Stefanía Jónasdóttir +++

Stefanía beygði sig yfir nýgræðinginn, ýtti frá sinubrúsk og fór mjúkum fingrum um litla trjáplöntu – grannar greinar, brum og nýútsprungin lauf. Hún brosti feimnislega og vissi vel hver hafði potað þessari plöntu niður. Svo benti hún á fleiri. Milli stærri trjáa var fjöldi smárra trjáplantna. Þau höfðu skjól af hinum eldri, voru í góðu vari sunnanmegin í barðinu, höfðu vörn fyrir norðanveðrum. Svo rétti Stefanía úr sér og gleðisvipurinn var um allt andlitið og fögnuður í augunum. “Já, þetta er að koma,” sagði hún. Svo stóð hún þarna og horfði á lundinn sinn, fullviss um að tilraunin hafði heppnast. Jafnvel í Svarfaðardal var hægt að rækta tré, í strekkingnum var hægt að skapa skjól. Svo gekk hún heim, kíkti í garðinn, benti á fleiri trjáplöntur sem voru að leggja upp í ferðalag í Stefaníulund, áttu að eignast nýtt heimili, á nýrri grund, á nýjum hól, við nýjar laugar, á nýjum akri. Það er álag að flytja, jafnvel hættulegt, en það er hægt að dafna ef skjólið er gott, og aðstæður eru til vaxtar. Í skjóli, til lífs, í skjóli og í hæli hins hæsta.

Æviágrip

Stefanía Jónasdóttir fæddist á Smáragrund á Jökuldal 11. maí, 1939. Foreldrar hennar voru Jónas Þórðarson og Þórunn Sigfúsdóttir, hann Jökuldælingur frá Gauksstöðum og hún frá Brekku í Hróarstungu. Þau byggðu nýbýlið Smáragrund á Jökuldal. Börn þeirra voru sjö. Elstur er Sigfús og Stefanía var næstelst. Yngri systkinin eru Stefán, Þórður, Birgir, Þorbjörg og Steinunn. Þau lifa öll systur sína. Jónas lést árið 1987, en Þórunn býr á Grenilundi, heimili aldraðra á Grenivík.

Stefanía var á Smáragrund til tíu ára aldurs og fluttist með fjölskyldunni að Þórðarstöðum í Fnjóskadal. Hinir mörgu munnar þurftu meira en Smáragrund gat framfleytt og Þórðarstaðir reyndust vel. Skólagöngu hóf Stefanía austur á Jökuldal og fór síðan í skóla í Fnjóskadal, fyrst suður í dal og svo í heimavist á Skógum, sem er vestan ár og Vaglaskógar. Síðan tók Laugaskóli við þegar hún var 16 ára og fór þá í þá deild sem var kölluð eldri deild. Stefanía var tvo námsvetur á Laugum og var afbragðsnemandi segir skólastjórinn sem þá var! Eftir að hún tók landspróf var hún síðan einn vetur heima og fór svo í húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði. Síðan fór hún að Laugum að nýju og tók að sér bráðung starf húsmóður skólans.

Laugavinnan var henni afdrifarík. Hún hafði vissulega séð skólastjórann á Laugum áður. Hún hafði jú verið nemandi hans, en nú urðu þau samverkamenn, kynntust betur og Stefanía og Sigurður Kristjánsson gengu í hjónaband 17. júní 1961 í kirkjunni á Seyðisfirði.

Á Laugum var Stefanía til 1981 og því samtals í 24 vetur. Þá fór fjölskyldan í Brautarhól og því var Stefanía lengur – samfellt – í Svarfaðardal en á nokkrum öðrum stað, lengur en Laugum og mun lengur en í Fnjóskadal.

Þeim Sigurði og Stefaníu fæddist Kristján Tryggvi 1962, Gunnar Þór 1968, Sólveig Lilja 1971 og Sigurður Bjarni 1976. Kona Kristjáns er Aðalheiður Reynisdóttir og þeirra börn eru: Sigurður Marínó, Martha Malena, og Draupnir Jarl. Kona Gunnar Þórs er Sigríður Arna Sigurðardóttir. Stjúpdóttir Gunnars og dóttir Sigríðar er Sara Alexía. Drengurinn þeirra er Þorri Freyr. Maður Sólveigar er Friðrik Arnarson og eiga þau Þorstein Örn. Ömmubörnin hafa verið Stefaníu mikill gleðigjafi.

Fyrir liðlega einu og hálfu ári kom í ljós að Stefanía gekk ekki heil til skógar og greindist með krabbamein. Meðferðin á Akureyri virtist skila árangri en síðan dró til verri vegar að nýju og Stefanía lést hinn 5. maí síðastliðinn, tæpri viku fyrir afmæli sitt, sem hefði orðið í fyrradag. Hún hefði orðið 64 ára hefði hún lifað.

Lífið í skjóli

Fnjóskadalur var rjóður í veröldinni, paradís fyrir stóran barnahóp, öruggur reitur til leikja og uppvaxtar, ævintýraland með skóg, kristalá, átaksfjöll, dularfulla dali með ævintýrlegum nöfnum. Hún var bara tíu ára þegar hún kom að austan úr Jökuldal með mannfjandsamlega, nagandi jökulána. En Þórðarstaðir urðu hennar ævintýraland og hún tengdist þeim á viðkvæmu berskuskeiði. Hún uppgötvaði í hverju skjól er fólgið, hvernig lífinu, bæði flóru, fánu og mannfólki reynist að vera sólar- og hlémegin. Því talaði Stefanía þannig um Þórðarstaði í mín bernskueyru að það var ljóst að hún talaði um draumalandið. Og það er mikilvægt að eiga sér reynslu af að draumar rætist. Slíkt getur orðið viðmið í lífinu. Jákvæð stefnumarkandi reynsla í bernsku er inntak góðs uppeldis. Þórðarstaðir var sólarreitur, miðja heimsins, en þó líka á hjara veraldar, nærri óbyggðum, við mörkin. 

Mér er nær að halda að hún hafi mótast af þessum aðstæðum og orðið kona skjólsins í rjóðrinu í Fnjóskadal. Svo margt í lífi hennar síðar er atferli skjólmyndunar, skjólræktar, leit í hlé fyrir hvers konar næðingi hvort sem það var nú félagslegur eða tilfinningalegur næðingur. Hamingjusókn Stefaníu á sér skýra mynd í skjólinu sem hún bjó til, skjólinu sem hún bjó plöntunum sínum, og skjólið sem hún sótti í og vildi vera öllum þeim sem henni voru kærir. Hún leitaði vars sem tilfinningavera og vildi skýla öllum sem áttu bágt og kulaði um.

Henni var falin ábyrgð á berskuheimilinu – hún var jú elst systranna og næstelst í hópnum. Hún lærði að vinna bæði innan og utan húss. Hún lærði mikilvægi skógræktargirðingar gagnvart skógi. Tryggja varð að skepnurnar væru á sínum stað og eyðilegðu ekki nýgræðinginn. Hún stóð aðstoðarmóðurvaktina með mömmu sinni, margs var að gæta í galsafengnum systkinahópnum – og hún þurfti að passa upp á þessa stráka sem á eftir henni voru í barnaröðinni. Allar götur síðar var hún brjóstvörn fyrir fólk. Hún var til reiðu á Laugum þegar unglingarnir þörfnuðust hjálpar, hún og hennar heimili var galopin faðmur allra vina og ættingja hennar og manns hennar. Það sem Stefanía festi tryggð við stóð. Þegar einhver í stórum fjölskylduhóp rataði í erfiðleika var víst að Stefanía fylgdist með af umhyggju. Og börn systkina og vina, og afkomendur jafnvel í þriðja lið áttu öruggt hlé hjá Stefaníu – voru alltaf velkomin sem væru hennar eigin börn. Hún spurði um líðan, menntun, um lífsdrama fólks, hafði áhuga á velferð þess og allir næðu því landi og þeim þroska sem hægt væri. Ef hún gat gert eitthvað fyrir fólk var hennar styrkur og verk til reiðu. Jafnvel dauðveik sinnti hún ástvinum sínum.

Það var gaman að vinna með Stefaníu, ekki síst á álagstímum. Hún var atkvæðamikil og vildi að vel gengi þegar út í átökin var komið. Hún dró ekki af sér við að ryðja heyi af stóra vagninum á Brautarhóli, fannst gaman þegar mikið var heyjað, þótti betra að vel gengi, var upprifin á burðartíma, í rúningi og göngum. Naut þess þegar mataraðföng gengu vel og frystikistan fylltist, berjaílátin voru kúfuð, berjarunnarnir svignuðu, kartöflupokarnir voru margir og sultukrukkur og saftflöskur í röðum og snyrtilegum stæðum í búrinu. Hún skríkti af gleði í haustveiðinni þegar silungarnir lágu í breiðu á eyrinni hjá veiðimönnum heimilisins. Svo fannst henni gott að geta laumað að fólki krukku eða fiski. Vinnan var í samhengi, vinnnan var til að efla og vernda lífið. Og kanski er ein af hugstæðustu myndunum af Stefaníu, þegar hún var að hjúkra skepnum, draga út hrútlamb með of umfangsmikinn hornagarð, losa skorðað lamb úr fæðingarvegi, líkna veikri á, eða gefa lyf við júgurbólgu. Skepnurnar áttu vin í Stefaníu, hún var alltaf reiðubúin til að líkna og græða. Það var í fullu samræmi við hneigðir og hæfni hennar að gegna kalli frá nágrönnum, sem höfðu of stórar hendur fyrir ær í lambnauð. Hún hafði granna en sterka fingur og staðfestu fyrir lífsbjörgina. Hún gat oft snúið lambi, þegar aðrir gáfust upp.

Stefanía var næm og hún var námfús. Foreldrar Stefaníu lögðu upp úr að börnin nytu menntunar. Hún hóf skólagöngu austur á Skjöldólfsstöðum, fannst gaman, og svo tók góður og metnaðarfullur skólamaður og  kennari við í Fnjóskadal. Öll Þórðarstaðasystkinin nutu skólagöngu, sem var ekki sjálfgefið á þessum árum. Eins og fleiri fór Stefanía austur að Laugum, sem var auðvitað eins og risastór unglingastöð, suðupottur fyrir tilfinningar.

Þar upplifði hún allt mannlíf í hnotskurn, gleði og sorgir, gæsku og illsku, vonir og áföll. Í Laugaskóla lærði hún að mikilvægt er að gæta vel að sér, tryggja að varnirnar væru í lagi, hleypa ekki þeim að sem væru óábyrgir, tala ekki af sér og halda sínum kúrs, rétta hjálparhönd þegar þess þurfti með, – en ekki síst mikilvægi þess að læra.

Svo fór hún vestur til Ingibjargar á Löngumýri. Þar fékk hún aðra mótun, hina húsmóðurlegu. Það var merkilegt að upplifa Stefaníu í því hlutverki. Hún var kunnáttusöm í matargerð og gat búið til ótrúlega rétti úr einföldu hráefni. Lifur féll til í heimaslátrun og eitt sumarið var hún matreidd í eftiminnilega mörgum útgáfum. Stefanía gekk þá með eitt barnið og hjúkrunarfólkið undraðist hinn ríkulega járnbúskap í blóði hennar – og spurðu hvert væri leyndarmál hreysti hennar á meðgöngutíma. Hún hafði gaman af. Stefanía vildi enga óreiðu í kringum sig og vildi skapa hreina og kyrra veröld. Eins og í bernsku beitti hún sér fyrir að karlarnir í kringum hana sinntu hreinlæti, tækju til, allt væri á sínum stað. Hún sá líka vel um að ílátin í mjólkurhúsi og fjárhúsi væru skínandi hrein.

Það er flókið að reka tvö heimili en staðföst var Stefanía í regluseminni. Laugaheimilið var vetrarhöllin, og andaði af hreinlætislykt og reglu. Brautarhóll var sumarstaður hennar og þar reyndi hún eftir megni að halda öllu vel við og snyrtilegu. Síðar naut Vallakirkja snyrtimennsku hennar. Allt skyldi vel gert og hún var vökul gagnvart leiðum ættmenna bónda síns. Á síðari árum vaktaði Stefanía Gröf, hús og innbú og velferð íbúa. Hún vildi tryggja að vel færi, vel væri um gengið og allt til reiðu fyrir lífið – að öllum liði vel. Hún var nýtin og fyrirhyggjusöm og fór afar vel með.

Á Laugum varð Stefanía húsmóðir. Hún kunni til verkanna og hafði einnig reynslu af góðum heimavistarskóla og hvað hann gat gert mikið gott ef starfsfólkið var vandanum vaxið. Hún hafði sjálf notið skjóls á Skjöldólfsstöðum. Hún var til reiðu fyrir ungviðið á Laugum. Það var ekkert lögmál að skólastjórahjónin byggju í miðri hringiðunni í skólahúsinu. En þar vildi hún vera vegna þess að þá áttu nemendur greiðan aðgang að þeim hjónum. Hún var tilbúin að leggja á sig ónæðið, sívaktina, álagið til að tryggja velferð annarra. Stefanía tók mjög nærri sér ef henni tókst ekki að tengjast og náði ekki hjálpa þeim sem hún vildi. Í því voru stóru sorgirnar hennar, þegar hún var bjargarlaus í mannræktinni. Og kanski var stærsta sorgin hennar síðasta spölin að geta ekki lengur lagt lið þegar börnin hennar þörfnuðust hennar að nýju og barnabörnum fjölgaði. Hún vildi, en gat ekki meira.

Á Laugum kenndi hún stundum og beitti sér í kennslunni. Þar kom í ljós öflugur uppalandi og kennari í henni, sem hún síðan beislaði að nýju heima á Brautarhóli þegar hennar eigin börn voru að læra. Það voru ófáar stundir sem hún sat yfir bókunum, hélt börnunum til náms og hlýddi þeim yfir. Stefanía sætti sig ekki við bókarleti og námsslappleika. Hún vissi að ef menn ekki læra standa þeir á berangri í lífinu. Hún var síðan tilbúin að veita barnabörnunum sama stuðning og aðhald. Hún hafði áhuga á námsverkefnum hvers konar. Henni fannst gaman þegar ljóðakeppni Norðurslóðar kom fyrir jólin og öll fjölskyldan var á kafi í ljóðabókum til að leita að svörunum. Hún var einnig málverndunarkona og mikill Norðlendingur í sér og gladdist þegar hún heyrði norðlensku í öðrum landshlutum!

Hjúskapur

Húsmóðirin á Laugum giftist skólastjóranum. Þó aldursmunur væri á milli þeirra voru þau vaxin úr sama jarðvegi bændasamfélagsins, deildu sömu gildunum í flestu og höfðu líkar skoðanir um meginmál. Þau þekktu vel styrkleika hvors annars og voru því góðir samverkamenn í flestu og oftast samstiga. Orðlaust vissu þau hvað hitt hugsaði og lifði. Þau meira að segja lærðu saman á bíl og tóku prófið saman!

Vegna tvendarbúðar, tveggja heimila þeirra, urðu þau að greiða úr mörgum flækjum. Sigurður var bundinn við skólahaldið fram eftir júní, en Stefanía fór strax í Brautarhól á vorin til starfa. Hún var því oft á undan honum í sveitarstörfin. Hann kom svo á eftir. Rómantíkin þeirra var líka búskaparbundin. Þegar þau komu frá hjónavígslunni eystra fóru þau heim í Brautarhól og ráku saman allan fjárhópinn fram dalinn, og alla leið inn í afrétt. Þetta var eina eiginlega brúðkaupsferðin þeirra! Þar á eftir fór Stefanía eiginmannslaus til Noregs, bóndinn varð eftir til að sinna búinu. Reyndar voru Lilja og Filippía, mágkonur hennar með í för, en ekki var ferð með þeim nein brúðkaupsferð, þó skemmtileg væri.

Á Brautarhóli var fjölskyldulífið annasamt hin fyrri ár, en ekki síður margbrotið á Laugum. Í hinu fjölbreytilega mannfélagi á Laugum opnuðust allar gáttir. Heimili Stefaníu og Sigurðar var í miðju stórfjölskyldu sem taldi á annað hundrað manns. Börnin tóku þátt í því lífi og Stefanía og Sigurður voru í flóknari hlutverkum en flestir gegna í fjölskyldulífi og vinnu. Í því var listin að halda miðjunni heilli en njóta jafnframt hins fjölbreytilega, vera fullveðja einstaklingur og í góðum tengslum við umhverfið jafnframt. Það var líka mikið álag að búa við sumarútleiguna. Hótelreksturinn á sumrin rímaði t.d. illa við heimilislífið. Einu sinni kom lítill Kristján Tryggvi með nýveiddan fisk úr Reykjadalsá, alsæll og rogaðist með fiskinn eftir göngum og stiga og blóðröndin var um öll gólf. Hótelfólkið var ekki hrifið og Stefanía tók nærri sér og leið fyrir. Þegar börnin voru komin var Stefanía fyrst og fremst móðir húss og heimilis. Tími hennar var fyrir hennar fólk.

Sumpart saknaði Stefanía lífsháttabreytingar þegar fjölskyldan flutti alfarin í Brautarhól. Eins og börnin hennar saknaði hún fjölbreytileika skólalífsins. Stefanía tók þátt í félagslífi í sínum sveitum. Hún var söngvin og næm á músík, söng í samkór Reykdæla í nokkur ár og svo söng hún í kirkjukór í Svarfaðardal, sem heitir orðið nú Samkór Svarfdæla. Hún var í kvenfélaginu í Svarfaðardal og lagði mikið af mörkum í þágu kirkjustarfs í Vallasókn.

Gróðurræktin – yrkjandinn

Í mörgum hlutverkum lærðist Stefaníu að finna sér skjól og verja sig. Hún átti skjól í manni sínum, og svo lærðist henni að búa sér til eigin veröld sem hún gat horfið í. Litur þeirrar veraldar var grænn. Stefanía var ræktunarkona í besta skilningi þess orðs. Pottablóm sem aðrir áttu í erfiðleikum með döfnuðu milli handa hennar. Hún hreifst af tilraunum í ræktun og fagnaði skógræktartilraunum. Hún var dugmikil garðakona sem uppskar mikið og fjölbreytilegt grænmeti og þ.m.t. kartöflur.

Allt óx vel hjá henni og eiginlega betur en hjá öðrum. Mér finnst eins og gulræturnar hennar Stefaníu hafi verið bragðbetri og stærri en hjá nokkrum öðrum og þær voru alltaf svo skínandi vel þvegnar. Eitt hið síðasta sem hún ræddi við mig um var garðurinn og ræktunin. Hún þráði að fá að fara út í vorið. Þegar Sigurður Bjarni var búinn að reisa gróðurhús handa móður sinni eignaðist hún góðan reit fyrir ræktun og sýndi stolt plöntupottana sína. Hún hafði eignast undursamlegt skjól gegn hafgolunni í streng inn austurkjálkann. Og Stefanía, trú rjóðurást sinni og bernskureynslu lagði mikið á sig við að rækta skjólbelti. Og nú teygir limið sig til himins og Stefaníulundur vex inn í framtíðina, órækur vitnisburður um lífgjöf hennar. Og kindur Brautarhólsfólksins eiga orðið skjól þar sem ekki var  áður hlé. 

Kveðjur og skil

Ævi fólks er flókin og er oft sem leið eða för. Stefanía hóf sína göngu á grund smáranna í dal með kalt nafn. Foreldrar hennar rötuðu í undrarjóður sunnan Vaglaskógar, síðan fór hún á laugarbakkann í Reykjadal með viðkomu í langri mýri í Skagafirði og svo lenti hún á hól við braut í Svarfaðardal. Þetta eru staðirnir hennar. Og það var hrífandi að fylgjast með henni síðustu mánuðina eða jafnvel árin þegar hún var að kveðja staði og fólk. Hún fór hinstu ferðir til að vitja og kveðja. Hún talaði um skilin. Svo kom hún öll fram úr skjólinu þegar allt var rifið niður fyrir henni, þegar líkami hennar brást lífinu. Alla ævi hafði hún verið byggja upp, rækta, búa til rjóður. Í ljós kom ótrúlega sterk kona í veikindum. Hún vissi mæta vel að hverju dró, átti sína stefnu og vissi vel að hið mannlega skjól er gott en ekki til eilífðar. Hvar er traustið, hvar er festan? Alla ævi var hún að vernda fyrir tilfinningalegum áföllum, vernda ungviði, litla græna sprota, líkna. Alla ævi hafði hún þjálfast í að hlífa. Nú var fokið í skjólin hennar – eða hvað? Nei, hún vissi líka að þegar dauðinn læðist að eins og ísköld hafgolan um jökuldal sjúkdómana er aðeins á einum stað skjól, í Guði, hjá Guði. Hún var ekki hrædd. Guð hafði löngu áður en hún hóf að stinga sínum trjáhríslum í svörð hafið allt aðra ræktun. Fyrir löngu var búið að búa til mannkynsskjólið. Fyrir löngu var búið að ryðja rjóður fyrir lifandi fólk í heiminum í þeirri för sem Guð hafði sjálfur farið um kyrruviku og páska. Stefanía skildi mikla ræktendur og höfund lífsins. Hún var sjálf græðlingur úr þeirri miklu guðlegu ræktunarstöð. Í hina hinstu ferð gat Stefanía trygg og ákveðin falið sitt líf í hendur þess sem er öll vörn, er hæli og háborg. Og Stefanía er nú í hinu mikla himinrjóðri í skjóli, í lófa hins hæsta, Guðs.

Myndin er af Stefaníu og Sigurði. 

  1. maí 2004