Hvar er djásn íslenskrar náttúru?

Krúnudjásn Íslands er svæðið að fjallabaki – frá Skaftá að Tungnaá, frá Jökulheimum og að Mýrdalsjökli. Hvergi í veröldinni er hægt að sjá svo dramatískar hliðstæður og stórkostlegar eru náttúrusmíðarnar. Við Elín Sigrún Jónsdóttir fórum með fjórum öðrum í ævintýra- og lúxusferð á vegum Hauks Snorrasonar og Höddu Bjarkar Gísladóttur. Við gistum og nutum veislumatar í Hrífunesi, gengum talsvert og fórum um á fjallabíl þeirra hjóna. Þvílík forréttindi að njóta fagmennsku þeirra, alúðar, þekkingar og snilldar. Þessi þriggja sólarhringa ferð var einhver sú eftirminnilegasta sem við höfum farið. Samfélagið var frábært og sálin er full af auðmýkt gagnvart fegurð Íslands, undri lífsins og þakklæti. Myndskeiðið, sem er að baki þessari smellu, tók Jón Hilmarsson og Haukur Snorrason birti á síðu sinni. Við vorum þarna í bílnum sem Haukur ók yfir flæðarnar á Mælifellssandi sem eru afkvæmi Brennivínskvíslar og kannski aukins hita norðan Kötlu?