Greinasafn fyrir merki: andi jólanna

+ 24 og sjón Guðs

Ég heyrði undursamlega sögu – fyrr í mánuðinum – hjá gleraugnasnillingnum, sem ég fer til þegar mig vantar spangir eða ný gler. Hann sagði mér, að hann hafi einu sinni verið kallaður til að útbúa gleraugu handa ungum dreng, sem var með svo brenglaða sjón, að hann hafði aldrei séð neitt nema í þoku. Í augum hans rann allt út í eitt, í óljósa, ófókuseraða litasúpu. Hann hafði aldrei getað beint sjónum sínum að neinu sérstöku, ekki séð puttana sína, hlutina í kringum sig eða brosandi andlit foreldra sinna. Augnlæknirinn og sjóntækjasérfræðingurinn ræddu um hvernig gler þyrfti til svo einhver bót yrði á sjón drengsins og niðurstaðan var að það þyrfti að vera gler í plús 24! Þegar gleraugun voru tilbúin fór vinur minn með þau til drengsins, sem lá vakandi og starði í óreiðu lita og forma. Augu hans hvörfluðu til og tilveran var úr fókus. Svo setti hann gleraugun varlega á drenginn. Honum varð greinilega mikið um því hann stirnaði upp, starði stjarfur fram fyrir sig og svo – allt í einu – breiddist stórkostlegt bros yfir allt andlit hans. Tilveran hafði allt í einu fengið form, litirnir aðgreindust og umhverfið birtist honum. Hann sá. Kraftaverkið hafði orðið og líf hans breyttist. Gleraugun breyttu öllu – einfalt tæki en afgerandi fyrir þroska, líðan og hamingju.

Jól og síðan áramót. Hvernig verður tíminn og lífið? Óskiljanleg litasúpa eða tími til vaxtar og gleði? Engir fræðingar munu færa okkur hamingju. Við kaupum ekki frið og fögnuð. En við getum kallað hann fram og skapað. Við getum gefið af okkur og orðið öðrum til lífsbóta. Vaxandi hlutahyggja veldur tilfinningadoða fólks varðandi hamingjuleiðir. Sjálfhverft fólk hlutgerir ástvini sína og hættir að sjá þá sem undur lífs. Við þurfum að sjá, meta, virða og rækta. Hamingjan er alltaf heimafengin og vex við góð samskipti, athygli, nánd, hlustun og góða sjón.

Helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við sjáum með hjartanu og virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trúarefni þráum við samt öll hið djúpmennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til dýpta, speki og gilda, sem veröldinni eru lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar, sem við höfum lært að kæfa, með raunsæi. Jólin eru tími gjafa, en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið, að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða, heldur þvert á móti, að nóttin er rofin barnsgráti Guðsbarnsins, sem er merkingarvaki allrar veraldar. Þegar lita- og formsúpa lífsins skerpist muntu uppgötva að alla tíð var það, sem persónudjúp þitt þráði.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum” sagði refurinn í spekibókinni Litla prinsinum. Við þurfum ekki að horfa á hið yfirborðslega í jólasögunni og alls ekki taka hana bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd.

Drengurinn, sem fékk sjónina, er nú orðinn fullorðinn. Honum hefur farnast vel. Hann var séður af góðum foreldrum og góðum fagmönnum. Það er mikilvægt að sjá og vera séður. Og í hinu stærsta samhengi skiptir aðalmáli að sjón Guðs er í góðu lagi. Við erum ekki týnd í litasúpu milljarða manna eða sólkerfasúpu geimsins heldur erum við séð hvert og eitt. Við erum metin, skilin og virt. Guð sér okkur og kemur til okkar til að setja allt í fókus í veröldinni, náttúrunni og lífi fólks. Guð sér þig skýrt, í öllum litum, allar víddir þínar og brosir við þér.

Jólahandritið þitt

Jólin eru komin, undrið er loksins orðið, þessi tilfinningatími, sem hefur svo margvísleg áhrif á okkur og vekur svo margar kenndir. Mig langar að spyrja þig persónulegrar spurningar: Hvernig er handrit þitt að jólunum? Hvað er þér mikilvægt? Hvaða tilfinningapakka opnar þú? Hvað gerir þú til að hleypa að þér því, sem er þér mikilvægt? Hvað viltu og hvað ekki? Hvað gerir þú til að halda burtu frá þér því sem þér þykir vont? Hvað eru jólin þér? Og hvert er þitt jólahandrit?

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis, þegar ég var við nám í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór suður á bóginn skömmu fyrir jól, til Flórída. Alla leið til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að slaka á eftir próf. Svo kom aðfangadagskvöld. Við, þýskur félagi minn, vorum sammála um að við værum báðir jólabörn. Á aðfangadagskvöldi vildum við borða vel. Við fórum því á gott veitingahús og hófum máltíð kl. 6. Maturinn var góður, en samt var ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við vorum ekki í neinu jólastuði og héldum út í jólanóttina hugsi og þegjandi. Við okkur blasti stór ofurrauður Coca-cola-jólasveinn með kuldakinnar. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna og skegg sveinsins. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu lak af okkur félögum niður í malbikið. Engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Handritið innan í okkur passaði ekki settinu. Heimþrá og söknuður helltist yfir okkur.

„En það bar til um þessar mundir…“ ómaði textinn í höfði mér. Við fórum heim á hótel og ég rölti niður í flæðarmálið. “Hvað er það í jólahaldinu, sem skiptir máli?” tautaði ég með sjálfum mér. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu jólasálma sína í ölduleik fjörunnar. Steinarnir, eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég, og rifjaði upp ljóðið, að við værum sandkornin á ströndinni og kærleikur Guðs hafið. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðanina. Eru jól háð stemmingunni heima, við ákveðnar aðstæður? Eru jólin háð umgerðinni eða rista þau dýpra en plasthreinar eða yfirspenna barnsins? Hvert er inntak og flæði jólanna? Hver er andi handrits jólanna?

Jólalíðan

Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum á aðfangadagskvöldi og spyrja: Eru ekki fleiri gjafir? Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en glíma þó við tómleika. Þegar stormur aðfangadagskvölds líður hjá snjóar tilfinningum í logni sálarinnar. Hvað kemur til okkar þá? Hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það tilfinningarnar? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu? Hvað skiptir þig máli? Hvað ætti að vera í jólahandritinu þínu?

Jól hinna fullorðnu

Það er bara hálfsannleikur að jólin séu hátíð barnanna. Jólin eru fyrir alla, líka þig. Jól hins fullorðna eru engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn að aldri. En við erum ekki of gömul til að lifa. Og við megum leyfa okkur að upplifa jól með öðrum hætti en barnið. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. Guð finnur þig – hvar sem þú ert. En til að þú getir upplifað jólin er mikilvægt að þú skiljir hvaða aðstæður skilgreina og móta þig – þitt handrit, þetta sem stýrir hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna og þarfa. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, sem er að baki umbúðunum? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Já, jólin eru ekki aðeins hátíð barnanna heldur hátíð lífsins. Og inntak þess lífs er að Guð segir við þig: „Ég elska þig. Þú ert óendanlega mikils virði.“ Það er jólahandrit himinsins um þig, veröldina og lífið.

Vonbriðgin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West og jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitrðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá, sem andi jólanna fór að tala til mín. Eitthvað kviknaði, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans heyrði ég rödd pabba lesa: „En það bar til um þessar mundir….“ Svo kom sagan um boð keisarans um manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna á völlunum og englasöngva.

Allt í einu kom djúp tilfinning sem ég leyfði að hríslast um mig. Sársaukinn dofnaði og þá hætti að skipta máli að einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám – eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Jólin komu til mín – Jesús fæddist í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins opnaðist og goðsagan féll. Bernskuatferli aðfangadags gat ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér.

Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þitt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist félagi þinn á lífsgöngunni. Handrit þitt og handrit Guðs tengjast og fara saman.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með öllum mönnum. Guð gefi þér gleðileg jól.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——-

Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Amen.