Jón R. Árnason – minningarorð

Næmur læknir og opinn listamaður hugsaði um hvað lífið er og til hvers. „Orka eyðist ekki við dauða,“ sagði Jón R. Árnason og viðurkenndi mörk fræða sinna og skilnings, þorði að íhuga hvernig mætti túlka hið dýpsta samhengi lífsins. Með slíkt ratljós er hægt að fljúga áfram í heima fræða, lista og trúar. Útför Jóns var gerð frá Neskirkju 18. janúar 2006 og minningarorðin fara hér á eftir.

„Komdu að fljúga – það er svo gott veður.“ Í augum Jóns var gáski, kátína á vörum og flugsókn í hjarta. Ákefðin í röddinni smitaði og svo var viðmælandinn til í að koma. Rokið af stað út á flugvöll, vélin græjuð, sest upp og hreyflarnir fóru að snúast. Flugturn gaf leyfi, út á braut. Lokatékk, svo bensín í botn, líkaminn þrýstist aftur í sæti í hröðuninni, hjólin slepptu og svo var klifrað – mót himni, upp í góðviðrið, upp í frelsið, útsýn, yfirsýn, stórsýn. Mannheimar verða smáir undir hvelfingunni, sjórinn mikill og fjöllin glæsileg.

Upphaf

Jón R. Árnason fæddist í Reykjavík 19. apríl 1926 og lést 9. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Árni Pétursson (1899-1953), læknir, og Katrín Ólafsdóttir (1904-88). Systur Jóns eru Þórunn og Hólmfríður og uppeldissystir Svala Eyjólfsdóttir. Fjölskylda Jóns bjó um tíma á upphafsreit Reykjavíkur, í Uppsölum gegnt Herkastalanum, þar sem nú er búið að byggja hótel við eða yfir landnámsbæ. Á þeim reykvíska núllpunkti réðu ríkjum Þórunn, stóra amma, og Hólmfríður, litla amma, stjúpur Katrínar. Þegar Jón var ungur bjó fjölskyldan um tíma á Fjólugötu og síðar í Skála við Kaplaskjólsveg. Árni og Katrín byggðu síðar hús við sjávarsíðuna í Faxaskjóli 10.

Skólaganga

Jón sótti skóla í Reykjavík, en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1947 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1955. Síðan tók við framhaldsnám og læknisstörf í Svíþjóð næstu ár eða til 1962. Jón var yfirlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað 1962-1964, rak læknastofu í Reykjavík frá 1964 – 1974, var síðan yfirlæknir á skurðdeild Sjúkrahúss Vestmannaeyja 1974 – 75. Heilsugæslulæknir við heilsugæsluna Sólvangi í Hafnarfirði var hann síðan frá árinu 1975 og þar til hann lét af störfum sökum aldurs.

Marlies

Einn sumardag árið 1950 sat Jón við píanóið og seiddi fram unaðshljóma úr hljóðfærinu en líka að sér þýska stúlku Marlies Wilke, sem eiginlega var bara í millistoppi á leið til Ameríku. En hún fór ekki lengra, tónlistin seiddi, hún sá þennan glaðsinna svein, sem sat við hljóðfærið og var starsýnt á mokkaskóna sem dönsuðu á pedölunum. Svo töluðu þau um djass, uppgötvuðu að þau voru bæði á móti honum. Sú andstaða braut ísinn svo þau töluðu, hrifningin óx og hitinn í augunum líka. Þetta gat ekki endað nema á einn veg. Þau Marlies gengu í hjónaband hjá fógeta 7. júlí 1951 og bjuggu fyrst á Ránargötu, auralaus og sæl. Svo enduðu þau för sína í Sörlaskjólinu, áður en Jón fór á Eir vegna heilsubrests. Þar var hann síðustu árin og naut einstakrar umhyggju, sem hér skal þökkuð.

„Já, við elskuðum hvort annað,” sagði Marlies með blik í auga, svipurinn hennar varð mildur og það var eins og strokur og blíða áratuganna færi um hana alla. Þau fóru um heiminn saman, fóru víða vegna vinnu Jóns og alltaf fór Marlies með, studdi mann sinn með þeim ráðum og dáð sem hún átti.

Börnin, tengdabörn og afkomendur

Börnin þeirra Jóns og Marliesar urðu fimm. Þau eru:

Árni Erwin, kvæntur Guðrúnu Hjörleifsdóttur.

Katrín Hildegard, gift Jóni Magnúsi Ívarssyni.

Gunnar Pétur, kvæntur Ernu Valgeirsdóttur.

Þórarinn Axel, unnusta hans er Natali Ginzhul

og Þórunn Hólmfríður, hennar sambýlismaður er Haraldur Axel Gunnarsson.

Samtals eru afkomendurnir sextán og voru afa ömmu gleðigjafar. Af þeim getur Tinna Karen ekki verið við þessa athöfn en ber til ykkar kveðju sína.

Heimilislífið

Jón var góður heimilismaður, vann þau störf og útréttaði í samræmi við það, sem þeim Marlies talaðist til um. Hann lagði sitt til uppeldis og menntunar barnanna, ræddi við þau, gantaðist og hleypti upp fjörinu. Hann bullaði með þeim og sagði við þau goddi, goddi, sem er elskuyrði og eiginlega útleggst sem guðsbarn. Hann hafði augu og elsku til að nema og skapa gæsku.

Krakkarnir vissu alveg hvað pabbi vildi og hvað ekki. Hann hafði meiri áhuga á píanómúsík en dynjandi húðaslætti í einhverju trommusóló. Hann hafði unun af synfónískri tónlist en enga af poppi eða villtum spunajazz. Þrátt fyrir mikla vinnu og annir var hann fólkinu sínu náinn og natinn. Eins og húsmæður hennar kynslóðar var Marlies alltaf heima. “Hún er kjarninn,” sagði Jón og skilgreindi þar með eðli hjúskapar og samvinnu þeirra. Hann hafði því frelsi til að sinna vinnu og gat líka leyft sér að þjóta af stað ef þörfin vaknaði og flugið kallaði hið innra.

Leitin að lífsgildum

“Hvert get ég farið?” spurði skáld fyrir meira en þrjú þúsund árum. Það er spurning allra förumanna í vísindum, listum og lífinu. Í Davíðssálminum er minnt á ýmsa möguleika: Upp í himininn, í undirheima og í dýptir viskunnar. Niðurstaðan er, að alls staðar sé Guð, sem leggur hönd á bak og brjóst. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er þessi forna lýsing manns á veruleika Guðs – eða kannski návist Guðs. Er ekki mannlífið mikið ferðalag, sókn í gæði, í gildi, fræði, för hamingjuleitar? “Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans,” segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig.

Hvað og hvernig var hann Jón? Hver er myndin þín sem þú dregur upp í huga? Kannski var líf hans ferðir í mörgum heimum. Hann var Reykvíkingur, sem fór norður til að verða stúdent. Hann hefði alveg getað hugsað sér verkfræði, en fór í læknisfræði. Hann stundaði nám og störf víða í Svíþjóð. Hann starfaði austur á landi og í Vestmannaeyjum auk Reykjavíkur. Hann var rammíslenskur í menntunarmótun, en kvæntist þýskri konu. Hann var eitt, en gat orðið annað. Hann hafði skoðanir, en var opin og þorði að færa sig um set.

Læknirinn góði

Jón var að sögn góður læknir. Hann menntaði sig í skurðlækningum ytra, hafði gaman af kírúrgíunni, en starfsævinni helgaði hann heimilislækningum. Hann hafði áhuga á fólki, sinnti þörfum þess og tók sér tíma, þegar sjúklingarnir höfðu aðrar þarfir en að láta skera vörtu eða líta á fingur – þó það væri yfirvarpið. Hann skynjaði þegar tilfinningar og innri vandi leitaði á fólk og var sá mannvinur, að hann tók sér góðan tíma til að hjálpa beygðu fólki að rétta úr sér og tala. Hann bar þá virðingu fyrir mennsku skjólstæðinga sinna, að skýra vel fyrir þeim í hverju sjúkdómur þeirra væri fólginn, hvað væri til ráða og hverjar horfur væru. Hann var drátthagur og teiknaði oft skýringarmyndir, sem stundum hjálpuðu óttaslegnum sjúklingum.

Hugðarefnin

Áhugamálin voru mörg. Hann spilaði handknattleik á æskuárum, átti sverð og stundaði skylmingar og boxaði líka um tíma! En mörg hugðarefnin gáfu Jóni möguleika á innra eða ytra ferðalagi, ekki verra ef þau gáfu honum vængi til að fljúga með. Hann var alinn upp í músík. Foreldrarnir voru báðir músíkalskir, pabbinn söng og mamman hafði lært á fiðlu. Hljóðfærði Jóns var píanóið, en fiðlunám stundaði hann um tíma og þótti ekki öllum heimilismönnum æfingatíminn skemmtilegur. Nú híma hljóðfærin hans hnípin, fallegi Berlínarflygillinn hans kann ekki lengur að stemma í samhljóm og bíður sinnar upprisu.

Jón var klassískur í músíkmennt sinni og hans menn segja talsverða sögu um persónu og lyndiseinkunn. Maður, sem heillast af Chopin hefur í sér tærleika og fíngerða næmi. Bach og Beethovern kunnu að stafla músíkbunkum með fimi byggingameistarans. Það kunni Jón að meta og snilli ýmissa annarra klassískra meistara. Í bókastofunni hans Jóns er stór skápur með nótum, vitnisburður um spilafærni og gleðistundir. Frá upphafi leyfði hann Marlies að njóta, og svo vildi hann gjarnan að hún hætti aðeins í húsverkunum, staldraði við og deildi með honum gleði yfir einhverri snillinni, hvort sem það var nú Goldbergvariasjónir í flutningi Gould eða glitrandi næturljóð Chopin.

Menning – bækur

Jón var alinn upp í málrækt og menningu þess fólks, sem skapaði lýðveldið Ísland. Hann var handgenginn klassískum sögum kenndar við Íslendinga, bæði þekkti og mat mikils íslenskan skáldskap nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar, hvort sem það var nú hin hrifnæmi og stundum stórkallalegi kveðskapur Matthías Jochumssonar, lipurð Jónasar eða djúphygli Einars Benediktssonar. Þegar Jón hafði misst heilsu og var ekki upplitsdjarfur átti Hólmfríður systir til að spyrja um ljóð. Þá kom líf í augun, orð á varir og ljóðið kom heilt og gleðin með í hugann. Jón var alhliða bókamaður. Hann hafði gaman af skáldsögum, las höfunda bæði austan Atlantsála sem vestan, hvort sem það nú voru Stephan Zweig eða Mark Twain. Bækur máttu líka vera til mannbóta með beinum hætti. Hann gaf börnum sínum mannræktarbók eftir Dale Carnegie.

Söguríkir staðir heilluðu hann og hann vildi gjarnan fræðast um slíka og helst skoða allan heiminn. Sagnfræðin átti greiða leið að honum og Jón lagði sig eftir ólíkum greinum, sem gætu orðið honum til aukins skilnings. Jafnvel bækur um réttarhöldin í Nürnberg eru til í bókahillu hans. Af því Jón var málamaður eru þessir bókaskápar eins og útibú frá háskólabókasafni. Þar eru bækur á mörgum tungum. Jón naut þess að lesa upphátt fyrir fólkið sitt og vildi gjarnan einnig deila þeim gæðum með Marlies sinni.

Tækni- og flugmaður

Jón var ekki aðeins hrifnæmur á listasviðinu heldur dáðist að tækni og fegurð hennar. Alla tíð hreifst hann af nýjungum, sem gátu flutt menn og mannkyn til, inn í nýja heima, nýja reynslu, nýja möguleika eða nýja þekkingu. Popular Mechanics var hans gleðilesning og færði honum þekkingu og skilning langt út fyrir eigið fræðasvið. Hann praktíseraði líka að hagnýta tæknina, þurfi að prufa sjálfur, eignaðist mótorhjól ungur og hentist eftir rykugum Kaplaskjólsveginum. Síðar vildi hann eiga góða bíla og auðvitað var þýska bílundrið, Mercedes Benz, honum gleðigjafi. Í Svíþjóð átti hann bát um tíma.

Á vængjum morgunroðans… Fólkið hans Jóns ferðaðist mikið. Foreldrarnir á ferð og flugi, en það var Jón einn sem raunverulega flaug. Hann var áhugamaður um flugvélar og varð sem ungur maður vitni að þróun flugsins. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni var auðvitað staðurinn sem flugáhugamenn nutu. Svo lærði Jón að fljúga og átti um tíma hlut í flugvél. Flugið sameinaði margar víddir, eigindir og hugðarefni Jóns. Hann gat leikið sér með og notið tækninnar, lifað fegurð hálofta og notið útsýnis, grandskoðað landið frá nýjum sjónarhól, átakalaust og með hraði flogið aftur og aftur yfir það, sem hann vildi skyggna vel, gefið vinum sínum færi á að fara annað en þeir höfðu áður getað – og hann var frjáls til að vera, fara langt og víða.

Guðsorkan

Leitandi fræðimaður, opinn listamaður, næmur læknir hugsar um hvað lífið er og til hvers. Jón var óhræddur, að viðurkenna mörk fræða sinna og skilnings og þorði að íhuga hvernig mætti túlka hið dýpsta samhengi lífsins. Orkan, jú við erum borin áfram af orku. Og “sú orka eyðist ekki við dauða,” sagði Jón. Með slíkt ratljós er hægt að fljúga áfram inn í heima fræða, lista og trúar.

Hvað er Guð? Hvernig má lýsa hinu dýpsta í veröld með fátæklegum orðum? Hvernig getur hið takmarkaða og endanlega orðið brú vitsmuna og skynjunar inn í ofurveröld? Orkubúskapur mannslíkamans er vegvísir, stefnuviti um eigindir veraldar og kannski líka um Guð. Allt er háð því, að hið mikla veitukerfi gangi og virki. Hið smæsta ódeili er hluti orkunets, hin stærstu kerfi sem mannsvitið greinir í geimnum eru líka kraftknippi. Maðurinn getur leyft sér að skynja og upplifa Guð í því samhengi og skilningsljósið getur kviknað.

Uppsalir eilífðar

“Hvert get ég farið?” spurði skáldið forðum. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Jón hefur lifað vel, lifað sínu lífi og af honum megum við læra. Líf hans er okkur vegvísir og hvati til að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni, sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Jón hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er engin pína, ekkert bakfall, engin höfuðkvöl heldur leiftrandi léttleiki. Þar er alltaf veður til að fljúga inn í ljósið, gæskuna, á vængjum sem aldrei missir kraft. Þar eru Uppsalir eilífðar og músík morgunroðans. Guð geymi Jón R. Árnason í sínu fangi um alla eilífð.

Neskirkja, 18. janúar 2006