Ég er axlarbrotinn. Bílastæðið í Bláfjöllum var sleipt og hart í góðviðrinu á miðvikudegi fyrir hvell. Eva læknir á bráðamóttökunni skipaði mér ströng á svip að melda mig út úr hlutverkum mínum í lífinu. Ég kvakaði í gærmorgun yfir skerðingum í svefni og vöku og sonur minn horfði á mig og sagði mildilega: „Nú hefur þú tækifæri að horfa inn á við!“ Svona skilar sér til baka uppeldi aldraðra foreldra og hittir örugglega í mark. En hann lagðist svo við hlið mér og las upphátt fyrstu kaflana í Fávita Dostojevskís. Við erum jú með sameiginlegt prógram í Rússunum og það skerðist vonandi ekki stórkostlega. Annar sonur – Bláfjallamaðurinn – reiddi fram dásamlegan hádegisverð. Mamman dekraði svo við alla kallana. Kæru vinir – ég dreg mig í brothlé – verð fjarlægur, félagslega óvirkur og líka á facebook. Ég hreyfi mig virðulega, líka í svefni eins og Búdda. Fastan byrjar fyrr hjá mér en flestum öðrum en páskar eru upprisuhátíð okkar kristinna. Ég lifi í von og trú.
Meðfylgjandi mynd er sú síðasta fyrir brot.
