ætlað að að styrkja einstaklinga, næra sál hins kristna. Skoðun og íhugun leiðir lesandan vítt og djúpt og þegar best lætur – til bænar. Jesús fer á undan og ég á eftir.

Þetta sameiginlega ferðalag verður til að staða mín sem mannveru frammi fyrir eigin sjálfi, öðru fólki og Guði skýrist. Eigindir, staða og brestir opinberast. Ég er sem á flæðiskeri. Að mér er sótt og synd mín er stór. Leiðin er aðeins ein, að fylgja líðandi konungi mínum allt til enda. Þrautaleið hans er ekki átakalaus sigurganga, heldur þjáningarfull ganga til lausnar. Í hverjum sálmi er niðurstöðu náð. Lofgjörð er hið rétta viðbragð trúar gagnvart baráttu hins líðandi en þó sigrandi höfðingja, sem veitir hlutdeild í sigri sínum.

Guð í Passíusálmunum

Passíusálmarnir eru trúarrit sem sver sig til liðins tíma og lúthersks rétttrúnaðar. Þeir eru orktir í anda klassískrar guðfræði og víkja í engu frá meginstefnu klassískra játninga kirkjunnar. Guði er lýst sem föður, skapara, dómara og hjálpara. En Hallgrímur Pétursson eins og Immanúel Kant síðar var trúr lútherskri hefð í því að virða takmörk skynseminnar. Vit manna væri takmarkað. Eðli Guðs og leyndardóma getur takmörkuð skynsemi ekki skoðað (21:1). Passíusálmarnir kenna því enga frumspeki. Myndin af Guði, föður er tvíþætt í sálmunum. Annars vegar er Guð ástmögurinn mikli, sem ber velferð heims og manna fyrir brjósti (44:4, 44:6, 3, 20). Sú ástarafstaða knýr einnig reiði, sem bregst við heimi sem fer villur vega (26:2, 12:22 o.áfr.). Guði er ekki lýst sem fjarlægum hátignarguði, heldur í stöðugum tengslum við heim. Á þann hátt einan þekkja menn Guð. Um himin og Guðseðli verður ekkert sagt sem ekki verður reynt í sambandi við Guð. Guð verður aðeins þekktur í tengslum.

Jesús í Passíusálmum

Jesú Kristi er í Passíusálmum er hvorki lýst sem hernaðarhöfðingja né dulrænum frelsara úr hæðum. Honum er lýst sem stjörnuprinsi sem afsalar sér stöðu sinni og verður líðandi fulltrúi mannkyns. Í sálmunum er því lítið rætt um hátignareigindir Jesú, s.s. alviturleika og almætti. Hallgrímur var ekki með hugann við guðfræðilegar útfærslur. Hann einfaldlega aðhylltist hefðbundnar kenningar um Guð og þar með um Jesú. Hann hafði trú á yfirskilvitlegri visku Jesú (1:24, 42:3) en verkefni sálmanna var ekki að skilgreina eða túlka merkingu hennar, heldur sýna ástgjöf hans. Passíusálmarnir eru saman settir út frá hugmyndinni „fyrir mig.“ Sá eða sú er elskar Jesú mun ekki aðeins verða vitni að ópersónulegu kraftaverki heldur eignast hlut í því.

Hið brotna jafnvægi og rásleysi

Þegar í fysta sálmi er talað til sálar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“ Allt mennskt er brothætt og forgengilegt. Líkingarnar sem notaðar eru tjá þann veruleika okkar manna. Og pílagrímaganga manna varðar meðalhóf sem er siðfræði sálmanna. Við eigum hvorki að fara of skammt eða of langt. Illska og þjáning leiðast af markaleysinu. Báðum megin við reit manna og athafna þeirra er hengiflug, sem menn falla í og leiða aðra í ef þeirra er ekki gætt í hugsun, orðum og æði. Aðalmálið í lífi hvers manns að lúta engu valdi nema Guðs. Aðalmálið er að endurnýja eða treysta ástarbandið við Guð.

Manngildið

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk spurt þeirrar spurningar. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti og við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni með einu eða öðru móti, jafnvel þó við reynum okkar besta til að forðast hana.

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og alls staðar í veröldinni. Lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Fáir munu við æfilok halda fram að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin sem skiptu mestu máli. Og ég hef ekki hitt neinn sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Því oftar sem ég horfi í augun á fólki segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég að þær eru ástarsögur – en vissulega í ótal tilbrigðum. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. En áföll og píslarganga er hluti ævigöngunnar. Margir ástvinir bregðast, truflast og týnast. Það er sorglegt. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Öll lifum við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Guðsástin

Í tilfinningum og ástarsögum manna og líka Passíusálmum getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En við getum líka farið dýpra og séð í þeim ljósbrot af ástargeislum Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð elsku himinsins. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg og áleitin. En við megum gjarnan stækka þessa spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almennt heldur setja inn þarfir, tilfinningar og verðandi Guðs. Það er merkilegt að spyrja okkur sjálf hvað gerir okkar eigið líf þess vert að lifa því en það er rosalegri spurning að spyrja: Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Þetta er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju sá Guð ástæðu til að stíga inn í ruglingslegan heim tíma og efnis? Af hverju kemur hið stóra inn í smáheiminn? Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum og megnum ekki að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn eða ástarjátning. Þannig orkti Hallgrímur um ástina í veröldinni. Líf er flókið en ástin er hrein.

Af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli í eilífðinni. Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú er kominn í strand, í öngstræti og á enda? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei heldur opnar út, hrífst, leitar tengsla, viðfangs, faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar og sagan af Guði er fyrst og síðast ástarsaga. Og þannig ástarverk eru Passíusálmarnir.

SÁÞ. Fræðslusamvera í Hallgrímskirkju 2. mars 2021 í röð erinda og viðtala um ást í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hjóðvarp – þ.e. upptaka þessa erindis sem og viðtöl í röð samtala um ást í passíusálmum er að baki þessari smellu. 

Meðfylgjandi mynd tók ég af málverki í stórverslun í San Francisco í janúar 2018. 

 

 

Dekraðu nú við ástina!

„Það er gott að elska.“ syngur þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar. Í dag er Valentínusardagur og auglýsendur heimsins magna upp ástarbrímann og hvetja alla að dekra ástina. Tilboðunum rignir yfir, gistitilboð á hótel Sigló eða góðgæti á Forréttabarnum og dekur á Hópkaup til að koma elskunni á óvart. Já, Valentínusardagurinn er alls konar. En þetta er góður dagur og fyrir ástina. Hvaða ást? Alla ást; til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs, náttúrunnar og líka Guðs. Og kannski eru einhver hér í hópnum sem bara hugsa um konudaginn og mæðradaginn sem ástardaga – og sjá engan tilgang í að bæta amerískum Valentínusardegi í ástardagasafnið. En raunar eru allir dagar fyrir ástina.

Þær góðu fréttir bárust nú í vikubyrjun að nú mætti opna kirkjur. Við sungum dásamlegan sálm í byrjun þessarar guðsþjónustu. „Opnið kirkjur allar …“ Nærri hálft ár er liðið frá því að Hallgrímssöfnuður kom til sunnudags-guðsþjónustu. Það er því hátíð í dag. Hallgrímskirkja hefur vissulega verið opin. Helgistundir hafa verið í kirkjunni í hádeginu, síðustu mánuðina, lengstum sex sinnum í viku hverri. Við höfum gætt vel að sóttvarnarreglum og tryggt að þrátt fyrir stærð kirkjunnar hafi fjöldinn ekki verið meiri en reglur hafa sagt til um. Við höfum gætt fjarlægðarmarka og hætt að faðmast og kyssast. Við signum hins vegar og krossum hvert annað úr hæfilegri fjarlægð. Og við höfum beðið saman. Guð er óbundinn af sóttvarnarreglum og hefur blessað samfélag safnaðarins. En nú megum við koma saman í stærri hópum en áður. 150 manns mega vera við helgiathafnir í kirkjunni þessar vikurnar og vonandi fleiri þegar á líður. Haffi Haff, tónlistarmaður og messuþjónn kom í vikunni og hvatti til að á þessum degi minntum við okkur á kærleikann, ástina, tengslin í öllum myndum. Það er ekki bara forsetafrú vestur í Ameríku sem undirbýr Valentínusarhjörtu heldur undirbjó Haffi Valentínusarhjörtun fyrir Hallgrímskirkju og lagði Kristnýju og Kristínu lið í undirbúningi barnastarfsins. Nýr opinn tími. „Fyllum kirkjuna af ást“ sagði Haffi. Já, það er svo sannarlega opinn tími. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi.

Biblíutextar dagsins eru margræðir og fjölþættir. Yfirskrift þessa sunnudags og textanna á vef kirkjunnar er: Krossferill – vegur kærleikans. Og vissulega er það ein útgáfan af Valentínusardegi. Lifið betur og með ábyrgð er merking lexíunnar. Bætið vegi lífsins. Það er ekki verið að tala um Sundabraut eða Borgarlínu – heldur leiðir hjartans og hamingjuleiðir samfélagsins. Og pistillinn: Gætum að samfélagsmótun, uppeldi og sjálfsvirðingu. Það er ekki aðeins verið að tala í anda hinnar splunkunýju heimildarmyndar Hækkum rána sem var sýnd á sjónvarpsstöð Símans nú í vikunni heldur um hið stóra uppeldissamhengi allra manna, helgi lífsins og helgi alls sem Guð hefur gert. Uppeldi stelpna og stráka fellur undir það og hlutverk okkar allra er að vera meðskapendur Guðs, samverkafólk. Svo er texti Jóhannesar í þeim anda. Ég staldraði við eitt stef: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Það er ljóst að Jesús hafði áhyggjur. Hann óttaðist. Það eru djúpir skuggar sem hann uppteiknar í ræðu sinni um veginn, ljósið og leiðina. Og það er ástæða til að hugsa um lífið á Valentínusardegi, í ástarbríma á föstu.

Ástalífið á sér skugga og birtustundir rétt eins og lífið í öllum myndum. Þó heimsbyggðin hafi ákveðið að mannréttindi skuli virða, samþykkt barnasáttmála og sett í lög alls konar hvata, stefnur og bætur brengla fjársókn, hluthyggja, valdasókn, fíknir og aðrar útgáfur illskunnar líf einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga, mannkyns og lífheims. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Þessa síðustu daga hafa réttarhöld staðið yfir í þinghúsinu í Washington yfir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ég hef verið hugsi yfir stöðu lýðræðis í heiminum eins og milljónir um allan heim. Lýðræði er æfintýraleg tilraun til félagslegs samkomulags um að allir megi koma að stjórn ríkis. En slíkt samkomulag er ekki gefið og getur auðveldlega þokað fyrir ofbeldisfullu valdi sem hrifsar taumana til sín, vill meira og helst allt. Lífið sækir fram en það mætir alltaf fyrirstöðu og lífverur þurfa að hafa fyrir lífinu. Lýðræði þarf að rækta til að það lifi. Réttarhöldin í Washington eru aðeins dæmi um lýðræðisskaða í þessu mikla lýðræðisríki og að nú er vetur lýðræðis þar vestra. Tekst að hreinsa og bæta? Kemur vor? Vonska mannanna er ekki bara í röðum Trumpistanna heldur í öllum mönnum, kennir kristnin. Okkur öllum.

„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Ég minnist úr eigin lífi hvernig líf mitt lenti haustfrostum, fræ féllu, veturinn varð skeliflegur en svo voraði að nýju. Ekkert er sjálfgefið og hamingjan er engin fasteign sem er bundin af eignarhaldi og einkarétti. Lífið þarfnast alúðar, umhyggju, ræktunar. Við verðum að gangast við þroskaverkefnum okkar, áföllum og vaxtartímum.

Hvernig er með þitt líf? Hefur einhvern tíma gefið á? Hefur þú misst, tapað, týnt? Hefur vetrað í líf þínu. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Lífssögurnar eru alls konar og ástarsögurnar þar með líka. Á föstunni erum við minnt á að lífið er ekki sjálfgefið heldur barátta. Og við megum líka minna okkur á anda og boðskap Passíusálma og höfundar þeirra. Passíusálmarnir draga upp þá mynd að himinkonungur kom til að þjóna og að lokum með svo róttæku móti að hann lét líf fyrir aðra. Það er íhugandi hlið ástalífsins. Fastan og píslarsagan dregur upp skuggahliðar lífsins. Við erum minnt á baráttu, brenglun, illskuna sem beyglar jafnvel deyðir. Píslarsaga er ekki bara saga Jesú heldur alls lífs. Jesúsagan dregur saman alla þætti mannllífs og veraldar.

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.Við getum ímyndað okkur margt um Guð með því að skoða vel ástarsögur. Við getum skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa liðna árs, COVID-tímans? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Nú er dagur ástar, dagur á föstu. Við megum næra ástina okkar. En það merkir ekki bara að dekra við fólkið okkar heldur líka okkur sjálf. Þora að horfa inn á við og huga að dýptunum.

Í Biblíunni er sagt frá lífinu í öllum myndum. Þar eru sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig. „Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“ Kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Líf okkar er köflótt en saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Viltu ástarsögu eða sorgarsögu? Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um þig.

Amen.

Lexía: Jes 57.14-15
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Pistill: Heb 12.9-13
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

Guðspjall: Jóh 12.23-36 
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist. 

Prédikun SÁÞ 14. febrúar 2021.

Sorgin – skuggi ástarinnar

Sorg er ekki sjúkdómur heldur einn af þáttum heilbrigðs lífis. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. Dauði, skilnaður, ósætti, tengslarof og vinslit valda sorg.

Ástin er meginþáttur heilbrigðs lífs. Allir vilja elska en enginn syrgja. Ef við viljum losna við sorg og söknuð ættum við að sleppa því að elska. Þau syrgja ekki sem hafa aldrei elskað. En sorg er jafn eðlilegur þáttur lífsins og ástin. Sorg er gjald elskunnar. Sorg er skuggi ástarinnar.

Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið hafi breyst. Yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang. Sorgarþróun er gjarnan lýst sem mynstri sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju. Sorgarferli er því ekki aðeins áfall heldur vegferð með litríkum tilfinningasveiflum. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum.

Þegar fólk missir verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun. Áfallið getur verið svo mikið að fólk verður sem lamað af drunga áður en bataferlið hefst. Að syrgja er ekki sjúklegt heldur fremur merki um að tilfinningar eru heilbrigðar en ekki búnar að jafna sig á áfallinu. Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling sálar. Stundum tekur langan tíma að þýða sálarfrostið. Vegna dofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo, eins og í náttúrunni á vorin, verður flóð í sálinni. Það er jafnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis. Margir upplifa að vera illa áttuð og einmana.

Söknuður er langlífur. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert ef ekkert er gert. Eins og líkamleg sár þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Það hjálpar að tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er sárt. Að tala um heilsumissi, skilnað, vinslit og áföll er erfitt en mikilvægt. Tilgangurinn er að hreinsa sárin.

Hver hafði mest áhrif á þig og gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir eða faðir, afi eða amma, maki eða börn? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur eða dýrlingur? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir af fólki sem hafa haft áhrif. Dagar minninga eru dagar lífs.

Birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember, 2020 

Ástin og ártíð

Í dag er 346. ártíð Hallgríms Péturssonar sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Þau voru jaðarfólk sem létu ekki buga sig. Henni var rænt, var herleidd, flekkuð en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga en brotnuðu ekki heldur elskuðu og líf þeirra bar ávexti. Þau áttu börn en dauðinn fann þeirra hús. Ástarsaga Hallgríms og Guðríðar varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar en ekki hinum reiða guði. Guð sem kemur en er ekki fastur á tróni fjarlægs himins. Guð sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin og fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Við mannfólkið erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.