Greinasafn fyrir merki: 14. janúar

Burri: Fornleifaverk fyrir framtíðina

Í Belicedalnum á Sikiley er risastór og sundurskorinn steypuhlemmur sem við skoðuðum í dag. Hann er kallaður Cretto di Burri og er minisvarði Alberto Burri um skelfilegan landskjálfta sem reið yfir svæðið 14. janúar, 1968. Mörg hundruð manns fórust og nær eitt hundrað þúsund manns missti heimili sín. Fjórtán byggðir urðu fyrir gríðarlegum skemmdum og þar af hrundu flest hús í Gibellina, Poggioreale, Salaparuta og Montevago. Uppbygging á svæðinu var mjög hæg, fjöldi fyrrum íbúa flutti burt. Sikileysk stjórnvöld byggðu upp nágrannabyggð sem heppnaðist miður og varð nýr kafli skjálftaharmleiksins.

Albert Burri gerði tillögu að minnisvarða um jarðskjálftann, hörmungarnar og minningu. Árið 1985 var hafist handa um gerð hans og verkinu lauk árið 2015. Allt gamla þorpsstæðið í Gibellina er steypt. Þar sem húsin voru er upphækun steypunnar en á milli steypflekanna eru 160 cm djúpar skorur eða gjár þar sem göturnar voru fyrrum í þorpinu. Þorpið var um 85 þúsund fermetrar og minnisvarðinn er af sömu stærð. Efni úr húsunum og af svæðiinu var blandað í steypuna og því er fortíðin endurmótuð. “Fornleifaverk fyrir framtíðina“ sagði höfundurinn um verk sitt.

Minnisvarðinn í Gibellina er rosalegur og bylgjast í landinu. Stærðin verkar sterkt á alla sem vitja skúlptúrsins. Hann er þátttökuverk og flestir sem koma ganga eftir götugöngunum og þau kraftmestu hoppa á milli flekanna. Steypuhlemmurinn þekur allt bæjarsvæðið verður hann enn ávirkari. Minnisvarðinn er sem legsteinn þeirra sem dóu, þeirra sem misstu fótanna í lífinu og hrun svæðismenningarinnar. Minnisvarði um vonir sem dóu.

Vinur okkar, Þórhallur Sigurðsson, arkitekt, vissi af ferð okkar á Sikiley og benti okkur á minnisvarðann. Við vorum á vesturleið frá dal hofanna við Agrigento og á leið til Calatafimi og Segesta. Gibellina var í leiðinni og góður áfangastaður. Takk Halli – rosalegur minnisvarði sem vert er að heimsækja.