Íslenskir fjölmiðlar, m.a. tvo dagblöð, höfðu einu sinni eftir Rowan Williams, sem þá var erkibiskup í Kantararborg, að biblíusagan um vitringana væri goðsaga. Mér þótti ótrúlegt að hann hefði notað það hugtak um þessa frásögu um ferðalangana úr Austurvegi. Að mér læddist að blaðamennirnir hefðu ruglast á hugtökum. Ég þekki erkibiskupinn, sat marga fundi með honum og vissi því vel hve nákvæmur og hnífskarpur greinandi hann var. Forystumaður risakirkjusamfélags getur ekki leyft sér fræðilega lausung eða trúarlegan stráksskap. Ég fletti því upp í bresku pressunni á netinu og í ljós kom að erkibiskupinn hafði sagt, að þetta væri helgisögn, hann notaði orðið legend en ekki orðið myth sem merkir goðsaga og er allt annað bókmenntaform en helgisögn. Blaðamenn og íslenska pressan ruglaði hugtökum og fréttin varð því misvísandi, villandi og röng.
Það skiptir máli hvernig við lesum. Við eigum að lesa bókmenntaformið rétt. Það skiptir t.d. öllu máli að gera sér grein fyrir að sköpunarsagan í Biblíunni er ljóð en ekki grein í alfræðiriti um þróun vetrarbrautarinnar. Goðsaga lýsir tilurð heimsins og yfirskilvitlegum verum, en legendur eru helgisögur á mörkum raunveruleikans, sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á söguferlið sjálft eða ytra form atburðanna, heldur dýpri merkingu og táknmál. Þetta skiptir máli og svona saga tekur sér mynd í samræmi við inntak. Inntakið kallar á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.
Vitringar?
Hvað vitum við um þessa spekinga? Hvað voru þeir margir? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hugsanlega ímyndum við okkur eitthvað um þá sem Biblían segir ekki og gerum okkur ranga mynd? Hvað voru vitringarnir margir? Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist, að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir allt að tólf karlar. Ekkert er heldur í guðspjöllunum um nöfn þeirra. Eru þetta allt karlar? Það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesú myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki fullkomlega ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!
Uppruni og eðli
Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit sumra kínverskra kristinna að vitringur frá Kína hafi vottað Jesú virðingu sína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.
Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magus og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum. Líkast til ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið kunnáttumenn í stjörnuspeki og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna, hugsanlega af væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu.
Mattheus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni eins og við þekkjum hana úr Lúkasarguðspjalli, en segir hins vegar þessa vitringasögu. Og af hverju sagði hann hana? Í guðspjalli Matteusar er opnun, vitund um að kristnin eigi ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð velur ekki þröngt, heldur vítt. Guð er ekki smásmugulegur heldur stór. Guð er ekki bara einnar þjóðar Guð heldur allra manna. Guð lætur sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Það er áhersluatriðið og því er ekki einkennilegt að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega.
Kóngavæðingin
Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmálið og útvíkkað söguna. Þegar konungar fóru að trúa á Krist var ekkert einkennilegt að menn færu að telja að þessir vitru og góðu menn hefðu verið konungbornir, svona til að ítreka það að konungum væri ekki stætt á öðru en að lúta Jesúbarninu. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan þýtt (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið konungar, sem hafi fært konunglegar gjafir, en ekki aðeins (ein kenningin er að þetta hafi verið læknistæki eða lækningavörur) tákngjafir presta eða spekinga. Íslenska hómilíubókin segir berlega að þeir hafi verið Austurvegskonungar. En hins vegar þýddi Guðbrandur orðið magos sem vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar í nýjustu Biblíuþýðingum.
Helgisagan og töfraraunsæið
Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldi í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir. En helgisagan er sleip, ekkert er sagt í guðspjallinu um að þeir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt er sagt að þeir hafi opnað fjárhirslur sínar og gefið gjafir.
Hvað eigum við að gera við þessa skemmtilegu sögu og hvernig nýtist hún okkur? Það er gaman að segja hana og hún kitlar ímyndunaraflið. En sagan um vitringana er á mörkum raunveruleikans. Hún er vissulega helgisaga. Henni er ekki ætlað að tjá sögulega framvindu heldur merkingu eða inntak. Við leitum flest hins myndræna, dramatíska og sögulega fremur en skilgreininga, hugtaka og formlegrar framsetningar. Við notum sögur til að kenna börnum okkar góða siði, frekar en þylja yfir þeim siðfræðiformúlur. Við segjum smábörnum að diskurinn gráti og meiði sig ef hann dettur í stað þess að skýra hvað brotthætt merkir eða eðli þyngdarlögmálsins.
Birtingarhátíð, þrettándinn birtir hvað? Jú, að í Jesú Kristi opinberar Guð veru sína, kemur í krafti sínum, gerir þennan einstakling að farvegi hjálpar sinnar. Og af því að gagnvirkni er alltaf í guðsríkinu þá er hann leið okkar til himins, farvegur okkar til lífsins, og vettvangur og viðfang vona manna. Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að við eigum að nota vitringana sem fyrirmyndir og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki en þó hefur hún merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við þurfum ekki að trúa þessari sögu frekar en við þurfum að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.
Í Suður-Amerískum bókmenntum er stundum talað um töfraraunsæi. Bækur Gabriel GarciaMarquez og Isabel Allende og ég vil bæta við Paulo Coelho líka, lifa á mörkum. Þessar bækur fjalla ekki aðeins um raunveruleikann heldur útvíkkaðan veruleika sem leyfir hið dásamlega, upphafna, undursamlega, teygir ímyndunaraflið og lífið svo að hægt er að opna fyrir viðbótarmerkingu sem síðan bætir lífsskilyrði. Legendur eiga að efla lífsgæði og hæfni fólks. Í þeim anda ættum við að lesa söguna um vitringana. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.
Við mannfólkið erum ferðalangar á leið til fundar við barnið, til að mæta manninum Jesú. Okkar köllun er að gefa það sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf, og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti. Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa eftir okkar hætti, en tilvera þeirra er tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Því þarftu ekki að trúa að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi – allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra. Þegar þú íhugar sögu þeirra er endursköpuð þín eigin saga. Helgisaga er utan við lífið ef hún er skilin bókstaflega en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þú verður einn af vitringunum þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu, manninum, veruleika Jesú Krists. Þá verður lífið töfrandi.