Dásamlega Sikiley

Við Elín Sigrún fögnuðum 25 ára hjúskaparafmæli á páskum og vildum gjarnan fara til Ítalíu til að fagna og taka á móti vorinu. Strákarnir okkar gátu verið með okkur í hálfan mánuð og hvorugur þeirra hafði komið til Ítalíu áður. Í byrjun vorum við með augu á norðurhlutanum en fundum ekki húsnæði sem hentaði okkur og fórum því að skoða aðra kosti. Vinir okkar ráðlögðu okkur eindregið að vera í Róm um páskana og njóta hins heilaga árs kaþólsku kirkjunnar. Svo fengum við lánað hús á vesturhluta Sikileyjar. Þangað höfðum við aldrei komið. Við tókum því stefnu að fara fyrst til Sikileyjar og síðan til Rómar. Þegar leið að ferðarlokum vorum við öll sammála um að það skipulag hefði lánast vel. Synir okkar töldu þetta bestu ferðina sem við hefðum farið og höfum þó farið margar góðar.

Sikiley kom mér mjög á óvart. Ég tengdi hitagula liti við Sikiley – kannski sátu guðföðurmyndirnar í mér? En við vorum á ferðinni í apríl og allt var litríkt og ferskt. Vorveðrið hentaði okkur vel og blómgróðurinn í dölum og hlíðum var stórkostlegur. Eyjan er ekki stór, aðeins um fjórðungur Íslands. Og hún er mun þéttbýlli en ég átti von á og íbúar á fimmtu milljón. Þorpin eru því mörg og borgirnar líka. Mannlífið fjölskrúðugt og sagan þykk.  

Hvernig á maður að skipuleggja Sikileyjarferð? Við ætluðum að nota húsið í hæðunum nærri vesturströndinni sem miðstöð og aka þaðan í frá. Við flugum til Palermo og leigðum bíl. Við urðum hissa þegar við komum á staðinn og uppgötvuðum að þorpið var líflítið. Það var eins og stórslys hefði orðið og enn hefði fólk ekki hætt sér til baka. Fyrrum höfðu tíu þúsund manns búið þarna en atvinnuleysi og áföll tuttugustu aldar hafði hrakið fólk burtu. En húsin urðu eftir, táknmynd brostinna vona. Mörg þeirra höfðu grotnað niður og orðið fuglaskýli og tilraun með gróður á mörgum hæðum. Það er hægt að kaupa evruhús víða og jafnvel evruþorp.

Áður en strákarnir komu vorum við búin að fara til Trapani, Castelmare del Golfo og skoða grísku minjarnar í Segesta. En við ákváðum að fara frekar hringferð en að búa á einum stað. Þar sem við vorum á ferð fyrir ferðamannatímann leigðum við íbúðir á airbnb í einn til þrjá daga. Vorum í Palermo í nokkra daga og hún er dásamleg. Svo ókum við hraðbrautina frá Palermo til austurs, skoðuðum þorp á leiðinni og fórum á einum degi alla leið að Etnu. Þar gistum við á undursamlegum vínbúgarði í Etnuhlíðum sem vinir okkar höfðu bent okkur á. Við fórum hringferð um Etnu og skoðuðum þorpin á leiðinni. Og fórum til Taormina og urðum Laxnesk, ræddum um strípaðan unglinginn við skriftir á Vefaranum í sumarhitanum. Og svo var Oscar Wilde þarna og inflúensur fyrri tíða sem Halldór hefur auðvitað verið búin að heyra um. Styttan af Wilde við aðalgötuna er flott. 

Taormína er Hollywood Sikileyjar og bærinn er fórnarlamb ofurtúrisma. Vinkona okkar í Palermo lagðist gegn því að við færum þangað. En gamli bærinn er laglegur og útsýnið stórkostlegt. Við ókum svo suður og vestur og gistum í Caltagirone sem er huggulegur listabær. Keramíkin var falleg. Héldum svo áfram til Agrigento og skoðuðum musteradal grískra minja. Svo var Burri-minnismerkið um jarðskjálftann 1968 á leið okkar upp til Calatafimi þar sem við vorum síðustu dagana. Við flugum svo frá Palermo til Rómar.  

Hvernig á maður að skoða Sikiley? Með opnum augum, eyrum, huga og vitund. Að fenginni reynslunni held ég að hentugast sé að fljúga til Palermo sem er á norð-vesturhorninu og síðan fra Catania sem er á austurströndinni – eða öfugt. Við vorum mjög sátt við að keyra á milli staða. Okkur var líka sagt að almenningssamgöngur væru góðar á Sikiley. En okkur líkaði frelsið að hafa bíl. Svo er apríl góður tími og hægt að breyta um stefnu ef þarf. Það er ekki hægt að klára Sikiley í einni ferð. Um umferð og akstur á Sikiley að baki þessari smellu. 

Sikiley er menningarlega þykk. Vegna legunnar var húnlykileyja Miðjarðarhafsins. Þess vegna fóru Föníkumenn þar um, síðar Grikkir, svo arabarnir, normannar, Spánverjar, Frakkar og allir sem leituðu valda, auðs og áhrifa. Byggingasaga og menningarsaga eyjarinnar er því svo skrautleg og fjölþætt, ekki bara ítölsk. Matarmenningin er grísk, arabísk, spænsk, frönsk og auðvitað ítölsk líka. Sikileyskur matur er Miðjarðarhafsmatur. Áhrifin frá matargerð við austurhluta Miðjarðarhafs og Norður-Afríku eru augljós. Mér þótti matreiðslan spennandi.

Elín fékk tilboð um að fara á matreiðslunámskið skammt fra Caldagirone og við karlarnir fórum með – og þvílíkt ævintýri. Ég mun héðan í frá sækjast eftir því að fara á matarnámskeið þar sem ég verð á ferð, ekki aðeins til að læra aðferðir heldur til að fá tilfinningu fyrir inntaki og samhengi. Við lærðum margt um hveiti, krydd, handverk og áherslur. Svo eru mörg veitingahúsin framúrskarandi. Hvergi í heiminum höfum við fengið betri pizzur en í Palermo!

Náttúra Sikileyjar í fjölbreytileg og náttúrfegurð mikil. Andstæður eru miklar. Dalirnir blómum skrýddir og grösugir en Etna ávallt krýnd snæhettu allt árið. Hún er Hekla þeirra Sikileyinga. Fjöll, dalir, strendur og eldfjall. Landbúnaður er mikill og hefur verið nútímavæddur. Það er gaman að skoða olífulundina og vínakrana. Vorið var komið í plönturnar. Og framleiðsla gæðavöru er að aukast.

Alls staðar var okkur vel tekið og vel þjónað. Sikileyingar hafa löngum verið taldir vinsamlegir. Fordómar okkar um ofurspillingu gufuðu upp. Við vorum svo heppin að dr. Anita Bestler var leiðsögumaður okkar í Palermo. Hún er auk þess að vera afar vel að sér í listum, pólitík og menningarmálum einn helsti mafíusérfræðingur Sikeyjar. Hún sagði okkur merkilegar sögur um ítök og sögu mafíunnar. En meðlimir eru ekki tugir eða hundruð þúsunda heldur fimm þúsund. Þeir hafa hag af túrismanum. Því er fólk öruggt á götum og ferðum. Ég var djúpt snortinn af náttúru og menningarsögu Sikileyjar. Og langar að fara aftur.

Dr. Anita Bestler er stórkostlegur leiðsögumaður – einn gaf henni þau ummæli á tripadvisor að hún væri besti leiðsögumaður Sikileyjar. Ég trúi því og við mælum með henni. Hún mas sýnt okkur Mussolini á mynd í hvelfingu kirkju í Palermo! Skoðið kynningarsíðuna hennar að baki þessari smellu. Ef einhver hefur áhuga á mafíunni, Sikiley eða Möltu hefur hún skrifað mikið. Og Amazon kemur bókunum í póst til ykkar. 

Akstur, vegir og umferð á Sikiley

Er hægt að keyra á Sikiley? Já. Er öruggt að aka á eyjunni? Já. Í fjölskylduferð í apríl 2025 keyrði ég nærri 1300 kílómetra á alls konar sikileyskum vegum og við fjölbreytilegar aðstæður. Ég fékk því þokkalegt yfirlit og tilfinningu varðandi umferðina á eyjunni. Ítalir fjargviðrast gjarnan yfir traffíkinni og fórna höndum. Jú, vissulega er hún stundum skrautleg en þegar ég var búin að fá tilfinningu fyrir aksturslaginu og menningunni fannst mér auðvelt að keyra bæði í borgunum og utan þeirra. Akreinar skipta heimamenn litlu máli og allt er sveigjanlegt. En tillitssemi og umhyggja er áberandi í umferðinni. Tuddaskapur og ruddaskapur er fátíður og flestir þeirra innfæddu eru góðir og ökumenn. Sikileyingarnir sögðu líka að aðkomumennirnir væru hættulegastir því þeir ætluðust til að ökumenningin væri eins og heima hjá þeim. En menning – líka á götum og vegum – er alltaf svæðistengd og bundin. Á Sikiley ber manni að vera sem lukkulegur Sikileyingur.

Ég sá aldrei bílslys, árekstur eða lemstraða bíla í ferð okkar. En eyjarskeggjar voru ekkert að tvínóna og fóru yfir óbrotnar línur til að keyra fram úr mér ef þeim þótti ég bera of mikla virðingu fyrir hámarkshraðanum. Okkur fannst við aldrei í hættu nema í Taormina – þar kom bíll bakkandi á röngum vegarhelmingi í veg fyrir okkur í 90 gráðu beygju! Og allir í kring flautuðu í ofboði og bíllinn stoppaði á síðustu stundu.

Erfiðast var að fara um þröngu göturnar í miðaldaþorpunum en stíf þjálfun í dráttarvélaakstri unglingsáranna og sveitaakstri fullorðinsáranna kom að gagni og tryggði að aksturinn tókst. Oft voru aðeins einn eða tveir cm. sitt hvorum megin bíls þar sem við fórum um. Ég taldi okkur sleppa vel að rispa bílinn ekki. Amerískir kaggar henta illa á Sikiley en litlu Smartskutlurnar og gömlu Fíatarnir henta þessum aðkrepptu aðstæðum vel. Í bæjum og borgum er oft erfitt að finna stæði og vert að skoða stæðamál með góðum fyrirvara og hvernig borga á fyrir notkun. Hlaðið niður EasyPark-appinu og hugið að öppunum sem notuð eru mismunandi svæðum á Ítalíu. 

Ég fór fyrst keyrandi um Evrópu og Norður-Ítalíu sumarið 1974. Þá voru vegirnir í Þýskalandi og Austurríki frábærir en þeir ítölsku verulega slæmir, lúnir, holóttir og hættulegir. Svo þegar komið var til Sviss var eins og fara af þvottabretti og á straujaðar hraðbrautir. Svo keyrði ég talsvert í Toskana fyrir og eftir aldamótin og þá hafði mikil breyting orðið á vegakerfinu til batnaðar. Það sama á við Sikiley. Vissulega eru margir sveitavegirnir gamlir en þeir eru vel malbikaðir og viðhald þeirra er gott. Nýju hraðbrautirnar eru góðar og margar glæsileg mannvirki. Um náttúrperlur og skrautdali er stundum ekið á margra kílómetra brúarhraðbrautum. Alls staðar eru afreinar utan tveggja stefnugreina svo auðvelt var að aka af hraðbrautunum. Og aðreinarnar voru allar sömuleiðis langar og góðar svo innakstur gengur greiðlega fyrir sig. Hægri akgreinarnar voru alltaf fyrir hægari umferð og hægt að nota hana án þess að nokkur væri að flauta eða pirra sig. Gamlir Fíatar fóru á sínum 60 km á hraðbrautinni og enginn kvartaði. 

Til að leigja bíla í Evrópu þarf að taka með plastið – ökuskírteinið – og nýjar reglur Evrópusambandsins útiloka jafnvel skírteinin okkar svo við eigum á hættu að fá ekki bíla afhenta af því vantar skírteini sem heimila akstur í Evrópu. Ég fékk ekki bílinn sem ég var búinn að panta í Palermo og ekki heldur vinir okkar sem voru með sömu vél og við. Ég þurfti því að gera sérsamning við litla bílaleigu – sem auðvitað kostaði sitt. Tryggja þarf að Íslendingar geti ferðast og leigt bíla að vild. Og ungsveinarnir fengu ekki að keyra því þeir fengu ekki skírteinin sín vegna tafa hjá sýsla í Kópavogi. En svo gerðu þeir sér grein fyrir að gamli maðurinn hafði meiri og skilvirkari torfæruþjálfun en þeir og teygðu bara úr sér í baksætinu eða sáu um kortalesturinn á Googlemaps eða Applemaps.

Já, það er ljómandi gott að aka á Sikiley. Reglan að búast við eða gera ráð fyrir hinu óvænta og uppákomum og hafa vökul augu á nærumferðinni. Það minnkar hætu á óhöppum. Umferðin virðist hættuleg en er lífræn og flæðandi en ekki lögmálsbundin og vélræn. Dásamlega Sikiley – líka á vegunum. 

Myndin hér að neðan er tekin nærri Etnu. Og kennimyndin ofan greinarinnar er tekin frá gríska leikhúsinu í Segesta og sér yfir hraðbrautina milli Trapani og Palermo. Í fjarska við ströndina er hluti bæjarins Castelmare del Gofo, sem er huggulegur strandbær.

Engill Drottins varðveiti þig á öllum vegum þínum. 

Konfektkassinn, Róm og Elín Sigrún

Elín breiddi út faðminn og brosti hjartanlega þegar ég færði henni afmæliskaffið í rúmið og hún sagði: „Róm er eins og konfektkassi.“ Hún hafði nú skoðun á hvað hún vildi gera og hvaða molar hentuðu deginum. Eftir að vinir okkar í kaffihúsinu á neðstu hæðinni komu með afmælisköku handa henni með kerti, nýpressaðan appelsínudjús úr sikileyskum appesínum og nammikaffi stormuðum við í bæinn í dásemdarveðri, yfir Tíber, og á blómasýningu ársins í Chiostro del Bramante. Og þvílíkt undur. Enginn sem kemur til Rómar ætti að láta hana fram hjá sér fara.

Ekki bara undrablóm heldur ofurkonfekt fyrir öll skynfæri. Vídéóið er af afmælisbarninu færa lita- og formundur inn í veröldina. Svo fórum við síðdegis og tókum Vatíkansöfnin með trompi. Og eins og fyrir 25 árum fannst mér nútímadeildin best. Ég spurði mig þeirrar áleitnu spurningar hvort kaþólskan væri safngripur, stofnanirnar stirnaðar, allar kirkjudeildirnar. Við afmælisbarnið ræddum kostina á göngunni í Sistínsku kapelluna. Vorum sammála um að við hefðum engar áhyggjur af Guði eða kristninni en þeiim mun meiri af kirkjustofnunum. Og skildum svo þær spurningar og þanka eftir í egypskum könnum og ítölskum miðalda-steinþróm á safninu.

Fórum svo út í vorveðrið og nutum sólarlagsins á þakverönd á háhýsi við Vatíkanið – sem hefur verið okkur meiri og hjartfólgnari vettvangur vegna stóratburða kristni og kaþólsku síðustu daganna. Við höfum alla dagana í Róm komið í eða á einhvern hluta Vatíkansins. Og gaman er nú að gleðja Elínu á afmæli og aðra daga. Kannski prílum við upp í kúpul Péturskirkjunnar í fyrramálið – sjáum til hvað útfararundirbúningur Frans páfa leyfir. En konfektkassinn ekki bara Róm – sem er dásamleg – heldur þar sem Elín er.

IMG_3515 

Á bak við þessa IMG 3515 er myndskeið af afmælisbarninu njóta lita og forma á blómasýningunni í Bramante. 

Draumar og rými

Hafa hús áhrif á drauma? Liðna nótt dreymdi mig slíka drauma að ég sannfærðist um að rými er mikilvæg umgjörð vitundar. Stundum flæða draumar nætur greiðlega upp í morgunvitund mína og stundum ekki. Á tengslum vöku minnar og svefns er dagamunur og líka tímabila.

Síðustu daga og í skoðunarferð um eyju í Miðjarðarhafi hef ég sofið í þremur mismunandi húsum. Fyrstu næturnar í nýuppgerðu húsi en í yfirgefnu þorpi sem þúsundir höfðu flúið á tuttugustu öldinni. Vitundin var galopin gagnvart tilfinningum þess fólks, átökum, flótta og vonarmálum þess. Trump og Musk urðu líka draumadurgar þeirra nátta. Næsti svefnstaður var airbnb-herbergi í stórborg. Draumfarir mínar í nýju herbergi voru vel skiljanleg úrvinnsla reynslu og viðburða daganna. En síðustu nótt svaf ég á nýjum stað og í nýju rými sömu borgar. Draumar síðnæturinnar voru allt öðru vísi en næturnar á undan. Þeir föðmuðu vaknandi vitund mína og ég undraðist. Þverstæður voru í þessum draumum átaklaus og raunar ágætur félagsskapur. Andstæður áttu ekki í átökum. Framvinda draumanna var ekki – þrátt fyrir ólíkar forsendur og leikendur – ekki í streitu eða stríði heldur í skapandi samskiptum. Ég man ekki eftir að mig hafi dreymt svo ólík mál í svo miklu jafnvægi. Er það aldurinn sem skiptir máli, þroskinn, æðruleysi – nú eða hús?

Í vöku skemmtilegra ferðadaga og ferðafélaga hef ég kannað iðandi nútímamenningu, skoðað stórbrotna náttúru, borðað undursamlegan mat, en líka kafað í samsuðu grískrar, rómverskrar, arabískrar og síðan evrópskrar deiglu síðari alda. Sú saga er átakamenning, full af streitu ofbeldis og fegurðar, valdasóknar en líka friðarþarfar, getu til nýsköpunar en líka þolleysi andlegra þrengsla og fordóma. Í draumum liðinnar nætur fléttuðust ýmsar víddir og líf saman, andstæðurnar voru samleikendur, ekki í stríði heldur skapandi framvindu. Í morgun vaknaði ég undrandi, íhugandi og fagnandi. Ólík mál þurfa ekki að stríða heldur geta búið í friði í sama huga sama manns – en í nýjum aðstæðum.  

Ég hef fyrir löngu skilið að forsendur búa í okkur öllum og stundum sem fordómar sem huga þarf að og vinna með. Þegar best lætur hverfa neikvæðir fordómar og til verða forsendur sem þjóna lífi einstaklings, fjölskyldu og samfélags. Ég staldra gjarnan við ólíkar tilfinningar til að skoða og vinna með. Og maður lifandi, það er hressandi að vakna til vitundar dagsins með að þverstæður og andstæður steyma fram í skapandi tengslum en ekki átökum. Húsið sem ég svaf í liðna nótt fangaði mig og okkur vel og gaf mér rými til að dreyma stóra og merkilega drauma. Já, rými hefur áhrif á drauma – og reyndar margt fleira líka.

Alberto Burri: Fornleifaverk fyrir framtíðina

Í Belicedalnum á Sikiley er risastór og sundurskorinn steypuhlemmur sem við skoðuðum í dag. Hann er kallaður Cretto di Burri og er minisvarði Alberto Burri um skelfilegan landskjálfta sem reið yfir svæðið 14. janúar, 1968. Mörg hundruð manns fórust og nær eitt hundrað þúsund manns missti heimili sín. Fjórtán byggðir urðu fyrir gríðarlegum skemmdum og þar af hrundu flest hús í Gibellina, Poggioreale, Salaparuta og Montevago. Uppbygging á svæðinu var mjög hæg, fjöldi fyrrum íbúa flutti burt. Sikileysk stjórnvöld byggðu upp nágrannabyggð sem heppnaðist miður og varð nýr kafli skjálftaharmleiksins.

Albert Burri gerði tillögu að minnisvarða um jarðskjálftann, hörmungarnar og minningu. Árið 1985 var hafist handa um gerð hans og verkinu lauk árið 2015. Allt gamla þorpsstæðið í Gibellina er steypt. Þar sem húsin voru er upphækun steypunnar en á milli steypflekanna eru 160 cm djúpar skorur eða gjár þar sem göturnar voru fyrrum í þorpinu. Þorpið var um 85 þúsund fermetrar og minnisvarðinn er af sömu stærð. Efni úr húsunum og af svæðiinu var blandað í steypuna og því er fortíðin endurmótuð. “Fornleifaverk fyrir framtíðina“ sagði höfundurinn um verk sitt.

Minnisvarðinn í Gibellina er rosalegur og bylgjast í landinu. Stærðin verkar sterkt á alla sem vitja skúlptúrsins. Hann er þátttökuverk og flestir sem koma ganga eftir götugöngunum og þau kraftmestu hoppa á milli flekanna. Steypuhlemmurinn þekur allt bæjarsvæðið verður hann enn ávirkari. Minnisvarðinn er sem legsteinn þeirra sem dóu, þeirra sem misstu fótanna í lífinu og hrun svæðismenningarinnar. Minnisvarði um vonir sem dóu.

Vinur okkar, Þórhallur Sigurðsson, arkitekt, vissi af ferð okkar á Sikiley og benti okkur á minnisvarðann. Við vorum á vesturleið frá dal hofanna við Agrigento og á leið til Calatafimi og Segesta. Gibellina var í leiðinni og góður áfangastaður. Takk Halli – rosalegur minnisvarði sem vert er að heimsækja.