Blómkál – hvítlaukur og krydd

Foreldrar mínir ræktuðu blómkál og á hverju hausti var blómkál í boði. Við hámuðum í okkur hrátt blómkáli og mamma notaði blómkál í ýmsa rétti, sauð og steikti. Mér þykir gaman að yngri kynslóðin á mínu heimili hefur uppgötvað bragðgæði nýupptekins blómkáls: „Þetta er bragðupplifun,“ sagði sonur minn um daginn. Hér er blómkálsréttur með Ottolenghi-snúningi.

Blómkálshöfuð meðalstórt, skorið í 1-2 cm blóm (stilkurinn ekki notaður)

4 hvítlauksgeirar
1/4 bolli góð ólífuolía
1 tsk reykt paprika

1 tsk chlliflögur

1 tsk kúmmín

1/2 tsk túrmerik

Saltið og piprið að smekk.

Steinselja skorin til skreytingar
1 sítróna skorin í fjóra hluta

Blómkálið gufusoðið í 5-7 mínútur. Á meðan kálið er soðið er kryddið sett í olífuolíu á pönnu og hrært saman. Þegar kálið hefur verið soðið er það sett í kryddolíuna á pönnunni og steikt við meðalhita þar til það er gullið og augjóslega steikt. En pönnusteikingin ætti að taka 5-8 mín. Komið fyrir á diskum og streytið með steinselju eða dilli. Allt í lagi að smella þrílitri fjólu líka sem kórónu á diskinn. Blómkálstíminn er kartöflutími og því ljómandi að sjóða nýjar kartöflur, merja lítillega og hella yfir bráðnu kryddsmjóri. Betra verður það ekki.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Verði ykkur að góðu.