Ólafur Sigurgeirsson – minningarorð

Hann er ekki í þjóðlendunum eða fjallafönnum, ekki við sprungur með grýlukerti í skeggi eða á hjólabuxum við fjallavatn og með grænt ennisband. Nei, það er hin eilífa hamraborg sem hann er sunginn inn í. Ólafur Sigurgeirsson var jarðsunginn frá Hallgrískirkju 7. maí 2006. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Á fjöllum

Ólafur stökk inn í Slunkaríki. Veðrið æddi utan dyra, það brakaði í húsum, en allir voru komnir fram. Ferðin með Kálfstindum hafði verið slarksöm. Því verra sem veðrið varð þeim mun hressari varð Ólafur. Þá fór að reyna á fyrirhyggju hans, nákvæmni, þekkingu, kraft, þor og dómgreind. Í hann var rifið, en hann stóð keikur, gaf ekkert eftir og auðvitað náði hann og hans menn markinu. Maðurinn í dyrunum á Slunkaríki var kappi, hugumstór foringi með geislandi augu, grýlukerti í skegginu, fögnuð í huga og unninn sigur. Á fjöllum var hann hamingjusamur – og betra ef glíma varð við raunverulegan vanda.

Athvarf og viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og umorkti. Sá lofsöngur varð síðar íslenski þjóðsöngurinn. Í sálmi Davíðs segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Fjöllin lifa, öræfin heilla, Ísland kallar. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” 

Uppruni og ætt

Ólafur Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1948 og lést á heimili sínu 27. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Steinunn Halldórsdóttir og Sigurgeir Guðmundur Guðmundsson. Ólafur missti foreldra sína ungur. Hann var reyndar orðin tvítugur þegar móðir hans dó, en var aðeins tíu ára þegar faðirinn lést. Það hefur aldrei verið gott að missa foreldri sitt ungur, þótt það verði hins vegar oft til að kalla efnismenn til ábyrgðar og átaka. Kjörsystir Ólafs var María Magnúsdóttir. Hún er látin. Hálfsystir hans, Guðfinna Magnúsdóttir, er sömuleiðis látin. Alsystir er  Særún Sigurgeirsdóttir og lifir bróður sinn.  

Ólafur sótti skóla í Reykjavík, var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1976. Þá hóf hann störf sem fulltrúi hjá borgarfógetaembættinu og var þar í tólf ár, bretti upp ermar, var víkingur til vinnu og málin gengu hjá borgarfógeta. Árið 1988 fékk Ólafur réttindi sem héraðsdómslögmaður og var hjá Lögmönnum Skeifunni 17 til 1990. Þá stofnaði hann eigin stofu og varð hæstaréttarlögmaður 1999. Ólafur sinnti alhliða lögmennsku, var fylginn sér í málflutningi, kom sér beint að efni og rökum. Á síðari árum helgaði hann sig því risaverkefni sem þjóðlendumálið er. Ólafur var frá upphafi fulltrúi íslenska ríkisins í þeim gríðarlegu hagsmunamálum. Þekking hans á landi, landsháttum og sögu kom að góðum notum og nýttist vel ríkinu. Jarðeigendur um allt land gátu ekki annað en borið virðingu fyrir þessum Íslandskappa, undruðust þekkingu hans og ef allt um þraut þá bara tók hann í nefið með körlunum – og var tekinn í þeirra hóp, var maður að þeirra skapi.

Heimafólkið

Ólafur var giftur Heiðrúnu Þóru Gunnarsdóttur. Börn þeirra eru Þór og Grettir. Stjúpdóttir Ólafs er Elín Hrönn Sigurjónsdóttir. Ólafur vildi, að ungviðið nyti alls hins besta. “Konan mín vinnur ekki úti” sagði hann einfaldlega. En þau Heiðrún voru hjartanlega sammála um að halda yrði góðu skikki á uppeldi og heimilishaldinu, fylgja strákunum eftir á hliðarlínuna í KR og æpa og sinna öllu því sem gerir heimili gott og gjöfult. Börnin hafa skýrt talað um hvað þessi skipan mála hafi verið þeim öllum til mikils góðs. 

Fyrir hjónaband eignaðist Ólafur soninn Elmar með Sigrúnu Benediktsdóttur. Sambýliskona Ólafs, þegar hann lést, var Guðrún Jóhannsdóttir og reyndist honum vel. Tengdamóðir hans, Fjóla Guðmundsdóttir getur ekki verið við þessa athöfn og ber ykkur kveðju sína. Ólafur var umhyggjusamur gagnvart sínu fólki og sinnti þeim eins og hann kunni best. Minningarnar um lífmikinn og ævintýralegan mann er auður ástvina hans. Þau hafa öll orðið fyrir óvæntum missi, raunar orkutapi í lífinu. Guð gefi þeim sinn mátt.

Máttur og íþróttir

Það fór ekki á milli mála þegar Ólafur kom í hús og mönnum varð starsýnt á heljarmennið. Hugur hans hneigðist til íþrótta og aflrauna frá unga aldri. Fyrst henti hann mönnum á loft í glímu. Árið 1969 varð Ólafur Íslandsmeistari í 3. þyngdarflokki í glímu og með KR-ingum í sveitaglímu á árunum þar á eftir. Hinn kraftalegi glímustíll var bending um stefnuna inn í heim aflrauna. Hann var sterkur og þegar hann var byrjaður að lyfta fyrir alvöru varð hann það sem félagarnir nefndu sterka manninn. Hann var marfaldur Íslandsmeistari í lyftingum og kraftlyftingum, setti fjölda Íslandsmeta og vann til verðlauna á Norðurlandameistarmótum. Bekkpressan var hans aðalgrein. Hann var keppnismaður í besta lagi og gaf ekki eftir fyrr en í fulla hnefa og það var talsvert!  

Ólafur var leiðtogi að upplagi. Félagar hans í puði og svita vissu, að hægt væri að treysta Óla. Hann var kallaður til ábyrgðar, stýrði mörgu af því sem gert var á fyrstu árum og áratugum í félags- og keppnis-málum lyftingamanna og var manna hressastur og líflegastur við að magna stemmingu á mótum. Hann varð brautryðjandi, stjórnaði þingum, aflaði hreyfingunni fé til framkvæmda og keppna, var fararstjóri í keppnisferðum erlendis, ráðgjafi ungu mannanna, hollvinur hinna eldri, dæmdi á mótum heima og erlendis, var tengill við erlend systur- eða eigum við frekar að segja bróður-samtök, alls staðar vel kynntur. Ólafur var formaður Lyftingasambands Íslands frá 1977-80 og formaður Kraftlyftingasambands Íslands frá 1984-86. Það er því ekki  einkennilegt, að sterkustu menn þjóðarinnar gangi í kirkju í dag, heiðri minningu leiðtoga, hollvinar og félaga. Krafturinn rímar vel við orkubolta trúarhefðarinnar, sem þetta hús er kennt við og minnir á.

Náttúrubarnið

Gunnar sneri aftur þegar hann sá land og hlíð. Eyvindar-Halla hljóp í óbyggðir þegar fegurð var á fjöllum. Hálendið togði í Ólaf og átti ítak í sál hans. Hann var fjallamaður, festarmaður Íslands, teygaði fagnandi að sér morgunkæluna í einhverjum mýrarskurðinum, þegar beðið var eftir morgunflugi. Hann ljómaði í morgunbirtu við minni Þórisdals, varð allur að titrandi kviku í kvöldbirtu, reif af sér klæðin á fjöllum, þegar sólin skein, elskaði fangbrögðin í fjallageimi, kunni vel veðravítum og tók stórviðrum eins og elskhugi fjörmiklu ástalífi. Utan malbiksins fannst Ólafi gaman og hann sagði: “Þetta er lífið.” Að una í faðmi náttúrunnar, með sínu fólki og vinum, var honum lífsnautn. Og hann magnaðist í þessum stórfaðmi – varð eiginlega náttúruafl.  

Ferðamaðurinn

Ég man eftir, að honum þótti skemmtilegt, þegar vinirnir hans töluðu um öll tækin hans Óla. Það er auðvitað gott að ferðast með fólki, sem á græjur, sem dugðu í hvaða aðstæðum og veðri sem var. En tækin þeirra Heiðrúnar áttu ekki sjálfstætt líf, heldur voru tól til nota vegna ferða og lífsnautna, rétt eins og lóð og stöng eru tæki lyftingamanna, meðul en ekki markmið. “Græna höllin” var til að komast frá A til B, hjólin, gúmmítuðran og sleðarnir líka.

Ólafur var framúrskarandi ferðamaður. Þótt hann væri hugmaður var hann jafnframt gætinn, enginn dólgur í vötnum, heldur kannaði vel. Hann vissi, að jökulsprungur gleypa algerlega, melta lengi og skila seint. Hann hentist því ekki yfir jökul nema vera viss um leið og aðstæður. Hann kunni vel á leiðsögutækin og hafði tamið sér agaða ferðtækni. Fjallamenn þekkja hvítablindu og það segir alla sögu um kunnáttu og færni Ólafs að hæsta hengja, sem hann fór fram af um dagana, var ekki nema þrír metrar. Ólafur naut átaka en ekki fíflsku. Þegar sleði fór niður úr ís fór hann úr Kraftgallanum og niður í vök á “sveifarhúsinu” einu og lyfti græjunni upp. Hann lét ekki sitt eftir liggja í að miðla upplýsingum og var um tíma ritstjóri Sleðafrétta, tímarits vélsleðamanna.

 Veiðimaðurinn

Ólafur var skotmaður, naut glímunnar við hreindýrin, puða við að hlaupa úr vindátt, komast að dýrum, og kannski ekki síður að erfiða við koma veiði til byggða. Fjórhjólin hafa að vísu nú tekið nokkuð af þeiri skemmtun. Hann veiddi fisk, en hafði ekki smekk fyrir smáveiðum með fíngerða flugustöng. Nei, betra var að leggja net og ef ekki voru önnur ráð synti hann bara með netið. Svo voru það rjúpur og gæsir, veiðar með vinum og undir íslenskum himni, á íslenskum fjöllum. Í honum bjó bjargráð kynslóða, vilji til að eiga nóg fyrir sig og sína og að allir fengju sinn skammt. Ólafur þjónaði félagsskap skotveiðimanna og var um árabil í hreindýranefnd Skotveiðifélagsins. Ólafur kunni að elda bráð og það er nú aðall veiðimannsins að nýta aflann vel. Svo velktist enginn í vafa um, að Ólafur kunni að borða líka. 

Íslandsbarnið

„…frá kyni til kyns… …fjöllin fæddust og heimurinn… …þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær.” Það fæðist enginn á röngum tíma, en Ólafur hefði allt eins getað verið fornmaður, landnámsmaður, heiðahöfðingi eða kappi. Hann var ástmaður Íslands og gildir einu hvort átt er við sögu landnáms og byggðar á Íslandi, náttúru landsins eða menningarhefðir. Hann var áhugamður um glímu, Herúla, áa og eddur Íslendinga, Hávamál, norræna goðafræði og merkingu þeirra sagna, byggðasögu og svo eru auðvitað allar Hamraborgirnar, háar og fagrar. Ólafur hafði líka áhuga á hetjuferðum Íslendinga, s.s. Vilhjálms Stefánssonar og fornmanna á Grænlandi. Svo vildi hann leggja sitt til að halda merki Íslands á lofti. Hluti þeirrar þjónustu við Ísland og jafngild var, að svitna við landbætur við ferðaskálann við Hagavatn. Enginn bað hann, hann vildi laga þar sem eyðing var. Hetjuhyggja Íslendinga var honum í blóð borin. Orðfæri, afstaða og atferli Ólafs var eins og holdgun Íslendingasögu, sem gæti borið nafnið Ólafs saga sterka. 

Styrkleikinn

Ólafur var ekki allra og hélt mörgum frá sér. Að baki skeggbroddum og kögglum bjó viðkvæm und og fíngerð sál. Hann kom sér upp vörnum eða brynjum til að vernda hið innra. Hann var maður hins meitlaða orðfæris. Snakk og vella var honum fjarri, hvort sem var heima, í dómssal, vinarhjali eða á fundum. En jafnframt var hann manna fundvísastur á skemmtilegtheit. Hann var agaður í vinnu, snyrtimenni og málhagur. Hann forðaðist alla linkind og var þar með aldrei misdægurt. Hann var aldei upp á aðra kominn, vildi vera bjargálna í öllum málum. Svo ræktaði hann með sér stálvilja og kapp. Af hverju? Því verður ekki svarað en óneitanlega læðist að grunur um, að missir föður í bernsku hafi orðið honum þungbært áfall. Síðan hafa aðstæður við uppvöxt sannfært hann um, að hann yrði sjálfur að bera sínar byrðar og eiga til þess nægilegt afl. Skýringar og réttlætingar eru síðan auðfundnar í klassískum bókmenntum þjóðarinnar og rómantískri hetjutúlkun þeirra.  

Viturt hjarta – veröld Guðs

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” – öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi, gosögum, hetjulund. Það er viska að nýta sér gleðiefni fortíðar og skemmta með. Það er viturlegt, að lesa landið og hvíla við brjóst hinnar stóru móður.  

Hvað er viturt hjarta? Jú, það dælir ekki aðeins blóði í urrandi vöðva heldur iðkar hið góða og ræktar hið gjöfula líf. Þú átt þína leið og Óli fór sína. Og við getum lært hvert af öðru í þeirri miklu lífskúnst að iðka lífsgæðin, að lyfta fyrir lífið.

 Í dag er áð á bakka tímans. Í dag hugsum við um styrkleikann og veikleikann. Í dag heyrum við þetta hvísl alls sem sem er: “Hverfið aftur þér mannanna börn – aftur til duftsins.” Hver er máttur mannsins? Óli var sterkur, ógnarsterkur, en þó veikur þegar eyðingaröflin mættu honum með fullum þunga. Allt er sem blómstur segir í sálminum um blómið og við syngjum á eftir. Allt, allt hverfur aftur til dufstins, þú líka, allur þessi söfnuður. Hvað er þá eftir?  

Hvað verður um hann Óla? Hvar er hann? Hann er ekki í þjóðlendunum, eða fjallafönnum, ekki við sprungur með grýlukerti í skeggi, eða á hjólabuxum við fjallavatn og með grænt ennisband. Nei, það er hin eilífa hamraborg sem hann er sunginn inn í, glitrandi undraveröld, sem tekur allri morgunskímu fram og er lyktarbetri en skurður í haustkælu. Þar er engin orkuþurrð, þar er almættið sjálft. Honum er lyft inn í orkubú eilífðar, þetta sem við köllum Guð. Í því er hin mesta viska að lyfta þeim skilningi upp í vitund, að í þessu lífi erum við sem fóstur. Svo fæðumst við til hins nýja, sem er flottara, öflugra og betra en þetta, vegna þess að til er Guð sem er orka og elska. Í því fangi má Ólafur ávallt búa. Þar er lífið.  

Minningarorð flutt við útför Ólafs Sigurgeirssonar í Hallgrímskirkja, 5. maí 2006.