Meðan hvorugt hjónaefna segir nei í hjónavígslum geta frávik kætt og óvænt atvik dýpkað minningagildið. Brúðguminn hafði ætlað að taka hringaskrín úr vasanum þegar komið var að því að draga hring á fingur brúðarinnar. En skrínið hafði gleymst í skrúðhúsinu. Vandræðasvipur kom á unga manninn og ég áttaði mig á vandanum. Og þar sem athöfnin var fámenn voru allir slakir. Ég tilkynnti hlé í athöfninni og bað ungu hjónin sem voru búin að segja já-in sín að kyssast sem mest og tala á milli faðmlaga meðan ég skaust fram. Ég bar svo boxið með tilþrifum í kirkju. Hjónin ungu skellihlógu og athöfnin varð bæði djúpalvarleg með ákveðinni einbeitni og jáyrðum og líka eftirminnilega kátleg. Óttist ekki mistökin. Þau eru hluti af lífsflæðinu og vaxtarferli. Hvernig er gott hjónaband? Margþátta flétta. Hið óvænta má vera þar – og hlátrar líka.
