Þorkell Stefánsson – minningarorð

Í hverju er útrásin þá fólgin? Þá opnast stærra og meira land en Blesugróf eða Elliðaárdalur, markaður í Evrópu eða fjármálaengi veraldar. Þorkell Stefánsson var jarðsungin 4. apríl 2006. Minningarorðin eru hér á eftir.

Strákaher kom aðvífandi með sverð og vígbúnað alls konar. Þeir voru greinilega að koma úr styrjöld, vopnin voru löskuð, þeir upprifnir, töluðu hátt og hlógu. Þessi orrusta hafði greinilega farið vel. Fyrir hópnum var höfðingi í glæsilegri skykkju, með fellingum og bryddingum. Á höfði hans var þessi fíni, silfraði hjálmur. Skjöldurinn var samlitur og í honum djúp átakaför. Sverðið í stíl, góð smíði og með hjöltum.

Þetta var her í smáíbúðahverfinu. Stríð geisuðu milli landsnámsbarnanna á svæðinu. Farnar voru herferðir upp í Blesugróf. Foringja var þörf. En þegar glæsimennið Þorkell var kominn í hlébarðaskikkjuna, sem móðir hans María saumaði, var engin samkeppni um konungstignina möguleg. Herinn eignaðist svo herbúðir í kjallara fjölskyldunnar á Sogavegi 202. Þar var hásæti smíðað. Í því sat svo Þorkell, dæmdi í málum þegna sinna, eins og vísra konunga er lagið, og fundaði með leyndarráðinu hvernig skipa skyldi næstu sókn upp í Blesugróf, eða hverjir stæðu á verði og sinntu njósnum. Alltaf til í aksjón, ávallt reiðubúinn þegar skylda kallaði eða einhverjir möguleikar opnuðust.

Hásæti lífsins

Í Opinberunarbók Jóhannesar, þeirri litríku bók framtíðarinnar, sem líka er síðasta bók Biblíunnar, segir: “Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans” (Op. Jóh. 3.21).

Enginn hefur lofað okkur, að lífið yrði átakalaust og samfelld sólarganga. Smástríð bernskunnar opinbera að veröldin er flókin og krefst stælts hugar og vilja. Við lærum snemma að gæta okkar og sjá á færi vandkvæði. Þau, sem dýpst hafa kafað, sjá líka að máttur okkar megnar ekki allt, við getum ekki í eigin krafti bjargað okkur úr öllum vanda, við erum háð fólki, ástvinum, vinum – þegar dýpst er skoðað þeim mætti, sem heldur á okkur þegar við erum búin með allt okkar. Sá æðri máttur er Guð.

Það er hægt að leysa verkefni daganna, hægt að sigra á velli viðskiptanna, hægt að ávinna flest verðlaun lífsins, en þó blundar í okkur grunur um, að eitthvað meira og stærra sé til. Þannig hvíslar Guð í djúpum tilverunnar. Við viljum svo vel, reynum að gera okkar besta en gerðir hrökkva skammt, brestirnir í okkur hindra að við klifrum sjálf á topp elskunnar og inn í himininn. Þess vegna kemur kóngur himins til manna. Þegar máttur manna getur ekki meira er Guð elskunnar nærri, bjargar og leiðir síðan að hásæti sínu, býður fólki að njóta gleðinnar, sem aldrei endar og enginn fer frá með sorg í hjarta.

Æviágrip

Þorkell Stefánsson fæddist í Reykjavík 7. október 1948. Hann lést á heimili sínu, Aflagranda 26, laugardaginn 25. mars. Foreldrar hans eru hjónin Stefán Ágúst Júlíusson og María Helgadóttir. Systkini Þorkels eru þau Stefán, Ragnheiður og Anna Guðfinna. Systkinin lifa öll bróður sinn og María, móðir Þorkels, lifir son sinn einnig.

Fyrri kona Þorkels var Berit Holthe og bjuggu þau í Noregi og á Íslandi. Synir þeirra eru Andrés og Ágúst. Fyrir hjónaband átti Þorkell Steinunni með Ásu Þórunni Matthíasdóttur. Barnabörn Þorkels eru fjögur: Ása Hrund, Tristan Snær, Charlotte og Noah.

Í júní 1991 kvæntist Þorkell eftirlifandi eiginkonu sinni, Kolbrúnu Önnu Jónsdóttur. Börn þeirra eru Nína Hjördís, Fríða og Jara Birna.

Nám og störf

Þorkell byrjaði snemma að vinna. Hann varð ungur þingsveinn, eignaðist svo skellinöðru, sem ekki var bara fyrir gamanið, heldur notuð í atvinnuskyni líka fyrir þingið. Á Alþingi náði Þorkell að falla fyrir sjarma Ólafs Thors. Sjálfur varð hann svo einn helsti sjarmör hverfisins þegar hann afgreiddi í sjoppunni. “Keli sæti í sjoppunni” var svo hrífandi, að það þurfti stóran kassa undir ástabréfin, sem voru send til hans á þessum árum! Þorkell fór í Gagnfræðaskóla verknáms, síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Svo fór hann í Tækniskólann.

Í Þorkeli bjó sú tegund af útrásarmanni, sem þorir í víking í verkum og viðskiptum. Hann fór í nám í Noregi, bæði Þrándheimi og Kongsber. Svo starfaði Þorkell hjá Texaco-olíufélaginu. Hann fór víða, sigldi um heimshöfin og sá margt og aflaði sér reynslu og innsæis, sem nýttist honum vel síðar í viðskiptum.

Þegar hann kom heim hóf hann störf hjá Bræðrunum Ormsson og var þar yfirmaður tæknideildar í mörg ár. Með öðrum störfum kenndi Þorkell nokkra vetur í Ármúlaskóla. Þau Kolbrún sáu auglýst fyrirtæki í rafmagnsgeiranum. Þá var teningunum kastað og þau Þorkell keyptu sig inn í Raftækjaverslun Íslands hf. árið 1986. Hún var síðan rekin með glæsibrag í nær tvo áratugi, þar til heilsan bilaði og skynsamlegt að selja.

Þorkell stofnaði líka fyrirtækið Saga í Ungverjalandi, umboðsfyrirtæki sérhæft í háspennutækni. Þá keyptu Þorkell og Kolbrún húsgagnaverslunina Míru í Kópavogi og ráku um fjögurra ára skeið. Vegna veikinda Þorkels seldu þau síðan.

Viðskiptamaðurinn Þorkell var ábyrgur. Á þennslutímum er auðvelt að hrasa, versla framhjá og stytta sér leið í peningamálum. Það hugnaðist Þorkeli ekki. Hann hafði engan áhuga á falskri velgengni heldur stundaði bisniss heilindanna. Hann ávann sér því virðingu meðal viðskiptafélaga sinna. Það er gott að reisa sjálfum sér slíkan bautastein traustsins.

Umhverfi

Smáíbúðahverfið í uppbyggingu var dásamlegt fyrir ungviði. Húsin voru á byggingarstigi, mömmurnar heima með öryggi, mat og líka saumavélar til að búa til herklæði. Setuliðið hafði skilið eftir ókjör af byggingaefni í kastala, hús og víggirðingar. Ár og lækir, holt og móar, alls konar fólk og skemmtilegheit. Frelsi til athafna var mikið og stíll samfélagsins, sem var þarna, var dálítið villtur. Þorkell óx upp í landnemabyggð, varð foringi á frontinum, tamdi sér að sjá tækifærin og nýta þau, stilla upp kostum og velja, standa með ákvörðun sinni og fylgja henni til enda, hyggja á útrás og sækja fram. Þetta voru eigindir og hæfni, sem hann naut allt lífið.

Fagurkerinn

Þorkell ólst upp við þau kjör, að verða að bjarga sér sjálfur – skapa sér eigin tilveru. Hann var fagurkeri og varð þegar í bernsku heillaður af fallegum tækjum og tólum. Skellinaðran var eitt. Svo komu vængjuðu stórkaggarnir, sem þurfti oft að gera við eftir bara einn rúnt niður í bæ. En þeir voru alltaf bónaðir og stroknir og svo kom báturinn.  

Þorkell var flottur í tauinu. Nágrannamömmurnar í hverfinu dáðust að því, að hann var alltaf hreinn í miðju atinu þegar börnin þeirra komu mórauð heim. Þá andvörpuðu þær og öfunduðu Maríu svolítið. Þau mægðinin voru samhent í fatamálum og mamman var alltaf til í sauma á hann föt, hvort sem það var nú indversk skykkja og túrban fyrir grímuball eða bara að stytta fyrir hann nýjar buxur fyrir föstudagsrúnt eða ball. Svo varð Þorkell töffari, vildi vera fínn og gleymdi ekki að pússa skóna. Hann var maður gjörninganna, verðandi og stemmingar og hafði því í sér víddir, sem hefðu allt eins getað nýst í leikhúsi eins og á því sviði sem hann einbeitti sér, leiksviði viðskipta.

Tónlistin

Þorkell tók fagnandi tónlist sinnar kynslóðar, hvort sem það var nú músík Bítla, Rollinga, Deep Purple, Led Zeppelin eða diskósins. Af þessu öllu hafði hann gaman, varðveitti plöturnar vel og dætur hans njóta þeirra nú. Þegar stórpoppararnir fóru að fara um heiminn að nýju í tónleikaferðalög bauð hann sínu fólki. Lou Reed var góður og svo ætlaði hann sér á Ian Anderson og Pink Floyd tónleikana sem eru framundan. Þess gamans mun hann ekki njóta. Músíksmekkurinn var alhliða, fjölskyldan átti líka áskriftarmiða á synfó í Háskólabíó. Tónlistin umlykur lífið og gott að leyfa sem mestu og bestu að baða okkur. En kannski var rokkarinn dýpstur í honum. Þegar hann var orðin mikið veikur, og vildi ekki kvarta fannst honum gott að fá spilara með ómenguðu rokki uppí rúm. Þá hallaði hann sér aftur, gaf í botn og leið auðvitað strax miklu betur.

Fótboltinn

Áhugaefnin voru mörg. Þorkell byrjaði snemma í fótbolta, var afar efnilegur. Þvert á strauminn fór hann ekki í Víkingsliðið heldur valdi pabbaliðið Fram. Hann var fljótur, fimur og mikið efni og hætti eiginlega of snemma. En fótboltaáhuginn hélst. Hann gat jafnvel leyft KR að njóta vafans og stóð með sínu Vesturbæjarfólki. En það er nú dásemd fótboltans að maður getur haldið með mörgum liðum samtímis. Það eru engin svik að meta þá sem gera vel, gleðjast yfir snilld einstaklinga og liða.

Verklægni

Þorkell var afar handlaginn og fáir voru nákvæmari í höndum. Hann smíðaði vel, gerði vel við skellinöðruna og bílana. Þorkell var góður í viðgerðum. Að baki handlagni bjó útsjónarsemi, nákvæmni og líka fegurðarskyn. Bernskuverkin efla. Strákarnir gerðu sprengjur, flugelda og blys, blönduðu saltpétri og málmum og allt varð að vanda og fara varlega með svo ekki yrðu meiðingar og slys.

Gamnið

Þorkell var húmoristi, skemmti sér konunglega með góðu og glaðsinna fólki. Hann var hnittinn og hafði lag á að breyta heldur nöturlegum aðstæðum og kæta dapurt fólk. Slasaðir ættingjar Kela minnast þess hvernig biðstofan á Slysavarðstofunni varð allt í einu gleðistaður þegar hann hafði bent á eitthvað kostulegt. Þorkell hafði þessa fínu næmi á hið kostulega í alvarlegum aðstæðum, frávíkin í hversdagsleikanum og hið stórkostlega í grámósku daganna. Og svo sagði hann glitrandi og litríkar sögur, sem tóku oft raunveruleikanum langt fram. Það er mikil blessun og Guðsgjöf að temja sér slíkt lífsdekur og deila með sínu fólki.

Heimilið

Þorkell var heimilismaður. Hann naut ástríkis og barnríkis. Honum var umhugað um velferð sinna og gerði það sem hann gat til að sinna vel sínu fólki. Um tíma var Þorkell einstæður faðir, einn með Andrés. Allir voru sammála um, að hann hafi staðið sig vel í því hlutverki. Hann var mikilvægur systkinum sínum, með augun galopin ef þau þörfnuðust hans, voru veik eða þurftu stuðning. Ef einhver var sjúkur þá var Þorkell kominn, ef einhverju leið illa þá var hann mættur með ráð og plan. Þorkell var eins og slingur uppalandi, hjálpaði sínu fólki til vinnu og réð þau gjarnan til fyrstu launavinnunnar. Ef hann hafði ekki annað þá bara réð hann ungviðið til að greiða sér eða nudda á sér höfuð eða fætur! En þá voru þau komin á bragðið með sjálfshjálp og hann hafði sjálfur upplifað og notið gamansins.

Kolbrún og börnin

Kolbrún sá Þorkel fyrst þegar hann gekk niður Bankastrætið með strákana sína, varð starsýnt á hann. Kannski kviknaði eitthvað? Svo hittust þau í Hollywood og ástin kviknaði undir diskókúlunni. Þau héldust í hendur og bjuggu saman þaðan í frá. Þau hafa staðið saman í gegnum þykkt og þunnt. Þau leyfðu litríki elskunnar að lifa í sambandinu. Hjónabandið var litað með rósabúntum og auðvitað gaf Þorkell Kollu líka kóngaliljur.

Oft sigldu þau djarft og háskalega. En alltaf stóðu þau sem eitt, púluðu, ræddu saman og hlógu, nutu þess að flétta saman ólíkar eigindir, voru bæði sterk og öflug, full af orku og áhuga, viðurkenndu engin smámörk heldur tóku á og höfðu metnaðinn óbugaðan. Að þau skyldu þola álagið með lítil börn í þennan tíma segir  best söguna um gæði og hæfni beggja. Hjúskapur og ástríki verður ekki til nema bæði leggi til og leggi saman á borð heimilisins. Þau Kolbrún voru vinir, uxu á dýptina saman, héldu í hvort annað, þegar erfiðleikar dundu yfir, og slepptu aldrei.

Þorkell naut þess að vera með börnum sínum, ferðast með þeim um heiminn, fylgjast með þeim í námi og störfum, styðja og hvetja. Hann var natinn pabbi og vildi gefa þeim allt það besta sem hann gat. Þau hafa misst mikið. Guð blessi þau í sorg þeirra, bæði eldri og yngri. Heiðrið minningu Þorkels með því að styðja þau áfram, vera þeim hollir ástvinir og vinir. Þau þarfnast ykkar nú og áfram.

Hásæti himinsins

Þorkell naut þess að ljúka málum með stæl. Hann kunni ekki við barlóm eða nöldur. Hann var sjálfum sér samkvæmur í veikindum og dauðastríði. Það er gömul íslensk dyggð að æðrast ekki og kvarta ekki. Þegar á reynir kemur í ljós hver við erum. Foringinn Þorkell kveinkaði sér ekki og hvarf inn í dauðann án möglunar. En foreldri, sem horfir á ung börn, grætur innan í sér yfir að tíminn er fullnaður.

Hvað er þá eftir? Þá kemur að því að viðurkenna mörk sín, iðka æðruleysi, sætta sig við það, sem ekki verður breytt, kjark til að horfast í augu við það sem útaf stendur. Í hverju er þá vitið til greiningar og vonin til framtíðar – þegar öll sund virðast lokuð, vopnin kvödd, skildirnir í lífinu fallnir og engin vopn bíta lengur?

Í hverju er útrásin þá fólgin? Þá opnast stærra og meira land en Blesugróf eða Elliðaárdalur, markaður í Evrópu eða fjármálaengi veraldar.

Handan dauðans er það, sem við köllum himnaríki. “Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.” Þar er hásæti – ekki í kjallara – heldur í miðju tilverunnar. Þar má Þorkell vera, þar má hann búa. Tilveran er svo gerð, svo flott og glæsileg, að Guð, kóngur himins, býður til fagnaðar. Þú mátt trúa því, að hann býður Þorkeli til fagnaðar með sér, til setu með sér í öndvegi. Slepptu og trúðu.