Greinasafn fyrir merki: Arthur Morthens

+ Arthur Morthens +

HArthurver var eftirminnilegasta minningin um Arthur? Eitt svarið er: „Það var þegar hann kom í Kjósina frá Danmörku.“ Arthur var tvisvar á bernskuárum sendur til Danmerkur til lækninga. Þegar hann var tíu ára var hann ytra í marga mánuði. Hvorugt foreldranna gat verið hjá honum, en hann hafði stuðning af vænu dönsku hjúkrunarfólki og ættingjum í Höfn, sem töldu kjark í litla manninn. Allt varð Arthuri til náms og þroska. Ríkisspítalinn var honum ekki aðeins hjartalækningarstöð heldur fékk hann þar „krasskúrs“ í dönsku og varð að bjarga sér – engir túlkar voru á vakt. Loks var ferðalangsins að vænta heim eftir vel heppnaða dvöl. Foreldrarnir og strákarnir biðu í ofvæni eftir komu hans með betrumbætt hjarta. Hann átti að koma með áætlunarbílnum í Kjósina. Einn bræðranna hlakkaði svo til endurfundanna að hann hljóp á móti rútunni, sem stoppaði og sá stutti fékk að fara inn. Og hann sá Arthur eins og í upphöfnum ljóma – nálgaðist hann og fagnaði. En viti menn, Arthur var orðinn svo umbreyttur að hann talaði bara dönsku við bróður sinn. Reynslan var svo yfirþyrmandi að þetta var minningin sem hentist upp í vitundina þegar ég spurði um hvað væri eftirminnilegasta upplifunin um Arthur bróður. Það var þegar Arthur kom í Kjósina. Þetta er eiginlega himinmynd, Arthur farinn og kominn, umbreyttur, íslenskan farin en danskan komin, einhvers konar himneska sem hann talaði.

Í klassískum heimi var talað um hið mennska þroskaferli – exitus og reditus. Að fara – til að koma til baka með hið nýja, stóra og viskuna. Og nú er Arthur farinn, en kominn aftur með einhvers konar himnesku til okkar. Farinn inn í eilífðina – eins og af glettinni stríðni – undir dönskum himni en kominn með nýja skynjun til eflingar lífs okkar sem störum á bak honum. Til hvers lifir þú og hvernig?

Ævistiklur

Og þá er gott að rifja upp. Hvernig manstu Arthur? Hvað var hann, hvernig og af hverju? Hann var reykvískur – en líka danskur. Hann stundaði einnig nám í Noregi, var heimsborgari og fulltrúi mennskunnar í heiminum. Hann var nálægur en líka óræður, með sterkar festur en líka hreyfanlegur. Saga hans var margbrotin og í veru hans voru margir strengir ofnir.

Arthur fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948 en lést í Fåborg í Danmörku 27. júlí síðastliðinn. Móðir hans hét Grethe Skotte. Hún hafði yfirgefið stríðshrjáða Danmörku strax eftir að hernáminu lauk – ung kona sem heillaðist af því Íslandi sem Gunnar Gunnarsson hafði með bókum sínum kynnt á meginlandi Evrópu. Hún yfirgaf Láland, Kaupmannahöfn og stríðsgrafirnar og lagði upp í lífsferð sína og leit aldrei til baka. Hún blikkaði Guðbrand Kristinn Morthens í Alþýðuhúskjallaranum og þau urðu ástríðupar og lifðu stormasömu en ávaxtaríku lífi. Kristinn var ellefu árum eldri en kona hans og lifði meira en tveimur áratugum lengur en hún. Hún var dönsk, hann var hálfnorskur. Í sögu þeirra og sögu drengjanna speglast  eftirstríðsárasaga Íslands. Í upphafi voru þau á húsnæðisflakki en risíbúð á Barónsstíg varð upphafsreitur Arthurs. Þar var fjölskyldan þröngbýl þéttbýlisfjölskylda og stutt á milli fjölskyldumeðlimanna. Svo lá leiðin upp í Gnoðarvog, mikla mannlífshöll sem varð heimili Arthurs á unglingsárum.

Arthur var elstur í albræðrahópnum en Kristinn átti þrjú börn fyrir. Hjördís Emma fæddist árið 1936, Ágúst Rósmann kom í heiminn árið 1942 og Ævar síðan 1946. Sveinn Allan fæddist tveimur og hálfu ári á eftir Arthuri, árið 1951. Tolli kom í heiminn 1953 og Bubbi fæddist árið 1956. Bergþór rak svo á happafjörur fjölskyldunnar 1961 en hann fæddist árið 1959. Hann var bróðursonur Kristins og þau Grethe tóku honum opnum örmum þegar hann þarfnaðist fjöskyldu.

Íslandseign

Strákahópurinn varð í fyllingu tímans eign Íslendinga, almenningseign – svo dugmiklir, gjöfulir, lit- og tónríkir hafa þeir verið. Við höfum fylgst með þeim, heyrt sögur þeirra, söngva og mál, hrifist af þeim, hræðst angist þeirra, grátið með þeim og dáðst að krafti þeirra. Af hverju urðu þeir svona máttugir? Þeir bjuggu við kröpp kjör og stundum ófrið. Hrammur áfengis varð löngum lamandi. Pabbinn var oft fjarverandi. Mamman mátti hafa sig alla við, seldi Lálandsdjásnin og sneri saumavélinni hratt til að fæða og klæða hópinn. Og af því þeir voru algerlega utan við ætta- og klíkusamfélag Íslands gengu þeir ekki að neinu gefnu, áttu engar silfur- eða gullskeiðar í munni og fengu ekkert ókeypis. En það var ekkert verra að vita að ættmenni þeirra erlendis voru ekki lyddur. Og Arthur og Morthens-strákarnir urðu stólpar í þjóðlífi Íslendinga. Þjóðareign er margvísleg.

Þú ert stór maður

Arthur var fyrirburi og heilsuveill alla tíð. Hann varð sjálfur að ákveða sig til lífs og beita sig n.k. Munchausentrixum, stundum að draga sig upp á hárinu. Mamman sagði við son sinn, fíngerðan, nettan og lágvaxinn: „Þú ert stór maður. Þú ert ekki lítill maður – þú ert stór maður.“ Það var brýningin, veganestið allt frá bernsku. Þessi smái maður borinn til stórvirkja. Og til loka lífs lifði hann þannig. Engir erfiðleikar voru of miklir að ekki mætti sigrast á þeim. Kröpp kjör eða fötlun neitaði hann ekki leyfa að hamla. Arthur neitaði að óréttlæti sigraði réttlæti, mennskan skyldi ekki lúta fyrir ómennskunni og ómenningunni. Erfiðleikar urðu honum tækifæri fremur en óyfirstíganleg hindrun og reglan var einföld að ef sverðið væri stutt skyldi ganga skrefinu lengra.

Arthur gerði ýmsar tilraunir í námi og lífi. Sumt var óvænt. Hann þótti ekki líklegur til hamars og nagla en svo skráði hann sig í smíðanám hér næsta húsi á Skólavörðuholtinu og þrælaðist m.a. í bryggjusmíði við Snæfjallaströnd – og kvartaði aldrei.

Fólkið hans studdi Arthur með magvíslegu móti. Bræður hans, Allan og Tolli, gáfu honum nýru sem björguðu honum og bættu lífskjörin. Þökk sé þeim.

Ég veit að Steinunn tryggði að Arthur nyti alls þess sem heilsa hans leyfði. Þökk sé henni. Og vert er að nefna „strákana“ – hóp kærleikskarla – sem sóttu Arthur í hádegismat og óku honum heim í hverri viku – og jafnvel oft í viku. Í þeim öfluga og glaðsinna hópi, sem var einn af þeim kátustu í bænum, naut Arthur sín. Þökk sé ykkur vinum Arthurs.

Sá elsti og fyrirmyndin

Sem elsti sonurinn í stórum strákahópi – og stundum pabbalausum – var hann oft í hlutverki fræðarans. Hann miðlaði músík, hafði áhrif á hvernig fyrstu gítargripin hans Bubba urðu, túlkaði átök, gæði, og skyldur fyrir strákunum, varð fyrirmynd á flestum sviðum, aðstoðarmaður mömmunnar, fulltrúi menningardeiglunnar, hippinn, pólitíkus og stríðsmaður réttlætisins. Hann gerði sér grein fyrir að hann ætlaði ekki að saga allt lífið eða moka á Miklubrautinni og kveikti á andans perum sínum í Kennaraskólanum. Þar kom hann til sjálfs sín og naut hæfileika sinna og náms. Lífið var litríkt innan sem utan skóla. Hann kynntist ástinni, lífsbaráttu og eignaðist félaga. Einn Þorláksmessudag kom hann heim alblóðugur og hafði lent í götubardaga þegar hann mótmælti framgöngu Kanans í Víetnam. Mamman bað hann blessaðan að vera heima, en hann rauk upp og niður í bæ aftur þegar tekist hafði að hreinsa sár og binda um. Byltingin og baráttan yrði ekki að honum fjarverandi. Litli maðurinn var stór og hikaði ekki að hjóla í risana í veröldinni.

Grethe fór til Danmerkur til náms og unglingurin Arthur var allt í einu alábyrgur fyrir eldri bræðrunum. Saman urðu þeir að afla fjár til matar og lífs. Það var ekkert mulið undir þá.

Arthur útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1973. Hann langaði að fara í Háskólann en svo var hnippt í hann og hann var beðinn að kenna í Keflavík. Þar starfaði hann sem kennari til 1978. Hann bryddaði upp á nýungum, hikaði ekki við kennslufræðilegar tilraunir og sló í gegn. Ýmsir undruðust hvað hann væri að fletja sig út fyrir krakkana í Keflavík. Arthur var spurður af hverju hann væri að hafa fyrir þessu pakki! En hann raðaði ekki fólki í undir- og yfirflokka. Fólkið sem hann þjónaði var einfaldlega alls konar en þó jafngilt – og þyrfti alls konar aðstoð og líka fjölbreytilegar aðstæður. Hann stóð með mennskunni og vissi að hann gæti stutt þau sem voru smá en þó stór. Það er mikill Jesús í sögunum um Arthur frá þessum tíma. Svo sneri hann til baka í bæinn. Arthur fékk kennarastöðu í Árbæjarskóla og naut sín í kraftmiklum og samheldnum kennarahópi. Í Árbænum starfaði hann frá 1978 til 84.

Með kennslustörfum í áratug aflaði Arthur sér dýrmætrar reynslu og náði yfirsýn sem hann vann úr allar götur síðan. Hann gekkst við köllun sinni og hélt til náms í Osló í sérkennslufræðum. Arthur lauk sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló árið 1985 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1987. Með þroska og menntun var hann síðan ráðinn til skrifstofu fræðslumála í Reykjavík. Hann var sérkennslufulltrúi á árunum 1988 til 1991 og síðan forstöðumaður kennsludeildar til 1996. Þá voru málefni grunnskólans flutt til sveitarfélaganna og Arthur var ráðinn forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann næstu tíu árin og var síðan ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar frá 2006 til 2012. Þau sem nutu þjónustu Arthurs muna og þakka lipurð, natni, áhuga og skapandi velvilja hans í störfum.

Vert er og að minna á og þakka fyrir félagsstörf Arthurs. Hann var einn af stofnendum Barnaheilla 1989 og var við stjórnvöl samtakanna árum saman. Hann hafði alla tíð sterkar skoðanir varðandi stjórnmál og þróun íslensks samfélags. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stétt sína í Kennarafélaginu, var virkur í Alþýðubandalaginu, varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og um tíma formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur.

Hjúskapur

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir, kennari. Þau kynntust í Kennaraskólnum, hófu hjúskap saman í Keflavík og gengu í gegnum súrt og sætt, í námi, störfum og lífi í meira en tvo áratugi. Þau skildu. Sigríður býr í Svíþjóð. Hún kvaddi Arthur í Danmörk í útförinni í Svendborg og biður fyrir kveðju til þessa safnaðar. Sonur þeirra Sigríðar og Arthurs er Ólafur Arnar. Hann starfar sem tölvunarfræðingur. Kona Ólafs er Halldóra Sigtryggsdóttir, leikskólakennari. Þau eiga þrjú börn: Petru Ósk, Harald Inga og Örnu Sigríði.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir, blaðamaður. Þau hófu sambúð árið 1997 og Arthur varð þremur dætrum hennar natinn stjúpi. Dæturnar eru Helga, Anna og Halla Tryggvadætur. Dætur Helgu og Jóns Þórs Péturssonar eru Rán og Saga. Synir Önnu eru Arnlaugur og Hallgrímur Guðmundarsynir. Halla á soninn Johann með sambýlismanni sínum, Frederik Anthonisen. Jón Þór, Pétur tengdafaðir Helgu, sem og Fredrik geta ekki verið við þessa athöfn. Þeir eru gæta smáfólksins erlendis en bera ykkur kveðjur sínar.

Arthur hafði alla tíð áhuga fólki. Hann fylgdist vel með ástvinum sínum, fagnaði með þeim, sótti skólaviðburði þeirra, vakti yfir lífi þeirra og framvindu fjölskyldunnar, lék við ungviðið, ræddi mál sem brunnu á þeim, datt í alls konar hlutverk skv. þörfum þeirra, hikaði ekki við leik og að spinna furðusögur, breytti jafnvel rúmi sínu í leiksvið ef kátínusækið barn hafði löngun til. Hann settist á gólf ef lítinn kút vantaði leikfélaga. Jafnvel máttfarinn afi hikaði ekki þegar líf smáfólksins krafði.

Ástvinirnir hafa misst mikið. Guð geymi þau í sorg þeirra og eftirsjá og styrki þau til að leyfa stórvirkjum Arthurs að lifa, til að lífið verði ríkulegt og stórt.

Mörgum hefur Arthur kynnst um æfina og mörg kveðja. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Hildi Ellertsdóttur í Svíþjóð.

Eilífðin

Nú Arthur er farinn inní eilífðina. Hann skilur eftir miklar sögur. Hann fór einn í skipi frá Íslandi til Danmerkur þegar hann var á fimmta ári. Hvernig var slík ferð tilfinningaríku barni? Stór, lítill maður. Fram fram um víða veröld. Hann ólst upp í þeytivindu Reykjavíkur og fjölskyldu Kristins og Grethe. Verkefnin voru mörg, að brotna ekki, halda stefnu, glíma við Bakkus, þora að setja tappann í. Þora að halda í festurnar, gildin, standa með því rétta til að sveigja kerfi í þágu fólks og gefa öllum möguleika. Aldrei á niðurleið. Arthur var alltaf á uppleið. Æfingar, heyrn, sjón, gleði – alltaf í plús jafnvel þótt fokið væri í flest skjól. Borinn til stórvirkja eins og allt hans fólk. Og við segjum takk. Takk Arthur fyrir að vera svona stór, glaður, kíminn, hugmyndaríkur, elskulegur og áhugasamur.

Hann er horfinn inní eilífðina. Já, kynslóðirnar koma og fara líka – við erum öll pílagrímar. Hvernig ætlar þú að verja lífinu? Hvað var það sem Arthur kenndi þér? Þitt hlutverk er að lifa vel – og lifa með öðrum og í þágu annarra – iðka hið góða líf. Það er gleðihljómur í grunni tilverunnar – sagan er saga til friðar. Boðskapur óspilltrar kristni er að við erum öll börn friðar og til þroska. Stór.

Guð geymi Arthur og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016. Bálför. Duftker jarðsett í Sóllandi, Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

Arthur Morthens fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948. Hann lést í Faaborg í Danmörku 27. júlí 2016. Foreldrar Arthurs voru þau Grethe Skotte Morthens, f. 18.3. 1928 á Lálandi í Danmörku, d. 30.1. 1982 og Guðbrandur Kristinn Morthens, f. 18.10. 1917 í Reykjavík, d. 4. desember 2002. Systkini Arthurs eru Hjördís Emma Morthens, f. 26.10. 1936, Ágúst Rósmann Morthens, f. 7.1. 1942, Ævar Guðbrandsson, f. 28.9. 1946, Sveinn Allan Morthens, f. 10.6. 1951, Tolli Morthens, f. 3.10. 1953, Bubbi Morthens, f. 6.6. 1956 og Bergþór Morthens, f. 24.8. 1959.

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir kennari, f. 20.11. 1952. Sonur þeirra er Ólafur Arnar tölvunarfræðingur, f. 26.2. 1974. Kona hans er Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólakennari, f. 28. 8. 1975. Þeirra börn eru Petra Ósk, f. 27.1. 1999, Haraldur Ingi, f. 4.6. 2003 og Arna Sigríður, f. 20.1 2006.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður, f. 26.5. 1961. Hennar dætur og fósturdætur Arthurs eru Helga Tryggvadóttir læknir, f. 21.7. 1982, gift Jóni Þór Péturssyni þjóðfræðingi, f. 27.11. 1979. Þeirra dætur eru Rán og Saga, f. 9.8. 2015. Anna Tryggvadóttir lögfræðingur, f. 24.11. 1984. Synir hennar og Guðmundar Arnlaugssonar eru Arnlaugur, f. 17.1. 2009 og Hallgrímur, f. 25.4. 2012. Halla Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 6.2. 1988, í sambúð með Frederik Anthonisen sjúkraflutningamanni, f. 28.12. 1986. Sonur þeirra er Johann, f. 6.10. 2015.

Arthur ólst upp í Reykjavík, fyrst á Barónsstíg og svo í Vogahverfinu. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló 1985 og Cand. Paed. Spes. frá sama skóla 1987.

Arthur kenndi við Barnaskóla Keflavíkur 1973 til 1978 og Árbæjarskóla 1978 til 1984. Hann var sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur 1988 til 1991 og forstöðumaður kennsludeildar frá 1991 til 1996. Þegar málefni grunnskólans fluttust til sveitarfélaga árið 1996 varð Arthur forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann í tíu ár. Síðustu starfsárin var hann ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eða frá 2006 til 2012.

Arthur var einn af stofnendum Barnaheilla 1989, varaformaður samtakanna 1989 til 1991 og formaður frá 1991 til XXXX. Arthur var varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og formaður stjórnar SVR frá 1994 til 1996. Þá gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Kennarasamband Íslands og Alþýðubandalagið.

Bálför Arthurs fór fram í Svendborg í Danmörku 2. ágúst og útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016.