Þetta er undursamlegur smáréttur. Ég byrja á því að baka blini eða lummur. Ef rétturinn á að vera fingrafæði er hægt að hafa blinistærðina og einfalda áleggið en lummustærðin með öllu dýrðarálegginu er hentugri fyrir dögurð-bröns. Þegar búið er að baka er farið í að undirbúa áleggið, sem auðvitað er hægt að breyta að smekk. Ég nota wasabiþykkni til að blanda út í léttmajones. En hægt er að fara aðrar leiðir, jafnvel nota chili-majó eða aðra uppáhaldssósu.
Hentar fyrir 6 og jafnvel fleirum ef margir smáréttir fylgja með.
4 stk. andalæri úr dós
200 gr hoisinsósa
1 dl kjúklingasoð
sítrónusafi
graslaukur eða vorlaukur
steinselja
langskornar gulrótarflísar og agúrkustrimlar
sesamfræ
Aðferð
Ég set andalærisdósina í heitt vatnsbað (vask eða stóran pott) til að bræða vel andafituna. Taka andalærin úr fitunni, hreinsa skinn og bein frá og merja með puttunum kjötvöðvana sundur. Geyma andafituna (t.d. frysta) og nota til steikingar síðar. Setja hoisin-sósu í pott með kjúklingasoði, hita upp rólega og bæta kjötinu svo út í og leyfa því að hitna og taka til sín sósuna.
Blini – lummur
1 bolli hveiti
1/2 tsk salt
1 egg
2 msk góð olía
2/3 bolli mjólk
1/2 tsk lyftiduft
Blandið öllu saman og steikið blinis eða lummurnar á pönnu. Látið kólna. Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.
Wasabimajones
1msk wasabipaste
3 dl léttmajones
Öllu blandað saman og sett í sprautupoka
Á blini-lummurnar eru settir gulrótar- og ágúrkustrimlarnir. Þá kemur hrúga af andalærinu. Wasabimajonesinu sprautað yfir og síðan kemur graslaukur eða vorlaukur yfir og svo sesamfræ.
Bliniuppskriftin frá Albert eldar og andalærisuppskriftin af mbl. Takk fyrir.