Hægeldað lambalæri – Bernaise!

Ég bjó til góða og vel heppnaða bernaise-sósu með nautasteik. Það var talsvert eftir af henni í máltíðarlok og hún fór því í kælinn. Daginn eftir var ég með lambalæri í kælinum og velti vöngum yfir hvort hægt væri að sameina gæði sósunnar og lærisins. Matarsóun ekki boði en ekki heldur bragðrugl. En tilraunin heppnaðist – lambalæri bernaise varð til. „Þetta er frábært kjöt og frábær matur pabbi.“ Kokkinum þótti lofið gott.

Úrbeinað lambalæri (ég krydda oft daginn fyrir steikingu og smelli í kæliskápinn)

Bernaise sósa – köld, 3-4 dl.

Hvítlauksrif – nokkur lauf að smekk pressuð eða smáskorin

Krydd – eftir stemmingu dagsins

Salt og pipar

 Ofn stilltur á 110°C (blástursstilling)

Ég úrbeinaði lærið og smurði bernaise-sósunni í opnuna á lambalærinu (þar sem beinið var), kryddaði vel og ekki gleyma salti og pipar. Stundum bæti ég við cayennepipar eða chili.

Saumaði kjötið saman í kúlu með bjúgnál (má vefja saman með þræði). Smellti kjötinu í steikingarfat með loki. Steikt í 3-4 klukkutíma. Í lokin er hitinn hækkaður í 180°C í 10 mínútur.

Kjötið tekið úr ofninum og haft í stofuhita í 15-20 mínútur. Þráðurinn er tekinn úr (þráðurinn sem bundið var með eða saumað með). Kjötið síðan skorið í þunnar sneiðar og borið fram. Ljómandi að strá nokkrum saltflögum yfir, bæði vegna bragðs og augnayndis.

Meðlæti að vild – t.d. sósa, salat og bakaðar kartöflur. Ég notaði bernaisesósuna og steikti sveppi, sauð líka beinið til að fá kjötkraft fyrir sósuna og rauðvínssletta og rjómi bæta mjög dýptarbragð sósunnar.

Meðfylgjandi mynd er í engu samræmi við bragðgæði kjötsins. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.