Greinasafn fyrir merki: Árni Þorleifsson

Sjónskerpa og Biblían

Nú er orðið hægt að kaupa nýja og bætta sjón. Mörg hafa kastað gleraugunum og sum endanlega, losnað við að hreinsa kámug glerin og sleppa við að fálma eftir gleraugunum í morgunmyrkrinu eða missa þau á mikilvægum stundum. Leysiaðgerðir hafa stórbætt sjón margra síðustu árin. Sögurnar um augnbætur sem ég hef heyrt eru kraftaverkasögur. Auðvitað eru mörg sem hafa ekki fengið þá sjón sem þau þráðu. En þó er árangur aðgerðanna augljós. En framfarir í augnlækningum eru miklar og margir njóta. Leysiaðgerðir byggja á tækni sem á sér langan aðdraganda í fræðaheiminum, ekki aðeins hinum læknisfræðilega heldur líka í eðlisfræði og verkfræði. Tæknilegar uppgötvanir hafa verið nýttar á sviði læknisfræði til að hægt verði að samtengja þekkingu og þar verður hinn nýji skilningur og þegar best lætur hin nýja sjón.

Í dag er Biblíudagur. Af hverju skyldi klerkur vera að tala um augnlækningar? Hvað hafa undur í læknisfræði að gera með slíkan dag? Jú, sjónbótatæknin er dæmi um hvernig þekking á einu sviði er færð yfir á annað og getur skapað nýja tilveru ef einstaklingurinn notar hana rétt. Rétt og góð fræði geta gert kraftaverk. Það er einmitt það sem gildir í biblíumálunum líka.

Árnalestur

Ég var svo lánsamur að kynnast manni í frumbernsku sem las Biblíuna sína reglulega og af alúð. Hann hét Árni Þorleifsson og bjó á Sjafnargötu hér sunnan kirkjunnar. Hann var vinur foreldra minna og vann við smíðar hjá föður mínum. Hann bað móður mína meira að segja að láta kútinn bera nafn hans þegar ég fæddist. Foreldrum mínum var annt um Árna og urðu við beiðni hans. Báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist og hann kom í þeirra stað. Við urðum nánir og ég heimsótti hann reglulega. Þegar ég var komin á unglingsaldur missti hann sjónina og þar með gat hann ekki lengur smíðað, lesið blöð eða bækur og ekki heldur Biblíuna. En við sömdum um að ég skyldi verða honum augu. Ég fór til hans vikulega og las fyrir hann. Stundum vildi hann að ég læsi úr dagblöðum eða tímaritum en oftast að ég læsi upp úr Biblíunni. Þetta var ekki einhliða þjónustustarf gagn vart honum. Ég fékk innsýn í líf merkilegs manns og líka trúarlíf, afstöðu og biblíusýn hans. Þetta varð okkur báðum til góðs. Svo féll Árni frá og ég tapaði honum en áfram lifði vitundin um trúarlíf manns sem hafði mótast af glímunni við stórritningu veraldar. Hann hafði leyft Biblíunni að móta sig og ég fékk innsýn í að öflug glíma við Ritninguna getur áorkað miklu og mótað persónudýptir fólks. Árni var heilagur maður. Ég uppgötvaði að öflugur biblíulestur getur skapað engla.

Fjölbreytileiki Biblíu og lestrarlykill

Árni hafði lesið allar sextíu og sex bækur Biblíunnar margoft og skildi hversu ólíkar bókmenntir þær voru. Hann vissi að Biblían væri bókasafn, að ritin þjónuðu mörgum og mismunandi hlutverkum og að Biblían hefði sprottið úr og slípast í ólíku samhengi á nærri tvö þúsund árum. Hann leit ekki smáum augum á spádómsbók Habakúk eða Dómarabókina. Hann bað mig stundum að lesa úr Mósebókum eða Jesaja. En honum þótti vænna um Davíðssálmana en Orðskviðina. Helst vildi hann að ég læsi guðspjöllin því hann vildi vera sem næst Jesú. Ég lærði hjá Árna Jesúfestuna og skildi betur síðar að allir biblíulesarar eiga sér hlið og líka leið inn í ritasafn Biblíunnar. Allir eiga sér jafnframt ramma um túlkun og biblíunálgun sem er með mjög ólíku móti. Sumir leita að siðferðisboðskap í Biblíunni. Aðrir leita að huggunarorðum. Enn aðrir hrífast helst af spekinni og flestir hafa þörf fyrir bróður, vin og frelsara. Biblían er um allt fólk og hentar öllum en talar misjafnt til fólks.

Biblíusýn – túlkandi afstaða

Afstaða einstaklings eða hóps til hvernig lesa eigi Biblíuna hefur gjarnan verið kölluð bíblíusýn. Nálgun fólks er alltaf tengd forsendum. Skilningur er aldrei forsendulaus. Við skiljum aldrei án túlkunar. Forsendur eiga sér rætur t.d. í hugðarefnum, lífsafstöðu, aldri, reynslu, varnarháttum líka og í hvaða hefð eða menningu við lifum. Eitt er biblíutúlkun presta í einhverri kirkjunni og annað hvernig trúboðsstöð notar Ritninguna. Aðventistar túlka með einu móti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum með sínu móti. Því er þarft að staldra við og skoða hvað ræður afstöðu okkar til Biblíunnar og hvaða augu eða gleraugu við notum sem lestrarhjálp. Eru þau til hjálpar eða henta þau illa til að skilja Biblíuna?

Bókstafshyggjan

En fyrst um bókstafshyggju sem hefur breiðst út í nútímanum. Það er skaðlegur lesháttur gagnvart Biblíunni og vert er að vara við. Bókstafshyggjan leggur áherslu á einfaldan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan leitar ávallt að óskeikulli leiðsögn og hefur afar takmarkaðan áhuga á táknrænum boðskap. Bókstafshyggjan hefur skert umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi breytast og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Bókstafshyggjumenn halda fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þeir telja að Biblían sé óskeikul eða ákveðinn túlkunarháttur hennar sé hinn eini rétti. Þegar einhver dregur það í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð og bregðast ókvæða við og jafnvel með ofbeldi og stríðsaðgerðum. Bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Oftast er að baki henni ótti við þekkingu og rannsóknir og að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags. Þá óttast bókstafshyggjumenn fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir. Þeir óttast oft útlendinga og gera þá tortryggilega, hræðast rökræður, ósættanlegar kenningar og breytingar. Það sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar eru einhver grunnatriði sem á ensku eru gjarnan nefnd fundamentals hvort sem það er nú meyjarfæðing, ákveðin skýring á upprisunni, afstaða til hjúskaparstofnana eða kynlífs eða að Biblían sé vísindarit um sköpun heimsins.

Hvað sjón gefur bókstafshyggjan? Það er svart-hvít sjón. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni og sér bara svart, hvítt en stundum líka grátt. Bókstafshyggjan hefur haft gríðarleg og víða skelfileg áhrif í pólitík. En það er líka þarft að muna eftir að svipaðar áherslur og svipuð einhæfni er til í öllum kimum heimsins, meðal allra menningardeilda og átrúnaðar og líka trúleysi. Bókstafshyggjan tengist gjarnan hræðslu, valdabaráttu og jafnvel hernaði. Menn læsast í hinni litblindu heimssýn, lífs- eð trúar-afstöðu, öllum til ills, heimsbyggðinni til skelfingar, trú til skaða og Guði til djúprar hryggðar. Guðsríkið er litríkt en bókstafshyggja er litblind.

Þekkingarbreytingar – sjóntækjabreytingar

Bókstafshyggjan er úrelt sjóntruflandi lestrargleraugu sem við eigum að kasta. Háskólafræðin eru okkur í trúarlífinu sem leysiaðgerðir í sjónmálum. Við ættum að taka fagnandi því sem vísindin hafa opinberað og veita okkur varðandi biblíuskilning og lestrarhátt. Biblíufræði og öll þau fræði sem menn hafa stundað við rannsókn Biblíu og trúarlífs hafa fært okkur dásamleg tæki til skýringar á flestu í heimi Biblíunnar. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra en formæður og forfeður okkar og mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um félagslegt, menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists nú en nokkru sinni áður. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblía sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt og trúa á einn máta og túlka á einn veg. Mörgum biblíulesurum ógna þessi fræði. En trúðu mér hvorki kirkja né kristindómur þurfa að að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni að það eru menn sem komu að gerð og skrifum Biblíunnar. Góð fræði ógna ekki Guði heldur aðeins ímyndum okkar um Guð, fordómum okkar og hugsanlega eigin sjálfsmynd. Fólk sem horfir með augum trúarinnar þarf æfa sig stöðugt í að spyrja um rök eigin skoðana, kirkju og trúfræði. Það er margt í arfinum sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar. Við megum muna að trú kristins manns beinist að Guði en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar.Kristinn maður trúir á Guð en ekki á Biblíuna.

Hvernig getum við lesið Biblíuna?

Ef rannsóknir á Biblíunni hafa breytt sýn manna á uppruna, eðli og merkingu Biblíutextanna verðum við að spyrja hvort sýn okkar standist og það sem við sjáum sé sködduð mynd og molnuð Biblíumynd í þúsund brotum. Þegar sjónin breytist þarf auðvitað að fara horfa með nýjum hætti. Það tekur líka tíma að aðlagast betri sjón. Mér hefur lærst að það er hægt að lesa með nýjum hætti sem dýpkar og skerpir mynd hins guðlega. Góð saga grípur og verður oft til að hjálpa fólki við að endurskilja líf sitt og sjá það í nýju ljósi. Þær bókmenntir sem við köllum klassískar þjóna slíku hlutverki. Saga Guðs í samskiptum við fólk og glíma fólks við Guð hefur verið meginsaga í okkar menningarheimi í þúsundir ára. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í þeim skjá, túlkað drauma, vonir og vonbrigði í þeim ramma. Sem slík er Biblían enn fullgild í dag. Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns og er hægt að nota til að túlka líf okkar manna á þessum tíma sem öðrum. Smásögur okkar verða hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi.

Hvernig er biblíusjón þín?

Það var einhvern tíma prestssonur sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun og spurði hann hvernig hann vissi hvað hann ætti tala um í kirkjunni. Pabbinn svaraði að Heilagur Andi segði honum það. Strákurinn spurði þá að nýju: „En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?” Guðs góði andi starfar í og með dómgreind okkar. Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé missýn. Árni nafni minn og afi varð blindur en sá með innri augum. Hann hafði fullkomna sálarsýn til þess sem er miðjan í Biblíunni sem er Jesú Kristur. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat sleppt gömlum gleraugum og jafnvel sjóninni og samt séð hið dýrmætasta í Ritningunni. Ertu háður eða háð gömlu gleraugunum? Geturðu ekkert lesið nema hafa þau á nefinu? Stýra fordómarnir þér? Biblían er heillandi heimur sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þú mátt njóta. Ný sýn er í boði, ný túlkun og ný biblíusjón. Má bjóða þér ný augu?

Biblíudagurinn. Jes. 55.6-13. 2Kor. 12.2-9. Lúk. 8.4-15.

 

Handverk og andverk

Mér hefur alltaf þótt gaman að smíða. Í mér kviknar djúp gleði þegar ég nýt anda og handa í samvinnu. Ég er himinsæll á öllum ljósmyndum þegar ég er við smíðar. Af hverju skyldi það vera?

Annir og veikindi á bernskuheimilinu urðu mér hvati til sjálfstæðis. Ég lærði strax sem smábarn að dunda mér og finna mér verkefni. Þegar ég vaknaði fór ég beint að dótakassanum mínum, setti saman og byggði hluti og hús úr kubbum af ýmsum gerðum. Ég var svo lánsamur að nýr leikskóli Drafnarborg var í nágrenni heimilis míns. Bryndís Zoega var stjóri og stórveldi þess skóla. Hún var ótrúlega hugmyndarík. Hún fékk m.a. bændur á mölinni að koma með skepnurnar sínar í heimsókn í leikskólann.

Við börnin fengum verkefni við hæfi. Bryndís sagði móður minni að sonur hennar væri mikið smiðsefni. Enginn í leikskólanum væri kunnáttusamari og nákvæmari með hamar en hann. Þegar ég hitti Bryndísi mörgum árum síðar sá hún ástæðu til að upplýsa mig líka um smiðsgetu ungsveinsins.

Ég ber nafn Árna Þorleifssonar, smiðs á Sjafnargötu. Hann var guðfaðir sambands foreldra minna. Hann átti ekki afkomendur sjálfur og bað móður mína að gefa drengnum Árnanafnið. Þegar hann var orðinn blindur og lyfti hvorki sög né hamri  ákvað hann að gefa mér hefilbekkinn sinn. Það var eftirminnilegt að sjá þennan gamla blinda mann kveðja vinnutæki sitt og vin í hinsta sinn. Síðan hefur bekkurinn verið í minni eigu. Nú hef ég góða aðstöðu fyrir hann í bílskúrnum. Hann er fallegur, vellyktandi og þjónar mér og mínum við smáverkin.

Smíðar geta verið einfalt verk endurtekningar. Einhvern tíma var sagt að endurtekningin væri einkenni helvítis. Einhæfni getur lamað og lemstrað. Og það er skemmtilegast þegar verkefnin krefjast samstillingar anda og handa. Andverk og handverk verða þá eitt. Maðurinn er heild og best þegar við líkami, sál og andi eru vel tengd og velvirk saman.

Fyrir skömmu var ég handlangari hjá Sverri Gunnarssyni, sem var að ljúka sérhæfðu viðgerðarverkefni á húsi mínu. Þegar Sverrir, sem er af ætt listasmiða, kvaddi sagði hann við mig: „Þú hefur verksvit.“ Mér leið eins eins og ég hefði óvænt verið útnefndur heiðursdoktor. Smiðurinn Sigurður Árni gladdist.

17. júlí, 2020.

 

Árnabiblían

Ég hef aldrei keypt Biblíu handa sjálfum mér. Mér hefur þó aldrei verið Biblíuvant því ég hef verið svo lánsamur að hafa fengið margar Biblíur að gjöf. Ein af gjafabiblíunum rataði í hendur mínar síðla árs 2003. Hún er ekki aðeins falleg hið innra heldur líka hið ytra, bundin í skinn og silfurslegin. Það þarf engan bókelskling eða biblíuvitring til að sjá að þetta er mikið lesin bók.

Ég var settur til afleysingar í Hallgrímskirkju haustið 2003. Af því ég hafði sungið í einum kórnum þekkti ég marga í starfsliði kirkjunnar. Það var því ánægjulegt að koma til starfa fyrsta vinnudaginn. Eftir kaffibolla, hlátra og hlýjar móttökur héldu allir á sínar vinnustöðvar. Inn á skrifstofunni, sem mér var ætluð, var bókastafli á skjalaskápnum. Þarna voru gamlar bækur, Passíusálmar og guðsorðabækur. Þá sá ég kunnuglega Biblíu. Blóðið þaut fram í kinnar mínar. Ég þekkti hana því ég hafði svo oft handleikið hana í húsi við Sjafnargötu. Biblían var merkt Árna Þorleifssyni, sem hafði fengið hana að afmælisgjöf þegar hann varð sextugur árið 1937. Ég hafði ekki séð hana í meira en þrjátíu ár, þar til á þessum degi í Hallgrímskirkju.

Árni Þorleifsson var vinur foreldra minna og þau kynntust í hans skjóli. Þegar þeim fæddist drengur bað hann um að sá stutti fengi líka að bera nafn hans því hann átti ekki börn sjálfur. Ég heiti því Árni og þar sem ég var afalaus gekk hann mér í afa stað. Árni missti sjón á gamals aldri og bað mig um að lesa fyrir sig. Ég fór til hans í hverri viku öll unglingsárin. Hann gaf mér smjörköku eða vínarbrauð, við ræddum saman og svo bað hann mig oftast að lesa fyrir sig úr Biblíunni. Hann ákvað hvaða kaflar skyldu lesnir og ég tók bókina góðu og las upphátt. Við nutum samfélagsins og hann sá til þess að ég lærði að lesa í Biblíunni og skilja samhengi og dýrmæti. Síðan lést Árni og bækur hans og Biblíur hurfu mér einnig.

Svo varð samsláttur atburða í tíma. Nokkrum dögum áður en ég hóf störf var Biblían afhent kirkjunni að gjöf. Svo tók hún á móti mér. Hvaða verkfæri fær prestur betra en Biblíu við upphaf prestsstarfs? Tákn um ábyrgð prests að rannsaka ritningarnar og leyfa lífsorði Guðs að streyma um sig í menningu og kirkju. Í árslok 2003 var mér svo gefin þessi Árnabiblía. Síðan hefur hún fylgt mér.

Biblían kemur víða við sögu og flestir eiga sér einhverja persónulega minningu um hana. Persónur eða viðburðir Biblíunnar eiga sér afleggjara í bókmenntum, listum og sögu heimsins. Áhrifasaga Biblíunnar er mikilfengleg. En áherslur samfélaga breytast. Hvað í Biblíunni skiptir nútímafólk máli og hvað hefur hlutverki að gegna í menningu samtíðar? 

Á miðvikudögum í október og nóvember er á dagskrá í hádeginu í Hallgrímskirkju dagskrá um Biblíuna. Fyrirlesarar segja frá eftirminnilegum Biblíuviðburðum í lífi sínu og tala um hvað í Biblíunni skipti máli í menningunni eða eigin lífi. Biblíurnar koma til okkar með ýmsum hætti. 

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. október 2018.