Greinasafn fyrir merki: áföll

Barnið í garðinum

Við prestarnir lifum ekki bara frá degi til dags heldur líka frá sunnudegi til sunnudags. Í byrjun vikunnar förum við gjarnan að skoða texta næsta sunnudags, þrennuna sem eru lexía, pistill og guðspjall. Í samráði við organistann veljum við svo sálma næsta helgidags. Þegar við Björn Steinar vorum búnir að ræða saman um sálmana á mánudeginum fór ég að lesa textana. Sumum vinum mínum þykja föstutextarnir leiðinlegir og rökin eru að í þeim væru svo dapurlegar hörmungarsögur! En mér fannst lexía þessa annars sunnudags í föstu úr Orðskviðunum vera heillandi. Þar er talað af skáldlegri visku og elsku um hjartað, munninn og fæturna, sannleikann og framtíðina. Hrífandi texti. Pistillinn er fermingarlegur því þar kemur kórónan við sögu eins og í fermingarávarpinu. Þar er líka áminning til ævigöngunnar um staðfestu og trúmennsku. Góður og gefandi texti. En svo er í guðspjallinu furðusaga af dreng sem var illa leikinn. Hann var mállaus, fékk svo hroðaleg köst að hann skókst til, froðufelldi og afskræmdist. Þegar verst lét hljóp hann líka í vatn og eld og var því í lífshættu. Guðspjallið segir frá því að faðirinn kom með drenginn sinn til Jesú Krists. Það er ljóst að ekki bara Jesús heldur fólkið í kringum hann stundaði lækningar. Þetta var lýðheilsuhreyfing. Lærisveinarnir gegndu heilsueflingarhlutverkum. Þeir voru fengnir til að lækna, voru taldir hafa eitthvað af mætti meistarans. Í þessu tilviki og í samræmi við trú samtíðar áttu þeir að reka út illan anda sem rændi drenginn máli og friði. En þessi illi vágestur hafði náð svo algeru valdi á persónumiðju drengsins og líkama að hann fékk engu ráðið. En lækningin tókst ekki. Drengurinn var eftir jafn illa kominn, skekinn, málllaus en froðufellandi. Miklar tilfinningar flæddu og háværar deilur geisuðu þegar Jesús kom að. En þeir náðu að tala saman – ráðalaus faðirinn sem bæði trúði og efaðist og Jesús sem notaði tækifæri til að kenna en líka færa drenginn til heilsu.

Þetta er undarleg saga og mér þótti hún tyrfin og minna laðandi en lexían og pisitlllinn. Ég renndi yfir söguna nokkrum sinnum á mánudeginum áður en ég brá mér á skíði í Bláfjöllum og hélt svo áfram að íhuga söguna meðan ég puðaði í fjallageimnum. Eftir kvöldmantinn hélt ég svo áfram að lesa nýja bók í handriti sem mér var send fyrir síðustu helgi. Hún heitir Barnið í garðinum og er uppvaxtarsaga Sævars Þórs Jónssonar. Ég lauk lestri bókarinnar um kvöldið og sagan sat í mér.

Svo fór ég að sofa og guðspjallstexti Markúsarguðspjalls og saga Sævars Þórs fléttuðust saman í draumum næturinnar. Ég rumskaði tvisvar um nóttina. Í bæði skiptin voru sögurnar saman í undarlegri draumaflækju í hálfsofandi meðvitund. Þær blönduðust saman sögurnar um mállausa drenginn í guðspjallinu og málhefta drenginn Sævar Þór. Undirmeðvitundin vann sitt fléttustarf og þegar ég vaknaði á þriðjudeginum voru þessar sögur mannabarna tengdar, gamall og nýr tími – tveir drengir í djúpum vanda. Þegar ég vaknaði fannst mér sögurnar speglast, tvö þúsund ára saga guðspjallsins og samtímasaga okkar.

Barnið í garðinum

Fyrst um sögu Sævars Þórs, Barnið í garðinum. Þetta er nístandi frásögn um barn sem farið var illa með, naut ekki elsku og verndar við hæfi. Sagt er frá uppvexti Sævars á alkóhólíseruðu heimili og frá líðan og viðbrögðum hans og systkinanna við drykkju foreldranna. Svo fylgjumst við með Sævari Þór átta ára gömlum sem var narraður inn í dimma byggingu þar sem vondir menn misnotuðu hann. Sagt er frá félagslegri einangrun í kjölfarið, erfiðleikum í skóla, kækjum, líðan og innri baráttu, sjálfsskaða, englum sem björguðu og studdu, vansælli fjölskyldu og hvernig hæfileikaríkur strákur tók ákvörðun um að lifa þrátt fyrir dauðaógnir allt í kring og hið innra einnig. Þetta er uppvaxtarsaga, áfallasaga, fíknisaga, bisnissaga og menntasaga. Þetta er samtímasaga Íslands síðustu fjörutíu ára sögð frá sjónarhóli lemstraðs drengs sem lifði af. Það er ekkert minna en kraftaverk að drengurinn skyldi lifa, menntast og verða að öflugum lögmanni og réttargæslumanni fólks, líka þeirra sem hafa lent í rosalegum aðstæðum og eiga fáa málsvara. Þetta er nútíma kraftaverkasaga. Hvernig eigum við að túlka þessa sögu? Það bíður um stund.

Mállaus til heilsu

Og þá sveiflum við okkur í tímarólunni yfir í guðspjallssöguna. Það er nístandi frásögn af ráðþrota föður og fjölskyldu. Við vitum ekkert um hvort þetta var ofbeldisfjölskylda eða lemstruð af fíkn eða hvort þetta var venjulegt fólk sem varð fyrir því skelfilega áfalli að efnilegi drengurinn veiktist. Við vitum ekki hvort drengurinn varð fyrir misnotkun eða veikindin væru geðræn, félagsleg eða vefræn. Það var eitthvað mikið að. Hann var fárveikur. Allt var því gert til að reyna að afla honum lækninga. Farið var með hann til hóps af mönnum sem vildu vel, reyndu að gera það sem þeir kunnu til að reka út meinið. Túlkun ástvina og hjúkrunarfólks var að drengurinn væri bugaður af einhverju sem ylli málleysi, flogaköstum og sjálfskaða sem gæti dregið hann til dauða. Því reyndi fólkið lækningu en án árangurs. Þá töluðu Jesús og faðirinn saman um vandann. Og faðirinn sagði svo eftirminnilega og tjáði togstreituna: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“

Sjúkdómar og heilsa

Hin almenna skýring fólks á þessum tíma var að þegar engar sýnilegar ástæður fundust fyrir svona einkennum væri líklegast að illur andi hefði flutt inn í viðkomandi. Illir andar voru forðum taldir valda veikindum, fötlun, andlegum kvillum og ófélagslegri hegðun þeirra sem hýstu þá. Þegar slíkt gerðist tæki þessi líkamsleitandi viljavera yfir stjórnstöðvar persónunnar. Andsetning var illvíg yfirtaka. Til að hið veika fólk næði heilsu yrði að reka andann út með særingum. Þessi gerð af sjúkdómsgreiningu og lækningum var útbreidd víða um heim, líka meðal Gyðinga og í nágrannaríkjum þeirra og hefur verið meginviðhorf um víða veröld fram á síðustu aldir.  Kraftaverkasögurnar sem eru sagðar í Biblíunni verður að skilja í þessu forvísindalega samhengi.

Tilgangur og innri rök

Þegar nemendur og vinir Jesú gátu ekki læknað drenginn var komið að meistaranum. Hann talaði, framkvæmdi, fræddi og upplýsti. Sagan endaði vel. Drengurinn fékk mál, faðirinn fylltist trú, lærisveinarnir nutu þjálfunar og fræðslu og mannfjöldin fékk innsýn í eðli guðsríkisins og mátt Jesú. Hið mikilvæga er að virða að áhersla sögunnar er ekki á kraftaverk, furðuverk, töfra eða sértæka þekkingu Jesú. Kraftaverkasögur Biblíunnar á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Það merkir að við – rétt eins og Biblíufólk fyrir tvö þúsund árum – leitum að merkingu viðburða fremur en að glepjast af ásýnd þeirra. Við lesum ekki kraftaverkasögur Biblíunnar eins og jarðskjálftagröf Veðurstofunnar eða fréttafrásagnir stórviðburða í fjölmiðlum. Lækningar og læknisfræði fornaldar er merkilegt viðfangsefni en er þó alls ekki erindi eða mál guðspjallstextans. Frásagnir um lækningar í Biblíunni eru ekki textar í uppflettiriti um sjúkdóma. Biblían kennir ekkert um hvað sé rétt læknisfræði, stjörnufræði, jarðeðlisfræði eða önnur vísindi. Biblían er ástarsaga sem beinir sjónum að ástgjöf Guðs, Jesú Kristi, og segir gleðitíðindin, þetta margnefnda fagnaðarerindi til hvers hann hafi komið, hvaða líftengsl hann skapi og hvaða möguleika hann gefi. Tilgangur guðspjallanna er að tala um að Guð elskar og kemur og hefur jafn mikinn áhuga á froðufellandi málstola dreng og okkur hinum.

Mein í lífi mannabarna

Og þá er það barnið sem var rekið út úr Paradísargarðinum. Uppvaxtar- og átakabók Sævars Þórs rífur í og hrífur. Hann var illa leikinn. Drykkja foreldranna varð til að börnin nutu ekki ástar, umönnunar, eflingar, næringar, hróss og viðurkenningar. Það eru frumefni og byggingarefni heilbrigðrar persónugerðar. Svo voru illir anda í mannsmynd sem réðust á hrekklausan dreng og tóku yfir persónudýptir hans, rændu hann frelsi, sjálfstæði og rugluðu hann svo hann varð málstola og gat ekki sagt frá. Kækir skóku drenginn rétt eins og hann væri haldinn. En englarnir í lífi Sævars Þórs björguðu því sem bjargað varð. Það voru amma, konur í viðkomuhúsum Sævars og konurnar í skólanum sem sáu þurfandi dreng og studdu. Svo varð Lárus Sigurður eins og lærisveinn Jesú sem alltaf hlúði vel að sínum manni, læknaði og studdi til lífs. Sævar Þór segir svo mikla og áhrifaríka sögu að það er eins og hún sé kraftaverkasaga. Hann lýsir brenglun Reykjavíkur samtímans, segir frá illum öndum í skólum, kerfum og bisniss. Þetta er svo stór saga að það er ástæða til að skoða hana í sem víðustu samhengi. Hún er ekki bara saga um kynferðismisnotkun eða fíknifræði. Hún er ekki heldur bara karlafræði eða happy-ending-saga. Þetta er saga um líf okkar margra. Saga um að líf nútímafólks er baráttusaga og að alls konar andar eru á ferð. Siðblinnt fólk er illt, kerfi geta verið helsjúk og fíknir eru vondar. Illska kemur fram í ástskertu fólki og óuppgerðum fíknum. Barnagirnd er alvarlegt mál, ofdrekkandi foreldrar líka, misnotkun vímuefna í mörgum hópum og lögum samfélags okkar er risamál. Og það er fólk sem verður fyrir barðinu og líður fyrir. Barnið í Garðinum segir okkur það. Að vera andsetinn er ekki bara það að forvísindalegur andi kemur heldur líka þegar eiturefni hafa yfirtekið stjórn fólks eða óstillt og óheft girnd af einhveruu tagi eða einhver illvígur sjúkdómur. Fórnarlömbin eru lemstruð jafnvel þó takist að greina veilurnar og hrekja hið vonda út, hvort sem það er hjá AA hreyfingunni, sálfræðingum, læknum eða prestum. En það verður að lækna, opna og reka út hið illa. Kraftverkið varð. Bókin Barnið í Garðinum er upprisubók, um nýtt líf. Að Sævar Þór og maki hans tóku við litlum dreng er eins himinljós í bókinni. Og minnir okkur á spennuparið Guð og barn í jólaguðspjallinu. Barn í heimi og á ábyrgð fjölskyldu minnir á dýpstu köllunarmál okkar í lífinu. Ástarsaga.

Jesús læknaði, hið illa fór, drengurinn lifði. Við sjáum kraftaverkin enn gerast. Tilveran er opin af því hún er þannig gerð. En guðspjallssagan, saga Sævars Þórs og saga fólks um allar aldir sýnir okkur að við erum öll í hættu. En Guð er nærri sem býður okkur að vera heil og rísa upp til lífsins. Guð laðar, biður og styður. Og við megum gjarnan vera í hópi hans. Fagnaðarerindi á tíma þegar allt skelfur og veirurnar trylla.

Prédikun í Hallgrímskirkju 28. febrúar 2021. 2sd. í föstu. Þriðja textaröð.

Lexía: Okv 4.23-27
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru 
því að þar eru uppsprettur lífsins. 
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum 
og vörum þínum fjarri lygamálum. 
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er. 
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum. 
Víktu hvorki til hægri né vinstri, 
haltu fæti þínum frá illu.

Pistill: Op 3.10-13
 
Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Guðspjall: Mrk 9.14-29
Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“ En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“ Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“ Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“ Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“ Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur. 
Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.