Greinasafn fyrir merki: aðventa

Vera eða gera

Sex ára drengur sat snortinn í kirkjunni. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: „Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er bæði-og en líka hvorki-né. Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi? Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Orðið aðventa er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Á aðventunni megum við undirbúa okkar innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins – að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.

Ert þú jólasveinn?

Er aðventan ónýt? Það sem áður var tími ögunar og eftirvæntingar er orðinn nautnatími. Fólk er ekki eins upptekið undirbúningi jóla heldur að gera vel við sig. Er það ekki í lagi? Það er enginn kristileg eða kirkjuleg nauðsyn að aðventan sé tími föstu og dempaðrar gleði? Tímar breytast og áherslur líka. Aðventan þarf ekki að vera fjólublá og langdregin þjáningartíð. Aðventutíminn má vera tími gleði, til að kveða dýrt, hugsa nýjar hugsanir og teygja sig inn í framtíðina. En þegar menning breytist – og mennirnir þar með – er skynsamlegt og jafnvel lífsnauðsynlegt að henda ekki – tapa ekki mikilvægum sögum, stofnum í menningunni, siðviti eð viskuhefðum.

Í textum dagsins er lögð áhersla á réttlæti. Von um frið er tjáð. Þegar trúmenn tala um vanda er hjálp Guðs einnig færð í tal. Endir heims er endir ófriðar og réttlæti Guðsríkis er í nánd. Um aldir hefur það merkt að við gætum okkar á því sem spillir. Erindið er persónlegt og menningarlegt – að við hjálpum Guði – alla vega leyfum Guði að búa til góðan heim, frið og réttlæti. Og aðventutími Íslendinga hefur um aldir verið tiltektartími í hinu ytra og innra til að taka sem best á móti undri jólanna. Til að þjóna hlutverki tiltektar aðventunnar urðu til sögur, atferli, áherslur og svo hefðir. Í dag skoðum við merkilegan þátt í hefð okkar Íslendinga til að tala um aðventu og dýpri rök hennar og tákn.

Ertu jólasveinn?

Margir hópar koma í kirkjurnar á aðventutímanum. Fyrir nokkrum árum tók ég á móti leikskólabörnum og fór þá í messuskrúða til að fræða börnin um kirkjuliti og hlutverk klæðanna sem prestur skrýðist í helgihaldinu. Lítil stúlka kom til mín þar sem ég stóð í skrúðanum. Hún horfði upp og niður og mældi mig allan út og spurði svo full trúnaðartrausts: „Ert þú jólasveinn?” Hún gerði sér grein fyrir, að jólasveinar gætu verið mismunandi og kannski væri þessi skrýddi karl einn af jólasveinunum. Hún var ekki alveg viss hverju húmn ætti að trúa. Já, aðventutími er líka tími jólasveinanna – og okkar.

Mismunandi jólasveinar

Hefur þú einhvern tíma hugsað um hvaða hlutverki jólasveinar gegna og hvað þeir merkja? Við þekkjum mismunandi tegundir, íslenska og erlenda – þessa mólituðu innlendu og rauðu erlendu. Svo eru til skandinavískir nissar og ýmsar aðrar útgáfur. Þeir eiga sér sína sögur og upphaf. Heilagur Nikulás (sánkti Kláus), upphaflegi jólasveinninn, bjó í Tyrklandi. Svo eru til keltneskir jólasveinar og svo eru rætur sumra hefðanna í vættaátrúnað og fleiri menningardjúpum. En hvaða hlutverki þjóna íslensku jólasveinar? Hver er merking þeirra? Og ekki síst – hver er merkingin sem við hefðum gott af að íhuga og hugsa? Geta jólasveinar orðið okkur til íhugunar og visku á aðventutíð og í aðdraganda jóla? Já og íslensku jólasveinarnir eru áhugaverðari en flestir hinna rauðuklæddu og erlendu – ekki síst vegna þess, að þeir eru eins og kennsludæmi. Þeir eru þegar dýpst er skoðað tákn og dæmi fyrir uppeldi og mótun. Hlutverk þeirra er kannski fyrst og fremst að kenna okkur eitthvað um lífið, ógnir og tækifæri. Þeir eru víti til varnaðar í lífsleiknináminu.

Gefa eða stela?

Hið fyrsta sem við megum taka efir er að hinn hvítskeggjaði og rauðklæddi Coca-Cola-Kláus er gjafmildur, gefur gjafir. En gáfu íslenskir jólasveinar í gamla daga eitthvað? Nei, þeir gáfu ekki heldur stálu. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kannski skuggsækni sem gerir þá svo merkilegt og spennandi íhugunarefni til að hjálpa okkur að hugsa á aðventu.

Afætur og óheillakarlar

Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki “einn og átta.” Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Jesús sendi t.d. lærisveina sína tvo og tvo saman í ferðir. Það er hið eðlilega. En jólasveinarnir eru ekki í erindagerðum fagnaðarerindisins. Þeir komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda. Þeir voru afætur og óheillakarlar sem þjónuðu sundrungu – syndinni.

Hverjir voru fyrstir? Það voru Stekkjarstaur og Giljagaur. Og hvað gerðu þeir? Þeir réðust að skepnunum, en þær voru lífsgrundvöllur fólks, undirstaða atvinnulífsins. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði skepnum og vinnufólki illt. Þegar sveinarnir höfðu ráðist að útvörðum heimilisins, skepnunum, fóru þeir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin urðu fyrir vonskunni, því Askasleikir stal innansleikjum sem dýrum voru ætlaðar. Mannfólkið varð fyrir beinum árásum: Hurðarskellir hindraði svefn vinnulúinna manna.

Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi þessi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkraveröld, táradalur, heldur staður vona, vegna þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.

Lífsbarátta og ábyrgð

Hinn gamli heimur ljóslítilla torfbæja er vissulega að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu. Aðsteðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt og þarfnaðist sífelldrar baráttu og aðgæslu til að öryggi yrði tryggt. Með það í huga megum við skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum – í skepnuhjörðina, í mat og lífsbjörg fólks. Jólasveinarnir eru því eiginlegar ímyndir lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá er áminning um, að huga þurfi vel að dýrum, passa þurfi mat og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt til að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn. Eru þetta ekki allt sístæð viðfangsefni, vernda dýr gegn dýraníðingum, tryggja mat, velferð fólks og gæta að ofbeldisseggjum og siðblekktu eða siðskertu fólki? Hvað er raunverulega til að bæta samfélag og efla hamingju einstaklinganna?

Trúði fólk tilveru jólasveinanna? Tók fólk þessar sögur bókstaflega? Voru afar okkar og ömmur – gengnar kynslóðir – voru þau kjánar? Nei, engu meiri kjánar en við. Þau vissu vel, að sögurnar um skrítnu sveinana voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þau notuðu sögurnar til uppeldis og þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli. Þau vissu og skildu að þetta voru kennslusögur, áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra. Það tók ekki sögurnar um jólasveina bókstaflega heldur fremur alvarlega. Eins og við ættum að temja okkur gagnvart öllum klassísku stórsögum heimsins – ekki bókstaflega heldur skoða á dýptina.

Er jólasveinn í þér?

Aðventan er ekki ónýt þó breytt sé. Verkefni allra að mannast er sístætt þó rammi sé nýr og aðstæður séu aðrar en áður. Hvernig reynist fólk sem á að gæta samfélagsins og á að gæta þinna hagsmuna? Hvernig stjórna þau, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er einhver, sem reynir að plata þig á þessum sölutíma í aðdraganda jóla? Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér? Ert þú jólasveinn?

Við, Íslendingar, eigum merkilega spekisögu fyrir undirbúninginn – fyrir andlega vinnu aðventunnar. Okkur sést jafnvel yfir raunsæi þessara sagna í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hverjir reyna að eyðileggja afkomu fjölskyldu þinnar, ná fjármunum, hamingju, heilsu og svifta þig og þína gleði?

Aðventa – tími væntingar. Aðventan er til undirbúnings jólanna. Við megum gjarnan fara að baki ati og ásýnd og tala um hið djúpa og mikilvæga. Við getum notað tímann til að greina vonda jólasveina hið ytra sem innra. Jólahaldi tengist fleira en gjafir. Jólasveinarnir eru tákn um að hætt er við þjófnaði – að margir reyna að stela tíma þínum, rósemd, gleði, friði, lífshamingju þinni. Þá gildir að velja vel og rétt.

Hvað gerir þú á jólum? Hverjum tekur þú á móti? Jólasveinunum, sem taka frá þér ljósið eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós? Sem trúmaður hefur þú frelsi til að velja. Í því er ríkidæmi þessa lífs og ábyrgðarmál okkar manna fólgið. Guð gefi þér og þínum gæfu til visku á aðventu og síðan gleðileg jól – að Jesúbarnið komi til þín, gefi þér ljós og verði þér leiðarljós í lífi og dauða.

Hugleiðing 5. desember 2021. Annar sunnudagur í aðventu.

Meðylgjandi mynd tók ég af flugveifu á Reykjavíkurflugvelli í blíðviðrinu 4. des. 2021. Jólasveinsmyndina tók Árni Svanur Daníelsson og myndina fékk ég af myndasíðu þjóðkirkjunnar á Flickr.

… og allar deilur hætta

Einu sinni sat lærimeistari með nemahóp hjá sér og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Það er þegar nógu bjart er til að greina milli ólífutrés og fíkjutrés.“

Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki þau réttu. Svarið er: Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Shimon Perez, einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum Ísraelsríkis frá upphafi sagði þessa sögu á leiðtogafundi í Davos. Sagan er úr gyðinglegri spekihefð og er reyndar til í ýmsum útgáfum, merkileg saga margsögð meðal fólks af þjóð sem hefur verið ofsótt og drepið fyrir það eitt að vera af gyðinglegum kynþætti. Viskusaga úr ófsóknarhefð, saga um líf gegn dauða, viska gegn heimsku. Hvernig á að bregðast við vonskunni og illsku?

Nótt lýkur og dagur hefst þegar við sjáum ókunnan mann verða að systur eða bróður og deilur hætta. Það er hægt að nota allar stundir sólarhringsins til að gera fólk að óvinum. Glæpamenn reyna að magna ófrið milli fólks, milli menningarhópa, milli vestrænna þjóða sem kristni hefur mótað og þjóða sem Islam hefur mótað og milli trúarhópa. Þegar tekst að gera komumenn að óvinum dimmir í heimi. En þá fyrst dagar þegar fólk sér hvert í öðru manneskjur en ekki hugsanlega óvini.

Aðventan er hafin og við undirbúum komu jólanna. Og þau eru friðarhátíð. Eðli trúarinnar varðar friðarræktun. Það er óhugsandi kristnum trúmönnum að réttlæta manndráp og stríð með skírskotun til kristinnar trúar, trúar á elskuríkan Guð.

Nýtum aðventu til að skoða fólk með jákvæðum hætti. Við erum kölluð til ljóss, til bjartsýnnar trúar og friðariðju gegn öllu myrkri. Við getum með afstöðu okkar, orðum og gerðum lagt til réttsýni í rökkri dagrenningar.

 

Hvernig sér Guð þig og fólk? Hvað viltu sjá, rökkur eða ljós, myrkaverur eða ljóssins börn? Ljósið kemur. Hvenær endar nóttin  – og hvenær dagar?