Greinasafn fyrir merki: allra heilagra messa

Hin hlið ástarinnar

Sonur minn spurði mig fyrir nokkrum dögum: „Pabbi hefur þú þurft að tilkynna fjölskyldu að einhver sem tilheyrði henni hafi lent í slysi og dáið?“ Ég svaraði honum að það væri erfiðasti þáttur prestsstarfsins að fara heim til fólks og bera því hörmulegar fréttir. Hann hélt áfram að spyrja: „Hvernig líður þér þegar þú hittir fólkið og þarft að segja þeim frá hræðilegum málum, slysum og dauða?“ Ég sagði honum frá hve átakanlegar aðstæðurnar væru oftast og líka tilfinningaflóðinu, hvað færi í gegnum hugann gagnvart þessu nístandi verkefni, hvernig ég undirbyggi mig, opnaði vitundina, tengdi inn í himininn og kyrrði hugann. Til þess að geta þjónað fólki vel væri mikilvægt að vinna með eigin ótta, áföll og trú. Við töluðum svo saman áfram, prestur og pabbi með reynslu af mörgum sorgarferðum og sextán ára ungur maður sem þorir að vinna með hlutverk, líf og dauða og spyrja. Mitt hlutverk er að vera honum faðir sem miðlar hvernig maður virðir mörk sín, bæði sem dauðlegur einstaklingur og líka sem prestur í þjónustu við líf, fólk og Guð.

Ég dáðist að syni mínum að hann hefði getu til samkenndar og að spyrja mikilvægra spurninga, væri reiðubúinn að ræða um myrkrið, óttann og eyðinguna og vilja til að halda á djúp visku og skilnings. Og var líka þakklátur fyrir að feðgatengsl okkar væru opin og þyldu svona þungaumferð sálarinnar. Ég hef sagt honum sögur úr eigin lífi, hvernig ég brást við eigin dauðaógn á unga aldri. Hann hefur líka sagt mér hvað hann hugsaði þegar hann hjólaði framan á bíl, flaug hátt í loft upp áður en hann skall í götuna. Og hann veit að við eigum alltaf val hvernig við bregðumst við áföllum og verkefnum lífsins.

Allir deyja – segjum við. Skuggahlið alls lífs er hrörnun og dauði. Hvaða afstöðu hefur fólk? Er lífi lokið við dauðastund eða er andlát fæðing til nýrrar veru? Hvernig bregðumst við í hörmulegum aðstæðum þegar fólkið okkar er slitið úr fangi okkar og fjölskyldu? Tengjum við sjálf okkur við skil tíma og eilífðar? Undirbúum við okkur undir fæðingu til eilífðar? Í dag íhugum við stóru málin í þessu hliði himins. Um líf og dauða, ást og sorg. Um sæluna sem Jesús talar um – og sú sæla er að vera með Guði.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Þegar við minnumst ástvina er hollt að hugsa um líðan okkar og líka íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð. En djúpíhugun þessara daga varðar þó ekki dauða heldur fremur líf. Kristnin er ekki dauðasækin heldur lífssækin.  

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Sorg er hin hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra. Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. En getum við forðast sorg og gætt að okkur svo við verðum ekki fyrir áfallinu? En valið á sér skuggahlið. Viltu sleppa að elska? Viltu fara á mis við ástvini? Fæst vilja afsala sér þeim undursamlega þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. En að vinna með sorg og búa við sorg er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa áfram þrátt fyrir missinn. Syrgjandi kemst oftast á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarvinnu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi. Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern og stundum langan tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er gjarnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana í tilverunni – eiginlega utan við sjálf sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur jafnvel sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma eða jafvel barnið þitt? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.

Og svo að þínu lífi nú. Hver er sæla þín? Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir brenglaðri mannaveröld, mengun sköpunar og dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. En dauðinn dó og lífið lifir. Því lýkur lífi ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum eigin dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Í lok athafnar getið þið gengið fram og kveikt á kertaljósum og lagt í tröppurnar til að minnast látinna. Nýtið færið til að blessa minningarnar, vinna með tilfinningarnar – allar, líka þær sterku og neikvæðu, leyfa Guði að taka við eftirsjá og depurð þinni. Þú mátt kveikja ljós og minna þig á að lífið lifir. Trú er ekki vegferð til dauða heldur ferð lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir.

Amen í Jesú nafni Amen.

Hugleiðing á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 7. nóvember, 2021. Meðfylgjandi mynd tók ég austan við Ingólfsfjall að kvöldi 30. október 2021. Útsýn til austurs og norðurljósin dönsuðu á danshvelfingu himins. 

Dagur látinna og dagur lífs

Hver hafði mest áhrif á þig í uppvexti þínum? Hver mótaði þig? Hvernig vannstu úr reynslu bernskunnar? Og hvernig vinnur þú með minningar? Á allra heilagra messu vakna minningar um ástvini okkar sem eru horfin sjónum okkar.

Nokkrum dögum fyrir allra heilagra messu kom vinur minn og rétti mér bók sem hann hafði skrifað. Hann hafði gefið hana út í takmörkuðu upplagi og hú var ætluð vinum og stórfjölskyldunni. Ég hreiðraði um mig í lestrarstólnum og sökkti mér í efnið. Í formála skýrði höfundurinn, að hann hefði notað tímamótaviðburð í lífi sínu til að staldra við og hugsa um fólkið sem hefði skipt hann miklu máli í lífinu. Það var fjölskyldufólkið, fólk bernsku hans, vinir, velgerðarmenn, ættingjar, sem höfðu látið sér annt um hann, sem og önnur sem voru svo eftirminnileg að þau mörkuðu spor í sálina. Bókin var því safn minninga um karla og konur sem höfundi þótti vænt um, fólk sem var látið. Bókin var þrungin virðingu en líka húmor gagnvart fólki, sem var margbrotið og sum voru erfið í samskiptum. Í henni er lotning, sem kallaði fram eigið þakklæti gagnvart fólkinu, sem ég hef tengst og er farið inn í ljós eilífðar. Líf okkar hefur orðið vegna þess að annað fólk hefur tengst okkur, sinnt okkur eða snortið okkur. Við stöndum í þökk við þetta fólk og líf okkar verður betra þegar við getum þakkað það sem við höfum notið. Á allra heilagra messu megum við hugsa um þau sem eru dáin, þakka gjafir þeirra og messa í lotningu til Guðs og í þökk og bæn.

Líf á himni – líf í heimi

Á þessum eilífðardegi er guðspjallstextinn – undarlegt nokk – ekki um eilífa lífið heldur um lífið hér og nú. Við lifum í tíma og hverju nýju núi en við megum lifa og vera líka í ljósi eilífðar.l

Jesús sagði: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? … Þér eruð ljós heimsins. Salt og ljós – boðskapur á allra heilagra messu. Textinn er úr frægustu ræðu heimsins, Fjallræ.lðunni í Matteusarguðspjalli, strax á eftir hinum frægu sæluboðum. Hvað gerir maður þegar saltið dofnar? Það er nú reynsla okkar að salt dofnar ekki svo spurningin vaknar: Við hvað er átt? Ein skýringin er að á Dauðahafssvæðinu var og er mikið af salti. Í ofurhitanum gufar vatn upp og eftir sitja alls konar efni í bland við saltið, m.a. natrón, sem við notum til bökunar. Natrón blandaðist saltinu og saltið bragðbreyttist og dofnaði. Jesús vissi, að saltdeyfa var vond fyrir matargerðina. Þér eruð salt – er því ræða, sem varðar hvort fólk er dofið eða kraftmikið.

Hvað er málið?

Jesús bætir við: Þér eruð ljós – og minnir á að ljós á að nota til lýsingar. Borg eða bær uppi á fjalli sést vel, minnir hann líka á og vísar þar með í heimsmál þeirrar tíðar, sem eru áþekk samtíðinni. Hvar miðja heimsins er skapar aðalviðfangsefni heimsmála hverrar tíðar. Svo var einnig á tímum Jesú. Þjóðernissinnarnir í Palestínu voru vissir um, að fjallið Zíon og þar með Jerúsalem væri miðjan. Þaðan ætti ljósið að berast. Rómverjarnir vissu um mátt Rómar og Cicero talaði um þá stórborg og heimsmiðju sem ljós þjóðanna. Svo ljósræðurnar voru um hvar miðjan væri eða ætti að vera. Orðfæri Jesú er því í samræmi við talsmáta tímans og hann talar því inní pólítík samtíðarinnar. En Jesús var snillingur hins óvænta. Hann stækkaði og umbreytti venjum og vitund fólks. Hann notaði hið venjulega til að skýra hið óvenjulega. Jesús benti fólki á, að það eru ekki borgir, stjórnmál eða valdahópar sem væru mál málanna – heldur annað, meira og mikilvægara. Það væri Guð, sem væri miðjan, en ekki menn og mannaverk. Hlutverk okkar manna er að lýsa svo menn sjái. Við eigum að lifa svo ljós eilífðar skíni.

Þar með er tilgangur ræðunnar ljós – stefnan, sem Jesús markar Guðsríkinu. Fyrirtæki, félög og stofnanir semja og samþykkja stefnu fyrir starf sitt á hverri tíð. Jesús markar hér stefnu fyrir lærisveina sína, kirkju sína. Tilgangur lífs manna er að lifa vel, hafa alls staðar áhrif til góðs og að mannlíf tengist Guði. Kristnir menn eru borgarar tíma en líka eilífðar, krydd og ljós.

Hrekkjavaka

Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Undir bandarískum áhrifum bregða krakkarnir yfir sig skikkjum, ganga um eins og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er.

Jesús sagði ekki, að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd veraldar og selta fyrir heiminn. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker eða rófur, heldur leyfa því að lýsa öðrum. Hlutverk okkar er að vera ljósasól og í sambandi við orkubú veraldar.

Dagur látinna og dagur lífs

Allra heilagra messa er dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið.

Hvernig þakkar þú og minnist þú? Vinur minn skrifaði minningar sínar um fólk og gaf út. Að skrifa er ein aðferð við að vinna með sorg og missi. Og alltaf er mikilvægt að leyfa sögum að lifa um látna ástvini. Í sorgarvinnu er mikilvægt að segja sögur um þann sem er syrgður. Leyfa minningum að flæða til að skoða tengslin og tilfinningarnar. Þegar við segjum sögum um fólkið sem hefur tengst okkur skilum við líka áfram gildum, viðmiðum og fyrirmyndum. Hver viljum við að verði ávöxtur lífs okkar?

Í þessu hliði himinsins, spyr ég þig: Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri mannsekju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Reyndu að svara spurningunni hið innra? Hvert þeirra, sem býr í himninum, varð þér til hjálpar og eflingar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í erfiðum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og ljúktu ekki þessum degi fyrr en þú ert búinn að vega áhrifavalda lífs þíns.

En líf er ekki bara fortíð, heldur nú – og framtíð. Minningardagur um þau sem við elskuðum er ekki bara fortíðarmál, dagur til að gráta. Allra heilagra messa er dagur lífsins. Hvað tekur þú með þér frá ástvinum sem eru farin og hverju miðlar þú? Ertu salt – ertu ljós? Hver er lífsstefna þín og hvernig viltu lifa áfram? Erindi kristninnar er, að Guð vakir yfir tíma og eilífð með elskusemi. Guð er í ljósinu og kallar fólkið okkar inn í birtu sína. Trúir þú því? Á allra heilagra messu máttu þakka, en líka stæla trú í núinu.

Allra heilagra messa.

Meðfylgjandi mynd tók ég í fyrstu  kvöldkirkjunni 24. okbtóber, 2019.

Lexía: 5Mós 33.1-3

Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17

Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Hrekkjavaka – allra sálna messa og allra heilagra messa

Á hrekkjavökunni hlaupa börnin um hverfið og safna nammi. Margir hópar fóru um mitt hverfi og skipulagið er einfalt. Ef ljós er við dyr er leyfilegt að banka eða hringja. Myndin er af fyrsta hópnum sem kom að mínum dyrum og ég dáðist að hve börnin og foreldrar þeirra höfðu lagt mikið í búningana. Það var ánægjulegt að tala við hrekkjalómana og sonur minn mokaði nammi og síðan appelsínum og að lokum eplum heimilisins líka í pokana. 

Tengd hrekkjavökunni eru merkilegir messudagar. Á allra heilgra messu minnumst við gjarnan látinna ástvina. Þessi messudagur er í íslensku þjóðkirkjunni fyrsti sunnudagur í nóvember. Svo er önnur messa, sem kennd er við sálir og kallast allra sálna messa. Á síðari tímum hefur þessum dögum og heitum þeirra verið ruglað saman. Dagarnir vour þó fyrrum sitt hvor dagurinn og með sitt hvorum tilgangnum. Kaþólikkar á miðöldum notuðu daginn eftir allra heilagra messu sem dag sálnanna. Þá var minnst þeirra sálna, sem væru í hreinsunareldinum. Fyrir þeim var beðið og messað. Mótmælendur og þar með lútherska kirkjan hafnaði skilningi kaþólikka á hreinsunareldi og þar með að sálir væru píndar í eldi og fyrir þeim þyrfti að biðja.

Í allt öðrum skilningi og undir áhrifum frá spíritisma var tekin upp sérstakur allra-sálna-messudagur í ýmsum söfnuðum á Íslandi. Skilningurinn, sem var lagður í þann messudag, var allt annar en hinn gamal-kaþólski. Dagurinn var helgaður minningu látinna. Ég mæli með að við notum heitið “allra heilagra messa” því heitið allra sálna messa er hluti af úreltri guðfræði.

Hrekkjavaka er tengd messudögum hinna heilögu og allra sálna. Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og vofukvöld og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Vestur í Ameríku er vísað til, að þetta er dagur þar sem margt er á sveimi, krakkarnir bregða yfir sig skikkjum, ganga um eins og skríkjandi vofur og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Gefðu nammi eða þú hefur verra af.  Atferlið hefur spennt börnin, skemmt þeim, kannski stundum hrætt, en svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er. Jesús sagði ekki í guðspjallstexta allrar heilagra messu að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker heldur leyfa því að lýsa öðrum. Hlutverk okkar er að vera sem ljósasól á fjalli og í sambandi við orkubú veraldar. 

Allra heilagra messa, og dagarnir sem tengjast henni, beina sjónum upp en ekki niður, inn í ljósið en ekki myrkrið, til Guðs en ekki til dauða.