Unnur Kristjánsdóttir

„…og mannsins barn að þú vitjir þess.”

Er það ekki stórkostlegt þegar ástin verður til við fangelsi? Það var á móts við Hegningarhúsið, sem Unnur sá Jón og hann hana! Á Skólavörðustígnum voru lífsleiðir þeirra tengdar saman. Hann var á leiðinni til mömmu í mat, hún var á sinni leið milli saumastofu Kápunnar og heimilis. Hegningarhúsið hefur sjaldan verið talið ástartákn, en Unnur var húmoristi, kannski vissi hún um ferðir Jóns og valdi jafnvel staðinn! En ævi þeirra Jóns var líf í frelsi, án helsis, líf fyrir hvort annað og í krafti hvors annars. Þeirra hús var hús elskunnar. En Skólavörðustígurinn til móts við Hegningarhúsið verður ávallt rómantískur staður í mínum huga eftir að ég heyrði Jón segja svo fallega og blíðlega frá ástarvitrun þeirra!

 Ætt og uppruniUnnur Kristjánsdóttir fæddist í Ytra-Skógarnesi 19. maí árið 1926. Reyndar fæddust tvær stúlkur þennan dag, því Unnur var tvíburi, hin systirin er Auður. Foreldrarnir voru hjónin Kristján Ágúst Kristjánsson bóndi í Ytra-Skógarnesi og skjalavörður Alþingis (f. 4. ágúst 1890, d. 4. júlí 1934) og kona hans Sigríður Karítas Gísladóttir húsfreyja (f. 7. febrúar 1891, d. 15. nóvember 1988).  Systkini Unnar eru Hanna,  Baldur, Jens, Auður, Arndís, Einar Haukur, Jóhanna og Kristjana Ágústa. Af þessum stóra hóp eru, auk Unnar, Hanna og Baldur látin. 

Löngufjörur og lífið

Löngufjörur – Unnur fæddist við strönd hins mikla hafs og fjörurnar hennar voru hinar stórkostlegu Löngufjörur, sem minna á eitthvert upphafið sæluríki á himnum. En lífið í Miklaholtshreppi á fyrstu áratugum 20. aldar var þó ekki óbrotin sæla og fjörugáski. Ströndin og Ytra-Skógarnes eiga líka sögur af áföllum. Fjölskyldusagan spannar bæði hamingju, en líka miklar raunir og átök. Við erum öll mótuð af upphafi okkar, ekki aðeins hvað erfðaefni varðar, heldur líka af aðstæðum og áföllum, sem verða. Unnur var ekki að dröslast með óþarfa fortíðarslóða, hún kunni að snúa við blaði, hafði vitsmuni, skopskyn og vilja til að að lifa við aðstæður hverrar tíðar. Kraftmikil fjölskylda sem farnaðist vel. Húsmóðirin heima, pabbinn með mörg járn í eldi og líka við Austurvöll, frumkvöðull og frömuður mennta. Á árunum 1922 – 1934 fæddust þeim Ytra-Skógarneshjónum níu börn. Og þá voru þau slegin, Kristján Ágúst lést skyndilega. Elsta barnið var 12 ára og hið yngsta nýfætt. Hvaða sár opnast við slíkar aðstæður? Auðvitað bitu allir á jaxlinn, héldu áfram að lifa. Það hjálpar þegar hópurinn er stór. En júlídaginn 1934 var upphafið að endinum. Sigríður hélt áfram búskap, með aðstoð aldraðs föður og í krafti samheldni barna. En svo fóru þau að fara eitt af öðru og líka Unnur. “Hvað er þá mannsins barn?”

 Skóli og vinna

Unnur sótti fyrst skóla á heimaslóð, en fór svo í Reykjaskóla með systur sinni. Síðar lá leiðin í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Eins og dugmikið æskufólk þessa tíma hikaði hún ekki að fara í aðra landshluta, var m.a.s. ráðskona í vegagerð í Skagafirði og síðar við Garðabæ. Í Reykjavík vann hún ekki síst við sauma, á Toledo og líka Kápunni. Hún hafði góðar tekjur. Unnur tók þátt í hinu stóra ævintýri þegar íslensku samfélagi var umbylt, atvinnuvegir breyttust, straumurinn var úr sveit í borg, þar sem ný hverfi risu með ógnarhraða. Íslensk æska, með íslensk viðmið og óbilandi orku til uppbyggingar. Unnur var hluti þessa krafttíma hins unga lýðveldis, sjálfstæðrar þjóðar. 

Jón og hjúskapur

Í lífssveiflunni hittust þau Jón svo. Þau höfðu nú svo sem séð hvort annað áður en Skólavörðustígurinn lifnaði af ást. Jón hafði séð þennan vel klædda kvenmann á balli í Vetrargarðinum í Tívolí, þessa með stóru brúnu augun. Honum leist vel á hana. Einhver hafði líka hvíslað að Unni að hún skyldi hafa augun með honum líka, þetta væri góður strákur! En svo leið tíminn. Vorið 1951 var hentugur tími að finnast að nýju og þau leiddust síðan í gegnum lífið. Þann 12. júní 1953 gengu þau svo í hjónaband og voru því búin að eiga samleið meira en hálfa öld þegar yfir lauk 30. maí síðastliðinn. Fyrstu hjúskaparárin leigðu þau á Skeggjagötu 6. Jón var starfsmaður Pósts og síma og formaður í byggingafélagi símamanna spurði hvort þau hjónin vildu ekki taka eina íðbúðina í símablokkinni við Dunhaga. Tilboðið var einfalt, þau Unnur þyrftu ekki að eiga neina peninga, þetta kæmi allt af sjálfu sér! Hin íslenska aðferð og auðvitað gekk hún eins og í flestum tilvikum. Fyrsta innborgun tíu þúsund kr. var ekki auðveld viðureignar en þau hvikuðu ekki. Þeim tókst að öngla saman og gátu haldið áfram og með hjálp ættingja og vina.

Saga Jóns og Unnar er í hnotskurn saga fólksins á Melunum og Högunum og kannski flestra nýbyggingahverfa Íslands á tuttugustu öld. Þarna varð heimili fjölskyldunnar og umhverfi, með öllum tilbrigðum, kostum, möguleikum og spennu nýbyggingarhverfis. Stutt niður í fjöruna til grásleppukarlanna, stutt í mjólkurbúðina og KRON. Dóri í fiskbúðinni seldi fiskinn og barnafjöldinn var næsta ótrúlegur í hverfinu. Börnin uxu inn í þetta umhverfi á Högunum.

 Börnin og afkomendur

Börn Unnar og Jóns eru Guðfinna Alda Skagfjörð, sem starfar sem viðskiptafræðingur hjá dönsku póstþjónustunni. Maður hennar er Björgvin Gylfi Snorrason og eiga þau tvær dætur, Karen Lilju og Evu Björk. Sonur Unnar og Jóns er Gísli Skagfjörð, verkfræðingur hjá Símanum.

Dunhagablokkin

Unnur var sátt við blokkina sína og að búa í Vesturbænum. Þegar börnin voru komin í heiminn hætti hún launavinnu um tíma, sá um sitt fólk og hélt um heimilisreksturinn, eins og konur af hennar kynslóð. Jón var kallaður til starfa vestur á Snæfellsnes, þegar lóranstöðin var reist við Hellissand. Þá fóru þau vestur, en seldu þó ekki íbúðina sína, ekki heldur þegar þau fóru svo á Selfoss og Jón varð stöðvarstjóri Pósts og síma þar eystra. Þá voru Alda og Gísli áfram á Dunhaganum.

Öllum er mikilvægt að eiga sér festu og grunnstöð. Unnur fór víða í lífinu, hún átti sinn heimareit, en gat því farið nokkur ár vestur, síðan austur, margar ferðir til Danmerkur og svo víða um heim. Hún gat farið á fjörur suður á Spáni eða sprangað um löngu fjörur veraldar en alltaf kom hún heim í hreiðrið þeirra Jóns. Þar naut hún að vera og með sínum manni.

Vestur og víðar

Gufuskálaárin voru hamingjuár. Starfsmenn voru margir og fjölskyldur þeirra mynduðu stórt þorp. Krökkunum leið því vel, en svo fóru þau í bæinn aftur, krakkarnir ekki alsáttir, en mamman kát. Hún fór að vinna úti að nýju, saumaskapurinn lék í höndum hennar og Vinnufatagerðin naut krafta hennar. Á Selfossi starfaði Unnur í afgreiðslunni á pósthúsinu. Þegar þau Jón sneru svo enn til baka til Reykjavíkur starfaði hún á pósthúsinu í Umferðarmiðstöðinni og kunni vel að vera á þeirri þjóðbraut.

Hvað er mannsins barn?

“Hvað er maðurinn, að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?” spurði skáld fyrir þúsundum ára og þessi orð eru varðveitt í sálmasafni Biblínnar. Mannsins barn, hvers virði er það? Hvað er það að lifa og hvernig er hægt að lifa svo vel sé?

Lítil stúlka á langri fjöru, við stóran sjó, undir stórum himni og svo hvarf pabbinn. Af hverju? Hvers vegna er lífið svona en ekki hinsegin? Unnur var alla tíð raunsæ og lét ekki ónytjugrufl og óþarfa velta sér eða umturna. Hún var greind og glögg, setti sér sín markmið og náði þeim, hafði elju og alúð við það sem hún ætlaði sér, kunnáttusöm og hlý í mannlegum samskiptum og góð móðir og eiginkona. Hún var öflug í tengingum. Auðvitað er það ágætlega við hæfi að öll fjölskyldan skuli hafa verið í póst- og símastörfum með einum eða öðrum hætti. Þetta fólk kann að tengja, ná sambandi. En svo handan við skiptiborð lífsins er skiptiborðið stóra á himnum. Þar er spurt um manninn og svar manna er gjarnan af hverju þetta og af hverju hitt. Hvað er mannsins barn að þú vitjir þess?

Löngufjörur himins

Unnur var öflug kona. Þegar skygnst er yfir líf hennar sést vel hvernig hún hefur þjónað sínu fólki og alið önn fyrir ástvinum sínum. Hún hefur verið eins og póstur kærleikans, borið lífsbjörg til fólks, unnið plögg til að verja og fegra, hugað að velferð bónda síns, stutt hann, börn og systkin eftir því sem hún mátti.

Upphaf fyrir vestan, nú er hún á hinum löngu fjörum himinsins. Þar er engin þjáning, engin verkur eða veikindi. Þar eru engin slys eða missir, þar er hin mikla skiptistöð sem sér um algert samband, fullkomin tengsl og greiðar póstsamgöngur elsku og yndis.

Hvað er maðurinn að þú minnist hans? Unnur þjónaði alla tíð en Guð kristninnar er Guð algerrar elsku, umvefur alla með umhyggju sem er meiri og handan við það sem menn ímynda sér. “Með sæmd og heiðri krýnir þú” segir í Davíðssálminum. Guð himins elskar og opnar himinn sinn fyrir fólki.

Útför Neskirkju 21. júní 2005. Jarðsett í Duftreit Gufuneskirkjugarðs.