Guðbjörg Einarsdóttir

Grannir fingurnir liðu yfir hljómborðið. Svolítíl glímuskjálfti fór um organistann, sem steig belginn og lagði upp í ferð guðsþjónustunnar. Harmóníum Þingvallakirkju lifnaði og prelúdían hljómaði. Kirkjan varð eins og stór hljómbotn, sem brást feimnislega við músíkinnni. Þau voru þarna öll frá Kárastöðum og svo voru auðvitað hinir sveitungarnir líka; Heiðarbæjarfólkið, Skálabrekkufjölskyldan og af bæjunum ausan við vatn. Jú, Þingvellingar hafa sótt sína kirkju. Meðan Jesús hélt áfram að líkna hinum blinda á málverki Anker Lund yfir altarinu hafa kynslóðir komið og farið og Guðbjörg var ein þeirra. Öll hafa þau lagt eitthvað til samfélagsins, öll elsku því það er ekki hægt að búa meðal Þingvellinga nema að opna og tengja.

Guðbjörgu var falið að spila við messur í æsku. Svo voru jólin komin, stóri skaflinn líka við heimreiðina, klakabrynja á eini og lyngi við Nikuláasargjá og djúp frostþögn utandyra. Nótnablöðin skrjáfuðu af kuldanum, fingurnir fóru af stað að nýju. Söfnuðurinn söng, allir með sínu nefi. Jólasálmurinn hljómaði: “Sjá himins opnast hlið, heilagt englalið. Fylking sú hin fríða…”

Opin hlið himins  – hátíð ljóssins. Þar sem landið er langsprungið og bláminn er dýpstur á Íslandi opnaðist leiðin upp. Yfir Þingvallaskálina stóru, þetta magnaða jarðfræðiundur, þar sem vatnið streymir í iðrum sem lífsblóð, var enn aukið á ævintýrið. Ofan fóru englar, tónlistin í kirkjunni fléttaðist inn í söng náttúru og síðan inn í máttuga sálma yfirskilvitlegra vera handan og ofan við þennan heim. Guðbjörg Einarsdóttir þandi orgelið – fylking sú hin fríða. Þingvellir voru í Paradís.

Ætt og uppruni

Guðbjörg Einarsdóttir fæddist á Kárastöðum í Þingvallasveit tuttugasta dag marsmánaðar árið 1928. Foreldrar hennar voru Einar Halldórsson bóndi og hreppstjóri á Kárastöðum (1883 – 1947) og Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja (1892 – 1955). Guðbjörg var níunda í hinum stóra hópi ellefu systkina. Systkini Guðbjargar eru: Halldór, Sigurður, Jóhanna, Guðbjörn, Björgvin, Elísabet, Guðbjörg, Geir, Hallfríður og Stefán Bragi. Guðbjörg ber nafn eldri systur, sem lést ung. Fósturbróðir Guðbjargar var Árni Jón Halldórsson. Þau systkinin, sem lifa Guðbjörgu eru Elísabet, Hallfriður og Stefán Bragi.

Skólaganga

Guðbjörgu var komið til manns heima og í heimasveit. Þar hóf hún skólagöngu, en fór síðan austur á Laugarvatn og lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum árið 1947. Seinni heimsstyrjöldinni var lokið og því fært til útlanda. Guðbjörg sigldi til Danmerkur og stundaði nám við húsmæðraskóla í Sorø á árunum 1949-1950.

Störf

Í Kaupmannahöfn starfaði Guðbjörg síðan til 1951. Eftir heimkomu til Íslands kom í ljós að hún var sýkt af berklum. Berklarnir breyttu lífi hennar og höfðu margvísleg áhrif, eins og hjá flestum, sem urðu fyrir þeim vágesti. Alla ævi glímdi hún við eftirköstin. Guðbjörg var lögð inn á Vífilsstaðaspítala og fór síðan á Reykjalund til endurhæfingar og var þar á árunum 1954-62. Hún gekk í ýmis störf þegar hún hafði orðið þrek til og þar hófust afskipti hennar af fjármálum, sem varð atvinna hennar síðan. Hún var gjaldkeri á Reykjalundi og hóf síðan störf í Búnaðarbanka Íslands og var lengi deildarstjóri svonefndrar Stofnlánadeildar landbúnaðarins eða til 1992. Í þrjá áratugi helgaði hún bændum og Búnaðarbanka krafta sína.

Heimili

Guðbjörg var ógift og barnlaus. Í mörg ár hélt hún heimili með Höllu systur sinni, en þegar fjárhagur hennar leyfði keypti hún sér íbúð á Tómasarhaga 45, skammt frá kirkjunni. Þar hafði hún útsýn til suðurs, sjávar og yfir grásleppuskúrana, sem nú er verið að fjarlægja smátt og smátt. Hún gat fylgst með róðrum, mannlífi, veðrum og himni. Guðbjörg varð bráðkvödd á heimili sínu á aðfangadag jóla. 

Líf sem gefst

Þessa daga síðan Gubjörg kvaddi þennan heim hefur gervöll heimsbyggðin skolfið í eftirköstum náttúruhamfara. Við höfum séð hversu viðkvæmt lífið er á þessari skurn jarðarkúlunnar. Guðbjörg fæddist sjálf á flekamótum hinna miklu jarðfleka Evrópu og Ameríku, sem gliðna við Þingvelli. Svæðið ber vitni um átök og spennu og skjálftar skekja. Veður geta orðið rosaleg í Þingvallakvosinni. Á Kárastöðum gat norðanáttin skollið eins og þungur hrammur ofan af Súlum. Þegar svefnherbergisgluggi skall inn í stórviðri hélt Guðbjörg í frumbernsku sinni að kominn væri heimsendir! Alla tíð var hún meðvituð um veður og vá þess.

Guðbjörg sá á eftir bróður sínum, Geir, í vatnið bláa. Umhverfið, bernskureynslan og síðar glíman við berklana færði Guðbjörgu heim vitund um að lífsleiðirnar eru ekki allar fyrirhafnarlausar gleðibrautir. Fyrir lífinu þurfti að hafa, í því þurfti að dansa með kunnáttu. Guðbjörg lærði að stilla væntingum í hóf. Hún lærði líka bregðast vel við þegar gáskinn barst henni, þegar dagarnir voru ljósir og gamanið blómstraði.

Heima

Guðbjörg var alinn upp á stóru og fjölbreytilegu heimili. Faðirinn hafði í mörg horn að líta, gegndi ábyrgðarstörfum fyrir samfélag sitt og móðirin stundaði sitt fólk og heimili með kyrrlátri festu. Stór systkinahópur slípar fólk. Í stórum hópi er hægt að læra margt og þar er líka hægt að leynast. Guðbjörg tók út sinn félagsþroska í sínum heimaranni. Hún var glaðvær, ljúf, hógvær, æðrulaus og elskuleg. En jafnframt vakti hún yfir sínu fólki og var ræktarleg gagnvart öllum þeim, sem hún batt trúnað við. Systurnar, Halla og Guðbjörg, sinntu ungu frændfólki sínu, öxluðu ábyrgð sem frænkur, áttu tíma og áhuga til að sinna og svo fóru þær austur að Kárastöðum í fríum og á hátíðum og voru auðfúsugestir.

Tónlistin

Á Kárastaðaheimilinu var músíserað. Nikka var þanin og harmóníum var til í bænum. Guðbjörg lærði á orgel hjá Kristni Ingvarssyni. Svo var organista vant eystra og þá var Guðbjörgu falið að spila. Í miðju stríðinu varð hún organisti Þingvallakirkju og hélt þeim starfa í mörg ár eða þar til hún fór utan – og svo aftur þegar hún kom heim frá Danmörk og þar til hún fór á Vífilsstaði. Spilastörfunum deildi hún með systur sinni um tíma. Fyrir messur var æft, farið yfir sálma og tónpartana. Allt gekk þetta eins og vænta mátti. Svo opnaði hún baðstofugluggan heima á Kárastöðum þegar veður leyfði og orgelhljómar og strófur bárust út um velli, niður í gjár, upp í brekkur og himinn. Síðar átti hún rafmagnsorgel heima og kunni líka að spila á gítar og ná úr honum undarlega blíðlegum hljóm.

Guðbjörg sótti gjarnan tónleika sér til yndis og eflingar, ekki síst Sinfóníuna, sem hún hafði nánast í næsta húsi og naut auðvitað Einars, systursonarins, sem þar er einn margra snillinga. Ef hún fór ekki með ættfólki sínu fór hún gjarnan með vinkonum sínum, ekki síst á fyrri árum. Svo söng hún að sjálfsögðu í Tröllakórnum heima hjá Elísabetu og Jóhannesi.

Spaugað

Guðbjörg var glaðsinna og húmoristi. Hún kunni vel að meta það sem skemmti, var spaugilegt og létti sér hversdaginn með því að gera sér fremur dælt við það sem var fyndið en hitt síður. Jafnvel einföld störf gátu orðið henni tilefni til skemmtunar. Þegar hún var að þurrka af höggmynd af Bjarna skólastjóra austur á Laugarvatni spjallaði hún við styttuna. Ekki vissi hún, að fyrirmyndin, skólastjórinn, var nærri og fylgdist stóreygur með þessari kostulegu senu. En hann hafði hina mestu skemmtun af og sagan af samtali Guðbjargar við styttuna lifði.

Smekkvísi

Guðbjörg var smekkkona. Hún vildi helst eiga og ganga í laglegum fötum. Og litakort hennar var svolítið Þingvallalegt. Hún gekk gjarnan í bláu og rauðu. Heimilið hennar er hrífandi og bókaskáparnir stórkostlegir. Allar þessar raðir af fallegum bókum, segja bæði sögu um fegurðarskyn og bókmenntakonu. Guðbjörg las alla tíð mikið, bæði ljóð og prósa. Hún hafði víðan bókenntasmekk, las innlendar og erlendar bókmenntir, hafði gaman af Jóni á Bægisá, Einari Ben og mat bæði Laxnes og þjóðsögur.

Guðbjörg hafði bæði heima og heiman lært ágætlega til heimilisstarfa. Hún var ljómandi kokkur. Og hún var flínk hannyrðakona, saumaði á fyrri árum og prjónaði gjarnan hyrnur á seinni árum. Það er ekkert áhlaupaverk að prjóna úr eingirni, en hún var rösk og var með eina á prjónum, þegar hún féll frá.

Bændatengslin

Sú var tíðin að Þingvellir tengdust öllum bændabýlum landsins. Guðbjörg viðhélt þeirri hefð. Kárastaðaheimilið var einnig þekkt um allt land og stóð ferðafólki, þurfandi og ættingjum opið. Guðbjörg var trú sínum uppvexti og sögu síns svæðis. Þegar hún fór að vinna við Stofnlánadeildina varð hún kunnug fjármálum bændaheimila landsins, fjárhagsstöðu þeirra og þar með mannlífi. Hún hefur líklega þekkt til langflestra þeirra. Hún var vinsæl í starfi, kom sér vel, og Guðbjörg lét sér annt um velferð síns fólks, sinna lántakenda. Enda var það svo að hvarvetna gat hún farið heim á bæ og var tekið sem sönnum heimilisvini. Hún var af bændum komin, þjónaði þeim alla tíð og var metin að verðleikum í störfum.

 Þökk og kveðjur

Guðbjörg Einarsdóttir frá Kárastöðum var væn kona. Samferðafólk hennar þakkar henni samfylgdina. Mér hefur verið falið að bera hingað kveðju þriggja, sem ekki geta komið til þessarar útfarar, Guðrúnar Stefánsdóttur, Árna Gauts Arasonar, Einars Arnar Jónssonar og Daða Einarssonar. Guðbjörg verður jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Ástvinir biðja nærstadda að þiggja veitingar í Súlnasal Hótel Sögu, strax að lokinni útför.

Náttúruunndandinn

Það er ekki hægt að alast upp í Þingvallasveit og vera skeytingarlaus um umhverfi. Guðbjörg var næm og tók inn á sig allar víddir hinnar lifandi náttúru. Hún var eins og hennar fólk vel heima í ýmsum greinum náttúrufræði. Grasafræði var hugðarefni og flóran var henni innan seilingar og Bláinn besta blóm. Hún horfði til fugla himinsins og hefur eflaust lært margt af þessum rótföstu og fleygu vinum um hvað lífið er og hverjir möguleikarnir gefast.

Hvert og hvernig?

“Hvað er maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?” spurði skáld fyrir mörg þúsund árum þegar lífsgátan varð stór. Guðbjörg heyrði hvíslið í vindinum af Súlum, sá augun svörtu í hyldjúpum gjánum, tók líka andköf, eins og við höfum mörg gert, þegar báturinn sveif allt í einu af grunnsævi út yfir hyldýpisgjá. Hún hugsaði sitt þegar bróðir lést, vinirnir lutu berklunum og ástvinir gengu henni úr greipum. Hún var ekki hrædd, en allt varð henni tilefni til að spyrja um ferðir og leiðir. “Hvað tekur við?” Hún sá í marga heima, íhugaði framhaldslíf og var sannfærð um, að lífið er ekki bara þetta heldur miklu meira. Og hún lagði sig eftir andlegum fræðum alls konar til að efla sig í speki eilífðarmála. Hún tók út þroska í þeim efnum og var fróð og óhrædd.

Enginn skjálfti í fimu fingrunum lengur. Á hamfaratíð þessara jóla er sungið í kirkjum veraldar, já öll sköpunin syngur gegn vá og voða um dýrð í upphæðum. “Fylking sú hin fríða/ úr fagnaðarins sal,/ fer með boðun blíða og blessun lýsa skal.” Svo segir: “Hann skal hafa/ æ hjá mér bústað sinn,/ vinur velkominn.” Hlið himins er galopið, englar jólanna hafa umfaðmað Þingvellinginn frá Kárastöðum. Nú er glaðst á himnum, músíserað þar sem músíkin verður alger, allar viðja falla, allur kvíði hverfur. Músíkin er táknmál þeirra gleði, sem þar ríkir, þar sem pabbi og mamma taka hana í faðminn, systkinin öll fagna og svo geta þau öll stemmt inn í þennan flotta söng, sem hljómar með sinni þrungnu merkingu: “Dýrð sé, Drottni þér.” Þar er upphaf og markmið alls sem er, tónlist veraldar, inntak þitt og eilíft líf Guðbjargar. Í Guði er björg hennar, allra manna. Guð geymi Guðbjörgu Einarsdóttur að eilífu í faðmi sínum. 

5. janúar, 2005.