Frá því á unglingsárum hef ég notið þess að kveikja upp og horfa í eld. Ég nýt þess að sitja við arinn eða kamínu, finna fyrir hitanum, skoða logana, njóta neistaflugsins og taka við öllum hugmyndunum sem kvikna í eldinum og skjótast síðan í kollinn. Arinn var í sumarbústað móðursystur minnar. Arinn var í amerískum húsum sem ég var í á námsárunum vestra. Við nutum arinsins í Litlabæ á Grímsstaðaholti. Kamína var í sumarbústað sem við kona mín byggðum í Svarfaðardal og svo er kamína í kotinu okkar í Alviðru. Á liðnu ári breyttum við gasarni í viðararinn í húsinu okkar í Skerjafirði. Við Jón Kristján felldum svo tvö stór aspartré á síðasta ári, klufum viðinn og hlóðum upp til að þurrka til vetrar. Nú erum við eins og bændur sem þurfum að eiga til vetrarins og líka fyrningar. Ég stiklaði asparteinunga fyrir mörgum árum og feldi nú þessar aspir og við njótum ljóss og hita. Ég kveiki upp reglulega og stundum fyrir hádegi þegar ég veit að ég á næðisstund fyrir djúp samtöl eða vingott við góða skáldsögu, ljóðabók eða djúpsækna guðfræði. Þetta er föstudagskveikjan í kvöld. Og við sátum fjölskyldan og töluðum um alvöru mál.