Greinasafn fyrir merki: altarisganga

Brauð lífsins

Ég spurði móður mína einu sinni hvort hún hefði einhvern tíma fengið svo lítið að borða í uppvextinum að hún hefði svelt. Hún svaraði neitandi og sagðist vera af fyrstu kynslóð Íslendinga sem hefði ekki soltið. En foreldrar hennar hefðu oft verið svöng. Og afi og amma pabbamegin hefðu soltið líka. Hún minnti mig svo á að það væri ástæða fyrir því að í Faðirvorinu er beðið: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Hungur er skelfilegt og hefur fylgt mannkyninu allar aldir. Það er hræðilegt þegar fólk sveltur. Daglegt brauð, sultur aldanna, hungur heimsins. Þessar vikur lifum við bakfall í tíma. Vegna Pútínstríðsins er brauðskortur allt í einu yfirvofandi í veröldinni. Hveitiverð hefur skyndilega hækkað ógnvænlega síðustu daga. Hveitiskortur verður víða í heiminum á þessu ári, jafnvel brauðþurrð. Úkraína og Rússland eru ekki aðeins brauðkörfur Evrópu heldur heimsins einnig. Hveitið sem þar er ræktað er mikilvægt allri heimsbyggðinni. Ársásarstríð Pútínstjórnarinnar drepur ekki aðeins fólk og sprengir hús heldur skaddar brauðgerð alls heimsins. Pizzubakstur veraldar mun raskast en er þó ekki aðalvandinn, heldur að hungrið. Sultur mun læðast um veröldina og sérstaklega meðal öreiganna. Þau sem eru fátæk og á jarðrinum munu svelta. Við munum borga meira fyrir hveitið en hin fátæku munu ekki hafa efni á pizzum, súrdeigsbrauði, rúnnstykkjum, pítubrauði eða bara einföldu venjulegu brauði.

Kornþurrð og hveitiskortur er í nútíð eins og í fornöld alvörumál. Jesús kenndi okkur að minna Guð á daglega brauðið. „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ Þegar kornuppsprettan íPalestínu brást svalt fólk og dauðinn kom í kjöfarið. En þegar kornakrar náðu þroska var víst, að allir myndu njóta næringar og lifa. Brauð er tákn lífs. Ólíkt Pútín er Jesú ekki minnst fyrir stríð, heldur fyrir að gefa fólki mat og drykk. Hann gaf og útdeildi brauði, kenndi gjafmildi og að við værum systkin sem bærum sameiginlega ábyrgð. Hann bauð fólki að gefa með sér. Brauð handa hungruðum heimi er stefna kristinna manna. Ölturu í kirkjum minna á, að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, sem gerir fólki gott. Að allir fái að borða og lifa vel er hinn kristni boðskapur. Það eru mannréttindi að allir fái notið friðar og fæðu. Svo róttækt er erindi kristninnar og svo árangurstengt er það líf, sem okkur er boðið að lifa. Þegar við brjótum brauðið í kirkjunni boðum við frið, frelsi, réttlæti og mannvirðingu. Það er sprengikraftur í því táknræna atferli. Einfaldur gjörningur en varðar alla heima, víddir og veraldir.

Brauðundur á fjalli

Texti dagsins er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð norður í landi, hátíð sem nærri því endaði með ósköpum. Fyrirhyggjuleysið var talsvert og maturinn búinn. Mótshaldararnir urðu verulega skelkaðir og vissu ekki hvernig væri hægt að leysa málið. Kostnaðurinn við matarkaup var nærri árslaun og fjárráðin voru lítil samkvæmt budduskoðun lærisveinanna. Sagan greinir frá því, að Jesús notaði tækifæri til kennslu í lífsleikni. Ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og lagði saman. Útkoman af tveir plús fimm var ekki sjö, heldur matur fyrir fimm þúsund karla auk ótilgreinds fjölda kvenna og barna. Öll guðspjöllin segja margföldunarsöguna en með mismunandi móti. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna ávallt með sínum ákveðna hætti. Tvendir einkenna þetta guðspjall. Í því er ógjarnan sagt frá bara einu heldur fremur pörum í spennu. Ekki er bara talað um ljós, heldur par ljóss og myrkurs. Lífsáhersla guðspjallsins er í andófi gegn dauða. Svo er trú rædd með vísan til veruleika vantrúar. Jóhannes var dramadrottinn. Tilgangur þessa dramatíska ofurstíls guðspjallins er að beina sjónum fólks til Jesú, að gera sér grein fyrir að í honum var og er lausn lífsgátunnar, ljós í myrkri, sannleikurinn.

Á fjallinu með fólkinu

Fólkið á fjallinu var komið með sultarverk. Þau vissu að enginn skyndibitastaður var í nágrenninu, engar pítur eða pizzur. Svo báru Jesúsveinarnir körfur um og útdeildu fátækrabrauði og fiskmeti líka. Nóg handa öllum. Gyðingar þekktu sögu sína og vissu, að svona máltíðarundur vísaði beint til sögu hungraðra hebrea á leið frá Egyptalandi og um eyðimörk. Til þeirra hungruðu ferðalanga fauk brauðefni af himni. Inntak mettunarsögunnar í eyðimörkinni var að þegar kraftaverk yrði og fólk fengi að borða væri Guð að baki undrinu.

Þegar allir verða svo mettir er farið að hugsa um hvað eigi að gera við undramanninn, sem margfaldaði brauð og fisk. Ekki vissu þau að hann yrði brátt krossfestur, hæddur og deyddur. Þau þekktu ekki sögu Vesturlanda í kjölfar reynslunnar af lífgun hans. Ekki gátu þau ímyndað sér kenningarnar um hann, sem heimsbyggðin býr við. Hver var þessi Jesús? Hann var flottur í brauðgerðinni. Hann gæti kannski orðið fínn landbúnaðarráðherra, nema bara fyrir þá sök, að hann gerir sig sekan um offramleiðslu. Hvað gerir saddur múgur við mann, sem hefur gefið þeim brauð og sögur? Jú, hyllir og vill gera hann að leiðtoga, jafnvel að einvaldi. En þegar menn ætluðu að krýna hann hvarf hann bara. Þegar menn vildu veita Jesú Kristi veraldarvöld gufaði hann upp. Jesús hafði engan áhuga á valdi þessa heims. Hann var ekki, er ekki og verður ekki eins og Hitler, Stalín og Pútín.

Jesús gefur lífið

Þegar Jóhannesarfrásögnin er skoðuð sést, bæði í guðspjallstexta dagsins og líka í öllum sjötta kaflanum, að Jesús túlkar líf sitt og tilveru með ákveðnu móti. Í þessum kafla segir hann um sig: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús efli líf. Hann er forsenda lífs og næring þess lífs. Hvaða afstöðu höfum við til hans? Trúum við því eða er Jesús eitthvað annað, t.d. góðmenni, siðferðisviðmið eða spekingur?

Samfélagsmyndun – hópur – kirkja

Annað stóratriði í þessum texta er, að lífgjöf Jesú hefur félagslegar afleiðingar. Jesús skapar hópkennd, tengir fólk saman og hvetur til að fólk líti á sig sem einn lífshóp. Það hefur líka afleiðingar í starfi kirkjunnar. Öllum, sem koma í þessa kirkju, er ljóst að borðið í kirkjunni, altarið, er miðja hússins. Altarisgangan er endurtekning máltíðar á fjallinu, máltíðum Jesú, þegar hann braut og brýtur brauðið og gefur sínum lærisveinum. Sú máltíð er máltíð hans. Þegar við göngum til altaris erum við samfélag Jesú Krists, vinir hans.

Brauðið og kærleikurinn

Hið þriðja í textanum eru hagnýtar afleiðingar í lífi þeirra, sem trúa og eru hluti hópsins. Það eru verkin, sem oft er nefnt kærleiksverk. Brauð handa hungruðum heimi, brauð handa fólki. Allir eiga að njóta grunnréttinda t.d. matar, öryggis, vatns og annarra lífsgæða. Vegna þess að við njótum lífgjafar Jesú, gefum við af gæðum okkar til að hungraðir fái næringu og þyrstir fái drukkið gott vatn. Aðferð Jesú er okkur fyrirmynd. Hann sendir ekki fólk frá sér svangt, heldur notar allt sitt til að gefa það sem fólk þarfnast. Með sama hætti látum við fólk okkur varða og gefum þeim mat og gæði til lífs.

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Allir þarfnast tengsla við fólk, tilfinninganæringar, líkamlegrar hreyfingar, gæfu í lífi og starfi. Þú þarfnast þess að einhver sjái þig og meti og játi þér mikilvægi þitt. Svo er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar og hlýju. Jesús gaf brauð og var lífgjafi. Við erum brauðberar Guðs, friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Sprengjur Pútíns slasa og deyða. En sprengikraftur brauðs og víns er mun meiri því þar birtist máttur lífsins sem er sterkari en dauðinn.

4. sunnudagur í föstu 2022. 27. mars. Lexía 5. Mós. 8.2-3. Pistill Róm. 5.1-5. Guðspjall Jóh. 6.1-15.  Myndina af brauðinu tók ég í brauðhúsi í Gautaborg. 

Bandaríkin, Ísland, Guðsríkið

Í dag höldum við hátíð í Hallgrímskirkju. Við göngum að borði Drottins. Fyrsta altarisgangan eftir meira en árshlé, raunar hlé í meira en fimmtán mánuði. Svo er líka þjóðhátíðardagur vinaþjóðar okkar vestan hafs. Textar messunnar varða guðsríkið. Íhugunarefni dagsins eru gildi, menning Íslands, Bandaríkjanna og Guðsríkisins. Það er merkileg þrenna. Öll jarðnesk ríki þarfnast heilbrigðrar gunnfestu og skipulags til góðs fyrir fólk. Guðsríkið er fyrirmynd um viðmið.

Er til nokkur góður maður?

Mér eru Bandaríki Norður Ameríku kær. Eftir guðfræðipróf frá HÍ stundaði ég framhaldsnám í Tennessee, sem er eitt af suðurríkjunum sem eiga sér mikla og marglita sögu. Mér þótti vera gefandi og heillandi. Eftir fyrsta veturinn vestra kom kom ég heim í sumarfrí og átti tal við konu hér í borginni. Hún vissi af námslandi mínu, horfði á mig djúpum áhyggjuaugum og spurði svo: „Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum?” Spurningin var frá hjartanu, heiðarleg og alls ekki sögð í gamanskyni eða af kaldhæðni. Henni var alvara. Konan hafði sterkar skoðanir í pólitík, á fólki og þjóðum. Hún var raunverulega sannfærð um, að þjóðfélag Bandaríkjanna væri illt og vegna gerðar hins ameríska samfélags væru íbúarnir skemmdir því samfélagið væri kerfislega spillt og íbúarnir þar með líka. Ég furðaði mig á fordómunum og ákvað að svara viðmælanda mínum. En rök mín breyttu engu. Það var engin leið til að fá konuna til að breyta klisjuhugsun sinni.

Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum? Spurningin hefur lifað með mér og vitjar mín reglulega þegar einhver vitleysan gengur fram af mér. Hún er tákn um einfeldningshátt sem því miður margir temja sér og rækta með sér. Jú, það er eðlilegt og nauðsynlegt að gefa sér forsendur í lífinu en vondar og vitlausar forsendur ala klisjur, fordóma og ofstæki. Og í krafti rangtúlkunar verða til falsfréttir, hleypidómar, ótti, vond pólitík, einangrunarhyggja og múgæsing. Afkvæmi slíkrar afstöðu eru mannhatur, ofbeldi, kúgun, manndráp og stríð.

Er til nokkur góður maður? Fordómar sem búa til slíkar spurningar búa í fólki sem dæmir aðra ranglega. Einstaklingar, hópar, félagasamtök, kynþættir, trúarhópar og öðru vísi fólk og jafnvel heilu þjóðirnar eru flokkuð í betri og verri, normal og ónormal, gott og vont. Til verður andstæðan við og þið.

The Declaration of Independance

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna rifja ég upp spurninguna um meinta illsku Ameríkana. Margt merkilegt er í sögu þeirrar þjóðar. Ekkert samfélag er fullkomið, hvorki hið bandaríska né íslenska. En margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. 4. júlí er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Sjálfstæðiyfirlýsingin er klassík, eitt af djásnum Bandaríkjanna og líka heimsmenningarinnar. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Mannvirðing er uppspretta yfirlýsingarinnar og skjalið túlkar kristin grunngildi og mannréttindi sem heilbrigður átrúnaður túlkar og styður.

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er magnað plagg sem fjallar um gildi og frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Þegar stjórnvöld bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa þeim. Grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda er skilgreind og viðurlög brota stjórnvalda ákveðin. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja gæði og einstaklinga. Þessa visku megum við gjarnan taka til okkar, læra af.

Viskurof

Sjálfstæðisyfirlýsingin er viðmið og stefnuvaki bandarískar menningar. Í menningarhefð okkar Íslendinga er líka hliðstæð mannsýn og lífsleikni sem við þurfum að rækta og njóta. Viskan er ekki síst tjáð í trúarhefðinni. Í íslenskum trúarritum okkar er kennt að við séum ekki bara óháðir einstaklingar sem lifum bara fyrir eigin þarfir og langanir heldur séum við meðlimir stórfjölskyldu. Hlutverk okkar er ekki að belgja okkur ekki út heldur virða samspil, kunna okkur hóf, seilast ekki of langt, iðka hið góða, gæta að mörkum okkar og köllun til að lífinu sé vel lifað og það verði farsælt. Sú hófstillingarhugsun er líka tjáð í þjóðsögunum. Boðskapur í postillum, hugvekjum, sálmum kristninnar eins og Passíusálmum er að við séum tengslaverur og ættum að sjá hlutverk okkar í stóru samhengi við náungann og Guð. Þá farnast okkur vel. Menn ættu ekki að gera efnislega hluti, fjármuni, stöðu og ytri dýrmæti að keppikefli lífsins, að hjáguðum, heldur leggja sig eftir góðu og gjöfulu sambandi við Guð og menn, sinna skyldum sínum í smáu og stóru, iðka réttlæti og seilast eftir farsæld – en ekki fé og frama. Jákvæð mannhugsun er tjáð í klassík Bandaríkjanna og Íslands.

Erindi lestranna

Þá að Biblíutextum sem eru bæði á íslensku og ensku í ljósrituða sálmayfirlitinu. Í dag er vísað í stóru málin. Lexían varðar að fólk er kallað út úr hinu þrönga samhengi og til hins stóra. Kall Guðs varðar að fara pílagrímaferð til nýrrar tilveru. Þegar Guð kallar reynir á hugrekki: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera.“ Hver þorir að slíta sig í burtu, fara?

Þetta var kall þeirra sem fóru frá heimaslóð til að flytjast til Íslands á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Og staða þeirra sem fóru til Bandaríkjanna á sinni tíð til að setjast þar að. Það þarf mikið þrek og hugrekki til að bregðast við boði um að taka sig upp og fara inn í nýjar aðstæður og til nýrrar tilveru. Stef lexíunnar er síðan endurunnið í pistilinum sem varðar að efla nýtt samfélag þar sem alls konar og ólíkt fólk er leitt saman. Hið nýja og óvænta verður þegar Guð kallar fólk frá hinu gamla, hinu hefðbundna, líka fordómum og til hins nýja. Til verður samfélag á grundvelli nýrra gilda, nýrrar mannhugsunar og nýrrar samfélagshyggju. Guðspjallið dregur svo saman að guðsríki Jesú Krists er hið nýja mannfélag elskunnar, samheldni, virðingar og kærleiksríkrar umhyggju. Í guðspjallinu er farið að baki fordómum. Hið illa má og þarf að hverfa. Illa anda, þ.e. hvers konar illsku og mannskemmandi afstöðu, þarf að kveða burt. Í endurvinnslu guðsríkisins skal hið illa fjarlægt. Segja skal skilið við það sem eyðileggur mannvirðingu, virðingu fyrir lífinu, fyrir öðrum. Guðstrú kallar fólk til virðingar fyrir sköpun Guðs, samfélögum, öðru fólki og eigin lífi.

Hver er vinsemd þín?

Og þá er komið að þér og vinsemd þinni. Hver eru gildi þín og hvernig bregst þú við þeim sem eru þér ólík og koma að utan? Ertu til í að leyfa fólki að njóta sannmælis? Ríkir í þér mannvinsemd, sjálfsvinsemd og lífsvinsemd? Slík vinsemd er tjáning trúar á Guð sem elskar fjölbreytni. Eru í þér fordómar um að þau sem ekki hugsa eins og þú séu annars flokks? Er komið að endurskoðun? Þarftu að endurskoða klisjur þínar, jafnvel fordóma um þitt eigið sjálf og persónu? Þarftu að heyra kall lexíunnar að þú þurfir að halda í merkilegra ferð sem Guð kallar þig til? Þarftu að leyfa Guðs góða anda að næra vinsemd þína til eigin lífs, eigin sjálfs, til annarra, samfélagsins, heimsins sem við búum í og náttúrunnar sem umvefur þig með svo ljúflegu móti?

Guðstrú varðar að stækka tilveru okkar. Guð er ekki handbendi og málsvari hins smáa, héraðs, menningar eða þjóðar. Guð er skapari heimsins, sem kallar okkur til að virða sköpun sína, náttúruna, annað fólk. Við erum ekki kölluð til klisjulegrar einfeldni heldur til virðingar fyrir grunngildum, góðu samfélagi, friði og réttlæti. Köllun okkar allra er að tengja lífið við Guð með þeim hætti að við verðum fulltrúar Guðs í heimi. Okkar hlutverk er að þjóna fólki vegna þess að það er lífsafstaða trúmannsins að gera öðrum gott því Guð vill þessum heimi gott.

Er nokkur góður maður í Ameríku? Er nokkur góður maður á Íslandi? Er nokkur góður maður í þessu húsi í dag? Velferð Bandaríkjanna og lífsgæði á Íslandi eru háð því að við iðkum mannvirðingu. Við erum kölluð til að vera borgarar Guðsríkisins, abyrgir fulltrúar ríkis Jesú Krists. Amen.

Prédikun í messu í Hallgrímskirkju 4. júlí 2021. Fimmti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð. Myndina af drengjunum tók ég fyrir sex árum. Hattarnir og hálsfestin voru gjöf sendiherra BNA en drengirnir Guðsgjöf. 

Lexía: Fyrsta Mósebók 12.1-4a
Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum.

Pistill: Rómverjabréf 16.1-7
Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.

Guðspjall: Lúkasarguðspjall  8.1-3
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Jesús og síðasta kvöldmáltíðin

Síðasta kvöldmáltíð, sem Jesús efndi til, hafði afgerandi áhrif á mótun kristninnar og atferli kristinna manna æ síðan. Skírdagur, dagur þeirrar máltíðar, er mikill tákndagur. Listaverkin og kirkjulegt atferli, sem tengjast deginum, eru táknrík.  

Myndin af Jesú í sóttkví, sbr. netmyndin hér að ofan, nýtir myndhefðir kristninnar. Myndlistamennirnir hafa um aldir túlkað veru og starf Jesú og með ólíkum áherslum, stundum kreist og jafnvel misþyrmt til að vekja fólk til vitundar. Myndir getum við skoðað til að vitja okkar eigin innri mynda og þar með afstöðu.

Skírdagur og da Vinci

Flest eigum við í huga okkar einhverja mynd af síðustu kvöldmáltíðinni. Og mynd Leonardo da Vinci hefur orðið sem erkimynd og áhrifavaldur síðari máltíðarmynda.

Myndin var gerð fyrir dóminíska klaustrið Santa Maria delle Grazie í Mílanó á Ítalíu. Da Vinci málaði myndina í þeim tilgangi að hún stækkaði salinn og að Jesús og lærisveinarnir væru nærverandi við enda rýmisins. Svipuð hugmynd er að baki hinum miklu myndverkum Baltasars í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og Ólafsvallakirkju á Skeiðum. Mílanómynd da Vinci virkjaði áhorfendur. Munkarnir tóku eiginlega þátt í máltíð Jesú, hlýddu á orð hans, heyrðu um svik mannsins og baráttu lærisveinanna. Þeir urðu hluttakandi í sögu og lausnarverki frelsarans.

Myndirnar af máltíðinni

Mörg listaverk eru til af síðustu máltíð Jesú. Myndirnar túlka afstöðu, trúarskilning og líka myndlistarstefnur hverrar tíðar. Jesús hafði undirbúið komu til Jerúsalem vel, sent sveina sína til að taka frá loftsal fyrir samveru og máltíð að hætti Gyðinga þess tíma. Máltíðin var táknmáltíð, minningarsamvera, til að innlífast framhjágöngu engilsins í Egyptalandi, undursamlegri björgun Ísraela úr þrældómi og lausn úr prísund. Og Jesús notaði svo táknmálið til að búa til nýtt táknmál, til að undirbúa sig og vinahóp sinn undir framvindu og átök næstu daga, atburða sem sköpuðu nýjan heim, nýtt líf og nýtt táknkerfi, sem heimsbyggðin hefur aðlagast og endurunnið kynslóð eftir kynslóð.

Þessi mynd Andrea del Castagno frá 1447er eldri en mynd da Vinci. Á henni sést hátignarleg, “ítölsk” bygging. Lærisveinarnir og Jesús eru öðrum megin borðs og geislabaugar eru við höfuð þeirra. En Júdas er hinum megin borðsins með hugann við svik og peninga. Þetta er formföst og frosin mynd og tilgangurinn er að greina hinn vonda frá hinum góðu. 

Svo er hér önnur mynd og er uppbyggð í hring. Sveigjur eru í allri myndinni og líkamstjáningu, sem rímar líka við geislabaugana. En Júdas rýfur hringinn, er án baugs og með pyngjuna á lofti. Þessar myndir draga fram illsku hins eina en helgi hinna, sem ekki svíkja. My

Kirkjur tjá með lagi og innri skipan borðsamfélagið sem Jesús stofnaði og bauð að yrði iðkað í samfélagi hans. Að borða saman er mikilvægt, að vilja vera saman um lífsbjörg hefur verið tákn um samfélag og tengsl. Svo er borðsamfélag kirkjunnar, altarisgangan, tákngjörningur á mærum tíma og eilífðar, manna og engla, sköpunar og Skapara, myrkurs og ljóss, dauða og lífs. Borðsamfélag Jesú Krists er brú milli veraldar og himins, leið úr ringulreið syndar inn í fang elsku Guðs.

Táknmál hefur ytri og innri hlið

Kvöldmátíðarmynd Leonardo da Vinci varð táknmynd um skírdagsmáltíð Jesú í Evrópu og norður-Ameríku. En tákn breytast og táknmyndir líka. Tákn geta veiklast innan frá og tæmst og að lokum orðið form án inntaks. Þegar svo er komið taka menn sig oft til og fylla þau jafnvel nýju inntaki. Í miðju da Vinci myndarinnar er Jesús að kveðja vini sína, undirbúa þá, skilgreina inntak siðarins sem borðátrúnaðar. Spenna er í myndinni. Lærisveinarnir eru skelfdir vegna orða Jesú, að einhver þeirra muni svíkja hann. Málarinn undirbjó kvöldmáltíðarmynd sína vel eins og vinnuskissurnar sýna glögglega. Hann reyndi að draga fram spennu milli hins trúarlega og persónulega.

Kvöldmáltíðarmyndin endurunnin

Da Vinci-myndin hefur orðið fyrirmynd síðari mynda.  Hér að neðan eru nokkur dæmi um endurnýtingu.

Börn teikna gjarnan myndir af síðustu kvöldmáltíðinni og altarisgöngumyndir í stíl da Vinci. Þær eru oft gleðiríkar, opnar, litríkar og elskulegar. Formið skiptir mestu en ekki hið spennuþrungna inntak frummyndarinnar.   

Margir hafa látið tattóvera trúarleg tákn á líkama sína. Leikarinn Brad Pitt var með eftirmynd da Vinci á bakinu þegar síðast var vitað. Hér er dæmi um hvernig mynd da Vinci hefur ratað á handlegg manns. Kannski er þetta eins og hvert annað trúarlegt tákn í þágu íhugunar. Kirkjan er samfélag um máltíð og líf. Hvaða hlutverki þjóna svona myndir? Eru þær skraut eða ásýnd inntaks handareigandans? Handareigandinn getur notað myndina til að minna sig á að Guð er nærri í hverri máltíð.

Mynd Salvador Dali af hinum upphafna, handantímalega Jesú Kristi er ein kunnasta og áhrifaríkasta trúarmynd í myndlist tuttugustu aldar.

 Myndin heldur grunnsniði da Vinci-myndarinnar en er með ýmsar viðbætur eins og vænta mátti af Dali.  Skipan við borðið er önnur en í Mílanómyndinni. Sá Jesús, sem þarna talar, er einhvers konar hippalegur gúrú, sem lærisveinarnir lúta. Þarna er borðsamfélagið upphafið, himneskt og rennur inn í ofurjarðneskt landslag. Þessi Jesús er ekki að kveðja vini sína eða á leið í hryllilega aftöku á krossi. Í þessari kvöldmáltíðarmynd er kyrra þjáningarleysis, stilla visku og traust blessunar og myndin er algyðisleg. Þarna eru engin svik, engin spenna, aðeins himnesk upplýsing fræðarans. Þarna ríkir fegurðin ein og ofar allri þjáningu. Þetta er því allt annar Jesús Kristur en í Mílanómyndinni.

Margar pólitískar myndir hafa verið gerðar eftir kvöldmáltíðarmyndinni. Jesús hefur þá orðið, sem tákn um einhverja þjóðmálastefnu. Í einni myndinni hefur Maó komið í stað Jesú. Hann er þá lausnari og ef menn eru hallir undir maóismann eða pólítíska túlkun Jesú er hægt að sætta sig við þennan snúning. Hið trúarlega hefur um aldir verið notað í pólitískum tilgangi. Slík notkun er alltaf á kostnað hins trúarlega. Og þar með einnig pólitíkina og verst fer fyrir þolendum pólískrar trúarnauðungar. 

Svo er til mikill fjöldi mynda, sem sýna Jesúgerving sem venjulegan mann meðal venjulegs fólks.

Hér er ein sem sýnir fólk í hvunndagsklæðum, fólk markað lífsbáráttu, við borð, með vín á borði og tvo fiska. Það er reyndar lið úr the Sopranos sem kemur hér við sögu.

Alls ekki síðasta kvöldmáltíðin. 

Lærisveinarnir voru karlar og þótt einhverjir hafi viljað sjá konu í mynd da Vinci er ólíklegt að svo hafi verið frá málarans hálfu (þó ýmsar kenningar þar um hafi verið á sveimi). En á þessari mynd eru konur og aðeins einn karlmaður. Hér hefur kvöldmáltíðarmyndin verið kvengerð. Myndin er menningarpólitísk, tjáir að konur eigi að hafa aðgang að hinu djúpa og trúarlega. Í miðju er kona og gegnir þar með lykilstöðu. Konan er hér orðin Jesútýpa.  

Svo er Battleship Galactica. Öndvert hinum dökkklæddu, sem eru á myndinni, er konan í Jesúmiðjunni í rauðum kjól. Hún sker sig úr og það eru átök á milli kvenna, fólksins. Hér er að baki í hefðinni form altarisgöngumyndar da Vinci þó lífsskerandi spenna sé allt önnur en í upprunamyndinni. 

Margar kvöldmáltíðarmyndir taka á neyslu og afþreyingarmenningu samtíðar og sumar myndanna er gagnrýnar. Þetta eru áhugaverðar myndir og stinga sumar og spyrja hvaða hlutverki trú gegni í samfélagi okkar og hvaða hlutverki Jesús Kristur hefur í lífi okkar og menningu. Er einhver kominn í hans stað? Getur einhver komið í hans stað?

Í fyrsta lagi er mynd, sem tjáir teiknimynda- og neyslusamfélag Bandaríkjanna. Þarna eru lærisveinarnir og Jesús orðnir teiknimyndahetjur. Hvaða hlutverki gegna þessar fígúrur í samfélaginu? Börnin okkar hafa horft á þessar ofurhetjur í sjóvarpinu og séð þær í teiknimyndablöðum. Þetta eru fyrirmyndir og ekki síst drengjanna. Hvað borðar hópurinn annað en bandarískan neyslukost. Þarna er búið að umbylta hinu trúarlega og umhverfa í sjónræna og efnislega neyslu.

Hér er da Vincimyndin notuð í Star Wars samhengi. Lærisveinarnir eru Jediriddarar. Þeir, sem horft hafa á kvikmyndirnar vita að gott og illt eiga þar í stríði.  En í þessu samhengi eru það ekki sverð andans heldur ljósasverð sem notuð eru.

Er Jesús Kristur lausnari, vegur til himins, sonur Guðs, leiðtogi og sínálægur? Eða er hann í lífi okkar lítið annað en pakkapési á jólum, góðlátlegur gæji með skegg, sem dregur upp pinkla samkvæmt pöntun ástvina okkar? Hér er mynd sem snýr upp á kvöldmáltíðarmyndina og ýtir við. 

Enska landsliðið í fótbolta átti í miklum erfiðleikum um árabil og gekk illa í alþjóðakeppnum og tapaði m.a. fyrir Íslendingum í síðustu Evrópukeppni. Einn teiknarinn sá ástæðu til að minna á fallvaltleika liðsins með því að mála miklar fótboltahetjur í da Vincískt samhengi. Myndin var gerð þegar David Beckham kunni enn að sparka í bolta. Hann er settur í miðju og í stað Jesú. Rooney, Rio Ferdinand, Gerrard og jafnvel Sven Göran Eriksson, hinn sænski þjálfari liðsins, sem þá var.  Myndin vakti viðbrögð og var jafnvel birt í íslensku blaði. Áhrifasaga Milanómyndarinnar er skýr.

Síðasta kvöldmáltíðin kemur oft fyrir í myndlist neyslunnar. Hér hefur inntaksríkri máltíð á lengdina verið umhverft í máltíð skyndibitans. Fyrir miðju er “the Colonel,” stofnandi KFC, Kentucky Fried Chicken. Ýmsar kunnar verur úr kvikmynda og teiknimyndabransanum eru þarna með honum. 

Hvenær er máltíð trúarleg máltíð? Er hinn trúarlegi kostur samtíma okkar skyndibiti og til lítils gagns? Þegar dýpst er skoðað megum við gjarnan spyrja okkur um okkar afstöðu til hins trúarlega, líka máltíðar Drottins. Þar er komið að inntakinu. Hvarvetna þar sem kristnir menn eru – íhuga þeir líf sitt og sækja í máltíðina sem tjáir Jesú sem gjafara samfélags og lífs.

En hefðir kristninnar eru endurunnar og endurnýjaðar. Síðasta kvöldmáltíðin er endurtúlkuð um allan heim og myndirnar vitna um það. 

Þessi mynd hér að ofan er frá Kína, sett í kínverskt byggingarsahengi, rýmisskilgreiningu, fata- og hárgreiðslulínu. Mynd er gerð af Qian Zhu Sheng Tryck.

Þessi mynd er úr kaþólsku, indónesísku samhengi og myndin hefur da Vinci-myndina að baki en höfundurinn er frjáls innan síns menningarramma. Málarinn er Komang Wahyu Sukayasa og nýtir hring og ferning og fjölmörg biblíuleg tákn. Í myndinn er sterk tenging borðs, fólks og sköpunar. Þessi gerð af trúarlegri myndlist tjáir samsemd manna og náttúru í veröld Guðs. 

Samfélag og máltíð

Leonardo da Vinci skipulagði mynd sína svo hún væri ávirk og vekjandi. Jesús segir lærisveinum sínum þau ógnvænlegu tíðindi, að einn muni svíkja hann. Lærisveinarnir tjá með viðbrögðum sínum hrylling, ógn, hræðslu og íhugun. Er það ég? Getur það verið ég? Nei, ég vil ekki og get ekki svikið þig, er það sem við getum skynjað í viðbrögðum og máli þeirra.

 Hver er okkar kvöldmáltíðarmynd?  Hvaða mynd viljum við hafa af Jesú Kristi? Svíkjum við hann eða eru við tilbúin að taka við þeim veruleika sem hann býður okkur, treysta honum?

Guð hefur mynd af okkur og þess vegna kom Jesús Kristur í þennan heim, til að hreinsa mynd mennskunnar, bjóða okkur til samfélags við sig. Viltu þiggja það boð?

Strípað altari og Guð

Notre Dame, Frúarkirkjan í París brann. Eldöldurnar flæddu um helgidóminn og eyddu öllu sem fyrir varð. Þegar eldurinn hafði umbreytt öllu, syngjandi helgimyndum og bænmettuðum þakbitum í öskusvartan geim – blasti  undrið við slökkviliðsmönnum. Upp úr sóthrúgunum við altarið reis tákn hins heilaga, krossinn. Eyðingin vinnur ekki sigur, tákn himinsins tjáir líf í sortanum.

Í lok þessarar skírdagsmessu verða bikar og brauðhús borin út. Líka ljósastjakar, dúkar, þerrur og allt, sem á altarinu er. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Allt burt af altarinu. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Þetta er undarlegur gjörningur, sem er líka tjáning lífsafstöðu og trúarjátning. Þegar við játum hið góða og trú til Guðs er hið næsta að horfast í augu við, að líf í þessum heimi hefur skuggahliðar, sekt, misgerðir, ofbeldi og dauða – þetta sem við viljum ekki en er samt.  Þegar við berum allt af altarinu tjáum við líka, að í okkur búi líka möguleikar hins illa. Og við þörfnumst hjálpar. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka að gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða.

Píslarsaga Jesú í Biblíunni er ekki aðeins saga um vonda menn, sem voru illir í garð eins manns. Hún er sagan um okkur öll, möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka meðal hermannanna, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði. Við erum öll Gyðingar, öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs – en er samt líka boðið að borði Jesú.

Á máli kirkju og trúar er Guð heilagur af því Guð gefur líf og allt hið góða. Guð er ljós- og lífvaki heimsins. Það er mál páskanna, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. En svo er allt hitt raunverulegt, það sem veiklar og drepur lífið, allt þetta sem æpir á okkur á dögum dymbilviku. Stóru skuggamál manna og heims. Óréttlæti er óvinur lífsins, hernaður gegn náttúrunni er af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans og til að vanhelga og niðurlægja fólk er líf vanhelgað. Þegar málstaður trúar og hins heilaga er misnotaður er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Ranglæti og lífsspilling hvers konar er nakið altari, stípað borð. Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig? Við berum áhöld og tákn hins heilaga burt úr helgidóminum á eftir til tákns um hvað við erum öll, hver veröldin er og til áminningar um hvað er heilagt.

Hvar varstu?

Í nokkur ár átti ég samleið með þýska rithöfundinum Heinrich Böll. Ég laðaðist að dýpt og sagnagáfu þessa merka Nóbelhöfundar og þess vegna urðu mér bækur hans ákjósanlegar til þýskuæfinga. Ein af bókum Böll, sem ég las, var Wo warst du, Adam?(Hvar varstu, Adam?).Þetta er bók um mannlíf í stríði, hvernig mennska þverr í drápsaðstæðum – en þá sjást englarnir. Hvers er ábyrgðin? Hvar er mennskan og manndómurinn þegar stríð geisa? Hvar erum við þegar góð skipan samfélags er rofin, þegar elskusemi er gerð útlæg, lægstu hvatir ráða, vondir menn stjórna og ofsi er óhaminn? Hvar varstu? Það er spurning Guðs til Adams. Hvar varstu og hvar ertu þegar brot eru unnin? Hin guðlega spurning er sístæð, sívirk – hún hvílir alltaf á þér. Ertu ljósvera eða myrkravera?

Böll segir frá kristinni stúlku af gyðingaættum, en hafði gengið í kaþólskan klausturskóla. Hún hafði notið góðrar söngmenntunar og líka tekið kristna trú. Hún frétti af útrýmingarherferð og að fjölskylda hennar væri í hættu. Þvert á ráðleggingar vina hélt hún til síns heima. Þar fann hún systur sína, sem var í svipuðum erindagerðum og hún sjálf. Fólkið þeirra hafði verið flutt á brott og þær voru gómaðar og sendar í fangabúðir. Þar stjórnaði SS-foringi, sem elskaði tónlist en hataði trú. Og hann dæmdi fólk til lífs eða dauða í samræmi við eigin músíkviðmið. Eina lífsvon fanga í búðunum var að þeir gætu spilað á hljóðfæri eða sungið. Hinum ómúsíkölsku var fargað sem óþörfum skepnum. Hinum söngvinu og hljóðfæraleikurum var þyrmt og til varð vel spilandi hljómsveit og öflugur kór í búðunum, sem söng og spilaði sig frá dauðanum.

Lofsöngur engilsins

Fólk var stöðugt flutt í þessa eyðingarstöð. Foringinn settist í skrifstofu sína og dæmdi til lífs eða dauða allt eftir tónlistargetu fanganna. Þegar kom að kaþólska gyðingnum skipaði hann þessari grönnu stúlku að syngja fyrir sig. Hún lauk upp munni sínum og þvert á væntingar hljómaði mikil og fögur sópranrödd hennar og fyllti veröld tilheyrenda. Söngundrið barst út um opinn skrifstofugluggan og út í veröld þjáningarinnar. Íbúar búðanna hljóðnuðu. Menn hættu störfum og færðu sig nær til að hlusta. Nazistaforinginn hlustaði stjarfur á dásemdina. Hann vissi, að stúlkan söng af snilli og kunnáttu. En hann vissi líka jafnvel hvað hún söng af slíkri innlifun, að allir hlustuðu – sanctus– lofgerðaróð hinnar kristnu messu – heilagur, heilagur, heilagur. Ástin til fegurðar og tónlistar bullaði annars vegar í manninum sem hlustaði – og andúðin kraumaði líka gegn hinu trúarlega. Hatrið réði fingrum mannsins. Með dásamlegan sanctusí eyrum þreif hann skambyssu sína. Þegar lofsöngurinn hljómaði skaut hann: „Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn…“ Hann sem hafði aldrei fyrr drepið með eigin hendi skaut nú þennan engil lofsöngsins, boðbera hinnar hreinu fegurðar. Hún féll og hann hélt áfram að skjóta og gata grannan stúlkulíkamann meðan síðustu hljómar hennar dóu út í kyrrð búðanna og í bland við skothvellina.

Hvað er heilagt? Hvar varstu Adam? Hver er heilagur – maður – flokkur – manngert smælki eða Guð?

Í þágu lífs

Jesús kallaði vini sína til kvöldverðar á skírdegi. Við borðið skilgreindi Jesús lífið með ákveðnum hætti. Leiðtoginn laut til þjónustu. Hann þvoði fætur vina sinna. Og alla tíð síðan hafa vinir Jesú komið saman við borð. Lífið í ríki hins heilaga – guðsríkinu – varðar þjónustu, samfélag, umhyggju, fórnfýsi, viðsnúning gilda, að smátt og stórt sé sett í samhengi. Að lífið verði gert heilagt, virt sem slíkt og iðja manna sé helguð því sanna.

Hver er miðjan í þessari kirkju, miðjan í Notre Dame, já kirkjubyggingum heimsins? Það er borðið. Kristnin er borðátrúnaður, helgaður gestrisni, þjónustu, velvilja og umhyggju. Þau orð, sem presturinn hefur yfir við upphaf altarisgöngunnar, eru orð Jesú og það sem Páll postuli skrifaði. Kirkjan hefur síðan endurtekið, íhugað og tekið sér til hjarta. Þetta er líkami minn … þetta er blóð mitt. Í þessum orðum er heilagleikinn tjáður. Hvað er heilagt?

Í veislu himins er samkvæmt kristinni túlkun veröldin sætt við sjálfa sig og Guð. Allt er dregið út úr dimmri vonsku og inn í veröld ljósrar gæsku, helgað Guði. Hið heilaga hefur alltaf verið frátekið til ákveðins samhengis í gyðing-kristnum átrúnaði. Hið heilaga er það, sem er Guðs – og Guð einn er heilagur. Þegar menn játa þann sannleika, taka sér stöðu í því samhengi – og taka afleiðingum þess í lífi sínu og iðju – er rétt lifað og veröldin er helguð. Orðin hljóma í þeim anda, söngurinn verður með ákveðnu sniði og móti: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn… Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt.“ Það merkir að þú, stúlka, drengur, karl, kona, já þú ert heilagur og heilög – þú ert undursamlega sköpuð, þú ert stórkostlegur. Þú ert mennsk vera, þú ert líka guðleg vera. Þú ert engill Guðs, sendiboði hins heilaga, söngvari eilífðar.

Á altarinu eru tákn um lífið og að það er heilagt. En í messulok, þegar öll táknin hafa verið borin burt, verða fimm rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn síðusárs og meina heims og manna. Gróa sárin – verða páskar? Kemur lausnin heims og þín?

Guð geymi þig á göngu þessara bænadaga, varðveiti þig í nótt, veiti þér styrk til að mæta þér og Guði í atburðum komandi daga.

Hver er heilagur? Söngurinn hljómar, syngdu hann með lífi þínu, í huga þínum, með verkum þínum og orðum.

Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn Guð allsherjar.

Skírdagur, 18. apríl 2019, kl. 20.