Margrét Vallý Jóhannsdóttir

„Eigum við ekki að velta okkur út á helluna?“ spurði hún. Kaffilyktin fyllti eldhúsið á Kóngsstöðum. Sólin gægðist upp fyrir fjallsbrún og fyllti dalinn birtu. Lamb jarmaði hinum megin ár, jökullinn hló, milljarðar daggardropa léku sér með ljósið. Svo veltu Vallý og Páll sér út á helluna. Dagur í lífi tók þau í fangið og ljósið baðaði þau. Kannski fóru þau svo í göngutúr, skutust upp í Gloppu eða lásu í bók. Svo fóru þau einhvern daginn niður á Dæliseyrar, sviefluðu mjúklátum og sveigfúsum flugustöngum. Svo var á haustdögum rölt upp í Kóngstaðaháls, þetta “desert”land á heimsmælikvarða, berjum mokað í dalla, sest svo vestan við hús og borðað úti meðan kvöldsólar naut. Gaman að geta grillað fisk úr ánni og ekki síðra ef matargestir urðu berjabláir út að eyrum. Það er gott að velta sér á þessa hellu. Kóngsstaðir eru staður fyrir lífið, táknstaður um ljós og birtu lífsins, Skíðadalur er tákn um guðsríkið.

Í Davíðssálmum (121) segir: “Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himns og jarðar.”

Fjölskylda

Margrét Vallý Jóhannsdóttir fæddist á Akureyri 21. september árið 1948 og lést 1. maí síðastliðinn eftir skamma veikindabaráttu. Foreldrar hennar eru Friðrikka Elísabet Óskarsdóttir og Jóhann Björgvin Jónsson. Mamman var frá Kóngsstöðum og lifir dóttur sína, en pabbinn Dalvíkingur og er látinn. Systur Vallýjar eru Þuríður Jóna og Valgerður María. Fyrrri maður Vallýjar var Sigursveinn Friðriksson. Þeim fæddust þrjú börn. Þau eru Hlynur, Elísabet og Bjarki. Maður Elísabetar er Elías Þór Höskuldsson og kona Bjarka er Betina Carstens. Barnabörn Vallýjar eru samtals sex.  

Vallý ólst upp á Dalvík, bjó í Arnarhóli, en fór flest bernskuvorin fram í Kóngsstaði og var á sumrum hjá Snjólaugu, ömmu, og Óskari, afa. Þar framfrá tegndist hún náttúru dalsins, sögu síns fólks og sveitunga. Kannski tengdist hún líka eilífðinni, alla vega lifðu amma og afi lengur en flestir aðrir dauðlegir menn.  

Það hefur lengi verið haft á orði, að heilt þorp þurfi til að ala barn vel upp. Vallý naut uppvaxtar í stórneti þorpsins og gat veitt börnum sínum þorpsgæðin fyrstu árin. Fjölskylda hennar var og er samheldin og Vallý var öflug móðir og síðar amma. Hún var ekki aðeins stöndug fyrirmynd, setti mörk og efldi til þroska, heldur var líka það náin börnum sínum, að hún varð þeim vinur og gat miðlað visku til þeirra.  

Vallý var stolt af uppruna sínum. Hún hélt fast í hefðir sinna sveitunga og flutti þær suður, hvort sem það var nú veisluhald vegna vetrarloka, laufabrauðsgerð eða samskiptahættir. Hún var tengd sínu fólki og sinni mold. Við kveðjum hana hér syðra í dag en svo verður hún lögð til hinstu hvílu í svarfdælska mold. Hún verður jarðsett í Dalvíkurkirkjugarði meðal ættingja í samhengi þorpsins, dalsins, í miðju hins stóra lífhrings.

Mennun og störf

Börn, menntun þeirra og uppeldi heilluðu Vallý. Hún hafði sjálf áhuga á námi og gat sameinað hugðarefnum sínum. Hún fór í húsmæðraskóla, sem skilaði m.a. góðum kokki og mikilli hannyrðakonu. Svo var það Fóstruskóli Sumargjafar. Þaðan lauk hún prófi árið 1969. Með réttindi fór hún svo norður og þrátt fyrir eigin barnaannir hafði Vallý kraft og þor til að stofna eigin leikskóla 1972 og rak til 1975. Í þessu var hún á undan samtíð og samfélagi þar nyrðra. Vallý var líka frumkvöðull varðandi aðbúnað fatlaðra, þjónustu við þá og stuðning við fjölskyldur þeirra.

Atvinnumál Vallýjar voru gjarnan með því móti, að í hana var hóað. Hún var leiðtogi að upplagi, störf hennar og hæfni voru virt svo að til hennar var leitað með vinnu. Vallý var fyrsti fóstrumenntaði Dalvíkingurinn, sem kom heim að námi loknu. Foreldar og samfélag treystu henni til að stofna og stýra fyrsta leikskóla bæjarfélagsins.

Breytingar urðu í einkalífi hennar. Þau Sigursveinn skildu og Vallý tók þá afdrifaríku ákvörðun að fara suður með börnin. Syðra starfaði hún á Geðdeild barnaspítala Hringsins og var þar í tvö ár. Svo var þörf á öflugum stjórnanda á leikaskólanum Hamraborg. Þar var hún frá 1982-86. Samtímis sótti hún nám í Fósturskóla Íslands og bætti við sig í leikskólafræðum og stjórnun. Síðan varð hún stjórnandi á leikskólanum Birkiborg á Borgarspítalanum. Með þennan praxis í veganesti fór Vallý á fagdeild Leikskóla Reykjavíkur og var lengstum deildarstjóri fagdeildar og síðar leikskóladeildar. Frá árinu 2000 og til 2005 var hún forstöðumaður fagsviðs Leikskóla Reykjavíkur.

Leikskólar og stjórnandinn

Vallý kom til starfa við leikskóla í borginni á tíma breytinga. Á henni og hinum stjórnendum leikkólasviðs mæddi. Mikið lá undir, stefnumörkun, nýsköpun og svo bygging fjölda leikskóla. Leikskólarnir breyttust í skólastofnanir, sem störfuðu allan daginn. Með fagmennsku að leiðarljósi studdi hún starfsfólk, tók þátt í hugmyndavinnu á ýmsum stigum, hafði gaman af fjölbreytilegum verkefnum. Hún gerði sér grein fyrir, að henni var sjálfri þörf fyrir símenntun, tók sig upp og fór í framhaldsnám í Osló í stjórnun og handleiðslu.  

Vallý stýrði fagdeildinni vel og samviskusamlega. Í henni bjó tilfinningaleg staðfesta, sem stýrði samskiptum við fólk. Hún hafði í sér jafnvægi og frumtraust, sem gerði henni fært að mæta fjölbreytilegum verkefnum með óttalalausum, glaðsinna huga. Verkefni í vinnunni voru ríkuleg vegna nýrra laga um leikskólastigið, nýrrar námskrár, óska foreldra og mikillar fjölgunar leikskóla. Til að gera sér grein fyrir umfanginu er vert að minna á, að skólarnir í Reykjavík eru nú um áttatíu. Deildin hennar Vallýjar stóð sig vel. Hún tók oft þátt í starfi hönnunarhópa, sem undirbjuggu nýja leikskóla. Sem stjórnandi lagði hún ekki aðeins línur, heldur var góður samstarfsaðili á stórum kvennavinnustað. Hún hélt sínum stíl, talaði sína norðlensku, lagði sig alltaf fram og lagði upp úr að mál væru faglega meðhöndluð. Og hún var vel liðin í vinnunni.

Trúnaðarstörf hennar og félagsstörf voru gjarnan á sviði uppeldismála. Vallý gengdi stjórnunarstörfum í félagi fóstra, var formaður félags leikskólafulltrúa, var í dómnefndum vegna nýrra leikskóla, hún var í ráðgjafahópi á vegum menntamálaráðuneytis vegna reglugerðar um sérkennslu árið 1994.

 Palli minn

Þau Vallý og Páll Magnússon byrjuðu að vinna á Barna- og unglinga-geðdeildinni á sama tíma. Þau komu bæði að “utan,” hann úr frönskum kúltúr og hún úr “öndvegi íslenskra dala.” Í vinnunni var það fyrsta verkið að Páll skyldi uppfræða Vallý um einhverfu. Þau skutust út á lóð, en sátu lengur á sandkassabrúninni en að var stefnt. Þau náðu vel saman og  heilluðust af hvort öðru. Páll komst að því, að Vallý var ekki alveg ein í veröldinni, átti þrjú börn, var hluti af stórfjölskyldu sem var svo náin að þær systur bjuggu helst saman og tóku karlana til sín, inn í fjölskyldufaðminn. Að því dró, að Páll varð að gera upp við sig hvort hann vildi búa með þessari konu eða ekki. Það var talsverð hetjuákvörðun að flytja inn til kommúnunnar í Eskihlíð. En hann var maður til að standa með ákvörðun sinni, gekk börnum Vallýjar í fóstrastað, varð vinur systra hennar og svilanna líka og fjölskyldunnar. Hann lærði að skilja, að Svarfaðardalur er kraftblettur veraldar og  Kóngsstaðir hásæti.

Fyrir tuttugu árum keyptu þau Vallý sér íbúð á Bragagötu, börnin fóru með þangað. Þau gerðu sér fallegt heimili, sem ber fegurðarskini þeirra beggja gott vitni.  

Vallý elskaði Palla sinn. Hann endurgalt elskuna, var henni blíður og umhyggjusamur, studdi hana með góðum ráðum og aðdáun. Augun hans lifnuðu þegar hún skvetti skemmtisögum og gleðiyrðum. Þau áttu skap saman. Það sem hún kunni og unni varð hans gleðiefni. Það sem gladdi hann varð hennar hugðarefni. Þau elduðu fyrir hvort annað, veiddu saman, þau gátu þagað saman, fóru undraferðir innan lands og utan, höfðu lag á að deila tilfinningum og fóstruðu hvort annað með nærfærnum fingrum, blíðu og virðingu. 

Sumar og líf

Þegar Vallý fór að hugsa um þessa kveðjuathöfn vildi hún, að hún yrði í anda vorsins og minnti á sumarið og lífið. Þess vegna er sungið um hríslu og læk, voryl og liðinn sumardag og vonina um nýjan dag. Þess vegna munum við líka syngja um líf lausnarans, sem jafnframt er trúartjáning um líf að þessu loknu. Vallý var umhugað um vöxtinn, lífið og ljósið. Hún beitti sér alla tíð fyrir lífsgæðum síns fólks. Lærði ung að ekkert er sjálfgefið í málum hamingjunnar. Hún tók ákvörðun um, að leggja sínu fólki það gott, sem hún gæti. Hún var flottur stjórnandi, útdeildi bæði ábyrgð og frelsi, en líka hvatningu. Samstarfsfólk hennar naut góðs stjórnanda, börnin nutu góðs atlætis. Samferðamenn hennar nutu góðs fósturs. En hvað svo? Hvað situr eftir þegar þegar þú hugsar til Vallýjar? Dragðu fram ásjónu hennar í hugann, íhugaðu skemmtilegustu viðburðina með henni og festu í huga og gleðstu yfir.  

Hún hugsaði um ljósið og lífið. En getum við hugsað á þeim nótum þegar skuggaskilin eru svo skýr á þessum björtu dögum? Þá er komið að því að við gerum upp afstöðu til lífsloka, skila milli þessa heims og þess sem á eftir kemur. Hvert er Vallý farin? Hvernig er hægt að gera upp við sorgina? Hvað vitum við um eilífðina og hvað getum við ímyndað okkur?

Fósturskynjun og eilífð

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls. Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsuðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina eða Skíðadal, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér og stór flokkur af himinfóstrum tekið við þér. Himnaríki er þar sem leikurinn ríkir.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg njóta ákvörðunar Vallýjar að hugsa um birtuna þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta ljóshús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf, trú og von fólks.

Hún velti sér út á bæjarhellu í Skíðadal til að taka á móti deginum. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Vallý hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem kenndur er við Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, þar sem er meira ljós en morgunljós í norðlenskum dal, þar sem daggir eru sólkerfi, þar sem jökulskallarnir eru himneskir gimsteinar, þar sem sólirnar eru slíkar að hægt er að vera norðan við, austan við, sunnan undir og vestan við samtímis. Það er flottur veltustaður. Þar er gott að vera. Þar er Guð og því er himininn Kóngsstaðir eilífðar.  

Guð geymi Margréti Vallý Jóhannsdóttur og varðveiti um alla eilífð. Guð geymi ykkur og líkni.

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 9. maí, 2006.