Greinasafn fyrir merki: Alviðra

Líflegt í Alviðru

Stjórn Landverndar ákvað að fjölga í stjórn Alviðru úr þremur fulltrúum í fimm. Núverandi stjórnamenn eru Auður I. Ottesen, gjaldkeri, Kristín Vala Ragnarsdóttir, fulltrúi stjórnar Landverndar, Margarita Hamatsu, Sigurður Árni Þórðarson, ritari, og Tryggvi Felixson, formaður. Myndin var tekin á fundi stjórnar Alviðru 8. mars 2025. Með vorinu lifnar Alviðra við eftir vetrardvala. Sjálfboðaliðar SEEDS mæta um miðjan apríl og vinna við endurbætur á fjósinu og fleira. Grenndargarðurinn tekur til starfa í maí og stangveiðimenn fjölmenna á bakka Sogsins. Skólarnir eru boðnir velkomnir með sumarkomu og opið hús verður fyrir kennara 25. apríl. Í sumar verður svo fjölþætt opin fræðslu- og upplifunardagskrá sem lýkur með uppskeruhátíð í september. Verið velkomin í Alviðru.

Vatn og fræðsla

Vatn er dýrmæti. Lífið skírist í vatni. Vatn verður ekki aðeins metið til peninga – ekki frekar en lífið sjálft. Jafnvel í köldu Þingvallavatni lifa um 120 þúsund lífverur á hverjum fermetra við vatnsbakka. Það er heilt samfélag á litlum bletti og í stóru samhengi. Það lífríki er verðmætt. Göngumst við ríkidæminu og ábyrgð okkar. Gerum vatnalífi landsins gott til með fræðslu, gestastofum, almennri menntun um lífið í vatninu. Já, verndum vatnið hæfilega.

Fyrir nokkrum árum kom ég í safn í Vestur-Noregi, sem helgað er lífinu í merkilegri laxá. Þegar inn var komið var þar ekki aðeins miðlað upplýsingum um ofurfiska, sögu veiða og árnýtingar, heldur var sem einn hluti árinnar rynni í gegnum húsið.
Eins og í góðum vatna- og sjávarlífs-söfnum erlendis var hægt að ganga að stórum sýnisgluggum. Þeir veittu innsýn beint í hylinn. Þar syntu árbúarnir og hægt var að fylgjast með gerð, stærð, hreyfingum og samskiptum fiskanna. Þetta var heillandi heimur og ég hugsaði með mér: Góð hugmynd fyrir fólk, sem metur vatnið og lífið mikils – frábær hugmynd fyrir Árnesinga. Gullhringurinn – Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Skálholt – er góður en yrði enn betri ef hægt væri í ferðarlok að skoða stórfiska á leið upp ána og fræðast um dýrmæti og nýtingu vatns. Allt vatn og líf þess er gott og við erum vörslumenn þess. Ekki er verra að fiskur í kristninni er tákn hins heilaga. Er ekki tími til kominn að Árnesingar gangist við ríkidæmi sínu, byggi laxastofu og opni fjársjóðskistu vatnaheims héraðsins. Gullið má sýna. Slíka vatnsstofu má gera í eða við Árborg. Alviðra var fyrir hálfri öld gefin af stórhug til verndar náttúru og fræðslu. Gestastofa í Alviðru við brúna yfir Sogið er kjörin staðsetning fyrir slíka gestastofu.