Ég hef orðið vitni að þjófnaði, líka ráni þar sem ofbeldi var beitt. Og svo þekki ég marga, sem hefur verið stolið frá. Minning um stuld, rosalegan þjófnað, hefur sótt á mig síðustu daga og hún kemur úr minningasafni námsára minna í Bandaríkjunum.
Kínversk hjón byrjuðu á sama tíma og ég í doktorsnámi við Vanderbilt-háskóla í Tennesse. Ég veitti þeim enga sérstaka athygli í fyrstu. En svo voru þau í einu námskeiði með mér. Þá reyndi ég að ræða við þau og komst að því að þau komu frá Hong Kong. Bæði höfðu lokið BA-prófi í heimaborg sinni. Þar kynntust þau og þar ætluðu að vera þegar doktorsnáminu lyki í Ameríku. Karlinn var skráður á sama fræðasvið og ég; trúfræði, trúarheimspeki og hugmyndasögu. Ég reyndi ítrekað að ræða við hann, en hann virtist forðast samtöl. Ég hélt að hann væri bara feiminn og óframfærinn. Kona hans var hins vegar í Nýja-testamentisfræðum og strax á fyrstu vikunum furðaði ég mig á, að hún sótti tíma með bónda sínum en þaut svo í eigin tíma á milli. Karlinn hlustaði í tímum en skrifaði ekkert niður og talaði aldrei ótilneyddur. Konan var hins vegar þeim mun iðnari, skrifaði glósur af miklum móð, hlustaði með öllum líkamanum en sagði fátt. Aldrei sóttu þau fundi utan tíma né komu í samkvæmi nemenda. Þetta kínverska par var mér og félögum mínum fullkomin ráðgáta.
Svo leið tíminn. Kínverski karlinn hikstaði eitthvað í verkefnaskilum og kennararnir höfðu áhyggjur af honum, en frú hans skilaði öllu og stóð sig vel. Svo kom langur og lýjandi prófatími, en þá varð sprenging. Einn daginn hentist sú kínverska inn í skóla og inn á skrifstofu eins kennarans. Hún var í miklu uppnámi, bólgin af gráti og sagði: „Ég get ekki meira. Ég er búin. Ég er að fara yfirum.“ Sagan kom svo í bútum og milli ekkasoga, táraflóða og angistarhljóða. Eiginmaður hennar var af yfirstéttarfólki kominn. Hann var vanur þjónustu og óvanur að leggja hart að sér. En eiginkonan var hins vegar vön að vinna og hafði alltaf komið sér áfram vegna eigin verðleika. Hún var klára stelpan í hópnum og hann féll fyrir snilli hennar og getu. Og svo þegar þau fóru að tengjast fannst henni sjálfsagt að hjálpa honum með námið því hann var raunverulega hjálpar þurfi. Vegna þjónustu hennar fór honum að ganga skár í háskólanum í Hong Kong og kláraði prófin. Þau gengu í hjónaband áður en þau fóru til Ameríku. Þegar þangað var komið gekk karlinum illa að aðlagast. Hún varð að vinna flest verk. Honum fannst, að þar sem hún væri konan hans yrði hún að aðstoða hann. Hún varð því ekki aðeins rúmfélagi, kokkur, þvottakona, sendill, kennari og sálfræðingur heldur ritarinn hans líka. Hann ætlaðist til að hún kláraði það, sem hann kom ekki í verk. Hún varð að sækja tíma með honum til að tryggja að hann skildi og skrifa svo ritgerðir fyrir hann líka. Doktorsnám er full vinna en að klára tvöfalt doktorsnám sem þræll er ógerningur. Karlinn varð fúll, beitti konuna ofbeldi og hún brotnaði niður.
Kennararnir, námsráðgjafarnir og starfslið skólans vann úr þessu skelfilega máli, virti sögu konunnar og ræddi við mann hennar. Þeim var báðum veitt aðstoð. Konan gat ekki búið við harðræðið og þráði frelsi. Hún komst að þeirri niðurstöðu að leiðir yrðu að skilja. Hann myndi aldrei sætta sig við uppreisn hennar og að hún „niðurlægði“ hann. Hún skildi því við karlinn. Honum var vísað úr skóla og sneri heim til Hong Kong með skömm. Hann hafði stolið frá konu sinni frelsi, gleði, lífshamingju, sjálfsvirðingu, ást og stofnaði til nauðungar og þrældóms hennar. Að lokum gat hún ekki meira og vildi ekki lengur láta stela af sér, ræna sig. Að skilja við manninn var eina leið konunnar úr þrældóminum.
Þú skalt ekki stela. Sjöunda boðorðið er ekki bara um peninga og eignarrétt. Andi orðanna varðar manngildi og lífsgæði, sem eru mikilvægari en peningar eða efnisgæði. Jesús túlkaði boðorðin með vísan til hins mikilvægasta. Það eru Guð og menn eins og sést í tvíþætta kærleiksboðinu. Gyðingar hafa um aldir vitað og kennt að fólk skiptir meira máli en fjármunir. Við megum læra af og ættum að útvíkka túlkun okkar á sjöunda boðorðinu. Við megum ekki stela fólki, ekki stela af fólki né heldur ræna það.