Var tekinn í hópinn á fjöllum

Ég kynntist Langasjó og afrétti Skaftártungumanna í fylgd og skjóli Vals Oddsteinssonar í Úthlíð í Skaftártungu. Haustið 1983 komu nokkrir íbyggnir karlar í prestssetrið. Með rjúkandi espressókaffi í bollum upplýstu þeir að ábúendur í Ásum yrðu að smala afréttinn með öðrum sveitungum. Sem gamall sveitastrákur þekkti ég meginreglur varðandi fjallskil. En ég varð hugsi yfir viku á fjöllum, tímamissi  – ég var jú að skrifa doktorsritgerð. Karlarnir glottu yfir slíkri iðju en sögðu að ekki væri hægt að komast undan samfélagsskyldunni. Bókverkin gætu beðið. Nei, það væri ekki hægt að borga einhverjum öðrum til að fara á fjall. Ábúandinn yrði að gegna og sinna hlutverki sínu. Jamm og já og það var það. Ég var hugsi en tók til pjönkur fyrir vikuferð og gekk frá skruddum og tölvu. En fjallageimurinn fangaði mig og vitund mína. Samfélagið á fjöllum var heillandi þrátt fyrir puðið og viðurgerningur var frábær. Á gólfinu milli sofandi fjallmanna og meðal hunda í Hólaskjóli var ég tekinn í hópinn. Ég var orðinn einn af þeim en ekki lengur prestlingur í fræðageimi. Það sem ég hélt að yrði tap og missir varð mér til happs. Ég var innan hrings en ekki utan.

Valur í Úthlíð var og er höfðingi. Honum var umhugað um velferð okkar fjallmanna. Hann vildi tryggja að tafir frá doktorsritgerð yrðu ekki sárar heldur góðar – að ég kynntist dýrðarveröldinni og fengi að sjá sem mest. Þegar hann fór inn að Jökulheimum vildi hann að ég færi með. Því sá ég og hreifst af Fögrufjöllum austan við Langasjó. Fáar kindur voru á svæðinu enda gróðurrýrt. Óþarfi var því að fara á hestum um allt flæmið. En Valur átti öflugan og vel þjálfaðan smalahund sem við slepptum þegar við sáum fé. Hundurinn kunni hlutverk sitt fullkomlega, hljóp beint að ánum og hélt í þær án þess að merja þær eða meiða. Við náðum mömmunum fyrirhafnarlítið og þar með lömbunum líka. Síðan lyftum við fénu á kerru og héldum áfram leitinni. Við skimuðum og töluðum um lífið. Það var heillandi að fara um með manni sem bæði elskaði og þekkti náttúruna. Valur var veitull á sögur af dýrum, náttúrufari og afskiptum manna í þessari undraveröld. Ég smalaði líka Eldgjá og hesturinn sem nágranni minn lánaði mér fældist í rokinu á gjárbarminum. Ég náði þó að snúa skepnuna niður áður en við flugum fram af. Strútslaug, Skaftá – hvílíkar gersemar.

Seinna hringdi Valur til mín og spurði hvort ég vildi fara með honum og fleirum til sleppa seiðum í Langasjó. Skaftártungumenn vildu gera tilraun og kanna hvort fiskur gæti lifað í vatninu. Ég hef alla tíð sótt í og að vatni. Ferðir með Úthlíðarhöfðingjanum höfðu verið gjöfular og nú þurftu brúnaþungir karlar ekki að nefna skyldur eða sveitarsiði. Þetta varð ævintýraferð og við slepptum seiðum sem hafa lifað. Niðurstaðan er skýr og á íslenska ferðavefnum um veiði í Langasjó segir: „Þar er mikið að bleikju frá 1-5 pund og góð aðsaða fyrir veiðimenn í fjallaskála.

Myndin: Valur Oddsteinsson í Úthlíð að sleppa seiðum í kristaltæran Langasjó, sem er um tuttugu km. langur og allt að 75 m. djúpur. Takk Valur, Skaftártungumenn og Skaftfellingar.